M’Cheyne Bible Reading Plan
26 Þá tók allur Júdalýður Ússía, þótt hann væri eigi nema sextán vetra gamall, og gjörði hann að konungi í stað Amasía föður hans.
2 Hann víggirti Elót og vann hana aftur undir Júda, eftir að konungurinn var lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum.
3 Ússía var sextán vetra gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem.
4 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans.
5 Hann leitaði Guðs kostgæfilega, meðan Sakaría var á lífi, er fræddi hann í guðsótta, og meðan hann leitaði Drottins, veitti Guð honum gengi.
6 Hann fór í hernað og herjaði á Filista, reif niður múrana í Gat og múrana í Jabne og múrana í Asdod, og reisti borgir í Asdodhéraði og Filistalandi.
7 Og Guð veitti honum gegn Filistum og Aröbum, þeim er bjuggu í Gúr Baal, og gegn Meúnítum.
8 Ammónítar færðu og Ússía skatt, og frægð hans barst allt til Egyptalands, því að hann varð mjög voldugur.
9 Og Ússía reisti turna í Jerúsalem, á hornhliðinu, á dalhliðinu og í króknum og víggirti þá.
10 Hann reisti og turna í eyðimörkinni, og lét höggva út fjölda af brunnum, því að hann átti stórar hjarðir, bæði á láglendinu og á sléttunni, svo og akurmenn og víngarðsmenn í fjöllunum og á Karmel, því að hann hafði mætur á landbúnaði.
11 Ússía hafði og her, er gegndi herþjónustu og fór í hernað í flokkum, allir þeir, er Jeíel ritari og Maaseja tilsjónarmaður höfðu kannað undir umsjón Hananja, eins af höfuðsmönnum konungs.
12 Ætthöfðingjarnir, kapparnir, voru alls tvö þúsund og sex hundruð að tölu.
13 En undir þeim stóð her, er í voru þrjú hundruð og sjö þúsund og fimm hundruð manns, er inntu herþjónustu af hendi af mestu hreysti, til þess að veita konungi gegn fjandmönnunum.
14 Fékk Ússía þeim, öllum hernum, skjöldu, spjót, hjálma, pansara, boga og slöngusteina.
15 Þá lét hann og gjöra í Jerúsalem vélar með miklum hagleik. Skyldu þær vera í turnunum og hornunum til að skjóta með örvum og stórum steinum. Og frægð hans barst til fjarlægra landa, því að honum hlotnaðist dásamlegt liðsinni, uns hann var voldugur orðinn.
16 En er hann var voldugur orðinn, varð hann drembilátur, og það svo, að hann aðhafðist óhæfu og braut á móti Drottni, Guði sínum, er hann gekk inn í musteri Drottins til þess að brenna reykelsi á reykelsisaltarinu.
17 Gekk þá Asarja prestur á eftir honum og með honum áttatíu duglegir prestar Drottins.
18 Þeir stóðu í móti Ússía konungi og sögðu við hann: "Það er eigi þitt, Ússía, að brenna reykelsi fyrir Drottni, heldur prestanna, niðja Arons, er vígðir eru til þess að færa reykelsisfórnir. Far þú út úr helgidóminum, því að þú ert brotlegur orðinn, og verður þér það eigi til sæmdar fyrir Drottni Guði."
19 En Ússía reiddist, þar sem hann hélt á reykelsiskerinu í hendinni til þess að færa reykelsisfórn, og er hann reiddist prestunum, braust líkþrá út á enni honum að prestunum ásjáandi í musteri Drottins, við reykelsisaltarið.
20 Og er Asarja höfuðprestur og allir prestarnir litu á hann, þá var hann líkþrár á enninu. Ráku þeir hann þá út þaðan, og sjálfur flýtti hann sér og í burt, því að Drottinn hafði lostið hann.
21 Þannig varð Ússía konungur líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni sem líkþrár, því að hann var útilokaður frá musteri Drottins, en Jótam sonur hans veitti forstöðu konungshöllinni og dæmdi mál landsmanna.
