Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 12-13

12 Mirjam og Aron mæltu í gegn Móse vegna blálensku konunnar, er hann hafði gengið að eiga, því að hann hafði gengið að eiga blálenska konu.

Og þau sögðu: "Hefir Drottinn aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka?" Og Drottinn heyrði það.

En maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.

Þá talaði Drottinn allt í einu til Móse, Arons og Mirjam: "Farið þið þrjú til samfundatjaldsins!" Og þau gengu þangað þrjú.

Þá sté Drottinn niður í skýstólpanum og nam staðar í tjalddyrunum og kallaði á Aron og Mirjam, og þau gengu bæði fram.

Og hann sagði: "Heyrið orð mín! Þegar spámaður er meðal yðar, þá birtist ég honum í sýn, eða tala við hann í draumi.

Ekki er því þannig farið um þjón minn Móse. Honum er trúað fyrir öllu húsi mínu.

Ég tala við hann munni til munns, berlega og eigi í ráðgátum, og hann sér mynd Drottins. Og hví skirrðust þið þá eigi við að mæla í gegn þjóni mínum, í gegn Móse?"

Reiði Drottins upptendraðist gegn þeim, og hann fór burt.

10 Og skýið vék burt frá tjaldinu, og sjá, Mirjam var orðin líkþrá, hvít sem snjór. Aron sneri sér að Mirjam, og sjá, hún var orðin líkþrá.

11 Þá sagði Aron við Móse: "Æ, herra minn! Lát okkur eigi gjalda þess, að við breyttum heimskulega og syndguðum.

12 Æ, lát hana eigi vera sem andvana burð, sem helmingurinn af holdinu er rotnaður á, þá er hann kemur af móðurlífi."

13 Móse hrópaði til Drottins: "Æ, Guð! Gjör hana aftur heila!"

14 Þá sagði Drottinn við Móse: "Ef faðir hennar hefði hrækt í andlit henni, mundi hún þá eigi hafa orðið að bera kinnroða í sjö daga? Skal hún í sjö daga vera inni byrgð utan herbúða, en eftir það má taka hana inn aftur."

15 Og Mirjam var byrgð inni sjö daga fyrir utan herbúðirnar, og lýðurinn lagði ekki upp fyrr en Mirjam var aftur inn tekin.

16 Eftir þetta lagði lýðurinn upp frá Haserót og setti herbúðir sínar í Paran-eyðimörk.

13 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Send þú menn til að kanna Kanaanland, er ég mun gefa Ísraelsmönnum. Þér skuluð senda einn mann af ættkvísl hverri, og sé hver þeirra höfðingi meðal þeirra."

Og Móse sendi þá úr Paran-eyðimörk að boði Drottins. Þeir menn voru allir höfuðsmenn meðal Ísraelsmanna,

og þessi eru nöfn þeirra: Af ættkvísl Rúbens: Sammúa Sakkúrsson.

Af ættkvísl Símeons: Safat Hóríson.

Af ættkvísl Júda: Kaleb Jefúnneson.

Af ættkvísl Íssakars: Jígeal Jósefsson.

Af ættkvísl Efraíms: Hósea Núnsson.

Af ættkvísl Benjamíns: Paltí Rafúson.

10 Af ættkvísl Sebúlons: Gaddíel Sódíson.

11 Af ættkvísl Jósefs, af ættkvísl Manasse: Gaddí Súsíson.

12 Af ættkvísl Dans: Ammíel Gemallíson.

13 Af ættkvísl Assers: Setúr Míkaelsson.

14 Af ættkvísl Naftalí: Nakbí Vofsíson.

15 Af ættkvísl Gaðs: Geúel Makíson.

16 Þessi eru nöfn þeirra manna, sem Móse sendi til að kanna landið. En Móse kallaði Hósea Núnsson Jósúa.

17 Móse sendi þá til að kanna Kanaanland og sagði við þá: "Farið þér inn í Suðurlandið og gangið á fjöll upp

18 og skoðið landið, hvernig það er, og fólkið, sem í því býr, hvort það er hraustlegt eða veiklegt, fátt eða margt,

19 og hvernig landið er, sem það býr í, hvort það er gott eða illt, og hvernig bæirnir eru, sem það býr í, hvort það eru tjöld eða víggirtar borgir,

20 og hvernig landið er, hvort það er feitt eða magurt, hvort þar eru skógar eða ekki. Og verið hugrakkir og komið með nokkuð af ávöxtum landsins." En þetta var á öndverðum vínberjatíma.

21 Héldu þeir nú norður eftir og könnuðu landið frá Síneyðimörk allt til Rehób, þangað sem leið liggur til Hamat.

22 Þeir fóru inn í Suðurlandið og komu til Hebron. Þar voru þeir Ahíman, Sesaí og Talmaí Anakssynir (en Hebron var reist sjö árum fyrr en Sóan í Egyptalandi).

23 Þeir komu í Eskóldal og sniðu þar af vínviðargrein með einum vínberjaklasa og báru hann tveir á stöng milli sín, þar að auki nokkur granatepli og nokkrar fíkjur.

24 Var staður þessi kallaður Eskóldalur vegna klasans, sem Ísraelsmenn skáru þar af.

25 Þeir sneru aftur að fjörutíu dögum liðnum og höfðu þá kannað landið.

26 Og þeir héldu heimleiðis og komu til Móse og Arons og alls safnaðar Ísraelsmanna í Paran-eyðimörk, til Kades, og sögðu þeim og öllum söfnuðinum af ferðum sínum og sýndu þeim ávöxtu landsins.

27 Þeir sögðu Móse frá og mæltu: "Vér komum í landið, þangað sem þú sendir oss, og að sönnu flýtur það í mjólk og hunangi, og þetta er ávöxtur þess.

