Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 32

32 Synir Rúbens og synir Gaðs áttu mikið kvikfé og mjög vænt, og er þeir litu Jaserland og Gíleaðland, sáu þeir að það var gott búfjárland.

Synir Gaðs og synir Rúbens komu þá og sögðu við þá Móse og Eleasar prest og höfuðsmenn safnaðarins á þessa leið:

"Atarót, Díbon, Jaser, Nimra, Hesbon, Eleale, Sebam, Nebó og Beón,

landið, sem Drottinn vann fyrir söfnuði Ísraels, er búfjárland gott, og þjónar þínir eiga búfé."

Og þeir sögðu: "Ef vér höfum fundið náð í augum þínum, þá fái þjónar þínir land þetta til eignar. Far eigi með oss yfir Jórdan."

Þá sagði Móse við sonu Gaðs og sonu Rúbens: "Eiga bræður yðar að fara í hernað, en þér setjast hér að?

Hví teljið þér hug úr Ísraelsmönnum að fara yfir um, inn í landið, sem Drottinn hefir gefið þeim?

Svo gjörðu og feður yðar, þá er ég sendi þá frá Kades Barnea til að skoða landið.

Þeir fóru alla leið norður í Eskóldal og skoðuðu landið, en töldu svo hug úr Ísraelsmönnum, að þeir vildu ekki fara inn í landið, sem Drottinn hafði gefið þeim.

10 Þann dag upptendraðist reiði Drottins, svo að hann sór og sagði:

11 ,Þeir menn, er fóru af Egyptalandi tvítugir og þaðan af eldri, skulu ekki fá að sjá landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, því að þeir hafa ekki fylgt mér trúlega,

12 nema Kaleb Jefúnneson Kenissíti og Jósúa Núnsson, því að þeir hafa trúlega fylgt Drottni.`

13 Og reiði Drottins upptendraðist gegn Ísrael og hann lét þá reika um eyðimörkina í fjörutíu ár, þar til er öll sú kynslóð var liðin undir lok, er gjört hafði það, sem illt var fyrir augliti Drottins.

14 Og sjá, nú hafið þér risið upp í stað feðra yðar, þér afsprengi syndugra manna, til þess að gjöra hina brennandi reiði Drottins gegn Ísrael enn þá meiri.

15 Ef þér snúið yður frá honum, þá mun hann láta þá reika enn lengur um eyðimörkina, og þér munuð steypa öllum þessum lýð í glötun."

16 Þeir gengu til hans og sögðu: "Vér viljum byggja hér fjárbyrgi fyrir búsmala vorn og bæi handa börnum vorum.

17 En sjálfir munum vér fara vígbúnir fyrir Ísraelsmönnum, þar til er vér höfum komið þeim á sinn stað. En börn vor skulu búa í víggirtum borgum, sökum íbúa landsins.

18 Eigi munum vér snúa heim aftur fyrr en Ísraelsmenn hafa hlotið hver sinn erfðahlut.

19 Vér munum eigi taka eignarland með þeim þar hinumegin Jórdanar, því að vér höfum hlotið til eignar landið hér austanmegin Jórdanar."

20 Þá sagði Móse við þá: "Ef þér viljið gjöra þetta, ef þér viljið búast til bardaga fyrir augliti Drottins,

21 og ef sérhver vígbúinn maður meðal yðar fer yfir Jórdan fyrir augliti Drottins, uns hann hefir rekið óvini sína burt frá sér,

22 og þér snúið ekki aftur fyrr en landið er undirokað fyrir augliti Drottins, þá skuluð þér vera sýknir saka fyrir Drottni og fyrir Ísrael, og land þetta skal verða yðar eign fyrir augliti Drottins.

23 En ef þér gjörið eigi svo, sjá, þá syndgið þér gegn Drottni, og þér munuð fá að kenna á synd yðar, er yður mun í koll koma.

