Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 32

32 Eftir þessa atburði og eftir að hann hafði sýnt trúmennsku þessa, kom Sanheríb Assýríukonungur. Hann réðst inn í Júda, settist um víggirtar borgir og hugðist ná þeim á sitt vald.

Og er Hiskía varð þess vís, að Sanheríb kæmi og ætlaði sér að ráða á Jerúsalem,

þá réðst hann um við höfuðsmenn sína og kappa að stemma vatnslindirnar utanborgar, og veittu þeir honum stuðning.

Kom þá saman fjöldi fólks og stemmdu allar lindir og lækinn, er rann um mitt landið, og sögðu: "Hvers vegna ættu Assýríukonungar að finna gnóttir vatns, er þeir koma?"

Hann herti því upp hugann, gjörði alls staðar við múrinn, þar sem hann var brotinn niður, gekk upp á turnana og ytri múrinn úti fyrir, víggirti Milló í Davíðsborg og lét gjöra afar mikið af skotvopnum og skjöldum.

Síðan skipaði hann herforingja yfir lýðinn og stefndi þeim til sín á torginu við borgarhliðið, talaði vinsamlega til þeirra og mælti:

"Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi né hræðist Assýríukonung og allan þann manngrúa, sem með honum er, því að sá er meiri, sem með oss er, en með honum.

Því að hann styður mannlegur máttur, en með oss er Drottinn, Guð vor, til þess að hjálpa oss og heyja orustur vorar." Og lýðurinn treysti á orð Hiskía Júdakonungs.

Eftir þetta sendi Sanheríb Assýríukonungur þjóna sína til Jerúsalem _ en sjálfur var hann hjá Lakís og allt lið hans hjá honum _ á fund Hiskía Júdakonungs og allra Júdamanna, þeirra er voru í Jerúsalem, með svolátandi orðsending:

10 "Svo segir Sanheríb Assýríukonungur: Á hvað treystið þér, er þér sitjið innikrepptir í Jerúsalem?

11 Vissulega ginnir Hiskía yður til þess að láta yður deyja úr hungri og þorsta, er hann segir: ,Drottinn, Guð vor, mun frelsa oss af hendi Assýríukonungs!`

12 Hefir þá ekki Hiskía þessi afnumið fórnarhæðir hans og ölturu, er hann bauð Júdamönnum og Jerúsalembúum á þessa leið: ,Þér eigið að falla fram fyrir einu altari, og á því einu megið þér brenna reykelsi?`

13 Vitið þér eigi hvað ég hefi gjört og feður mínir við allar þjóðir í löndunum? Gátu þjóðguðir landanna frelsað lönd þeirra af hendi minni?

14 Hver er sá af öllum guðum þessara þjóða, sem feður mínir hafa gjöreytt, er hafi getað frelsað lýð sinn af hendi minni, svo að yðar Guð geti frelsað yður af hendi minni?

15 Látið því eigi Hiskía tæla yður né ginna á slíkan hátt. Trúið honum eigi! Því að eigi hefir neinn guð nokkurrar þjóðar eða ríkis getað frelsað lýð sinn af hendi minni eða feðra minna. Hve miklu síður mun þá yðar Guð frelsa yður af hendi minni?"

16 Og enn fleira töluðu þjónar hans gegn Drottni Guði og gegn Hiskía þjóni hans.

17 Hann ritaði og bréf til þess að smána Drottin, Guð Ísraels, og tala gegn honum, á þessa leið: "Eins og þjóðguðir landanna eigi frelsuðu þjóðir sínar af hendi minni, svo mun og Guð Hiskía eigi frelsa sinn lýð af hendi minni."

18 Og þeir kölluðu með hárri röddu á Júda tungu til lýðsins í Jerúsalem, er var á múrunum, til þess að gjöra þá hrædda og felmtsfulla, svo að þeir gætu náð borginni,

19 og töluðu um Guð Jerúsalemborgar eins og um guði heiðnu þjóðanna, sem eru handaverk manna.

20 Þá er Hiskía konungur og Jesaja spámaður Amozson báðust fyrir út af þessu, og hrópuðu til himins,

21 þá sendi Drottinn engil, og drap hann alla kappa, höfuðsmenn og herforingja í herbúðum Assýríukonungs, svo að hann sneri aftur með sneypu heim í land sitt. En er hann kom í hof guðs síns, þá felldu hans eigin synir hann þar með sverði.

22 Þannig frelsaði Drottinn Hiskía og Jerúsalembúa af hendi Sanheríbs Assýríukonungs og af hendi allra annarra, og veitti þeim frið allt um kring.

23 Og margir færðu Drottni gjafir til Jerúsalem, og Hiskía Júdakonungi gersemar, og eftir þetta var hann frægur talinn meðal allra þjóða.

