Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 22-23

22 Síðan tóku Jerúsalembúar Ahasía, yngsta son hans, til konungs eftir hann, því að ræningjaflokkurinn, er komið hafði til herbúðanna ásamt Aröbunum, hafði drepið alla þá, er eldri voru, og þannig tók Ahasía ríki, sonur Jórams Júdakonungs.

Ahasía var fjörutíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí.

Hann fetaði líka í fótspor Akabsættar, því að móðir hans fékk hann til óguðlegs athæfis með ráðum sínum.

Og hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, eins og ættmenn Akabs, því að þeir voru ráðgjafar hans eftir dauða föður hans, sjálfum honum til tjóns.

Að þeirra ráðum var það og, að hann fór herför með Jóram Akabssyni Ísraelskonungi í móti Hasael Sýrlandskonungi, til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram.

Þá sneri hann aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er hann hafði fengið við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann lá sjúkur.

En það var að Guðs tilstilli, til hrakfara fyrir Ahasía, að hann fór til Jórams. Þegar hann var þangað kominn, fór hann með Jóram á móti Jehú Nimsísyni, er Drottinn hafði smyrja látið til þess að afmá Akabs ætt.

Og er Jehú háði dóm yfir Akabsætt, hitti hann hershöfðingja Júdamanna og bræðrasonu Ahasía, er þjónuðu Ahasía, og lét drepa þá.

Síðan lét hann leita Ahasía, og var hann handtekinn, en hann hafði falið sig í Samaríu. Var hann færður Jehú og drepinn. En síðan jörðuðu menn hann, því að þeir sögðu: "Hann er afkomandi Jósafats, þess er leitaði Drottins af öllu hjarta sínu." En enginn var sá af ætt Ahasía, er fær væri um að taka við konungdómi.

10 Þegar Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsætt Júda.

11 Þá tók Jósabat, dóttir Jórams konungs, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig fól Jósabat, dóttir Jórams konungs, kona Jójada prests, hann _ því að hún var systir Ahasía _ fyrir Atalíu, svo að hún lét eigi drepa hann.

12 Og hann var hjá þeim á laun sex ár í musteri Guðs, meðan Atalía ríkti yfir landinu.

23 En á sjöunda ári herti Jójada upp hugann og tók hundraðshöfðingjana Asarja Jeróhamsson, Ísmael Jóhanansson, Asarja Óbeðsson, Maaseja Adajason og Elísafat Síkríson sér að bandamönnum.

Fóru þeir um í Júda og stefndu saman levítunum úr öllum Júdaborgum, og ætthöfðingjum Ísraels, og komu þeir til Jerúsalem.

Og allur söfnuðurinn gjörði sáttmála við konung í musteri Guðs. Og hann mælti til þeirra: "Sjá, konungsson skal vera konungur, svo sem Drottinn hefir heitið um niðja Davíðs.

Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, prestanna og levítanna, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð vera hliðverðir.

Þriðjungur skal vera í konungshöllinni og þriðjungur í Jesód-hliði, en almúgi skal vera í forgörðum musteris Drottins.

En í musteri Drottins má enginn stíga fæti nema prestarnir og levítar þeir, er þjónustu gegna, þeir mega inn ganga, því að þeir eru helgaðir. En allur annar lýður skal gæta fyrirmæla Drottins.

Og levítarnir skulu fylkja sér um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast inn í musterið, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann kemur heim og þá er hann fer út."

Levítarnir og allir Júdamenn fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði um boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn, því að Jójada prestur hafði eigi látið flokkana burt fara.

Og Jójada prestur fékk hundraðshöfðingjunum spjótin, buklarana og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Guðs.

10 Og hann fylkti öllum lýðnum _ hver maður hafði skotvopn í hendi _ allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið musterisins, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu.

11 Þá leiddu menn konungsson fram og settu á hann kórónuna, fengu honum lögin og tóku hann til konungs, en Jójada og synir hans smurðu hann og hrópuðu: "Konungurinn lifi!"

12 En er Atalía heyrði ópið í lýðnum og varðliðsmönnunum, og hversu þeir fögnuðu konungi, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins.

13 Sá hún þá konung standa við súlu sína við innganginn, og höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi, og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana, og söngvarana með hljóðfærunum, er gáfu merki til fagnaðarópsins. Þá reif Atalía klæði sín og mælti: "Samsæri, samsæri!"

