Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

New Testament in a Year

Read the New Testament from start to finish, from Matthew to Revelation.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Lúkasarguðspjall 6:27-49

27 En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður,

28 blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður.

29 Slái þig einhver á kinnina, skaltu og bjóða hina, og taki einhver yfirhöfn þína, skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.

30 Gef þú hverjum sem biður þig, og þann, sem tekur þitt frá þér, skaltu eigi krefja.

31 Og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.

32 Og þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka, sem þá elska.

33 Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama.

34 Og þótt þér lánið þeim, sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur.

35 Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda.

36 Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.

37 Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.

38 Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða."

39 Þá sagði hann þeim og líkingu: "Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju?

40 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.

41 Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín?

42 Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér,` en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.

43 Því að ekki er til gott tré, er beri slæman ávöxt, né heldur slæmt tré, er beri góðan ávöxt.

44 En hvert tré þekkist af ávexti sínum, enda lesa menn ekki fíkjur af þistlum né vínber af þyrnirunni.

45 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.

46 En hví kallið þér mig herra, herra, og gjörið ekki það, sem ég segi?

47 Ég skal sýna yður, hverjum sá er líkur, sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim.

48 Hann er líkur manni, er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Nú kom flóð og flaumurinn skall á því húsi, en fékk hvergi hrært það, vegna þess að það var vel byggt.

49 Hinn, er heyrir og gjörir ekki, er líkur manni, sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Flaumurinn skall á því, og það hús féll þegar, og fall þess varð mikið."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society