Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 25

25 Amasía tók ríki, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddan og var frá Jerúsalem.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, þó eigi með óskiptu hjarta.

En er hann var orðinn fastur í sessi, lét hann drepa þá menn sína, er drepið höfðu konunginn föður hans.

En börn þeirra lét hann ekki af lífi taka, heldur fór eftir því, sem ritað er í lögmálinu, í Mósebók, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: "Feður skulu ekki láta lífið ásamt börnunum, og börn skulu ekki láta lífið ásamt feðrunum, heldur skal hver láta lífið fyrir sína eigin synd."

Og Amasía stefndi Júdamönnum saman og skipaði þeim niður eftir ættum, eftir þúsundhöfðingjum og hundraðshöfðingjum úr öllum Júda og Benjamín. Síðan kannaði hann þá, tvítuga og þaðan af eldri, og komst að raun um, að þeir voru þrjú hundruð þúsund einvalaliðs, herfærir menn, er borið gátu spjót og skjöld.

Hann tók og á mála hundrað þúsund kappa af Ísrael fyrir hundrað talentur silfurs.

En guðsmaður nokkur kom til hans og mælti: "Þú konungur! Eigi skyldi Ísraelsher fara með þér, því að Drottinn er eigi með Ísrael, með neinum af Efraímsniðjum,

heldur skalt þú fara einn saman. Gakk þú öruggur til bardaga, annars kann Guð að láta þér veita miður fyrir óvinum þínum, því að það er á Guðs valdi að veita fulltingi og láta veita miður."

Amasía svaraði guðsmanninum: "Hvernig á þá að fara með þessar hundrað talentur, er ég hefi gefið Ísraelshersveitinni?" Guðsmaðurinn svaraði: "Það er á valdi Drottins að gefa þér miklu meira en það."

10 Þá skildi Amasía frá hersveitina, er komin var til hans úr Efraím, til þess að þeir skyldu halda heimleiðis. Urðu þeir þá sárreiðir Júdamönnum og sneru heimleiðis ofsareiðir.

11 En Amasía herti upp hugann, fór með menn sína, hélt til Saltdals og vann sigur á Seírítum, tíu þúsundum manns.

12 En aðra tíu þúsund handtóku Júdamenn lifandi. Fóru þeir með þá fram á klettasnös og hrundu þeim ofan af klettasnösinni, svo að brotnaði í þeim hvert bein.

13 Þeir af hersveitinni, er Amasía hafði látið aftur hverfa, svo að þeir eigi máttu fara með honum til bardagans, þeir réðust inn í Júdaborgir, frá Samaríu til Bet Hóron, drápu þar þrjú þúsund manns og rændu miklu herfangi.

14 En er Amasía var kominn heim eftir sigurinn yfir Edómítum, þá hafði hann með sér guði Seíríta og setti þá upp hjá sér svo sem guði. Laut hann þeim og brenndi reykelsi þeim til handa.

15 Þá varð Drottinn reiður Amasía og hann sendi spámann til hans. Hann mælti til hans: "Hvers vegna leitar þú guða þjóðar þessarar, er eigi gátu frelsað þjóð sína úr hendi þinni?"

16 En er hann talaði til hans, þá mælti konungur við hann: "Höfum vér gjört þig að ráðgjafa konungs? Hættu, eða þú verður barinn." Þá hætti spámaðurinn og mælti: "Nú veit ég, að Guð hefir afráðið að tortíma þér, fyrst þú breyttir svo og vilt eigi hlýða á ráð mitt."

17 Síðan réð Amasía Júdakonungur ráðum sínum og gjörði menn á fund Jóasar Jóahassonar, Jehúsonar, Ísraelskonungs, með svolátandi orðsending: "Nú skulum við reyna með okkur."

18 Þá sendi Jóas Ísraelskonungur Amasía Júdakonungi þau andsvör: "Þistillinn á Líbanon gjörði sedrustrénu á Líbanon svolátandi orðsending: Gef þú syni mínum dóttur þína að konu. En villidýrin á Líbanon gengu yfir þistilinn og tróðu hann sundur.

19 Þú hugsar: Ég hefi unnið mikinn sigur á Edómítum og þú hefir fyllst ofmetnaði. Sit þú nú kyrr heima! Hví vilt þú egna ógæfuna sjálfum þér og Júda til falls?"

20 En Amasía gaf þessu engan gaum, því að svo var til stillt af Guði til þess að ofurselja þá fjandmönnunum, af því að þeir höfðu leitað Edómsguða.

21 Þá fór Jóas Ísraelskonungur af stað, og varð fundur þeirra, hans og Amasía Júdakonungs, í Bet Semes, er liggur undir Júda.

22 Beið Júda þar ósigur fyrir Ísrael, og flýðu þeir hver til síns heima.

23 En Jóas Ísraelskonungur tók höndum Amasía Júdakonung, son Jóasar Jóahassonar, í Bet Semes, og fór með hann til Jerúsalem. Hann braut niður múra Jerúsalem, frá Efraímhliði allt að hornhliðinu, fjögur hundruð álnir.

