Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 35

35 Síðan hélt Jósía Drottni páska í Jerúsalem, og var páskalambinu slátrað hinn fjórtánda fyrsta mánaðar.

Þá setti hann prestana til starfa þeirra og taldi hug í þá til þjónustu við musteri Drottins.

En við levítana, er fræddu allan Ísrael og helgaðir voru Drottni, sagði hann: "Setjið örkina helgu í musterið, það er Salómon, sonur Davíðs, Ísraelskonungur, lét reisa. Þér þurfið eigi framar að bera hana á öxlunum. Þjónið nú Drottni Guði yðar og lýð hans Ísrael.

Verið þá reiðubúnir eftir ættum yðar í flokkum yðar, samkvæmt reglugjörð Davíðs Ísraelskonungs og samkvæmt konungsbréfi Salómons sonar hans.

Skipið yður í helgidóminn eftir ættflokkum frænda yðar, leikmannanna, og fyrir hvern flokk skal vera ein sveit af levítaættum.

Slátrið síðan páskalambinu og helgið yður og tilreiðið það fyrir frændur yðar, svo að þér breytið samkvæmt boði Drottins fyrir Móse."

Jósía fékk leikmönnunum sauði og lömb og kið, allt til páskafórnar fyrir alla, er þar voru, þrjátíu þúsund að tölu, og þrjú þúsund naut. Voru þau úr eign konungs.

En höfuðsmenn hans færðu sjálfviljagjafir handa lýðnum og prestunum og levítunum. Hilkía, Sakaría og Jehíel, höfuðsmenn yfir musteri Guðs, gáfu prestunum í páskafórn tvö þúsund og sex hundruð lömb og þrjú hundruð naut.

En Kananja og Semaja og Netaneel, bræður hans, svo og Hasabja, Jeíel og Jósabad, höfðingjar levíta, gáfu levítum til páskafórnar fimm þúsund lömb og fimm hundruð naut.

10 Var svo þjónustunni fyrir komið, og gengu prestarnir á sinn stað, svo og levítar eftir flokkum sínum samkvæmt boði konungs.

11 Var síðan páskalambinu slátrað, og stökktu prestarnir blóðinu úr hendi sinni, en levítarnir flógu.

12 Og þeir tóku brennifórnina frá til þess að fá hana ættflokkum leikmannanna, til þess að þeir skyldu færa hana Drottni, svo sem fyrir er mælt í Mósebók, og svo gjörðu þeir og við nautin.

13 Síðan steiktu þeir páskalambið við eld, svo sem lög stóðu til, suðu helgigjafirnar í pottum og kötlum og skálum, og færðu tafarlaust hverjum leikmanni.

14 En síðan matreiddu þeir handa sér og prestunum, því að prestarnir, niðjar Arons, voru að færa brennifórnir og feit stykki fram á nótt, og matreiddu levítarnir því handa sér og prestunum, niðjum Arons.

15 Og söngvararnir, niðjar Asafs, voru á sínum stað eftir boði Davíðs, Asafs, Hemans og Jedútúns, sjáanda konungs, og hliðverðir voru við hvert hlið. Þurftu þeir eigi að fara frá starfi sínu, því að frændur þeirra, levítarnir, matbjuggu fyrir þá.

16 Var þannig allri þjónustu Drottins komið fyrir þann dag, er menn héldu páska og færðu brennifórnir á altari Drottins, að boði Jósía konungs.

17 Þannig héldu Ísraelsmenn, þeir er viðstaddir voru, páska í þann tíma, svo og hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga.

18 En engir slíkir páskar höfðu haldnir verið í Ísrael frá því á dögum Samúels spámanns, og engir af Ísraelskonungum höfðu haldið páska, svo sem Jósía konungur gjörði og prestarnir og levítarnir og allir Júda- og Ísraelsmenn, þeir er viðstaddir voru, og Jerúsalembúar.

19 Á átjánda ríkisári Jósía voru páskar þessir haldnir.

20 Eftir allt þetta, er Jósía hafði komið musterinu aftur í lag, fór Nekó Egyptalandskonungur herför til þess að heyja orustu hjá Karkemis við Efrat. Þá fór Jósía út í móti honum.

