M’Cheyne Bible Reading Plan
34 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem.
2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri.
3 Á áttunda ríkisári sínu, er hann sjálfur var enn ungur að aldri, tók hann að leita Guðs Davíðs, forföður síns, og á tólfta ári tók hann að rýma burt úr Júda og Jerúsalem fórnarhæðum og asérum, skurðgoðum og líkneskjum.
4 Ölturu Baalanna voru rifin niður að honum ásjáandi, og sólsúlurnar, er á þeim voru, hjó hann sundur, og asérurnar og skurðgoðin og líkneskin braut hann sundur og muldi þau, og stráði duftinu á grafir þeirra, er höfðu fært þeim fórnir.
5 Og bein prestanna brenndi hann á ölturum þeirra, og hreinsaði svo Júda og Jerúsalem.
6 Og í borgum Manasse og Efraíms og Símeons og allt til Naftalí, allt um kring í eyðiborgum þeirra,
7 reif hann niður ölturun, mölvaði og muldi asérurnar og skurðgoðin, og hjó sundur sólsúlurnar í öllu Ísraelslandi. Síðan sneri hann heim aftur til Jerúsalem.
8 Á átjánda ríkisári hans, meðan hann var að hreinsa landið og musterið, sendi hann Safan Asaljason og Maaseja borgarstjóra og Jóak Jóahasson ríkisritara til þess að láta gjöra við musteri Drottins, Guðs síns.
9 Og er þeir komu til Hilkía æðsta prests, afhentu þeir fé það, er fært hafði verið musteri Guðs, það er levítarnir, þröskuldsverðirnir, höfðu safnað af Manasse, Efraím og öllum öðrum Ísraelsmönnum, og öllum Júda og Benjamín og Jerúsalembúum.
10 Fengu þeir það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón höfðu með musteri Drottins, en þeir fengu það í hendur verkamönnunum, er unnu að því í musteri Drottins að bæta skemmdir og gjöra við musterið.
11 Fengu þeir það í hendur trésmiðunum og byggingamönnunum til þess að kaupa fyrir höggna steina og viðu í tengibjálka, svo og til að fá viðu í hús þau, er Júdakonungar höfðu látið falla.
12 Unnu mennirnir að verkinu upp á æru og trú, en yfir þá voru settir til umsjónar þeir Jahat og Óbadía, levítar af Meraríniðjum, og Sakaría og Mesúllam af Kahatítaniðjum. Og levítarnir _ hver sá, er kunni á hljóðfæri _
13 voru settir yfir burðarmennina, og umsjónarmenn voru yfir öllum þeim, er nokkurt starf höfðu á hendi. Nokkrir af levítunum voru og ritarar og tilsjónarmenn og hliðverðir.
14 En er þeir reiddu fram féð, er borið var í musteri Drottins, fann Hilkía prestur lögmálsbók Drottins, er gefin var fyrir Móse.
15 Þá tók Hilkía til máls og mælti við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögmálsbókina í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina.
16 Fór þá Safan með bókina til konungs og skýrði honum jafnframt frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa gjört allt það, er þeim var falið á hendur.
17 Þeir hafa og afhent fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur umsjónarmönnunum og verkstjórunum."
18 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las í henni fyrir konungi.
19 En er konungur heyrði lögmálsorðin, reif hann klæði sín.
20 Og konungur bauð þeim Hilkía, Ahíkam Safanssyni, Abdón Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:
21 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir leifarnar af Ísrael og Júda um bókina, sem fundin er, því að mikil er heift Drottins, er hann hefir úthellt yfir oss, af því að feður vorir hafa eigi gefið gætur að boði Drottins með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í bók þessari."
22 Fór þá Hilkía með þeim, er konungur hafði til þess kvatt, til Huldu spákonu, konu Sallúms Tókhatssonar, Hasrasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana um þetta.
23 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:
24 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar þær formælingar, er ritaðar eru í bókinni, er lesin var fyrir Júdakonungi,
25 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, þess vegna úthellti ég reiði minni yfir þennan stað, og hún skal eigi slokkna.
26 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:
27 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú hefir auðmýkt þig fyrir Guði, er þú heyrðir orð hans gegn þessum stað og íbúum hans, og af því að þú auðmýktir þig fyrir mér og reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég bænheyrt þig, _ segir Drottinn.
28 Sjá, ég vil láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.
29 Þá sendi konungur og safnaði saman öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.
30 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og levítarnir og allur lýðurinn, bæði gamlir og ungir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.