24 Byggið yður bæi handa börnum yðar og byrgi handa fé yðar, og gjörið svo sem þér hafið látið um mælt."

25 Þá sögðu synir Gaðs og synir Rúbens við Móse: "Þjónar þínir munu gjöra eins og þú býður, herra.

26 Börn vor, konur vorar, fénaður vor og allir eykir vorir skulu verða eftir hér í bæjunum í Gíleað.

27 En þjónar þínir skulu fara yfir um, allir þeir sem herbúnir eru, fyrir augliti Drottins til hernaðar, eins og þú býður, herra."

28 Og Móse gaf Eleasar presti, Jósúa Núnssyni og ætthöfðingjum Ísraelsmanna skipun um þá

29 og sagði við þá: "Ef synir Gaðs og synir Rúbens, allir þeir sem vígbúnir eru, fara með yður yfir Jórdan til hernaðar fyrir augliti Drottins og þér undirokið landið, þá gefið þeim Gíleaðland til eignar.

30 En ef þeir fara eigi vígbúnir yfir um með yður, þá skulu þeir fá eignarlönd með yður í Kanaanlandi."

31 Synir Gaðs og synir Rúbens svöruðu og sögðu: "Það sem Drottinn hefir sagt þjónum þínum, það viljum vér gjöra.

32 Vér viljum fara yfir um vígbúnir fyrir augliti Drottins, inn í Kanaanland, en óðalseign vor skal vera fyrir handan Jórdan."

33 Þá fékk Móse þeim sonum Gaðs, sonum Rúbens og hálfri ættkvísl Manasse Jósefssonar konungsríki Síhons Amorítakonungs og konungsríki Ógs, konungs í Basan, landið og borgirnar í því, ásamt umhverfunum, borgir landsins allt í kring.

34 Þá reistu synir Gaðs Díbon, Atarót, Aróer,

35 Aterót Sófan, Jaser, Jogbeha,

36 Bet Nimra og Bet Haran. Voru það víggirtar borgir og fjárbyrgi.

37 Synir Rúbens reistu Hesbon, Eleale, Kirjataím,

38 Nebó, Baal Meon, með breyttu nafni, og Síbma, og þeir gáfu borgunum, er þeir reistu, ný nöfn.

39 Synir Makírs Manassesonar fóru til Gíleað og unnu það og ráku burt Amoríta, sem þar voru.

40 Og Móse fékk Makír Manassesyni Gíleað, og festi hann þar byggð.

41 En Jaír, sonur Manasse, fór og vann þorp þeirra og nefndi það Jaírs-þorp.

42 Og Nóba fór og vann Kenat og borgirnar þar umhverfis og nefndi það Nóba eftir nafni sínu.

Sálmarnir 77

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.

Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]

Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.

Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,

ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.

Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?

Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?

10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.

Jesaja 24

24 Sjá, Drottinn tæmir jörðina og eyðir hana, hann umhverfir ásjónu hennar og tvístrar íbúum hennar.

Eitt gengur yfir prest og alþýðu, yfir húsbónda og þjón, yfir húsfreyju og þernu, yfir seljanda og kaupanda, yfir lánsala og lánþega, yfir okrarann og skuldunaut hans.

Jörðin skal verða altæmd og gjörsamlega rænd, því að Drottinn hefir talað þetta.

Jörðin viknar og kiknar, heimur bliknar og kiknar, tignarmenni lýðsins á jörðu blikna.

Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa.

Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda fyrir það. Þess vegna farast íbúar jarðarinnar af hita, svo að fátt manna er eftir orðið.

Vínberjalögurinn sýtir, vínviðurinn visnar, nú andvarpa allir þeir sem áður voru af hjarta glaðir.

Gleðihljóð bumbnanna er þagnað, hávaði hinna glaðværu hættur, gleðiómur gígjunnar þagnaður.

Menn sitja ekki syngjandi að víndrykkju, þeim sem drekka áfengan drykk, finnst hann beiskur.

10 Borgirnar eru lagðar í eyði, öll hús lokuð, svo að ekki verður inn komist.

11 Á strætunum er harmakvein af vínskortinum, öll gleði er horfin, fögnuður landsins flúinn.

