M’Cheyne Bible Reading Plan
33 Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem.
2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.
3 Hann reisti af nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði rífa látið, reisti Baölunum ölturu og lét gjöra asérur, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim.
4 Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: "Í Jerúsalem skal nafn mitt búa að eilífu!"
5 Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins.
6 Hann lét og sonu sína ganga gegnum eldinn í Hinnomssonardal, fór með spár og fjölkynngi og töfra og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt var í augum Drottins og egndi hann til reiði.
7 Hann setti skurðgoðið, er hann hafði gjöra látið, í musteri Guðs, er Guð hafði sagt um við Davíð og Salómon son hans: "Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu.
8 Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því og lögum og ákvæðum, er gefin voru fyrir Móse."
9 En Manasse leiddi Júda og Jerúsalembúa afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.
10 Og Drottinn talaði til Manasse og til lýðs hans, en þeir gáfu því engan gaum.
11 Þá lét Drottinn hershöfðingja Assýríukonungs ráðast að þeim; þeir tóku Manasse höndum með krókum, bundu hann eirfjötrum og fluttu hann til Babýlon.
12 En er hann var í nauðum staddur, reyndi hann að blíðka Drottin, Guð sinn, og lægði sig mjög fyrir Guði feðra sinna.
13 Og er hann bað hann, þá bænheyrði Drottinn hann. Hann heyrði grátbeiðni hans og lét hann hverfa heim aftur til Jerúsalem í ríki sitt. Komst þá Manasse að raun um, að Drottinn er Guð.
14 Eftir þetta reisti hann ytri múr fyrir Davíðsborg að vestanverðu við Gíhon í dalnum, og þangað að, er gengið er inn í Fiskhliðið, reisti hann í kringum Ófel, og gjörði hann mjög háan. Hann setti og herforingja í allar kastalaborgir í Júda.
15 Þá útrýmdi hann og útlendu guðunum og líkneskinu úr musteri Drottins, svo og öllum ölturunum, er hann hafði reisa látið á musterisfjalli Drottins og í Jerúsalem, og fleygði þeim út fyrir borgina.
16 En altari Drottins reisti hann við, og færði á því heillafórnir og þakkarfórnir, og Júdamönnum bauð hann að þjóna Drottni, Guði Ísraels.
17 En þó færði lýðurinn enn þá fórnir á hæðunum, en samt aðeins Drottni, Guði sínum.
18 Það sem meira er að segja um Manasse og bæn hans til Guðs hans, svo og orð sjáandanna, er töluðu til hans í nafni Drottins, Guðs Ísraels, það er ritað í Sögu Ísraelskonunga.
19 En um bæn hans og hvernig hann var bænheyrður, og um allar syndir hans og ótrúmennsku, svo og um staðina, þar sem hann reisti fórnarhæðir og setti asérur og líkneski, áður en hann lægði sig, um það er ritað í sögu sjáandanna.
20 Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í höll sinni. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann.
21 Amón hafði tvo um tvítugt, þá er hann varð konungur, og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem.
22 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans. Öllum skurðgoðunum, er Manasse faðir hans hafði gjöra látið, færði Amón margar fórnir og þjónaði þeim.
23 En hann lægði sig eigi fyrir Drottni, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans, heldur jók hann á sök sína.
24 Þjónar hans gjörðu samsæri í gegn honum, og drápu hann í höll hans.
25 En landslýðurinn drap alla mennina, er gjört höfðu samsæri gegn Amón konungi. Síðan tók landslýðurinn Jósía son hans til konungs eftir hann.
19 Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: "Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors.
2 Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna."
3 Og aftur var sagt: "Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda."
4 Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: "Amen, hallelúja!"
5 Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: "Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir."
6 Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: "Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.
7 Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.
8 Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra."
9 Og hann segir við mig: "Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins." Og hann segir við mig: "Þetta eru hin sönnu orð Guðs."
10 Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar."
11 Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.
12 Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur.
13 Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs.
14 Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni.
15 Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.
16 Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: "Konungur konunga og Drottinn drottna."
17 Og ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið: "Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs
18 til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra."
19 Og ég sá dýrið og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann, sem á hestinum sat, og við herlið hans.
20 Og dýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn, sem táknin gjörði í augsýn þess, en með þeim leiddi hann afvega þá, sem tekið höfðu við merki dýrsins, og þá, sem tilbeðið höfðu líkneski þess. Báðum þeim var kastað lifandi í eldsdíkið, sem logar af brennisteini.