31 Og konungur gekk á sinn stað og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, til þess að breyta þannig eftir orðum sáttmálans, þeim er rituð voru í þessari bók.
32 Og hann lét alla þá, er voru í Jerúsalem og Benjamín, gangast undir sáttmálann, og Jerúsalembúar breyttu samkvæmt sáttmála Guðs, Guðs feðra þeirra.
33 En Jósía afnam allar svívirðingar úr öllum héruðum Ísraelsmanna, og þröngvaði öllum þeim, er voru í Ísrael, til þess að þjóna Drottni Guði sínum. Meðan hann var á lífi, viku þeir eigi frá því að fylgja Drottni, Guði feðra sinna.
20 Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér.
2 Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár.
3 Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.
4 Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár.
5 En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan.
6 Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.
7 Þegar þúsund árin eru liðin, mun Satan verða leystur úr fangelsi sínu.
8 Og hann mun út ganga til að leiða þjóðirnar afvega, þær sem eru á fjórum skautum jarðarinnar, Góg og Magóg, og safna þeim saman til stríðs, og tala þeirra er sem sandur sjávarins.
9 Og þeir stigu upp á víðan völl jarðar og umkringdu herbúðir heilagra og borgina elskuðu. En eldur féll af himni ofan og eyddi þeim.
10 Og djöflinum, sem leiðir þá afvega, var kastað í díkið elds og brennisteins, þar sem bæði dýrið er og falsspámaðurinn. Og þeir munu kvaldir verða dag og nótt um aldir alda.
11 Og ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð og þeirra sá engan stað.
12 Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.
13 Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum.
14 Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.
15 Og ef einhver fannst ekki skráður í lífsins bók, var honum kastað í eldsdíkið.
2 Og nú út gengur þessi viðvörun til yðar, þér prestar:
2 Ef þér hlýðið ekki og látið yður ekki um það hugað að gefa nafni mínu dýrðina _ segir Drottinn allsherjar _, þá sendi ég yfir yður bölvunina og sný blessunum yðar í bölvun, já ég hefi þegar snúið þeim í bölvun, af því að þér látið yður ekki um það hugað.
3 Sjá, ég hegg af yður arminn og strái saur framan í yður, saurnum frá hátíðafórnunum, og varpa yður út til hans.
4 Og þér munuð viðurkenna, að ég hefi sent yður þessa viðvörun, til þess að sáttmáli minn við Leví mætti haldast _ segir Drottinn allsherjar.
5 Sáttmáli minn var við hann, líf og hamingju veitti ég honum, lotningarfullan ótta, svo að hann óttaðist mig og bæri mikla lotningu fyrir nafni mínu.
6 Sönn fræðsla var í munni hans og rangindi fundust ekki á vörum hans. Í friði og ráðvendni gekk hann með mér, og mörgum aftraði hann frá misgjörðum.
7 Því að varir prestsins eiga að varðveita þekking, og fræðslu leita menn af munni hans, því að hann er sendiboði Drottins allsherjar.
8 En þér hafið vikið af veginum og leitt marga í hrösun með fræðslu yðar, þér hafið spillt sáttmála Leví _ segir Drottinn allsherjar.
9 Fyrir því hefi ég og komið yður í fyrirlitning og óvirðing hjá gjörvöllum lýðnum, af því að þér gætið ekki minna vega og eruð hlutdrægir við fræðsluna.
10 Eigum vér ekki allir hinn sama föður? Hefir ekki einn Guð skapað oss? Hvers vegna breytum vér þá sviksamlega hver við annan og vanhelgum sáttmála feðra vorra?
11 Júda hefir gjörst trúrofi og svívirðingar viðgangast í Ísrael og í Jerúsalem, því að Júda hefir vanhelgað helgidóm Drottins, sem hann elskar, og gengið að eiga þær konur, sem trúa á útlenda guði.
12 Drottinn afmái fyrir þeim manni, er slíkt gjörir, kæranda og verjanda úr tjöldum Jakobs og þann er framber fórnargjafir fyrir Drottin allsherjar.
13 Í öðru lagi gjörið þér þetta: Þér hyljið altari Drottins með tárum, með gráti og andvörpunum, þar sem eigi getur framar komið til mála, að hann líti vingjarnlega á fórnirnar né taki á móti velþóknanlegum gjöfum af yðar hendi.
14 Þér segið: "Hvers vegna?" _ Af því að Drottinn var vottur að sáttmálsgjörðinni milli þín og konu æsku þinnar, er þú hefir nú brugðið trúnaði við, enda þótt hún væri förunautur þinn og eiginkona þín eftir gjörðu sáttmáli.
