M’Cheyne Bible Reading Plan
24 Jóas var sjö vetra gamall, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba.
2 Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, meðan Jójada prestur lifði.
3 Og Jójada tók tvær konur honum til handa, og hann gat sonu og dætur.
4 Síðan ásetti Jóas sér að reisa við musteri Drottins.
5 Stefndi hann þá saman prestunum og levítunum og sagði við þá: "Farið um Júdaborgir og safnið fé úr öllum Ísrael til þess að gjöra við musteri Guðs yðar, og skuluð þér vinda bráðan bug að erindi þessu." En levítarnir fóru að engu ótt.
6 Þá kallaði konungur Jójada æðsta prest og sagði við hann: "Hvers vegna hefir þú eigi annast um að levítarnir heimti inn úr Júda og Jerúsalem skatta þá, er Móse, þjónn Drottins, lagði á Ísraelssöfnuð til lögmálstjaldsins?"
7 Því að illkvendið Atalía og synir hennar hafa brotist inn í musteri Guðs og þar á ofan eytt öllum helgigjöfum musteris Drottins í Baalana.
8 Síðan gjörðu menn kistu að boði konungs og settu hana fyrir utan hliðið á musteri Drottins.
9 Var þá kunngjört í Júda og Jerúsalem, að færa skyldi Drottni skatt þann, er Móse, þjónn Guðs, hafði lagt á Ísrael í eyðimörkinni.
10 Fögnuðu þá allir höfuðsmennirnir og allur lýðurinn og komu með skattinn og lögðu í kistuna, uns hún var full.
11 Og í hvert sinn, er hann lét levítana fara með kistuna til umsjónarmanns konungs, þegar þeir sáu að féð var mikið orðið, þá kom kanslari konungs og umboðsmaður æðsta prestsins. Tæmdu þeir kistuna og fóru síðan aftur með hana á sinn stað. Gjörðu þeir svo dag eftir dag og söfnuðu ógrynni fjár.
12 Og konungur og Jójada fengu það verkstjórunum, er stóðu fyrir vinnunni við musteri Drottins, en þeir leigðu steinhöggvara og trésmiði til þess að reisa við musteri Drottins, svo og járnsmiði og eirsmiði til þess að gjöra við musteri Drottins.
13 Og verkstjórarnir unnu, svo að viðgjörðinni miðaði áfram hjá þeim, og færðu þeir musteri Guðs aftur í gott lag eftir ákveðnu máli og gengu vel frá því.
14 Og er þeir höfðu lokið því, færðu þeir konungi og Jójada afganginn af fénu, og voru af því gjörð áhöld fyrir hús Drottins _ áhöld til guðsþjónustu og fórnfæringa, skálar og gull- og silfuráhöld. Brennifórnir voru færðar í musteri Drottins alla ævi Jójada.
15 En Jójada varð gamall og saddur lífdaga, og hann dó. Var hann hundrað og þrjátíu ára gamall, er hann dó.
16 Og hann var grafinn í Davíðsborg hjá konungunum, því að hann hafði breytt vel í Ísrael, svo og gagnvart Guði og musteri hans.
17 En eftir andlát Jójada komu höfuðsmenn Júda og lutu konungi, og hlýddi þá konungur á þá.
18 Og þeir yfirgáfu musteri Drottins, Guðs feðra sinna, og þjónuðu asérunum og líkneskjunum. Kom þá reiði yfir Júda og Jerúsalem fyrir þessa sök þeirra.
19 Og hann sendi spámenn meðal þeirra, til þess að snúa þeim aftur til Drottins. Þeir áminntu þá, en þeir gáfu því engan gaum.
20 En andi Guðs hreif Sakaría, son Jójada prests, svo að hann gekk fyrir lýðinn og mælti til þeirra: "Svo segir Guð: Hvers vegna rjúfið þér boðorð Drottins og sviptið yður allri hamingju? Sakir þess að þér hafið yfirgefið Drottin, þá yfirgefur hann yður."