12 Auðnin ein er eftir í borginni, borgarhliðin eru mölbrotin.

13 Því að á jörðinni miðri, á meðal þjóðanna, skal svo fara sem þá er olíuviður er skekinn, sem við eftirtíning að loknum vínberjalestri.

14 Þeir hefja upp raust sína og fagna. Yfir hátign Drottins gjalla gleðiópin í vestri.

15 Vegsamið þess vegna Drottin á austurvegum, nafn Drottins, Ísraels Guðs, á ströndum hafsins!

16 Frá ysta jaðri jarðarinnar heyrðum vér lofsöngva: "Dýrð sé hinum réttláta!" En ég sagði: "Æ, mig auman! Æ, mig auman! Vei mér!" Ránsmenn ræna, ránum ránsmenn ræna.

17 Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, jarðarbúi.

18 Sá sem flýr undan hinum geigvæna gný, fellur í gröfina, og sá sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni, því að flóðgáttirnar á hæðum ljúkast upp og grundvöllur jarðarinnar skelfur.

19 Jörðin brestur og gnestur, jörðin rofnar og klofnar, jörðin riðar og iðar.

20 Jörðin skjögrar eins og drukkinn maður, henni svipar til og frá eins og vökuskýli. Misgjörð hennar liggur þungt á henni, hún hnígur og fær eigi risið upp framar.

21 Á þeim degi mun Drottinn vitja hers hæðanna á hæðum og konunga jarðarinnar á jörðu.

22 Þeim skal varpað verða í gryfju, eins og fjötruðum bandingjum, og þeir skulu byrgðir verða í dýflissu. Eftir langa stund skal þeim hegnt verða.

23 Þá mun máninn fyrirverða sig og sólin blygðast sín, því að Drottinn allsherjar sest að völdum á Síonfjalli og í Jerúsalem, og fyrir augliti öldunga hans mun dýrð ljóma.

Fyrsta bréf Jóhannesar 2

Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.

Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.

Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.

Sá sem segir: "Ég þekki hann," og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.

En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.

Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti.

Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð.

Engu að síður er það nýtt boðorð, er ég rita yður, sem er augljóst í honum og í yður, því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.

Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.

10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls.

11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans.

12 Ég rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans.

13 Ég rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda.

14 Ég hef ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. Ég hef ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég hef ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.

15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.

16 Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.

17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.

18 Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund.

19 Þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss. En þetta varð til þess að augljóst yrði, að enginn þeirra heyrði oss til.

20 En þér hafið smurning frá hinum heilaga og vitið þetta allir.

21 Ég hef ekki skrifað yður vegna þess, að þér þekkið ekki sannleikann, heldur af því að þér þekkið hann og af því að engin lygi getur komið frá sannleikanum.

22 Hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum.

23 Hver sem afneitar syninum hefur ekki heldur fundið föðurinn. Sá sem játar soninn hefur og fundið föðurinn.

24 En þér, látið það vera stöðugt í yður, sem þér hafið heyrt frá upphafi. Ef það er stöðugt í yður, sem þér frá upphafi hafið heyrt, þá munuð þér einnig vera stöðugir í syninum og í föðurnum.

25 Og þetta er fyrirheitið, sem hann gaf oss: Hið eilífa líf.

26 Þetta hef ég skrifað yður um þá, sem eru að leiða yður afvega.

27 Og sú smurning, sem þér fenguð af honum, hún er stöðug í yður, og þér þurfið þess ekki, að neinn kenni yður, því smurning hans fræðir yður um allt, hún er sannleiki, en engin lygi. Verið stöðugir í honum, eins og hún kenndi yður.

28 Og nú, börnin mín, verið stöðug í honum, til þess að vér getum, þegar hann birtist, átt djörfung og blygðumst vor ekki fyrir honum, þegar hann kemur.

29 Þér vitið, að hann er réttlátur. Þá skiljið þér einnig, að hver sem iðkar réttlætið, er fæddur af honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society