24 Því næst tók hann allt gull og silfur og öll áhöld, er fundust í musteri Guðs hjá Óbeð Edóm, svo og fjársjóðu konungshallarinnar og gíslana, og sneri síðan aftur heim til Samaríu.

25 Amasía Jóasson Júdakonungur lifði fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs.

26 En það sem meira er að segja um Amasía, er frá upphafi til enda ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga.

27 Og upp frá því, er Amasía veik frá Drottni, gjörðu menn samsæri gegn honum í Jerúsalem. Flýði hann þá til Lakís, en þeir sendu á eftir honum til Lakís og létu drepa hann þar.

28 Fluttu þeir hann síðan á hestum, og var hann grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg.

Opinberun Jóhannesar 12

12 Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.

Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.

Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn.

Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt.

Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.

En konan flýði út á eyðimörkina, þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.

Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans,

en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni.

Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.

10 Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: "Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.

11 Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.

12 Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma."

13 Og er drekinn sá að honum var varpað niður á jörðina, ofsótti hann konuna, sem alið hafði sveinbarnið.

14 Og konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla, til þess að hún skyldi fljúga á eyðimörkina til síns staðar, þar sem séð verður fyrir þörfum hennar þrjú og hálft ár, fjarri augsýn höggormsins.

15 Og höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni, eins og flóði, til þess að hún bærist burt af straumnum.

16 En jörðin kom konunni til hjálpar, og jörðin opnaði munn sinn og svalg vatnsflóðið, sem drekinn spjó úr munni sér.

17 Þá reiddist drekinn konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.

18 Og hann nam staðar á sandinum við sjóinn.

Sakaría 8

Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi:

Svo segir Drottinn allsherjar: Ég er gagntekinn af vandlætisfullri elsku til Síonar og er upptendraður af mikilli reiði hennar vegna.

Svo segir Drottinn: Ég er á afturleið til Síonar og mun taka mér bólfestu í Jerúsalem miðri. Og Jerúsalem mun nefnd verða borgin trúfasta og fjall Drottins allsherjar fjallið helga.

Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu gamlir menn og gamlar konur sitja á torgum Jerúsalem og hvert þeirra hafa staf í hendi sér fyrir elli sakir.

Og torg borgarinnar munu full vera af drengjum og stúlkum, sem leika sér þar á torgunum.

Svo segir Drottinn allsherjar: Þótt það sé furðuverk í augum þeirra, sem eftir verða af þessum lýð á þeim dögum, hvort mun það og vera furðuverk í mínum augum? _ segir Drottinn allsherjar.

Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég mun frelsa lýð minn úr landi sólarupprásarinnar og úr landi sólsetursins,

og ég mun flytja þá heim og þeir skulu búa í Jerúsalem miðri, og þeir skulu vera minn lýður og ég skal vera þeirra Guð í trúfesti og réttlæti.

Svo segir Drottinn allsherjar: Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna, sem uppi voru, er undirstöðusteinninn var lagður til þess að endurreisa hús Drottins allsherjar, musterið.

10 Því að fyrir þann tíma varð enginn arður af erfiði mannanna og enginn arður af vinnu skepnanna, og enginn var óhultur fyrir óvinum, hvort heldur hann gekk út eða kom heim, og ég hleypti öllum mönnum upp, hverjum á móti öðrum.

11 En nú stend ég öðruvísi gagnvart leifum þessa lýðs en í fyrri daga _ segir Drottinn allsherjar _

12 því að sáðkorn þeirra verða ósködduð. Víntréð ber sinn ávöxt, og jörðin ber sinn gróða. Himinninn veitir dögg sína, og ég læt leifar þessa lýðs taka allt þetta til eignar.

13 Og eins og þér, Júda hús og Ísraels hús, hafið verið hafðir að formæling meðal þjóðanna, eins vil ég nú svo hjálpa yður, að þér verðið hafðir að blessunaróskum. Óttist ekki, verið hughraustir.

14 Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eins og ég ásetti mér að gjöra yður illt, þá er feður yðar reittu mig til reiði _ segir Drottinn allsherjar _ og lét mig ekki iðra þess,

15 eins hefi ég nú aftur ásett mér á þessum dögum að gjöra vel við Jerúsalem og Júda hús. Óttist ekki!

16 Þetta er það sem yður ber að gjöra: Talið sannleika hver við annan og dæmið ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar.

17 Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið ekki mætur á lyga-svardögum. Því að allt slíkt hata ég _ segir Drottinn.

18 Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi:

19 Svo segir Drottinn allsherjar: Fastan í hinum fjórða mánuði, fastan í hinum fimmta mánuði, fastan í hinum sjöunda mánuði og fastan í hinum tíunda mánuði mun verða Júda húsi til fagnaðar og gleði og að unaðslegum hátíðardögum. En elskið sannleik og frið.

