Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 31

31 Þegar öllu þessu var lokið, fóru allir Ísraelsmenn, er þar voru viðstaddir, til Júda-borga, brutu sundur merkissteinana, hjuggu sundur asérurnar og rifu niður fórnarhæðirnar og ölturun í öllum Júda, Benjamín, Efraím og Manasse, uns þeim var gjöreytt. Fóru síðan allir Ísraelsmenn aftur til borga sinna, hver til síns óðals.

Hiskía setti presta- og levítaflokkana, eftir flokkaskipun þeirra _ hvern eftir sinni presta- eða levíta-þjónustu við brennifórnir eða heillafórnir _ til þess að þjóna og syngja lof og þakkargjörð í herbúðahliðum Drottins.

Og skerfur sá, er konungur lagði til af eigum sínum, gekk til brennifórnanna, til brennifórnanna kvelds og morgna, svo og til brennifórnanna á hvíldardögunum, tunglkomudögunum og löghátíðunum, samkvæmt því sem ritað er í lögmáli Drottins.

Og hann bauð lýðnum, Jerúsalembúum, að gefa prestunum og levítunum þeirra skerf, svo að þeir mættu halda fast við lögmál Drottins.

Og er þetta boð barst út, reiddu Ísraelsmenn fram ríkulega frumgróða af korni, aldinlegi, olíu, hunangi og öllum jarðargróða, og færðu tíundir af öllu.

En Ísraelsmenn og Júdamenn, er bjuggu í Júdaborgum, þeir færðu og tíundir af nautum og sauðum og tíundir af helgigjöfunum, er helgaðar voru Drottni, Guði þeirra, og lögðu bing við bing.

Tóku þeir að hrúga upp bingjunum í þriðja mánuði og luku við það í sjöunda mánuði.

Kom þá Hiskía og höfuðsmennirnir, litu á bingina og lofuðu Drottin og lýð hans Ísrael.

Og er Hiskía spurði prestana og levítana um bingina,

10 þá svaraði honum Asarja, höfuðprestur af ætt Sadóks, og sagði: "Frá því er byrjað var á að færa gjafir í musteri Drottins, höfum vér etið oss sadda og haft þó afar mikið afgangs, því að Drottinn hefir blessað lýð sinn, svo að vér höfum þessi kynstur afgangs."

11 Þá bauð Hiskía, að gjöra skyldi klefa í musteri Drottins, og er svo var gjört,

12 færðu menn þangað ráðvandlega gjafirnar og tíundirnar og helgigjafirnar. Var Kananja levíti umsjónarmaður yfir þeim, og Símeí bróðir hans næstur honum,

13 en Jehíel, Asasja, Nahat, Asahel, Jerímót, Jósabad, Elíel, Jismakja, Mahat og Benaja voru skipaðir Kananja og Símeí bróður hans til aðstoðar við umsjónina, eftir boði Hiskía konungs og Asarja, höfuðsmanns yfir musteri Guðs.

14 Og Kóre Jimnason levíti, hliðvörður að austanverðu, hafði umsjón með sjálfviljagjöfunum, er færðar voru Guði, til þess að afhenda gjafir Drottins og hinar háhelgu gjafir.

15 En undir honum stóðu Eden, Minjamín, Jesúa, Semaja, Amarja og Sekanja, og skyldu þeir með samviskusemi skipta með frændum sínum í prestaborgunum, bæði eldri og yngri, eftir flokkum þeirra,

16 auk þeirra af karlkyni, er skráðir voru í ættartölur, þrevetrum og þaðan af eldri, öllum þeim, er komu í musteri Drottins, svo sem á þurfti að halda dag hvern, til þess að rækja störf sín eftir flokkum samkvæmt þjónustu sinni.

17 Og prestarnir voru skráðir í ættartölur eftir ættum, svo og levítarnir, tvítugir og þaðan af eldri, samkvæmt þjónustu þeirra og flokkaskipun.

18 Voru þeir skráðir í ættartölur ásamt börnum þeirra, konum, sonum og dætrum úr allri stéttinni, því að hinum helgu hlutum átti að skipta ráðvandlega.

19 Auk þess höfðu prestarnir, niðjar Arons, menn á lendum þeim, er voru á beitilöndunum, er lágu undir borgir þeirra, í sérhverri borg _ menn er skráðir voru með nafni _ og skyldu þeir fá öllum karlmönnum af prestunum og öllum levítunum, er skráðir voru í ættartölur, sinn skerf.

20 Svo gjörði Hiskía í öllum Júda, og hann gjörði það, sem gott var og rétt og ráðvandlegt fyrir Drottni, Guði hans.

21 Og í hverju því verki, er hann tók sér fyrir hendur viðvíkjandi þjónustunni við musteri Guðs, og lögmálinu og boðinu um að leita Guðs síns, breytti hann af heilum hug og varð auðnumaður.