21 En hann gjörði menn á fund hans og lét segja honum: "Hvað þurfum við að eigast við, Júdakonungur? Nú kem ég eigi í móti þér, heldur í móti mínum forna fjanda, og Guð hefir boðið mér að flýta mér. Freista þú eigi fangs við guðinn, sem með mér er, svo að hann tortími þér ekki."

22 En Jósía vildi eigi hörfa undan honum, heldur klæddist dularbúningi til þess að berjast við hann, og hlýddi eigi á orð Nekós, er þó voru af Guðs munni, og fór til bardaga á Megiddóvöllum.

23 En bogmennirnir skutu á Jósía konung. Þá mælti konungur við þjóna sína: "Komið mér burt héðan, því að ég er sár mjög."

24 Tóku þá þjónar hans hann af vagninum og óku honum á næsta vagni hans, og er þeir komu með hann til Jerúsalem, þá dó hann og var grafinn í gröfum feðra sinna. Allir Júdamenn og Jerúsalembúar hörmuðu Jósía,

25 og Jeremía orti harmljóð eftir Jósía, og allir söngmenn og söngkonur hafa talað um Jósía í harmljóðum sínum fram á þennan dag. Og menn gjörðu þau að ákvæði fyrir Ísrael, og eru þau rituð í harmljóðunum.

26 Það sem meira er að segja um Jósía og góðverk hans, er voru samkvæm því, sem ritað er í lögmáli Drottins,

27 svo og saga hans frá upphafi til enda, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga.

Opinberun Jóhannesar 21

21 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.

Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.

Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.

Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið."

Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu."

Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.

Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur.

En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði."

Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins."

10 Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði.

11 Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær.

12 Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf.

13 Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið.

14 Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins.

15 Og sá, sem við mig talaði, hélt á kvarða, gullstaf, til að mæla borgina og hlið hennar og múr hennar.

16 Borgin liggur í ferhyrning, jöfn á lengd og breidd. Og hann mældi borgina með stafnum, tólf þúsund skeið. Lengd hennar og breidd og hæð eru jafnar.

17 Og hann mældi múr hennar, hundrað fjörutíu og fjórar álnir, eftir kvarða manns, sem er einnig mál engils.

18 Múr hennar var byggður af jaspis og borgin af skíra gulli sem skært gler væri.

19 Undirstöðusteinar borgarmúrsins voru skreyttir alls konar gimsteinum. Fyrsti undirstöðusteinninn var jaspis, annar safír, þriðji kalsedón, fjórði smaragð,

20 fimmti sardónyx, sjötti sardis, sjöundi krýsólít, áttundi beryll, níundi tópas, tíundi krýsópras, ellefti hýasint, tólfti ametýst.

21 Og hliðin tólf voru tólf perlur, og hvert hlið úr einni perlu. Og stræti borgarinnar var af skíru gulli sem gagnsætt gler.

22 Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið.

23 Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar.

24 Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína.

25 Og hliðum hennar verður aldrei lokað um daga _ því að nótt verður þar ekki.

26 Og menn munu færa henni dýrð og vegsemd þjóðanna.

27 Og alls ekkert óhreint skal inn í hana ganga né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi, engir nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins.

Malakí 3

Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér. Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið. Sjá, hann kemur _ segir Drottinn allsherjar.

En hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna.

Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að Drottinn hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er,

og þá munu fórnir Júdamanna og Jerúsalembúa geðjast Drottni eins og forðum daga og eins og á löngu liðnum árum.

En ég mun nálægja mig yður til að halda dóm og mun skyndilega fram ganga sem vitni í gegn töframönnum, hórdómsmönnum og meinsærismönnum og í gegn þeim, sem hafa af daglaunamönnum, ekkjum og munaðarleysingjum og halla rétti útlendinga, en óttast mig ekki _ segir Drottinn allsherjar.

Ég, Drottinn, hefi ekki breytt mér, og þér, Jakobssynir, eruð samir við yður.

Allt í frá dögum feðra yðar hafið þér vikið frá setningum mínum og ekki gætt þeirra. Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar _ segir Drottinn allsherjar. En þér spyrjið: "Að hverju leyti eigum vér að snúa oss?"

Á maðurinn að pretta Guð, úr því að þér prettið mig? Þér spyrjið: "Í hverju höfum vér prettað þig?" Í tíund og fórnargjöfum.

Mikil bölvun hvílir yfir yður, af því að þér prettið mig, öll þjóðin.

10 Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt _ segir Drottinn allsherjar _, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.

