M’Cheyne Bible Reading Plan
30 Síðan sendi Hiskía menn til alls Ísraels og Júda og ritaði einnig bréf til Efraíms og Manasse um að koma til musteris Drottins í Jerúsalem til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska.
2 Réð konungur það af og höfuðsmenn hans og allur söfnuðurinn í Jerúsalem, að halda páska í öðrum mánuðinum.
3 Því að um þetta leyti gátu þeir eigi haldið þá, sakir þess að eigi höfðu nægilega margir prestar helgað sig og lýðnum var eigi enn stefnt saman til Jerúsalem.
4 Leist konungi og söfnuðinum öllum þetta rétt,
5 og kváðu því svo á, að boða skyldi um allan Ísrael frá Beerseba til Dan, að menn skyldu koma til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska í Jerúsalem, því að þeir höfðu eigi haldið þá eins fjölmennir og fyrir var mælt.
6 Þá fóru hraðboðarnir með bréf frá konungi og höfuðsmönnum hans um allan Ísrael og Júda, og mæltu svo eftir boði konungs: "Þér Ísraelsmenn! Snúið aftur til Drottins, Guðs Abrahams, Ísaks og Ísraels, til þess að hann snúi sér að leifunum, er komist hafa undan af yður úr hendi Assýríukonungs.
7 Verið eigi sem feður yðar og frændur, er sýndu ótrúmennsku Drottni, Guði feðra sinna, svo að hann ofurseldi þá eyðileggingunni, svo sem þér sjáið.
8 Þverskallist því eigi svo sem feður yðar, réttið Drottni höndina og komið til helgidóms hans, er hann hefir helgað að eilífu, og þjónið Drottni, Guði yðar, svo að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá yður.
9 Því að ef þér snúið yður til Drottins, þá munu bræður yðar og synir finna miskunn hjá þeim, er hafa flutt þá burt hernumda, svo að þeir megi hverfa heim aftur til þessa lands. Því að náðugur og miskunnsamur er Drottinn, Guð yðar, og hann mun eigi snúa augliti sínu frá yður, ef þér snúið yður aftur til hans."
10 Og hraðboðarnir fóru úr einni borginni í aðra í Efraím- og Manasselandi og allt til Sebúlons, en menn hlógu að þeim og gjörðu gys að þeim.
11 Þó lægðu sig nokkrir menn af Asser, Manasse og Sebúlon, og komu til Jerúsalem.
12 Einnig í Júda réð hönd Guðs, svo að hann gaf þeim eindrægni til þess að fylgja boði því, er konungur og höfuðsmennirnir höfðu látið út ganga að boði Drottins.
13 Síðan safnaðist fjöldi fólks saman í Jerúsalem til þess að halda hátíð hinna ósýrðu brauða í öðrum mánuði. Var það afar mikill söfnuður.
14 Hófust þeir þá handa og afnámu ölturun, er voru í Jerúsalem, svo afnámu þeir og öll reykelsisölturun og fleygðu í Kídronlæk.
15 Síðan slátruðu þeir páskalambinu á fjórtánda degi hins annars mánaðar, og prestarnir og levítarnir blygðuðust sín og færðu brennifórnir í musteri Drottins.
16 Og þeir gengu fram á sinn ákveðna stað, eins og þeim var fyrir sett samkvæmt lögmáli guðsmannsins Móse. Stökktu prestarnir blóðinu, er þeir höfðu tekið við því hjá levítunum.
17 Því að margir voru þeir í söfnuðinum, er eigi höfðu helgað sig, en levítarnir sáu um slátrun á páskalömbunum fyrir alla þá, er eigi voru hreinir, til þess að helga þau Drottni.
18 Því að fjöldi lýðsins, margir úr Efraím, Manasse, Íssakar og Sebúlon höfðu eigi hreinsað sig, og neyttu eigi páskalambsins á þann hátt, sem fyrir er mælt, en Hiskía bað fyrir þeim og sagði: "Drottinn, sem er góður, fyrirgefi
19 hverjum er leggur hug á að leita Guðs, Drottins, Guðs feðra sinna, enda þótt hann eigi sé svo hreinn sem sæmir helgidóminum."