21 Þá sórust þeir saman gegn honum og lömdu hann grjóti að boði konungs í forgarði musteris Drottins.
22 Og Jóas konungur minntist eigi ástar þeirrar, er Jójada faðir hans hafði sýnt honum, heldur lét drepa son hans. En hann mælti í andarslitrunum: "Drottinn sér það og mun hegna!"
23 Þá er ár var liðið, fór her Sýrlendinga í móti honum. En er þeir komu til Júda og Jerúsalem, drápu þeir alla þjóðhöfðingja meðal lýðsins, og sendu allt herfangið til konungsins í Damaskus.
24 Þótt her Sýrlendinga væri fámennur, er þeir komu, gaf Drottinn samt afar mikinn her á vald þeirra, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna, og yfir Jóas létu þeir ganga refsidóma.
25 En er þeir héldu burt frá honum _ þeir létu hann eftir fársjúkan _, þá gjörðu þjónar hans samsæri gegn honum vegna blóðsakarinnar á syni Jójada prests og drápu hann í rekkju hans. Lét hann þannig líf sitt, og var hann grafinn í Davíðsborg, en eigi var hann grafinn í konungagröfunum.
26 Þessir voru þeir, er samsæri gjörðu gegn honum: Sabad, sonur Símeatar hinnar ammónsku, og Jósabad, sonur Simrítar hinnar móabítísku.
27 En um sonu hans og upphæð skatts þess, er á hann var lagður, og byggingu Guðs musteris, er ritað í Skýringum konungabókarinnar. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.
11 Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: "Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja.
2 Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.
3 Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda."
4 Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær, sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar.
5 Og ef einhver vill granda þeim, gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða.
6 Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja.
7 Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá.
8 Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur.
9 Menn af ýmsum lýðum, kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf.
10 Og þeir, sem á jörðunni búa, gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir, því að þessir tveir spámenn kvöldu þá, sem á jörðunni búa.
11 Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá.
12 Og þeir heyrðu rödd mikla af himni, sem sagði við þá: "Stígið upp hingað." Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá.
13 Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill, og tíundi hluti borgarinnar hrundi og í landskjálftanum deyddust sjö þúsundir manna. Og þeir, sem eftir voru, urðu ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina.
14 Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.
15 Og sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: "Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda."
16 Og öldungarnir tuttugu og fjórir, þeir er sitja frammi fyrir Guði í hásætum sínum, féllu fram á ásjónur sínar, tilbáðu Guð
17 og sögðu: Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi, þú sem ert og þú sem varst, að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur.
18 Heiðingjarnir reiddust, en reiði þín kom, sá tími, er dauðir skulu dæmdir verða, og tíminn til að gefa laun þjónum þínum, spámönnunum og hinum heilögu og þeim, sem óttast nafn þitt, smáum og stórum, og til að eyða þeim, sem jörðina eyða.
19 Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er, og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans. Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið.
7 Á fjórða ríkisári Daríusar konungs kom orð Drottins til Sakaría. Á fjórða degi hins níunda mánaðar, í kislevmánuði,
2 sendu Betel Sareser og Regem Melek og menn hans sendimenn til þess að blíðka Drottin.
3 Þeir lögðu svolátandi fyrirspurn fyrir prestana, sem þjónuðu í húsi Drottins allsherjar, og fyrir spámennina: "Á ég að gráta og fasta í fimmta mánuðinum, eins og ég hefi gjört nú í mörg undanfarin ár?"
4 Þá kom orð Drottins allsherjar til mín, svo hljóðandi:
5 Tala þú til alls landslýðsins og til prestanna á þessa leið: Þar sem þér hafið fastað og kveinað í fimmta og sjöunda mánuðinum nú í sjötíu ár, hvort var það þá mín vegna, að þér föstuðuð?