15 Hefir ekki einn og hinn sami gefið oss lífið og viðhaldið því? Og hvað heimtar sá hinn eini? Börn sem heyra Guði til. Gætið yðar því í huga yðar, og bregð eigi trúnaði við eiginkonu æsku þinnar.
16 Því að ég hata hjónaskilnað _ segir Drottinn, Ísraels Guð, _ og þann sem hylur klæði sín glæpum _ segir Drottinn allsherjar. Gætið yðar því í huga yðar og bregðið aldrei trúnaði.
17 Þér hafið mætt Drottin með orðum yðar og þér segið: "Með hverju mæðum vér hann?" Með því, að þér segið: "Sérhver sem illt gjörir, er góður í augum Drottins, og um slíka þykir honum vænt," eða: "Hvar er sá Guð, sem dæmir?"
19 Þegar Jesús hafði þetta mælt, fór hann út með lærisveinum sínum og yfir um lækinn Kedron. Þar var grasgarður, sem Jesús gekk inn í og lærisveinar hans.
2 Júdas, sem sveik hann, þekkti líka þennan stað, því Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman.
3 Júdas tók með sér flokk hermanna og verði frá æðstu prestum og faríseum. Þeir koma þar með blysum, lömpum og vopnum.
4 Jesús vissi allt, sem yfir hann mundi koma, gekk fram og sagði við þá: "Að hverjum leitið þér?"
5 Þeir svöruðu honum: "Að Jesú frá Nasaret." Hann segir við þá: "Ég er hann." En Júdas, sem sveik hann, stóð líka hjá þeim.
6 Þegar Jesús sagði við þá: "Ég er hann," hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar.
7 Þá spurði hann þá aftur: "Að hverjum leitið þér?" Þeir svöruðu: "Að Jesú frá Nasaret."
8 Jesús mælti: "Ég sagði yður, að ég væri hann. Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara."
9 Þannig rættist orð hans, er hann hafði mælt: "Engum glataði ég af þeim, sem þú gafst mér."
10 Símon Pétur hafði sverð, brá því og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. Þjónninn hét Malkus.
11 Þá sagði Jesús við Pétur: "Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?"
12 Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga tóku nú Jesú höndum og bundu hann
13 og færðu hann fyrst til Annasar. Hann var tengdafaðir Kaífasar, sem var æðsti prestur það ár.
14 En Kaífas var sá sem gefið hafði Gyðingum það ráð, að betra væri, að einn maður dæi fyrir lýðinn.
15 Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins.
16 En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem dyra gætti, og fór inn með Pétur.
17 Þernan við dyrnar sagði þá við Pétur: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?" Hann sagði: "Ekki er ég það."
18 Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld, því kalt var, og stóðu við hann og vermdu sig. Pétur stóð hjá þeim og ornaði sér.
19 Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans.
20 Jesús svaraði honum: "Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað.
21 Hví spyr þú mig? Spyrðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt."
22 Þegar Jesús sagði þetta, rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: "Svarar þú æðsta prestinum svona?"
23 Jesús svaraði honum: "Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?"
24 Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests.
25 En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Hann var þá spurður: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans?" Hann neitaði því og sagði: "Ekki er ég það."
26 Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess, sem Pétur sneið af eyrað: "Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?"
27 Aftur neitaði Pétur, og um leið gól hani.
28 Nú var Jesús fluttur frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Gyðingar fóru ekki sjálfir inn í höllina, svo að þeir saurguðust ekki, heldur mættu neyta páskamáltíðar.
29 Pílatus kom út til þeirra og sagði: "Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?"
30 Þeir svöruðu: "Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur."
31 Pílatus segir við þá: "Takið þér hann, og dæmið hann eftir yðar lögum." Gyðingar svöruðu: "Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi."
32 Þannig rættist orð Jesú, þegar hann gaf til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.
33 Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: "Ert þú konungur Gyðinga?"
34 Jesús svaraði: "Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?"
35 Pílatus svaraði: "Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?"
36 Jesús svaraði: "Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan."
37 Þá segir Pílatus við hann: "Þú ert þá konungur?" Jesús svaraði: "Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd."
38 Pílatus segir við hann: "Hvað er sannleikur?" Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: "Ég finn enga sök hjá honum.
39 Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum. Viljið þér nú, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?"
40 Þeir hrópuðu á móti: "Ekki hann, heldur Barabbas." En Barabbas var ræningi.
by Icelandic Bible Society