Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 29

29 Hiskía varð konungur, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans.

Í fyrsta mánuði á fyrsta ríkisári sínu opnaði hann dyrnar að musteri Drottins, og gjörði við þær.

Síðan lét hann prestana og levítana koma og stefndi þeim saman á auða svæðinu austan til.

Og hann sagði við þá: "Hlýðið á mig, þér levítar! Helgið nú sjálfa yður og helgið musteri Drottins, Guðs feðra yðar, og útrýmið viðurstyggðinni úr helgidóminum.

Því að feður vorir hafa sýnt ótrúmennsku og gjört það, sem illt var í augum Drottins, Guðs vors, og yfirgefið hann. Þeir sneru augliti sínu burt frá bústað Drottins og sneru við honum bakinu.

Þá hafa þeir og læst dyrunum að forsalnum, slökkt á lömpunum, eigi brennt reykelsi og eigi fært Guði Ísraels brennifórn í helgidóminum.

Fyrir því kom reiði Drottins yfir Júda og Jerúsalem, og hann lét þá sæta misþyrmingu og gjörði þá að undri og athlægi, svo sem þér sjáið með eigin augum.

Nú eru þá feður vorir fallnir fyrir sverðseggjum, og synir vorir og dætur og konur eru hernumdar fyrir þetta.

10 Nú hefi ég einsett mér að gjöra sáttmála við Drottin, Guð Ísraels, til þess að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá oss.

11 Verið þá eigi skeytingarlausir, synir mínir! Því að yður hefir Drottinn útvalið til þess að standa frammi fyrir sér, til þess að þjóna sér, og til þess að þér skuluð vera þjónustumenn hans og brenna reykelsi honum til handa."

12 Þá gengu fram levítarnir: Mahat Amasaíson og Jóel Asarjason af Kahatítaniðjum. Af Meraríniðjum: Kís Abdíson og Asarja Jehallelelsson. Af Gersonítum: Jóa Simmason og Eden Jóason.

13 Af Elísafsniðjum: Simrí og Jeíel. Af Asafsniðjum: Sakaría og Mattanja.

14 Af Hemansniðjum: Jehíel og Símeí. Af Jedútúnsniðjum: Semaja og Ússíel.

15 Stefndu þeir saman frændum sínum, helguðu sig og komu að boði konungs til þess að hreinsa musteri Drottins eftir fyrirmælum Drottins.

16 Og prestarnir fóru inn í musteri Drottins til þess að hreinsa það, og fóru með allt óhreint, er þeir fundu í musteri Drottins, út í forgarð musteris Drottins. Tóku levítarnir við því til þess að fara með það út í Kídronlæk.

17 Hófu þeir helgunina hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, og á áttunda degi mánaðarins voru þeir komnir að forsal Drottins. Helguðu þeir síðan musteri Drottins á átta dögum, og á sextánda degi hins fyrsta mánaðar var verkinu lokið.

18 Gengu þeir þá inn fyrir Hiskía konung og sögðu: "Vér höfum hreinsað allt musteri Drottins og brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, svo og borðið fyrir raðabrauðin og öll áhöld þess.

19 Og öll þau áhöld, er Akas konungur smáði af ótrúmennsku sinni, höfum vér sett fram og helgað. Standa þau nú frammi fyrir altari Drottins."

20 Næsta morgun snemma stefndi Hiskía konungur saman höfuðsmönnum borgarinnar og fór upp í musteri Drottins.

21 Færðu þeir þá sjö naut, sjö hrúta, sjö lömb og sjö geithafra í syndafórn fyrir ríkið og fyrir helgidóminn og fyrir Júda. Og hann bauð niðjum Arons, prestunum, að færa hana á altari Drottins.

22 Slátruðu þeir þá nautunum, og tóku prestarnir við blóðinu og stökktu á altarið. Síðan slátruðu þeir hrútunum og stökktu blóðinu á altarið. Þá slátruðu þeir lömbunum og stökktu blóðinu á altarið.

