Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 36

36 Landslýðurinn tók Jóahas Jósíason og gjörði hann að konungi í Jerúsalem eftir föður hans.

Jóahas var tuttugu og þriggja ára að aldri, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem.

En Egyptalandskonungur rak hann frá ríki, til þess að hann skyldi eigi framar ríkja í Jerúsalem, og lagði skattgjald á landið, hundrað talentur silfurs og tíu talentur gulls.

Og Egyptalandskonungur gjörði Eljakím bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem, og breytti nafni hans í Jójakím. En Jóahas bróður hans tók Nekó og flutti til Egyptalands.

Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, Guðs síns.

Gegn honum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför og batt hann eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon.

Af áhöldum musteris Drottins flutti Nebúkadnesar og nokkuð til Babýlon og lét þau í höll sína í Babýlon.

En það sem meira er að segja um Jójakím og svívirðingar hans, er hann aðhafðist, og annað illt, er fannst í fari hans, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga. Og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann.

Jójakín var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði og tíu daga ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins.

10 En að ári liðnu sendi Nebúkadnesar konungur og lét flytja hann til Babýlon, ásamt verðmætum áhöldum úr musteri Drottins, en gjörði Sedekía bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem.

11 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem.

12 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, Guðs síns, hann auðmýkti sig eigi fyrir Jeremía spámanni, er talaði í nafni Drottins.

13 Sedekía rauf þá trúnaðareiða, er Nebúkadnesar konungur hafði látið hann vinna sér við Guð. En hann þverskallaðist og herti hjarta sitt, svo að hann sneri sér eigi til Drottins, Guðs Ísraels.

14 Þá sýndu og allir höfðingjar prestanna og lýðsins mikla ótrúmennsku með því að drýgja allar sömu svívirðingarnar og heiðingjarnir, og saurguðu svo musteri Drottins, það er hann hafði helgað í Jerúsalem.

15 Og Drottinn, Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum.

16 En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði Drottins við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.

17 Hann lét Kaldeakonung fara herför gegn þeim, og drap hann æskumenn þeirra með sverði í helgidómi þeirra. Þyrmdi hann hvorki æskumönnum né ungmeyjum, öldruðum né örvasa _ allt gaf Guð honum á vald.

18 Og öll áhöld Guðs húss, stór og smá, svo og fjársjóðu Drottins húss og fjársjóðu konungs og höfðingja hans _ allt flutti hann til Babýlon.

19 Þeir brenndu musteri Guðs, rifu niður Jerúsalem-múra, lögðu eld í allar hallir í henni, svo að allt verðmætt í henni týndist.

20 Og þá sem komist höfðu undan sverðinu, herleiddi hann til Babýloníu, og urðu þeir þjónar hans og sona hans, uns Persaríki náði yfirráðum,

21 til þess að rætast skyldi orð Drottins fyrir munn Jeremía: "Þar til er landið hefir fengið hvíldarár sín bætt upp, alla þá stund, sem það var í eyði, naut það hvíldar, uns sjötíu ár voru liðin."

22 En á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn Kýrusi Persakonungi því í brjóst _ til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust _, að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, svolátandi boðskap:

Opinberun Jóhannesar 22

22 Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins.

Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.

Og engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna.

Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra.

Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.

Og hann sagði við mig: "Þessi orð eru trú og sönn. Og Drottinn, Guð anda spámannanna, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það, sem verða á innan skamms.

Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá, sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar."

Og ég, Jóhannes, er sá sem heyrði og sá þetta. Og er ég hafði heyrt það og séð, féll ég niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins, sem sýndi mér þetta.

Og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð."

10 Og hann segir við mig: "Innsigla þú ekki spádómsorð þessarar bókar, því að tíminn er í nánd.

11 Hinn rangláti haldi áfram að fremja ranglæti og hinn saurugi saurgi sig áfram og hinn réttláti stundi áfram réttlæti og hinn heilagi helgist áfram.

12 Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er.

13 Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn.

14 Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina.

15 Úti gista hundarnir og töframennirnir og frillulífismennirnir og manndrápararnir og skurðgoðadýrkendurnir og hver sem elskar og iðkar lygi.

16 Ég, Jesús, hef sent engil minn til að votta fyrir yður þessa hluti í söfnuðunum. Ég er rótarkvistur af kyni Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan."

17 Og andinn og brúðurin segja: "Kom þú!" Og sá sem heyrir segi: "Kom þú!" Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.

18 Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók.

19 Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók.

20 Sá sem þetta vottar segir: "Já, ég kem skjótt." Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!

Malakí 4

Því sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim _ segir Drottinn allsherjar _ svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur.

En yfir yður, sem óttist nafn mitt, mun réttlætissólin upp renna með græðslu undir vængjum sínum, og þér munuð út koma og leika yður eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu,

og þér munuð sundur troða hina óguðlegu, því að þeir munu verða aska undir iljum yðar, _ á þeim degi er ég hefst handa _ segir Drottinn allsherjar.

Munið eftir lögmáli Móse þjóns míns, þess er ég á Hóreb fól setninga og ákvæði fyrir allan Ísrael.

Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.

Jóhannesarguðspjall 21

21 Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni.

Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann."

Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar.

Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni.

Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn.

Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar

og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.

Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði.

Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum.

10 Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.

11 En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina

12 og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta.

13 Þeir segja við hana: "Kona, hví grætur þú?" Hún svaraði: "Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann."

14 Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús.

15 Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann."

16 Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.)

17 Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."`

18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.

19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!"

20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.

21 Þá sagði Jesús aftur við þá: "Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður."

22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: "Meðtakið heilagan anda.

23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað."

24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom.

25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa."

26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!"

27 Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður."

28 Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!"

29 Jesús segir við hann: "Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó."

30 Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók.

31 En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society