6 Og er þér etið og drekkið, eruð það þá ekki þér, sem etið, og eruð það ekki þér, sem drekkið?
7 Eru þetta ekki þau orð, er Drottinn lét kunngjöra fyrir munn hinna fyrri spámanna, þá er Jerúsalem var byggð og naut friðar, ásamt borgunum umhverfis hana, og þá er Suðurlandið og sléttlendið voru byggð?
8 Þá kom orð Drottins til Sakaría, svo hljóðandi:
9 Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi.
10 Veitið ekki ágang ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum né fátækum mönnum, og enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu.
11 En þeir vildu ekki gefa því gaum og þverskölluðust. Þeir gjörðu eyru sín dauf, til þess að þeir skyldu ekki heyra,
12 og þeir gjörðu hjörtu sín að demanti, til þess að þeir skyldu ekki heyra fræðsluna og orðin, sem Drottinn allsherjar sendi fyrir anda sinn, fyrir munn hinna fyrri spámanna, og það kom mikil reiði frá Drottni allsherjar.
13 Og eins og hann kallaði, en þeir heyrðu ekki, svo skulu þeir nú _ sagði Drottinn allsherjar _ kalla, en ég ekki heyra.
14 Og ég feyki þeim burt meðal allra þjóða, er þeir eigi hafa þekkt, og landið skal verða að auðn, þá er þeir eru burt farnir, svo að enginn fer þar um á leið fram eða aftur. Þannig gjörðu þeir unaðslegt land að auðn.
10 "Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi,
2 en sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna.
3 Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum, og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út.
4 Þegar hann hefur látið út alla sauði sína, fer hann á undan þeim, og þeir fylgja honum, af því að þeir þekkja raust hans.
5 En ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra."
6 Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En þeir skildu ekki hvað það þýddi, sem hann var að tala við þá.
7 Því sagði Jesús aftur: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna.
8 Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki.
9 Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.
10 Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.
11 Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.
12 Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.
13 Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.
14 Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,
15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.
16 Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.
17 Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur.
18 Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum."
19 Aftur varð ágreiningur með Gyðingum út af þessum orðum.
20 Margir þeirra sögðu: "Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?"
21 Aðrir sögðu: "Þessi orð mælir enginn sá, sem hefur illan anda. Mundi illur andi geta opnað augu blindra?"
22 Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur.
23 Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum.
24 Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: "Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum."
25 Jesús svaraði þeim: "Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig,
26 en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna.
27 Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér.
28 Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni.
29 Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins.
30 Ég og faðirinn erum eitt."
31 Gyðingar tóku aftur upp steina til að grýta hann.
32 Jesús mælti við þá: "Ég hef sýnt yður mörg góð verk frá föður mínum. Fyrir hvert þeirra verka viljið þér grýta mig?"
33 Gyðingar svöruðu honum: "Vér grýtum þig ekki fyrir góð verk, heldur fyrir guðlast, að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði."
34 Jesús svaraði þeim: "Er ekki skrifað í lögmáli yðar: ,Ég hef sagt: Þér eruð guðir`?
35 Ef það nefnir þá guði, sem Guðs orð kom til, _ og ritningin verður ekki felld úr gildi, _
36 segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: ,Ég er sonur Guðs`?
37 Ef ég vinn ekki verk föður míns, trúið mér þá ekki,
38 en ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að faðirinn er í mér og ég í föðurnum."
39 Nú reyndu þeir aftur að grípa hann, en hann gekk úr greipum þeirra.
40 Hann fór aftur burt yfir um Jórdan, þangað sem Jóhannes hafði fyrrum verið að skíra, og var þar um kyrrt.
41 Margir komu til hans. Þeir sögðu: "Víst gjörði Jóhannes ekkert tákn, en allt er það satt, sem hann sagði um þennan mann."
42 Og þarna tóku margir trú á hann.
by Icelandic Bible Society