20 Og Drottinn bænheyrði Hiskía og þyrmdi lýðnum.
21 Svo héldu þá Ísraelsmenn, þeir er voru í Jerúsalem, hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með miklum fögnuði, og prestarnir og levítarnir lofuðu Drottin dag eftir dag af öllum mætti.
22 Og Hiskía talaði vinsamlega við alla levítana, er sýndu góðan skilning á þjónustu Drottins. Átu þeir síðan hátíðarfórnina í sjö daga og slátruðu heillafórnum og lofuðu Drottin, Guð feðra sinna.
23 Og allur söfnuðurinn réð það af að halda hátíð aðra sjö daga, og héldu þeir svo fagnaðarhátíð í sjö daga.
24 Því að Hiskía Júdakonungur hafði gefið söfnuðinum þúsund naut og sjö þúsund sauði, og höfuðsmennirnir höfðu gefið söfnuðinum þúsund naut og tíu þúsund sauði. Og fjöldi presta helgaði sig.
25 Svo fagnaði þá allur Júdasöfnuður og prestarnir og levítarnir og allur söfnuður þeirra, er komnir voru úr Ísrael, og útlendingarnir, er komnir voru úr Ísraelslandi, og þeir er bjuggu í Júda.
26 Og mikill fögnuður var í Jerúsalem, því að síðan á dögum Salómons, sonar Davíðs Ísraelskonungs, hafði slíkt eigi borið við í Jerúsalem.
27 Og levítaprestarnir stóðu upp og blessuðu lýðinn, og hróp þeirra var heyrt og bæn þeirra komst til hins heilaga bústaðar hans, til himins.
16 Og ég heyrði raust mikla frá musterinu segja við englana sjö: "Farið og hellið úr þeim sjö skálum Guðs reiði yfir jörðina."
2 Og hinn fyrsti fór og hellti úr sinni skál á jörðina. Og vond og illkynjuð kaun komu á mennina, sem höfðu merki dýrsins og tilbáðu líkneski þess.
3 Og hinn annar hellti úr sinni skál í hafið, og það varð að blóði eins og blóð úr dauðum manni, og sérhver lifandi sál dó, sú er í hafinu var.
4 Og hinn þriðji hellti úr sinni skál í fljótin og uppsprettur vatnanna og það varð að blóði.
5 Og ég heyrði engil vatnanna segja: "Réttlátur ert þú, að þú hefur dæmt þannig, þú sem ert og þú sem varst, þú hinn heilagi.
6 Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna, og því hefur þú gefið þeim blóð að drekka. Maklegir eru þeir þess."
7 Og ég heyrði altarið segja: "Já, Drottinn Guð, þú alvaldi, sannir og réttlátir eru dómar þínir."
8 Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina. Og sólinni var gefið vald til að brenna mennina í eldi.
9 Og mennirnir stiknuðu í ofurhita og lastmæltu nafni Guðs, sem valdið hefur yfir plágum þessum. Og ekki gjörðu þeir iðrun, svo að þeir gæfu honum dýrðina.
10 Og hinn fimmti hellti úr sinni skál yfir hásæti dýrsins. Og ríki þess myrkvaðist, og menn bitu í tungur sínar af kvöl.
11 Og menn lastmæltu Guði himinsins fyrir kvalirnar og fyrir kaun sín og eigi gjörðu þeir iðrun og létu af verkum sínum.
12 Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir fljótið mikla, Efrat. Og vatnið í því þornaði upp, svo að vegur yrði búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri.
13 Og ég sá koma út af munni drekans og munni dýrsins og munni falsspámannsins þrjá óhreina anda, sem froskar væru,
14 því að þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.
15 "Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans."
16 Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.
17 Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið og raust mikil kom út úr musterinu, frá hásætinu og sagði: "Það er fram komið."
18 Og eldingar komu og brestir og þrumur og mikill landskjálfti, svo að slíkur hefur eigi komið frá því menn urðu til á jörðunni. Svo mikill var sá jarðskjálfti.