24 Um þessar mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá bað hann til Drottins, og talaði hann til hans og gaf honum tákn.

25 En Hiskía endurgalt eigi velgjörð þá, er honum var sýnd, heldur varð drembilátur, og kom því reiði yfir hann og yfir Júda og Jerúsalem.

26 Þá lægði Hiskía dramb sitt, bæði hann og Jerúsalembúar, og kom því reiði Drottins eigi yfir þá meðan Hiskía lifði.

27 Og Hiskía bjó við afar mikinn auð og sæmd. Hann lét gjöra féhirslur handa sér fyrir silfur og gull og dýra steina, svo og fyrir kryddjurtir, skjöldu og alls konar verðmæta muni,

28 forðabúr fyrir korn-, aldinlagar- og olíu-afurðirnar, svo og hús fyrir alls konar kvikfénað og fjárborgir fyrir hjarðirnar.

29 Og hann lét gjöra borgir handa sér og aflaði sér fjölda hjarða af sauðum og nautum, því að Guð veitti honum afar miklar eignir.

30 Hiskía þessi stemmdi og efri uppsprettur Gíhonlindar, og veitti vatninu niður eftir að Davíðsborg vestanverðri, og Hiskía varð auðnumaður í öllu því, er hann tók sér fyrir hendur.

31 Þess vegna gaf Guð hann í hendur sendimanna Babelhöfðingjanna, er sendir voru til hans til þess að frétta um táknið, er orðið hafði í landinu, aðeins til þess að reyna hann, svo að hann mætti fá að vita um allt það, er honum bjó í huga.

32 Það sem meira er að segja um Hiskía og góðverk hans, það er ritað í vitrun Jesaja Amozsonar spámanns, í bók Júda- og Ísraelskonunga.

33 Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn þar sem gengið er upp að gröfum Davíðsniðja, og allur Júda og Jerúsalembúar sýndu honum sæmd, er hann andaðist. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.

Opinberun Jóhannesar 18

18 Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald og jörðin ljómaði af dýrð hans.

Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.

Því að hún hefur byrlað öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns, og konungar jarðarinnar drýgðu saurlifnað með henni og kaupmenn jarðarinnar auðguðust af gnóttum munaðar hennar."

Og ég heyrði aðra rödd af himni, sem sagði: "Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.

Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.

Gjaldið henni eins og hún hefur goldið og tvígjaldið henni eftir verkum hennar, byrlið henni tvöfalt í bikarinn, sem hún hefur byrlað.

Veitið henni eins mikla kvöl og sorg og hennar stærilæti og óhóf hefur verið. Hún segir í hjarta sínu: ,Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.`

Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er Drottinn Guð, sem hana dæmdi."

Og konungar jarðarinnar, sem með henni drýgðu saurlifnað og lifðu í munaði, munu gráta og kveina yfir henni er þeir sjá reykinn af brennu hennar.

10 Af ótta fyrir kvöl hennar munu þeir standa langt frá og segja: "Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn."

11 Og kaupmenn jarðarinnar gráta og harma yfir henni, því að enginn kaupir nú framar vörur þeirra,

12 farma af gulli og silfri, gimsteinum og perlum, dýru líni og purpura, silki og skarlati og alls konar ilmvið og alls konar muni af fílabeini og alls konar muni af hinum dýrasta viði og af eiri og járni og marmara,

13 og kanelbörk og balsam, ilmjurtir og smyrsl, reykelsi, vín og olíu og fínt mjöl, og hveiti og eyki og sauði og hesta og vagna og man og mannasálir.

14 Og ávöxturinn, sem sála þín girnist, hefur brugðist þér, öll sæld og glys þér horfið og enginn mun framar örmul af því finna.

15 Seljendur þessara hluta, sem auðgast hafa á henni, munu standa álengdar af ótta yfir kvöl hennar, grátandi og harmandi

16 og segja: "Vei, vei, borgin mikla, sem klæddist dýru líni, purpura og skarlati og var gulli roðin og gimsteinum og perlum.

17 Á einni stundu eyddist allur þessi auður." Og allir skipstjórar, allir farmenn og hásetar og allir þeir, sem atvinnu reka á sjónum, stóðu álengdar

18 og hrópuðu, er þeir sáu reykinn af brennu hennar, og sögðu: "Hvaða borg jafnast við borgina miklu?"

19 Og þeir jusu mold yfir höfuð sér og hrópuðu grátandi og harmandi: "Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir, er skip eiga á sjónum, auðguðust á vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð."

20 Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu og þér postular og spámenn, því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni.

21 Og einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: "Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.

22 Og hörpusláttur og sönglist, pípuhljómur og lúðurþytur skal ekki framar heyrast í þér og engir iðnaðarmenn og iðnir skulu framar í þér finnast og kvarnarhljóð skal eigi framar í þér heyrast.

