M’Cheyne Bible Reading Plan
13 Á átjánda ríkisári Jeróbóams varð Abía konungur yfir Júda.
2 Þrjú ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka Úríelsdóttir frá Gíbeu. En þeir áttu í ófriði saman, Abía og Jeróbóam.
3 Og Abía hóf ófriðinn með hraustu herliði, fjögur hundruð þúsundum einvalaliðs, en Jeróbóam fylkti til orustu á móti honum átta hundruð þúsundum einvalaliðs, hraustum köppum.
4 Þá gekk Abía upp á Semaraímfjall í Efraímfjöllum og mælti: "Hlýðið á mig, Jeróbóam og allur Ísrael!
5 Hvort vitið þér eigi að Drottinn, Ísraels Guð, veitti Davíð ævarandi konungdóm yfir Ísrael, honum og niðjum hans, með saltsáttmála?
6 En Jeróbóam Nebatsson, þjónn Salómons, sonar Davíðs, hófst handa og gjörði uppreisn gegn herra sínum.
7 Og að honum söfnuðust lausingjar og hrakmenni, og þeir urðu yfirsterkari Rehabeam syni Salómons, en Rehabeam var ungur og hugdeigur og fékk eigi veitt þeim viðnám.
8 Og nú hyggist þér munu veita viðnám konungdómi Drottins, þeim er niðjar Davíðs hafa á hendi, af því að þér eruð mjög fjölmennir, og gullkálfarnir, þeir er Jeróbóam hefir gjöra látið yður að guðum, eru með yður.
9 Hafið þér þá eigi rekið burt presta Drottins, niðja Arons, og levítana, og gjört yður presta að sið heiðinna þjóða? Hver sá, er kom til þess að láta fylla hönd sína með ungt naut og sjö hrúta, hann varð prestur falsguðanna.
10 En vor Guð er Drottinn, vér höfum eigi yfirgefið hann, og niðjar Arons hafa á hendi prestþjónustu fyrir Drottin, og levítar hafa störf á hendi
11 og færa Drottni á hverjum morgni og hverju kveldi brennifórnir og ilmreykelsi og leggja brauð í raðir á borðið úr skíru gulli og kveikja á hverju kveldi á gullstjakanum og lömpum hans. Því að vér gætum ákvæða Drottins, Guðs vors, en þér hafið yfirgefið hann.
12 Og sjá! Guð er með oss í broddi fylkingar og prestar hans með hvellilúðrana til þess að blása til atlögu gegn yður. Þér Ísraelsmenn! Berjist eigi gegn Drottni, Guði feðra yðar, því að þér munuð engu fá framgengt."
13 En Jeróbóam lét þá, er lágu í launsátri, fara í kring til þess að koma að baki þeim. Voru þeir gagnvart Júdamönnum, en launsátursliðið að baki þeim.
14 Og er Júdamenn sneru sér við, sáu þeir að þeim var búinn bardagi bæði að baki og að framan. Þá hrópuðu þeir til Drottins, og prestarnir þeyttu lúðrana,
15 og Júdamenn æptu heróp, og er Júdamenn æptu heróp, þá laust Guð Jeróbóam og allan Ísrael í augsýn Abía og Júda.
16 Og Ísraelsmenn flýðu fyrir Júdamönnum, og Guð gaf þá þeim á vald.
17 Og Abía og lið hans felldu þá unnvörpum, svo að fimm hundruð þúsund einvalaliðs féllu af Ísraelsmönnum, vopnum vegnir.
18 Þannig urðu Ísraelsmenn að lúta í lægra haldi um þær mundir, og Júdamenn urðu yfirsterkari, því að þeir studdust við Drottin, Guð feðra þeirra.
19 En Abía veitti Jeróbóam eftirför og vann af honum borgir: Betel og þorpin umhverfis hana, Jesana og þorpin umhverfis hana og Efron og þorpin umhverfis hana.
20 Og Jeróbóam var máttvana síðan, meðan Abía lifði, og Drottinn laust hann, svo að hann dó.
21 En Abía efldist, og hann tók sér fjórtán konur og gat tuttugu og tvo sonu og sextán dætur.
22 En það sem meira er að segja um Abía, athafnir hans og orð, það er ritað í Skýringum Íddós spámanns.
3 Og engli safnaðarins í Sardes skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur þá sjö anda Guðs og stjörnurnar sjö. Ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu, en ert dauður.
2 Vakna þú og styrk það sem eftir er og að dauða komið. Því margt hef ég fundið í fari þínu, sem ekki stenst fyrir Guði mínum.
3 Minnst þú því, hvernig þú tókst á móti og heyrðir, og varðveit það og gjör iðrun. Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig.
4 En þú átt fáein nöfn í Sardes, sem ekki hafa saurgað klæði sín, og þeir munu ganga með mér í hvítum klæðum, því að þeir eru maklegir.
5 Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans.