14 En Jójada prestur lét hundraðshöfðingjana, fyrirliða hersins, ganga fram og mælti til þeirra: "Leiðið hana út milli raðanna, og hver sem fer á eftir henni skal drepinn með sverði." Því að prestur hafði sagt: "Drepið hana eigi í musteri Drottins."

15 Síðan lögðu menn hendur á hana, og er hún var komin þangað, er leið liggur inn um hrossahliðið að konungshöllinni, þá drápu þeir hana þar.

16 Jójada gjörði sáttmála milli sín og alls lýðsins og konungs, að þeir skyldu vera lýður Drottins.

17 Síðan fór allur lýðurinn inn í musteri Baals og reif það niður. Ölturu hans og líkneskjur brutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum.

18 Síðan setti Jójada varðflokka við musteri Drottins, undir forustu levítaprestanna, er Davíð hafði skipað í flokka til þjónustu við musteri Drottins, til þess að bera fram brennifórnir Drottins, eftir því sem ritað er í Móselögmáli, með fögnuði og söng, samkvæmt fyrirmælum Davíðs.

19 Þá setti hann hliðverði við hliðin á musteri Drottins, til þess að enginn skyldi inn komast, er á einhvern hátt væri óhreinn.

20 Síðan tók hann hundraðshöfðingjana, göfugmennin og yfirmenn lýðsins, svo og landslýðinn allan, og fór með konung ofan frá musteri Drottins. Og er þeir voru komnir inn í konungshöllina um efra hliðið, þá settu þeir konung í konungshásætið.

21 Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði.

Opinberun Jóhannesar 10

10 Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar.

Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni.

Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum.

Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: "Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki."

Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins

og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða,

en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.

Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: "Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni."

Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: "Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang."

10 Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum.

11 Þá segja þeir við mig: "Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga."

Sakaría 6

Ég hóf aftur upp augu mín og sá, hvar fjórir vagnar komu út á milli tveggja fjalla, en fjöllin voru eirfjöll.

Fyrir fyrsta vagninum voru rauðir hestar, fyrir öðrum vagninum svartir hestar,

fyrir þriðja vagninum voru hvítir hestar og fyrir fjórða vagninum rauðskjóttir hestar.

Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, er við mig talaði: "Hvað merkir þetta, herra minn?"

Engillinn svaraði og sagði við mig: "Þetta eru þeir fjórir vindar himinsins. Þeir hafa gengið fyrir Drottin gjörvallrar jarðarinnar og eru nú að fara af stað.

Vagninn með svörtu hestunum fyrir var að fara til landsins norður frá, og hinir hvítu fóru á eftir þeim, en hinir skjóttu fóru til landsins suður frá."

Og hinir rauðu fóru út, og með því að þeir voru ráðnir í að halda af stað til þess að fara um jörðina, sagði hann: "Farið! Farið um jörðina!" Og þeir fóru um jörðina.

Þá kallaði hann á mig og sagði við mig: "Sjá, þeir sem fara til landsins norður frá, svala reiði minni við landið norður frá."

Orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:

10 Tak þú við gjöfum hinna herleiddu af hendi Heldaí, Tobía og Jedaja, og far þú sjálfur þann sama dag og gakk þú inn í hús Jósía Sefaníasonar, en þangað eru þeir komnir frá Babýlon.

11 Þar skalt þú taka silfur og gull og búa til kórónu og setja á höfuð Jósúa Jósadakssonar æðsta prests.

12 Og þú skalt mæla þannig til hans: Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, maður heitir Kvistur. Af hans rótum mun spretta, og hann mun byggja musteri Drottins.

13 Hann er sá sem byggja mun musteri Drottins, og hann mun tign hljóta, svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar, og friðarþel mun vera milli þeirra beggja.

14 En kórónan skal vera þeim Helem, Tobía, Jedaja og Hen Sefaníasyni til minningar í musteri Drottins.

15 Og þeir sem búa í fjarlægð, munu koma til að byggja musteri Drottins. Og þá munuð þér viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.

Jóhannesarguðspjall 9

Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu.

Lærisveinar hans spurðu hann: "Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?"

Jesús svaraði: "Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.

Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið.

Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins."

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans

og sagði við hann: "Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam." (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.

Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: "Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?"

Sumir sögðu: "Sá er maðurinn," en aðrir sögðu: "Nei, en líkur er hann honum." Sjálfur sagði hann: "Ég er sá."

