New Testament in a Year
18 Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: "Hvern segir fólkið mig vera?"
19 Þeir svöruðu: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp."
20 Og hann sagði við þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði: "Krist Guðs."
21 Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum
22 og mælti: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi."
23 Og hann sagði við alla: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.
24 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.
25 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?
26 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla.
27 En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki."
28 Svo bar við um átta dögum eftir ræðu þessa, að hann tók með sér þá Pétur, Jóhannes og Jakob og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir.
29 Og er hann var að biðjast fyrir, varð yfirlit ásjónu hans annað, og klæði hans urðu hvít og skínandi.
30 Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía.
31 Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans, er hann skyldi fullna í Jerúsalem.
32 Þá Pétur og félaga hans sótti mjög svefn, en nú vöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo, er stóðu hjá honum.
33 Þegar þeir voru að skilja við Jesú, mælti Pétur við hann: "Meistari, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Ekki vissi hann, hvað hann sagði.
34 Um leið og hann mælti þetta, kom ský og skyggði yfir þá, og urðu þeir hræddir, er þeir komu inn í skýið.
35 Og rödd kom úr skýinu og sagði: "Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!"
36 Er röddin hafði talað, var Jesús einn. Og þeir þögðu og sögðu á þeim dögum engum frá neinu því, sem þeir höfðu séð.
by Icelandic Bible Society