22 En það, sem meira er að segja um Ússía, hefir Jesaja Amozson spámaður ritað frá upphafi til enda.
23 Og Ússía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn hjá feðrum sínum á bersvæði hjá konungagröfunum, því að menn sögðu: "Hann er líkþrár!" Og Jótam sonur hans tók ríki eftir hann.
13 Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð, og á hornum þess voru tíu ennisdjásn og á höfðum þess voru guðlöstunar nöfn.
2 Dýrið, sem ég sá, var líkt pardusdýri, fætur þess voru sem bjarnarfætur og munnur þess eins og ljónsmunnur. Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið.
3 Eitt af höfðum þess virtist sært til ólífis, en banasár þess varð heilt. Öll jörðin fylgdi dýrinu með undrun,
4 og þeir tilbáðu drekann, af því að hann hafði gefið dýrinu vald sitt. Og þeir tilbáðu dýrið og sögðu: "Hver jafnast við dýrið og hver getur barist við það?"
5 Og því var gefinn munnur, er talaði stóryrði og guðlastanir, og lofað að fara því fram í fjörutíu og tvo mánuði.
6 Og það lauk upp munni sínum til lastmæla gegn Guði, til að lastmæla nafni hans og tjaldbúð hans og þeim, sem á himni búa.
7 Og því var leyft að heyja stríð við hina heilögu og sigra þá, og því var gefið vald yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð.
8 Og allir þeir, sem á jörðunni búa, munu tilbiðja það, hver og einn sá er eigi á nafn sitt ritað frá grundvöllun veraldar í lífsins bók lambsins, sem slátrað var.
9 Sá sem hefur eyra, hann heyri.
10 Sá sem ætlaður er til herleiðingar verður herleiddur. Sá sem sverði er ætlaður verður deyddur með sverði. Hér reynir á þolgæði og trú hinna heilögu.
11 Og ég sá annað dýr stíga upp af jörðinni og það hafði tvö horn lík lambshornum, en það talaði eins og dreki.
12 Það fer með allt vald fyrra dýrsins fyrir augsýn þess og það lætur jörðina og þá, sem á henni búa, tilbiðja fyrra dýrið, sem varð heilt af banasári sínu.
13 Og það gjörir tákn mikil, svo að það lætur jafnvel eld falla af himni ofan á jörðina fyrir augum mannanna.
14 Og það leiðir afvega þá, sem á jörðunni búa, með táknunum, sem því er lofað að gjöra í augsýn dýrsins. Það segir þeim, sem á jörðunni búa, að þeir skuli gjöra líkneski af dýrinu, sem sárið fékk undan sverðinu, en lifnaði við.
15 Og því var leyft að gefa líkneski dýrsins anda, til þess að líkneski dýrsins gæti einnig talað og komið því til leiðar, að allir yrðu þeir deyddir, sem ekki vildu tilbiðja líkneski dýrsins.
16 Og það lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín
17 og kemur því til leiðar, að enginn geti keypt eða selt, nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess.
18 Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins, því að tala manns er það, og tala hans er sex hundruð sextíu og sex.
9 Spádómur. Orð Drottins beinist gegn Hadraklandi og það kemur niður í Damaskus, því að Drottinn hefir gætur á mönnunum og á öllum ættkvíslum Ísraels.
2 Sömuleiðis í Hamat, sem þar liggur hjá, í Týrus og Sídon, því að þær eru vitrar mjög.
3 Týrus reisti sér vígi og hrúgaði saman silfri eins og mold og skíragulli eins og saur á strætum.
4 Sjá, Drottinn skal gjöra hana að öreiga og steypa varnarvirki hennar í sjóinn, og sjálf mun hún eydd verða af eldi.
5 Askalon skal sjá það og hræðast, og Gasa engjast sundur og saman. Sömuleiðis Ekron, því að von hennar er orðin til skammar. Konungurinn mun hverfa frá Gasa, og Askalon mun verða óbyggð,
6 og skríll mun búa í Asdód. Ég gjöri enda á ofdrambi Filista,
7 og ég tek blóðið burt úr munni þeirra og viðurstyggðirnar undan tönnum þeirra. Þá munu þeir sem eftir verða, tilheyra Guði vorum, þeir munu verða eins og ætthöfðingjar í Júda og Ekronmenn eins og Jebúsítar.