Opinberun Jóhannesar 17

17 Og einn af englunum sjö, sem halda á skálunum sjö, kom til mín og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér dóminn yfir skækjunni miklu, sem er við vötnin mörgu.

Konungar jarðarinnar hafa drýgt saurlifnað með henni, og þeir, sem á jörðinni búa, hafa orðið drukknir af saurlifnaðar víni hennar."

Og hann leiddi mig burt í anda á eyðimörk. Og ég sá konu sitja á skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum, og hafði það sjö höfuð og tíu horn.

Og konan var skrýdd purpura og skarlati, og var búin gulli og gimsteinum og perlum. Hún hafði í hendi sér gullbikar, fullan viðurstyggðar, og var það óhreinleikur saurlifnaðar hennar.

Og á enni hennar var ritað nafn, sem er leyndardómur: Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.

Og ég sá að konan var drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta. Og ég undraðist stórlega, er ég leit hana.

Og engillinn sagði við mig: "Hví ertu forviða? Ég mun segja þér leyndardóm konunnar og dýrsins, sem hana ber, þess er hefur höfuðin sjö og hornin tíu:

Dýrið, sem þú sást, var, en er ekki, og það mun stíga upp frá undirdjúpinu og fara til glötunar. Og þeir, sem á jörðu búa, þeir, sem eiga ekki nöfn sín skrifuð í lífsins bók frá grundvöllun veraldar, munu undrast, er þeir sjá dýrið sem var og er ekki og kemur aftur.

Hér reynir á skilning og speki. Höfuðin sjö eru sjö fjöll, sem konan situr á. Það eru líka sjö konungar.

10 Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt.

11 Og dýrið, sem var, en er ekki, er einmitt hinn áttundi, og er af þeim sjö, og fer til glötunar.

12 Og hornin tíu, sem þú sást, eru tíu konungar, sem enn hafa eigi tekið konungdóm, heldur fá vald sem konungar eina stund ásamt dýrinu.

13 Þessir hafa allir eitt ráð, og máttinn og vald sitt gefa þeir dýrinu.

14 Þessir munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá, _ því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga."

15 Og hann segir við mig: "Vötnin, sem þú sást, þar sem skækjan situr, eru lýðir og fólk, þjóðir og tungur.

16 Og hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi,

17 því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn og vera samráða og gefa ríki þeirra dýrinu, allt til þess er orð Guðs koma fram.

18 Og konan, sem þú sást, er borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar."

Sakaría 13:2-9

Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ mun ég afmá nöfn skurðgoðanna úr landinu, svo að þeirra skal eigi framar minnst verða, og sömuleiðis vil ég reka burt úr landinu spámennina og óhreinleikans anda.

En ef nokkur kemur enn fram sem spámaður, þá munu faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, segja við hann: "Þú skalt eigi lífi halda, því að þú hefir talað lygi í nafni Drottins." Og faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, munu leggja hann í gegn, þá er hann kemur fram sem spámaður.

Á þeim degi munu allir spámenn skammast sín fyrir sýnir sínar, þá er þeir eru að spá, og þeir skulu eigi klæðast loðfeldum til þess að blekkja aðra,

heldur mun hver þeirra segja: "Ég er enginn spámaður, ég er akurkarl, því á akuryrkju hefi ég lagt stund frá barnæsku."

Og segi einhver við hann: "Hvaða ör eru þetta á brjósti þínu?" þá mun hann svara: "Það er eftir högg, sem ég fékk í húsi ástvina minna."

Hef þig á loft, sverð, gegn hirði mínum og gegn manninum, sem mér er svo nákominn! _ segir Drottinn allsherjar. Slá þú hirðinn, þá mun hjörðin tvístrast, og ég mun snúa hendi minni til hinna smáu.

Og svo skal fara í gjörvöllu landinu _ segir Drottinn _ að tveir hlutir landsfólksins skulu upprættir verða og gefa upp öndina, en þriðjungur þess eftir verða.

En þennan þriðjung læt ég í eld og bræði þá, eins og silfur er brætt, og hreinsa þá eins og gull er hreinsað. Hann mun ákalla nafn mitt, og ég mun bænheyra hann og ég mun segja: "Þetta er minn lýður!" og hann mun segja: "Drottinn, Guð minn!"

Jóhannesarguðspjall 16

16  Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.

Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.

Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.

Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.

En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`

En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.

En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.

Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _

syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,

10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,

11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.

12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.

13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.

14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.

15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."

17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: 'Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,' og: 'Ég fer til föðurins'?"

18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."

19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?

20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.

22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.

23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.

24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.

26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,

27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.

28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins."

29 Lærisveinar hans sögðu: "Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking.

30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði."

31 Jesús svaraði þeim: "Trúið þér nú?

32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.

33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society