20 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu koma heilar þjóðir og íbúar margra borga.

21 Íbúar einnar borgar munu fara til annarrar og segja: "Vér skulum fara til þess að blíðka Drottin og til þess að leita Drottins allsherjar! Ég fer líka!"

22 Og þannig munu fjölmennir þjóðflokkar og voldugar þjóðir koma til þess að leita Drottins allsherjar í Jerúsalem og til þess að blíðka Drottin.

23 Svo segir Drottinn allsherjar: Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: "Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður."

Jóhannesarguðspjall 11

11 Maður sá var sjúkur, er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar.

En María var sú er smurði Drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Bróðir hennar, Lasarus, var sjúkur.

Nú gjörðu systurnar Jesú orðsending: "Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur."

Þegar hann heyrði það, mælti hann: "Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur vegsamist hennar vegna."

Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus.

Þegar hann frétti, að hann væri veikur, var hann samt um kyrrt á sama stað í tvo daga.

Að þeim liðnum sagði hann við lærisveina sína: "Förum aftur til Júdeu."

Lærisveinarnir sögðu við hann: "Rabbí, nýlega voru Gyðingar að því komnir að grýta þig, og þú ætlar þangað aftur?"

Jesús svaraði: "Eru ekki stundir dagsins tólf? Sá sem gengur um að degi, hrasar ekki, því hann sér ljós þessa heims.

10 En sá sem gengur um að nóttu, hrasar, því hann hefur ekki ljósið í sér."

11 Þetta mælti hann, og sagði síðan við þá: "Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann."

12 Þá sögðu lærisveinar hans: "Herra, ef hann er sofnaður, batnar honum."

13 En Jesús talaði um dauða hans. Þeir héldu hins vegar, að hann ætti við venjulegan svefn.

14 Þá sagði Jesús þeim berum orðum: "Lasarus er dáinn,

15 og yðar vegna fagna ég því, að ég var þar ekki, til þess að þér skuluð trúa. En förum nú til hans."

16 Tómas, sem nefndist tvíburi, sagði þá við hina lærisveinana: "Vér skulum fara líka til að deyja með honum."

17 Þegar Jesús kom, varð hann þess vís, að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni.

18 Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan.

19 Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn.

20 Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima.

21 Marta sagði við Jesú: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.

22 En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um."

23 Jesús segir við hana: "Bróðir þinn mun upp rísa."

24 Marta segir: "Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi."

25 Jesús mælti: "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

26 Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?"

27 Hún segir við hann: "Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn."

28 Að svo mæltu fór hún, kallaði á Maríu systur sína og sagði í hljóði: "Meistarinn er hér og vill finna þig."

29 Þegar María heyrði þetta, reis hún skjótt á fætur og fór til hans.

30 En Jesús var ekki enn kominn til þorpsins, heldur var hann enn á þeim stað, þar sem Marta hafði mætt honum.

31 Gyðingarnir, sem voru heima hjá Maríu að hugga hana, sáu, að hún stóð upp í skyndi og gekk út, og fóru þeir á eftir henni. Þeir hugðu, að hún hefði farið til grafarinnar að gráta þar.

32 María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn."

33 Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög

34 og sagði: "Hvar hafið þér lagt hann?" Þeir sögðu: "Herra, kom þú og sjá."

35 Þá grét Jesús.

36 Gyðingar sögðu: "Sjá, hversu hann hefur elskað hann!"

37 En nokkrir þeirra sögðu: "Gat ekki sá maður, sem opnaði augu hins blinda, einnig varnað því, að þessi maður dæi?"

38 Jesús varð aftur hrærður mjög og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir.

39 Jesús segir: "Takið steininn frá!" Marta, systir hins dána, segir við hann: "Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag."

40 Jesús segir við hana: "Sagði ég þér ekki: ,Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs`?"

41 Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: "Faðir, ég þakka þér, að þú hefur bænheyrt mig.

42 Ég vissi að sönnu, að þú heyrir mig ávallt, en ég sagði þetta vegna mannfjöldans, sem stendur hér umhverfis, til þess að þeir trúi, að þú hafir sent mig."

43 Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: "Lasarus, kom út!"

44 Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við þá: "Leysið hann og látið hann fara."

45 Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann.

46 En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört.

47 Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn.

48 Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð."

49 En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: "Þér vitið ekkert

50 og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist."

51 Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina,

52 og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs.

53 Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi.

54 Jesús gekk því ekki lengur um meðal Gyðinga á almannafæri, heldur fór hann þaðan til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann með lærisveinum sínum.

55 Nú nálguðust páskar Gyðinga, og margir fóru úr sveitinni upp til Jerúsalem fyrir páskana til að hreinsa sig.

56 Menn leituðu að Jesú og sögðu sín á milli í helgidóminum: "Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?"

57 En æðstu prestar og farísear höfðu gefið út skipun um það, að ef nokkur vissi hvar hann væri, skyldi hann segja til, svo að þeir gætu tekið hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society