8 Ég sest kringum hús mitt sem varðlið gegn þeim, sem um fara og aftur snúa. Enginn kúgari skal framar vaða yfir þá, því að nú hefi ég séð með eigin augum.
9 Fagna þú mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem! Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola.
10 Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem. Öllum herbogum mun og útrýmt verða, og hann mun veita þjóðunum frið með úrskurðum sínum. Veldi hans mun ná frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðarinnar.
11 Vegna blóðs sáttmála þíns læt ég bandingja þína lausa úr hinni vatnslausu gryfju.
12 Snúið aftur til hins trausta vígisins, þér bandingjar, sem væntið lausnar. Einnig í dag er gjört heyrinkunnugt: Ég endurgeld þér tvöfalt.
13 Ég hefi bent Júda eins og boga, fyllt Efraím eins og örvamæli, og ég vek sonu þína, Síon, í móti sonum Javans og gjöri þig eins og sverð í hendi kappa.
14 Drottinn mun birtast uppi yfir þeim og örvar hans út fara sem eldingar. Drottinn Guð mun þeyta lúðurinn og ganga fram í sunnanstormunum.
15 Drottinn allsherjar mun halda hlífiskildi yfir þeim, og þeir munu sigra þá og fótum troða slöngvusteinana. Og þeir munu drekka og reika sem víndrukknir og verða fullir eins og fórnarskálar, dreyrstokknir sem altarishorn.
16 Drottinn Guð þeirra mun veita þeim sigur á þeim degi sem hjörð síns lýðs, því að þeir eru gimsteinar í höfuðdjásni, sem gnæfa glitrandi á landi sínu.
17 Já, hversu mikil eru gæði þess og hversu dýrleg fegurð þess! Korn lætur æskumenn upp renna og vínberjalögur meyjar.
12 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum.
2 Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.
3 Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.
4 Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:
5 "Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?"
6 Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.
7 Þá sagði Jesús: "Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.
8 Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt."
9 Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum.
10 Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi,
11 því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.
12 Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.
13 Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!"
14 Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
15 Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola.
16 Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann.
17 Nú vitnaði fólkið, sem með honum var, þegar hann kallaði Lasarus út úr gröfinni og vakti hann frá dauðum.
18 Vegna þess fór einnig mannfjöldinn á móti honum, því menn höfðu heyrt, að hann hefði gjört þetta tákn.
19 Því sögðu farísear sín á milli: "Þér sjáið, að þér ráðið ekki við neitt. Allur heimurinn eltir hann."
20 Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni.
21 Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: "Herra, oss langar að sjá Jesú."
22 Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú.
23 Jesús svaraði þeim: "Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.
24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.
25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.
26 Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.
27 Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu:
28 Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!" Þá kom rödd af himni: "Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt."
29 Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: "Engill var að tala við hann."
30 Jesús svaraði þeim: "Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna.
31 Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.
32 Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín."
33 Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.
34 Mannfjöldinn svaraði honum: "Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?"
35 Þá sagði Jesús við þá: "Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer.
36 Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins." Þetta mælti Jesús og fór burt og duldist þeim.
37 Þótt hann hefði gjört svo mörg tákn fyrir augum þeirra, trúðu þeir ekki á hann,
38 svo að rættist orð Jesaja spámanns, er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri, og hverjum varð armur Drottins opinber?
39 Þess vegna gátu þeir ekki trúað, enda segir Jesaja á öðrum stað:
40 Hann hefur blindað augu þeirra og forhert hjarta þeirra, að þeir sjái ekki með augunum né skilji með hjartanu og snúi sér og ég lækni þá.
41 Jesaja sagði þetta af því að hann sá dýrð hans og talaði um hann.
42 Samt trúðu margir á hann, jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna, svo að þeir yrðu ekki samkundurækir.
43 Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.
44 En Jesús hrópaði: "Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig,
45 og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig.
46 Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.
47 Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn.
48 Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi.
49 Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.
50 Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér."
by Icelandic Bible Society