Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

New Testament in a Year

Read the New Testament from start to finish, from Matthew to Revelation.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Lúkasarguðspjall 8:26-56

26 Þeir tóku land í byggð Gerasena, sem er gegnt Galíleu.

27 Er hann sté á land, kom á móti honum maður nokkur úr borginni, sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi, heldur í gröfunum.

28 Þegar hann sá Jesú, æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!"

29 Því að hann hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann, og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu, en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir.

30 Jesús spurði hann: "Hvað heitir þú?" En hann sagði: "Hersing", því að margir illir andar höfðu farið í hann.

31 Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið.

32 En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau, og hann leyfði þeim það.

33 Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin, og hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði.

34 En er hirðarnir sáu, hvað orðið var, flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni.

35 Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir.

36 Sjónarvottar sögðu þeim frá, hvernig sá, sem haldinn var illum öndum, hafði orðið heill.

37 Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér, því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur.

38 Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum, en Jesús lét hann fara og mælti:

39 "Far aftur heim til þín, og seg þú frá, hve mikið Guð hefur fyrir þig gjört." Hann fór og kunngjörði um alla borgina, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört.

40 En er Jesús kom aftur, fagnaði mannfjöldinn honum, því að allir væntu hans.

41 Þá kom þar maður, Jaírus að nafni, forstöðumaður samkundunnar. Hann féll til fóta Jesú og bað hann koma heim til sín.

42 Því hann átti einkadóttur, um tólf ára að aldri, og hún lá fyrir dauðanum. Þegar Jesús var á leiðinni, þrengdi mannfjöldinn að honum.

43 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði leitað lækna og varið til aleigu sinni, en enginn getað læknað hana.

44 Hún kom að baki honum og snart fald klæða hans, og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar.

45 Jesús sagði: "Hver var það, sem snart mig?" En er allir synjuðu fyrir það, sagði Pétur: "Meistari, mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á."

46 En Jesús sagði: "Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur fór út frá mér."

47 En er konan sá, að hún fékk eigi dulist, kom hún skjálfandi, féll til fóta honum og skýrði frá því í áheyrn alls lýðsins, hvers vegna hún snart hann, og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast.

48 Hann sagði þá við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði."

49 Meðan hann var að segja þetta, kemur maður heiman frá samkundustjóranum og segir: "Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur."

50 En er Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: "Óttast ekki, trú þú aðeins, og mun hún heil verða."

51 Þegar hann kom að húsinu, leyfði hann engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi og Jakobi og föður stúlkunnar og móður.

52 Og allir grétu og syrgðu hana. Hann sagði: "Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur."

53 En þeir hlógu að honum, þar eð þeir vissu að hún var dáin.

54 Hann tók þá hönd hennar og kallaði: "Stúlka, rís upp!"

55 Og andi hennar kom aftur, og hún reis þegar upp, en hann bauð að gefa henni að eta.

56 Foreldrar hennar urðu frá sér numdir, en hann bauð þeim að segja engum frá þessum atburði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society