21 Og hinir voru drepnir með sverði þess, er á hestinum sat, sverðinu, sem út gekk af munni hans, og allir fuglarnir söddust af hræjum þeirra.
1 Spádómur. Orð Drottins til Ísraels fyrir munn Malakí.
2 "Ég elska yður," segir Drottinn. Og ef þér spyrjið: "Með hverju hefir þú sýnt á oss kærleika þinn?" þá svarar Drottinn: "Var ekki Esaú bróðir Jakobs? En ég elskaði Jakob
3 og hafði óbeit á Esaú, svo að ég gjörði fjallbyggðir hans að auðn og fékk eyðimerkursjakölunum arfleifð hans til eignar."
4 Ef Edómítar segja: "Vér höfum að vísu orðið fyrir eyðingu, en vér munum byggja upp aftur rofin!" þá segir Drottinn allsherjar svo: "Byggi þeir, en ég mun rífa niður, svo að menn munu kalla þá Glæpaland og Lýðinn sem Drottinn er eilíflega reiður."
5 Þér munuð sjá það með eigin augum og þér munuð segja: "Mikill er Drottinn langt út fyrir landamæri Ísraels."
6 Sonurinn skal heiðra föður sinn og þrællinn húsbónda sinn. En sé ég nú faðir, hvar er þá heiðurinn sem mér ber, og sé ég húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber? _ segir Drottinn allsherjar við yður, þér prestar, sem óvirðið nafn mitt. Þér spyrjið: "Með hverju óvirðum vér nafn þitt?"
7 Þér berið fram óhreina fæðu á altari mitt. Og enn getið þér spurt: "Með hverju ósæmum vér þig?" þar sem þér þó segið: "Borð Drottins er lítils metandi!"
8 Og þegar þér færið fram blinda skepnu til fórnar, þá kallið þér það ekki saka, og þegar þér færið fram halta eða sjúka skepnu, þá kallið þér það ekki saka. Fær landstjóra þínum það, vit hvort honum geðjast þá vel að þér eða hvort hann tekur þér vel! _ segir Drottinn allsherjar.
9 Og nú, blíðkið Guð, til þess að hann sýni oss líknsemi. Yður er um þetta að kenna. Getur hann þá tekið nokkrum yðar vel? _ segir Drottinn allsherjar.
10 Sæmra væri, að einhver yðar lokaði musterisdyrunum, svo að þér tendruðuð ekki eld til ónýtis á altari mínu. Ég hefi enga velþóknun á yður _ segir Drottinn allsherjar, og ég girnist enga fórnargjöf af yðar hendi.
11 Frá upprás sólar allt til niðurgöngu hennar er nafn mitt mikið meðal þjóðanna, og alls staðar er nafni mínu fórnað reykelsi og hreinni matfórn, því að nafn mitt er mikið meðal þjóðanna _ segir Drottinn allsherjar.
12 En þér vanhelgið það, með því að þér segið: "Borð Drottins er óhreint, og það sem af því fellur oss til fæðslu, er einskis vert."
13 Og þér segið: "Sjá, hvílík fyrirhöfn!" og fyrirlítið það, _ segir Drottinn allsherjar _, og þér færið fram það sem rænt er og það sem halt er og það sem sjúkt er og færið það í fórn. Ætti ég að girnast slíkt af yðar hendi? _ segir Drottinn.
14 Bölvaðir veri þeir svikarar, er eiga hvatan fénað í hjörð sinni og gjöra heit, en fórna síðan Drottni gölluðu berfé! Því að ég er mikill konungur, _ segir Drottinn allsherjar _, og menn óttast nafn mitt meðal heiðingjanna.
18 Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: "Faðir, stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan.
2 Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum, að hann gefi eilíft líf öllum þeim, sem þú hefur gefið honum.
3 En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.
4 Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.
5 Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.
6 Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir, og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð.
7 Þeir vita nú, að allt, sem þú hefur gefið mér, er frá þér,
8 því ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn, og trúa því, að þú hafir sent mig.
9 Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir,
10 og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn.
11 Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við.
12 Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist.
13 Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn.
14 Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.
15 Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.
16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.
17 Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.
18 Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn.
19 Ég helga mig fyrir þá, svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.
20 Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra,
21 að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.
22 Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt,
23 ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.
24 Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims.
25 Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig.
26 Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim."
by Icelandic Bible Society