23 Lampaljós skal eigi framar í þér lýsa og raust brúðguma og brúðar skal eigi framar heyrast í þér. Kaupmenn þínir voru höfðingjar jarðarinnar, af því að allar þjóðir leiddust í villu af töfrum þínum.

24 Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni."

Sakaría 14

14 Sjá, sá dagur kemur frá Drottni, að herfangi þínu verður skipt mitt í sjálfri þér.

Og ég mun safna öllum þjóðunum til hernaðar móti Jerúsalem, og borgin mun verða tekin, húsin rænd og konurnar smánaðar. Helmingur borgarmanna mun verða herleiddur, en hinn lýðurinn mun ekki upprættur verða úr borginni.

Og Drottinn mun út fara og berjast við þessar þjóðir, eins og þegar hann barðist forðum á orustudeginum.

Fætur hans munu á þeim degi standa á Olíufjallinu, sem er austanvert við Jerúsalem, og Olíufjallið mun klofna um þvert frá austri til vesturs, og þar mun verða geysivíður dalur, því að annar hluti fjallsins mun undan síga til norðurs, en hinn til suðurs.

En þér munuð flýja í fjalldal minn, því að fjalldalurinn nær til Asal. Og þér munuð flýja, eins og þér flýðuð undan landskjálftanum á dögum Ússía Júdakonungs. En Drottinn, Guð minn, mun koma og allir heilagir með honum.

Á þeim degi mun hvorki verða hiti, kuldi né frost,

og það mun verða óslitinn dagur _ hann er Drottni kunnur _ hvorki dagur né nótt, og jafnvel um kveldtíma mun vera bjart.

Á þeim degi munu lifandi vötn út fljóta frá Jerúsalem, og mun annar helmingur þeirra falla í austurhafið, en hinn helmingurinn í vesturhafið. Skal það verða bæði sumar og vetur.

Drottinn mun þá vera konungur yfir öllu landinu. Á þeim degi mun Drottinn vera einn og nafn hans eitt.

10 Allt landið frá Geba til Rimmon fyrir sunnan Jerúsalem mun verða að einni sléttu, en hún mun standa háreist og óhögguð á stöðvum sínum, frá Benjamínshliði þangað að er fyrra hliðið var, allt að hornhliðinu, og frá Hananelturni til konungsvínþrónna.

11 Menn munu búa í henni, og bannfæring skal eigi framar til vera, og Jerúsalem skal óhult standa.

12 Og þetta mun verða plágan, sem Drottinn mun láta ganga yfir allar þær þjóðir, sem fóru herför gegn Jerúsalem: Hann mun láta hold þeirra upp þorna, meðan þeir enn standa á fótum, augu þeirra munu hjaðna í augnatóttunum og tungan visna í munninum.

13 Á þeim degi mun mikill felmtur frá Drottni koma yfir þá, og þeir munu þrífa hver í höndina á öðrum og hver höndin vera uppi á móti annarri.

14 Jafnvel Júda mun berjast gegn Jerúsalem. Þá mun auði allra þjóðanna, sem umhverfis eru, safnað verða saman: gulli, silfri og klæðum hrönnum saman.

15 Og alveg sama plágan mun koma yfir hesta, múla, úlfalda, asna og yfir allar þær skepnur, sem verða munu í þeim herbúðum.

16 En allir þeir, sem eftir verða af öllum þeim þjóðum, sem farið hafa móti Jerúsalem, munu á hverju ári fara upp þangað til þess að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, og til að halda laufskálahátíðina.

17 En þeir menn af kynkvíslum jarðarinnar, sem ekki fara upp til Jerúsalem til þess að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, yfir þá mun engin regnskúr koma.

18 Og ef kynkvísl Egyptalands fer eigi upp þangað og kemur ekki, þá mun sama plágan koma yfir þá sem Drottinn lætur koma yfir þær þjóðir, er eigi fara upp þangað til að halda laufskálahátíðina.

19 Þetta mun verða hegning Egypta og hegning allra þeirra þjóða, sem eigi fara upp þangað, til þess að halda laufskálahátíðina.

20 Á þeim degi skal standa á bjöllum hestanna: "Helgaður Drottni," og katlarnir í húsi Drottins munu verða eins stórir og fórnarskálarnar fyrir altarinu.

Jóhannesarguðspjall 17

17 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.

Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.

Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.

Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.

En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`

En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.

En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.

Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _

syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,

10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,

11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.

12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.

13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.

14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.

15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."

17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,` og: ,Ég fer til föðurins`?"

18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."

19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?

20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.

22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.

23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.

24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.

26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,

27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.

28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins."

29 Lærisveinar hans sögðu: "Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking.

30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði."

31 Jesús svaraði þeim: "Trúið þér nú?

32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.

33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society