10 Þá sögðu þeir við hann: "Hvernig opnuðust augu þín?"

11 Hann svaraði: "Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér."

12 Þeir sögðu við hann: "Hvar er hann?" Hann svaraði: "Það veit ég ekki."

13 Þeir fara til faríseanna með manninn, sem áður var blindur.

14 En þá var hvíldardagur, þegar Jesús bjó til leðjuna og opnaði augu hans.

15 Farísearnir spurðu hann nú líka, hvernig hann hefði fengið sjónina. Hann svaraði þeim: "Hann lagði leðju á augu mín, ég þvoði mér, og nú sé ég."

16 Þá sögðu nokkrir farísear: "Þessi maður er ekki frá Guði, fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn." Aðrir sögðu: "Hvernig getur syndugur maður gjört þvílík tákn?" Og ágreiningur varð með þeim.

17 Þá segja þeir aftur við hinn blinda: "Hvað segir þú um hann, fyrst hann opnaði augu þín?" Hann sagði: "Hann er spámaður."

18 Gyðingar trúðu því ekki, að hann, sem sjónina fékk, hefði verið blindur, og kölluðu fyrst á foreldra hans

19 og spurðu þá: "Er þetta sonur ykkar, sem þið segið að hafi fæðst blindur? Hvernig er hann þá orðinn sjáandi?"

20 Foreldrar hans svöruðu: "Við vitum, að þessi maður er sonur okkar og að hann fæddist blindur.

21 En hvernig hann er nú orðinn sjáandi, vitum við ekki, né heldur vitum við, hver opnaði augu hans. Spyrjið hann sjálfan. Hann hefur aldur til. Hann getur svarað fyrir sig."

22 Þetta sögðu foreldrar hans af ótta við Gyðinga. Því Gyðingar höfðu þegar samþykkt, að ef nokkur játaði, að Jesús væri Kristur, skyldi hann samkundurækur.

23 Vegna þessa sögðu foreldrar hans: "Hann hefur aldur til, spyrjið hann sjálfan."

24 Nú kölluðu þeir í annað sinn á manninn, sem blindur hafði verið, og sögðu við hann: "Gef þú Guði dýrðina. Vér vitum, að þessi maður er syndari."

25 Hann svaraði: "Ekki veit ég, hvort hann er syndari. En eitt veit ég, að ég, sem var blindur, er nú sjáandi."

26 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað gjörði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?"

27 Hann svaraði þeim: "Ég er búinn að segja yður það, og þér hlustuðuð ekki á það. Hví viljið þér heyra það aftur? Viljið þér líka verða lærisveinar hans?"

28 Þeir atyrtu hann og sögðu: "Þú ert lærisveinn hans, vér erum lærisveinar Móse.

29 Vér vitum, að Guð talaði við Móse, en um þennan vitum vér ekki, hvaðan hann er."

30 Maðurinn svaraði þeim: "Þetta er furðulegt, að þér vitið ekki, hvaðan hann er, og þó opnaði hann augu mín.

31 Vér vitum, að Guð heyrir ekki syndara. En ef einhver er guðrækinn og gjörir vilja hans, þann heyrir hann.

32 Frá alda öðli hefur ekki heyrst, að nokkur hafi opnað augu þess, sem blindur var borinn.

33 Ef þessi maður væri ekki frá Guði, gæti hann ekkert gjört."

34 Þeir svöruðu honum: "Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna oss!" Og þeir ráku hann út.

35 Jesús heyrði, að þeir hefðu rekið hann út. Hann fann hann og sagði við hann: "Trúir þú á Mannssoninn?"

36 Hinn svaraði: "Herra, hver er sá, að ég megi trúa á hann?"

37 Jesús sagði við hann: "Þú hefur séð hann, hann er sá sem er nú að tala við þig."

38 En hann sagði: "Ég trúi, herra," og féll fram fyrir honum.

39 Jesús sagði: "Til dóms er ég kominn í þennan heim, svo að blindir sjái og hinir sjáandi verði blindir."

40 Þetta heyrðu þeir farísear, sem með honum voru, og spurðu: "Erum vér þá líka blindir?"

41 Jesús sagði við þá: "Ef þér væruð blindir, væruð þér án sakar. En nú segist þér vera sjáandi, því varir sök yðar."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society