19 Og borgin mikla fór í þrjá hluta, og borgir þjóðanna hrundu. Og Guð gleymdi ekki hinni miklu Babýlon og gaf henni vínbikar heiftarreiði sinnar.
20 Og allar eyjar hurfu og fjöllin voru ekki lengur til.
21 Og stór högl, vættarþung, féllu niður af himni yfir mennina. Og mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna, því að sú plága var mikil.
12 Spádómur. Orð Drottins um Ísrael, guðmæli Drottins, sem útþandi himininn, grundvallaði jörðina og myndaði andann í brjósti mannsins:
2 Sjá, ég gjöri Jerúsalem að vímuskál fyrir allar þjóðirnar, sem umhverfis hana eru. Jafnvel Júda mun vera með í umsátinni um Jerúsalem.
3 Á þeim degi mun ég gjöra Jerúsalem að aflraunasteini fyrir allar þjóðir. Hver sá, er hefur hann upp, mun hrufla sig til blóðs, og allar þjóðir jarðarinnar munu safnast gegn henni.
4 Á þeim degi _ segir Drottinn _ mun ég slá felmt á alla víghesta og vitfirring á þá sem ríða þeim. Á Júda húsi vil ég hafa vakandi auga, en slá alla hesta þjóðanna með blindu.
5 Þá munu ætthöfðingjar Júda segja með sjálfum sér: "Styrkur er Jerúsalembúum í Drottni allsherjar, Guði sínum."
6 Á þeim degi mun ég gjöra ætthöfðingja Júda eins og glóðarker í viðarkesti og sem brennandi blys í kerfum, og þeir munu eyða til hægri og til vinstri öllum þjóðum umhverfis, en Jerúsalem mun verða kyrr á sínum stað eins og áður.
7 Fyrst mun Drottinn frelsa tjöld Júda, til þess að frægð Davíðs húss og frægð Jerúsalembúa verði ekki meiri en Júda.
8 Á þeim degi mun Drottinn halda hlífiskildi yfir Jerúsalembúum, og hinn máttfarni meðal þeirra mun á þeim degi vera eins og Davíð og Davíðs hús eins og Guð, eins og engill Drottins á undan þeim.
9 Á þeim degi mun ég leitast við að eyða öllum þjóðunum, er fóru í móti Jerúsalem.
10 En yfir Davíðs hús og yfir Jerúsalembúa úthelli ég líknar- og bænaranda, og þeir munu líta til mín, til hans, sem þeir lögðu í gegn, og harma hann eins og menn harma lát einkasonar, og syrgja hann eins og menn syrgja frumgetinn son.
11 Á þeim degi mun eins mikið harmakvein verða í Jerúsalem eins og Hadad-Rimmon-harmakveinið í Megiddódal.
12 Landið mun kveina, hver kynþáttur fyrir sig: Kynþáttur Davíðs húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, kynþáttur Natans húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig,
13 kynþáttur Leví húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, kynþáttur Símeíta fyrir sig og konur þeirra fyrir sig,
14 og eins allir hinir kynþættirnir, sem eftir eru, hver kynþáttur fyrir sig og konur þeirra fyrir sig.
13 Á þeim degi mun Davíðs húsi og Jerúsalembúum standa opin lind til að þvo af sér syndir og saurugleik.
15 "Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn.
2 Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt.
3 Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar.
4 Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér.
5 Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.
6 Hverjum sem er ekki í mér, verður varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt.
7 Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það.
8 Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.
9 Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni.
10 Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.
11 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.
12 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.
13 Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.
14 Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.
15 Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.
16 Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.
17 Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.
18 Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.
19 Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.
20 Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.
21 En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig.
22 Hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni.
23 Sá sem hatar mig, hatar og föður minn.
24 Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk, sem enginn annar hefur gjört, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn.
25 Svo hlaut að rætast orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: ,Þeir hötuðu mig án saka.`
26 Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.
27 Þér skuluð einnig vitni bera, því þér hafið verið með mér frá upphafi.
by Icelandic Bible Society