23 Síðan færðu þeir syndafórnarhafrana fram fyrir konung og söfnuðinn, og lögðu þeir hendur sínar á þá.

24 Síðan slátruðu prestarnir þeim og færðu blóð þeirra í syndafórn á altarinu til þess að friðþægja fyrir allan Ísrael, því að konungur hafði fyrirskipað brennifórnina og syndafórnina fyrir allan Ísrael.

25 Og hann setti levítana í musteri Drottins með skálabumbur, hörpur og gígjur, samkvæmt fyrirmælum Davíðs og Gaðs, sjáanda konungs, og Natans spámanns. Því að þessi fyrirmæli voru að tilstilli Drottins, fyrir munn spámanna hans.

26 Stóðu þá levítarnir með hljóðfæri Davíðs, og prestarnir með lúðra.

27 Þá bauð Hiskía að láta brennifórnina á altarið og er brennifórnin var hafin, hófst og söngur Drottins og lúðrarnir kváðu við undir forustu hljóðfæra Davíðs Ísraelskonungs.

28 Þá féll allur söfnuðurinn fram, söngurinn kvað við og lúðrarnir gullu, allt þetta, þar til er brennifórninni var lokið.

29 Og er fórnfæringunni var lokið, beygði konungur kné sín og allir þeir, er með honum voru, og féllu fram.

30 Bauð þá Hiskía konungur og höfuðsmennirnir levítunum að syngja Drottni lofsöng með orðum Davíðs og Asafs sjáanda, og sungu þeir lofsönginn með gleði, hneigðu sig og féllu fram.

31 Þá tók Hiskía til máls og sagði: "Nú hafið þér vígt yður Drottni. Gangið nú fram og farið með sláturfórnir og þakkarfórnir í musteri Drottins." Færði þá söfnuðurinn sláturfórnir og þakkarfórnir, og hver, sem til þess var fús, færði brennifórnir.

32 En talan á brennifórnunum, er söfnuðurinn færði, var: sjötíu naut, hundrað hrútar og tvö hundruð lömb. Var allt þetta ætlað til brennifórnar Drottni til handa.

33 Og þakkarfórnirnar voru sex hundruð naut og þrjú þúsund sauðir.

34 En prestarnir voru of fáir, svo að þeir gátu ekki flegið öll brennifórnardýrin. Hjálpuðu þá frændur þeirra, levítarnir, þeim, uns starfinu var lokið og prestarnir helguðu sig, því að levítarnir höfðu einlægari áhuga á því að helga sig en prestarnir.

35 Auk þessa voru færðar margar brennifórnir, ásamt hinum feitu stykkjum heillafórnanna og dreypifórnum þeim, er brennifórnunum fylgdu. Þannig var þjónustunni við musteri Drottins komið í lag.

36 En Hiskía og allur lýðurinn gladdist yfir því, er Guð hafði búið lýðnum, því að þessu var komið í kring samstundis.

Opinberun Jóhannesar 15

15 Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs.

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs.

Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna.

Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Og eftir þetta sá ég, að upp var lokið musterinu á himni, tjaldbúð vitnisburðarins.

Og út gengu úr musterinu englarnir sjö, sem höfðu plágurnar sjö, klæddir hreinu, skínandi líni og gyrtir gullbeltum um brjóst.

Og englunum sjö fékk ein af verunum fjórum sjö gullskálar, fullar reiði Guðs, hans sem lifir um aldir alda.

Og musterið fylltist af reyknum af dýrð Guðs og mætti hans, og enginn mátti inn ganga í musterið, uns fullnaðar væru þær sjö plágur englanna sjö.

Sakaría 11

11 Upp lúk dyrum þínum, Líbanon, til þess að eldur geti eytt sedrustrjám þínum.

Kveina þú, kýprestré, yfir því að sedrustréð er fallið. Kveinið þér, Basans eikur, yfir því að hinn þykki skógurinn liggur við velli.