11 Og ég mun hasta á átvarginn fyrir yður, til þess að hann spilli ekki fyrir yður gróðri jarðarinnar og víntréð á akrinum verði yður ekki ávaxtarlaust _ segir Drottinn allsherjar.

12 Þá munu allar þjóðir telja yður sæla, því að þér munuð vera dýrindisland _ segir Drottinn allsherjar.

13 Hörð eru ummæli yðar um mig _ segir Drottinn. Og þér spyrjið: "Hvað höfum vér þá sagt vor í milli um þig?"

14 Þér segið: "Það er til einskis að þjóna Guði, eða hvaða ávinning höfum vér af því haft, að vér varðveittum boðorð hans og gengum í sorgarbúningi fyrir augliti Drottins allsherjar?

15 Fyrir því teljum vér nú hina hrokafullu sæla. Þeir þrifust eigi aðeins vel, þá er þeir höfðu guðleysi í frammi, heldur freistuðu þeir og Guðs, og sluppu óhegndir."

16 Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast Drottin, og Drottinn gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast Drottin og virða hans nafn.

17 Þeir skulu vera mín eign _ segir Drottinn allsherjar _ á þeim degi, sem ég hefst handa, og ég mun vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum.

18 Þá munuð þér aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.

Jóhannesarguðspjall 20

20 Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann.

Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu.

Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: "Sæll þú, konungur Gyðinga," og slógu hann í andlitið.

Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: "Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum."

Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: "Sjáið manninn!"

Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: "Krossfestu, krossfestu!" Pílatus sagði við þá: "Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum."

Gyðingar svöruðu: "Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni."

Þegar Pílatus heyrði þessi orð, varð hann enn hræddari.

Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: "Hvaðan ertu?" En Jesús veitti honum ekkert svar.

10 Pílatus segir þá við hann: "Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki, að ég hef vald til að láta þig lausan, og ég hef vald til að krossfesta þig?"

11 Jesús svaraði: "Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur."

12 Eftir þetta reyndi Pílatus enn að láta hann lausan. En Gyðingar æptu: "Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum."

13 Þegar Pílatus heyrði þessi orð, leiddi hann Jesú út og settist í dómstólinn á stað þeim, sem nefnist Steinhlað, á hebresku Gabbata.

14 Þá var aðfangadagur páska, um hádegi. Hann sagði við Gyðinga: "Sjáið þar konung yðar!"

15 Þá æptu þeir: "Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!" Pílatus segir við þá: "Á ég að krossfesta konung yðar?" Æðstu prestarnir svöruðu: "Vér höfum engan konung nema keisarann."

16 Þá seldi hann þeim hann í hendur, að hann yrði krossfestur. Þeir tóku þá við Jesú.

17 Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.

18 Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið.

19 Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.

20 Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku.

21 Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: "Skrifaðu ekki ,konungur Gyðinga`, heldur að hann hafi sagt: ,Ég er konungur Gyðinga`."

22 Pílatus svaraði: "Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað."

23 Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr.

24 Þeir sögðu því hver við annan: "Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann." Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu hermennirnir.

25 En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena.

26 Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: "Kona, nú er hann sonur þinn."

27 Síðan sagði hann við lærisveininn: "Nú er hún móðir þín." Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

28 Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: "Mig þyrstir."

29 Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum.

30 Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: "Það er fullkomnað." Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

31 Nú var aðfangadagur, og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn, báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan, enda var mikil helgi þess hvíldardags.

32 Hermenn komu því og brutu fótleggi þeirra, sem með honum voru krossfestir, fyrst annars, svo hins.

33 Þegar þeir komu að Jesú og sáu, að hann var þegar dáinn, brutu þeir ekki fótleggi hans.

34 En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn.

35 Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt.

36 Þetta varð til þess, að ritningin rættist: "Ekkert bein hans skal brotið."

37 Og enn segir önnur ritning: "Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu."

38 Jósef frá Arímaþeu, sem var lærisveinn Jesú, en á laun af ótta við Gyðinga, bað síðan Pílatus að mega taka ofan líkama Jesú. Pílatus leyfði það. Hann kom þá og tók ofan líkama hans.

39 Þar kom líka Nikódemus, er fyrrum hafði komið til hans um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum.

40 Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar.

41 En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í.

42 Þar lögðu þeir Jesú, því það var aðfangadagur Gyðinga, og gröfin var nærri.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society