6 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
7 Og engli safnaðarins í Fíladelfíu skalt þú rita: Þetta segir sá heilagi, sá sanni, sem hefur lykil Davíðs, hann sem lýkur upp, svo að enginn læsir, og læsir, svo að enginn lýkur upp.
8 Ég þekki verkin þín. Sjá, ég hef látið dyr standa opnar fyrir þér, sem enginn getur lokað. Þú hefur lítinn mátt, en hefur varðveitt orð mitt og ekki afneitað nafni mínu.
9 Ég skal láta nokkra af samkundu Satans, er segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur ljúga, _ ég skal láta þá koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig.
10 Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa.
11 Ég kem skjótt. Haltu fast því, sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína.
12 Þann er sigrar mun ég gjöra að stólpa í musteri Guðs míns, og hann skal aldrei þaðan út fara. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.
13 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
14 Og engli safnaðarins í Laódíkeu skalt þú rita: Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs:
15 Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur.
16 En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.
17 Þú segir: "Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis." Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.
18 Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi.
19 Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga. Ver því heilhuga og gjör iðrun.
20 Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.
21 Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.
22 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
1 Á öðru ríkisári Daríusar konungs, hinn fyrsta dag hins sjötta mánaðar, kom orð Drottins fyrir munn Haggaí spámanns til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðsta prests, svo hljóðandi:
2 Svo segir Drottinn allsherjar: Þessi lýður segir: "Enn er ekki tími kominn til að endurreisa hús Drottins."
3 Þá kom orð Drottins fyrir munn Haggaí spámanns, svo hljóðandi:
4 Er þá tími fyrir yður að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús liggur í rústum?
5 Og nú segir Drottinn allsherjar svo: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer!
6 Þér sáið miklu, en safnið litlu, etið, en verðið eigi saddir, drekkið, en fáið eigi nægju yðar, klæðið yður, en verðið þó ekki varmir, og sá sem vinnur fyrir kaupi, vinnur fyrir því í götótta pyngju.
7 Svo segir Drottinn allsherjar: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer!
8 Farið upp í fjöllin, sækið við og reisið musterið, þá mun ég hafa velþóknun á því og gjöra mig vegsamlegan! _ segir Drottinn.
9 Þér búist við miklu, en fáið lítið í aðra hönd, og þó þér flytjið það heim, þá blæs ég það burt. Hvers vegna? segir Drottinn allsherjar. Vegna húss míns, af því að það liggur í rústum, meðan sérhver yðar flýtir sér með sitt hús.
10 Fyrir því heldur himinninn uppi yfir yður aftur dögginni og fyrir því heldur jörðin aftur gróðri sínum.
11 Ég kallaði þurrk yfir landið og yfir fjöllin, yfir kornið, vínberjalöginn og olíuna og yfir það, sem jörðin af sér gefur, yfir menn og skepnur og yfir allan handafla.
12 Þá hlýddi Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson æðsti prestur og allt það, er eftir var orðið lýðsins, röddu Drottins Guðs þeirra og orðum Haggaí spámanns, þeim er Drottinn Guð þeirra hafði sent hann með, og lýðurinn óttaðist Drottin.
13 Þá sagði Haggaí, sendiboði Drottins, við lýðinn, samkvæmt boðskap Drottins: Ég er með yður! _ segir Drottinn.
14 Og Drottinn vakti hug Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og hug Jósúa Jósadakssonar æðsta prests og hug alls þess, er eftir var orðið lýðsins, svo að þeir komu og hófu að byggja hús Drottins allsherjar, Guðs þeirra,
15 á tuttugasta og fjórða degi hins sjötta mánaðar, á öðru ríkisári Daríusar konungs.
2 Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar.
2 Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans.
3 En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: "Þeir hafa ekki vín."
4 Jesús svarar: "Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn."
5 Móðir hans sagði þá við þjónana: "Gjörið það, sem hann kann að segja yður."
6 Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.
7 Jesús segir við þá: "Fyllið kerin vatni." Þeir fylltu þau á barma.
8 Síðan segir hann: "Ausið nú af og færið veislustjóra." Þeir gjörðu svo.
9 Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann
10 og sagði: "Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú."
11 Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.
12 Eftir þetta fór hann ofan til Kapernaum ásamt móður sinni, bræðrum og lærisveinum. Þar voru þau nokkra daga.
13 Nú fóru páskar Gyðinga í hönd, og Jesús hélt upp til Jerúsalem.
14 Þar sá hann í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar.
15 Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra,
16 og við dúfnasalana sagði hann: "Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð."
17 Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er: "Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp."
18 Gyðingar sögðu þá við hann: "Hvaða tákn getur þú sýnt oss um það, að þú megir gjöra þetta?"
19 Jesús svaraði þeim: "Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum."
20 Þá sögðu Gyðingar: "Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!"
21 En hann var að tala um musteri líkama síns.
22 Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað.
23 Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði.
24 En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla.
25 Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr.
by Icelandic Bible Society