28 En það er hraust þjóð, sem í landinu býr, og borgirnar eru víggirtar og stórar mjög, og Anaks sonu sáum vér þar einnig.

29 Amalekítar byggja Suðurlandið, og Hetítar, Jebúsítar og Amorítar byggja fjalllendið, og Kanaanítar búa við sjóinn og meðfram Jórdan."

30 Kaleb stöðvaði kurr lýðsins gegn Móse og mælti: "Förum þangað og leggjum það undir oss, því að vér munum fá unnið það."

31 En þeir menn, er með honum höfðu farið, sögðu: "Oss er ofvaxið að fara mót þessari þjóð, því að hún er sterkari en vér."

32 Og þeir sem kannað höfðu landið, sögðu Ísraelsmönnum illt af því og mæltu: "Landið, sem vér fórum um til þess að kanna það, er land sem etur upp íbúa sína, og allt fólkið, sem vér sáum þar, eru risavaxnir menn.

33 Og vér sáum þar risa, Anakssonu, sem eru risa ættar, og vér vorum í augum sjálfra vor sem engisprettur, og eins vorum vér í þeirra augum."

Sálmarnir 49

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

Jesaja 2

Orðið, sem Jesaja Amozsyni vitraðist um Júda og Jerúsalem.

Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma.

Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: "Komið, förum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum," því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.

Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.

Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi Drottins.

Þú hefir hafnað þjóð þinni, ættmönnum Jakobs, því að þeir eru allir í austurlenskum göldrum og spáförum, eins og Filistar, og fylla landið útlendum mönnum.

Land þeirra er fullt af silfri og gulli, og fjársjóðir þeirra eru óþrjótandi. Land þeirra er fullt af stríðshestum, og vagnar þeirra eru óteljandi.

Land þeirra er fullt af falsguðum, þeir falla fram fyrir eigin handaverkum sínum, fram fyrir því, sem fingur þeirra hafa gjört.

En mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast, og eigi munt þú fyrirgefa þeim.

10 Gakk þú inn í bergið og fel þig í jörðu fyrir ógnum Drottins og ljóma hátignar hans.

11 Hin drembilegu augu mannsins skulu lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera.

12 Sannarlega mun dagur Drottins allsherjar upp renna. Hann kemur yfir allt það, sem dramblátt er og hrokafullt, og yfir allt, er hátt gnæfir, _ það skal lægjast _

13 og yfir öll hin hávöxnu og gnæfandi sedrustré á Líbanon, og yfir allar Basanseikur,

14 og yfir öll há fjöll og allar gnæfandi hæðir,

15 og yfir alla háreista turna og yfir alla ókleifa múrveggi,

16 og yfir alla Tarsisknörru og yfir allt ginnandi glys.

17 Og dramblæti mannsins skal lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera.

18 Og falsguðirnir _ það er með öllu úti um þá.

19 Þá munu menn smjúga inn í bjarghella og jarðholur fyrir ógnum Drottins og fyrir ljóma hátignar hans, þegar hann rís upp til þess að skelfa jörðina.

20 Á þeim degi munu menn kasta fyrir moldvörpur og leðurblökur silfurgoðum sínum og gullgoðum, er þeir hafa gjört sér til að falla fram fyrir,

21 en skreiðast sjálfir inn í klettagjár og hamarskorur fyrir ógnum Drottins og fyrir ljóma hátignar hans, þegar hann rís upp til þess að skelfa jörðina.

22 Hættið að treysta mönnum, hverfulan lífsanda hafa þeir í nösum sér. Hvers virði eru þeir?

Bréfið til Hebrea 10

10 Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Ár eftir ár eru bornar fram sömu fórnir, sem geta aldrei gjört þá fullkomna til frambúðar, sem ganga fram fyrir Guð.

Annars hefðu þeir hætt að bera þær fram. Dýrkendurnir hefðu þá ekki framar verið sér meðvitandi um synd, ef þeir hefðu í eitt skipti fyrir öll orðið hreinir.

En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert.

Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.

Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér.

Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki.

Þá sagði ég: "Sjá, ég er kominn _ í bókinni er það ritað um mig _ ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!"

Fyrst segir hann: "Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað, og eigi geðjaðist þér að þeim." En það eru einmitt þær, sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu.

Síðan segir hann: "Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn." Hann tekur burt hið fyrra til þess að staðfesta hið síðara.

10 Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.

11 Og svo er því farið um hvern prest, að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó geta aldrei afmáð syndir.

12 En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs

13 og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.

14 Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða.

15 Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann:

16 Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau.

17 Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota.

18 En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.

19 Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga,

20 þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn.

21 Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs.

22 Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni.

23 Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.

24 Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka.

25 Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.

26 Því að ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar,

27 heldur er það óttaleg bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum Guðs.

28 Sá, er að engu hefur lögmál Móse, verður vægðarlaust líflátinn, ef tveir eða þrír vottar bera.

29 Hve miklu þyngri hegning ætlið þér þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fótum treður son Guðs og vanhelgar blóð sáttmálans, er hann var helgaður í, og smánar anda náðarinnar?

30 Vér þekkjum þann, er sagt hefur: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda." Og á öðrum stað: "Drottinn mun dæma lýð sinn."

31 Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs.

32 Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga.

33 Það var ýmist, að þér sjálfir, smánaðir og aðþrengdir, voruð hafðir að augnagamni, eða þá hitt, að þér tókuð þátt í kjörum þeirra, er áttu slíku að sæta.

34 Þér þjáðust með bandingjum, og tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar, því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega.

35 Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun.

36 Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.

37 Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.

38 Minn réttláti mun lifa fyrir trúna, en skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum.

39 En vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society