New Testament in a Year
9 Hann kallaði saman þá tólf og gaf þeim mátt og vald yfir öllum illum öndum og til að lækna sjúkdóma.
2 Hann sendi þá að boða Guðs ríki og græða sjúka
3 og sagði við þá: "Takið ekkert til ferðarinnar, hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla.
4 Og hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar og þaðan skuluð þér leggja upp að nýju.
5 En taki menn ekki við yður, þá farið úr borg þeirra og hristið dustið af fótum yðar til vitnisburðar gegn þeim."
6 Þeir lögðu af stað og fóru um þorpin, fluttu fagnaðarerindið og læknuðu hvarvetna.
7 En Heródes fjórðungsstjóri frétti allt, sem gjörst hafði, og vissi ekki, hvað hann átti að halda, því sumir sögðu, að Jóhannes væri risinn upp frá dauðum,
8 aðrir, að Elía væri kominn fram, enn aðrir, að einn hinna fornu spámanna væri risinn upp.
9 Heródes sagði: "Jóhannes lét ég hálshöggva, en hver er þessi, er ég heyri þvílíkt um?" Og hann leitaði færis að sjá hann.
10 Postularnir komu aftur og skýrðu Jesú frá öllu því, er þeir höfðu gjört, en hann tók þá með sér og vék brott til bæjar, sem heitir Betsaída, að þeir væru einir saman.
11 Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu.
12 Nú tók degi að halla. Komu þá þeir tólf að máli við hann og sögðu: "Lát þú mannfjöldann fara, að þeir geti náð til þorpa og býla hér í kring og náttað sig og fengið mat, því að hér erum vér á óbyggðum stað."
13 En hann sagði við þá: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svöruðu: "Vér eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska, nema þá vér förum og kaupum vistir handa öllu þessu fólki."
14 En þar voru um fimm þúsund karlmenn. Hann sagði þá við lærisveina sína: "Látið þá setjast í hópa, um fimmtíu í hverjum."
15 Þeir gjörðu svo og létu alla setjast.
16 En hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði fyrir þau og braut og gaf lærisveinunum að bera fram fyrir mannfjöldann.
17 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. En leifarnar eftir þá voru teknar saman, tólf körfur brauðbita.
by Icelandic Bible Society