Heyr, hversu hirðarnir kveina, af því að prýði þeirra er eyðilögð. Heyr, hversu ungljónin öskra, af því að vegsemd Jórdanar er eydd.

Svo sagði Drottinn, Guð minn: Hald til haga skurðarsauðunum,

er kaupendur þeirra slátra að ósekju, og seljendur þeirra segja: "Lofaður sé Drottinn, nú er ég orðinn ríkur!" og hirðar þeirra vægja þeim ekki.

Því að nú vil ég ekki framar vægja íbúum landsins _ segir Drottinn _ heldur framsel ég nú sjálfur mennina, hvern í hendur konungi sínum. Þeir munu eyða landið, og ég mun engan frelsa undan valdi þeirra.

Þá hélt ég til haga skurðarsauðunum fyrir fjárkaupmennina, og tók ég mér tvo stafi. Kallaði ég annan þeirra Hylli og hinn Sameining. Gætti ég nú fjárins

og afmáði þrjá hirða á einum mánuði. Varð ég leiður á þeim, og þeir höfðu einnig óbeit á mér.

Þá sagði ég: "Ég vil ekki gæta yðar. Deyi það sem deyja vill, farist það sem farast vill, og það sem þá verður eftir, eti hvað annað upp."

10 Síðan tók ég staf minn Hylli og braut í sundur til þess að bregða þeim sáttmála, sem ég hafði gjört við allar þjóðir.

11 En er honum var brugðið á þeim degi, þá könnuðust fjárkaupmennirnir við, þeir er gáfu mér gaum, að þetta var orð Drottins.

12 Þá sagði ég við þá: "Ef yður þóknast, þá greiðið mér kaup mitt, en að öðrum kosti látið það vera!" Þá vógu þeir mér þrjátíu sikla silfurs í kaup mitt.

13 En Drottinn sagði við mig: "Kasta þú því til leirkerasmiðsins, hinu dýra verðinu, er þú varst metinn af þeim!" Og ég tók þá þrjátíu sikla silfurs og kastaði þeim til leirkerasmiðsins í musteri Drottins.

14 Síðan braut ég sundur hinn stafinn, Sameining, til þess að bregða upp bræðralaginu milli Júda og Ísrael.

15 Því næst sagði Drottinn við mig: Tak þér enn verkfæri heimsks hirðis,

16 því að sjá, ég ætla sjálfur að láta hirði rísa upp í landinu, sem vitjar ekki þess, sem er að farast, leitar ekki þess, sem villst hefir, græðir ekki hið limlesta, annast ekki hið heilbrigða, heldur etur kjötið af feitu skepnunum og rífur klaufirnar af þeim.

17 Vei hinum ónýta hirði, sem yfirgefur sauðina. Glötun komi yfir armlegg hans og yfir hægra auga hans! Armleggur hans visni gjörsamlega, og hægra auga hans verði steinblint.

Jóhannesarguðspjall 14

14 "Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.

Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?

Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.

Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér."

Tómas segir við hann: "Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?"

Jesús segir við hann: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann."

Filippus segir við hann: "Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss."

Jesús svaraði: "Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: ,Sýn þú oss föðurinn`?

10 Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk.

11 Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna.

12 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.

13 Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum.

14 Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það.

15 Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.

16 Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu,

17 anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.

18 Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.

19 Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa.

20 Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður.

21 Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig."

22 Júdas _ ekki Ískaríot _ sagði við hann: "Herra, hverju sætir það, að þú vilt birtast oss, en eigi heiminum?"

23 Jesús svaraði: "Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.

24 Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.

25 Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður.

26 En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.

27 Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

28 Þér heyrðuð, að ég sagði við yður: ,Ég fer burt og kem til yðar.` Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri.

29 Nú hef ég sagt yður það, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það gerist.

30 Ég mun ekki framar tala margt við yður, því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt.

31 En heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn og gjöri eins og faðirinn hefur boðið mér. Standið upp, vér skulum fara héðan."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society