M’Cheyne Bible Reading Plan
21 Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann.
2 Jóram átti bræður, sonu Jósafats: Asarja, Jehíel, Sakaría, Asarjahú, Míkael og Sefatja. Allir þessir voru synir Jósafats Ísraelskonungs.
3 Og faðir þeirra hafði gefið þeim miklar gjafir í silfri og gulli og skartgripum, svo og kastalaborgir í Júda, en konungdóminn fékk hann Jóram í hendur, því að hann var frumgetningurinn.
4 En er Jóram hafði náð völdum yfir ríki föður síns og var orðinn fastur í sessi, þá lét hann drepa alla bræður sína og auk þess nokkra af höfðingjum Ísraels með sverði.
5 Jóram var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem.
6 Og hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabsætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins.
7 En Drottinn vildi eigi afmá ætt Davíðs, sakir sáttmála þess, er hann hafði gjört við Davíð, og samkvæmt því, er hann hafði heitið, að gefa honum og niðjum hans lampa alla daga.
8 Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig.
9 Þá fór Jóram með höfðingjum sínum og öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins.
10 Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og hafa aldrei lotið þeim síðan. Þá braust og Líbna um sama leyti undan yfirráðum hans, af því að hann hafði yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna.
11 Einnig hann gjörði fórnarhæðir í Júdaborgum, ginnti Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar og tældi Júda.
12 Þá kom til hans bréf frá Elía spámanni, er svo hljóðaði: "Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Sakir þess að þú fetaðir eigi í fótspor Jósafats föður þíns og Asa Júdakonungs,
13 heldur fetaðir í fótspor Ísraelskonunga og ginntir Júda og Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar, eins og Akabsætt ginnti menn til skurðgoðadýrkunar, og lést auk þessa drepa bræður þína, ættmenn þína, er betri voru en þú,
14 þá mun Drottinn ljósta lýð þinn, sonu þína og konur og alla eign þína áfelli miklu.
15 En sjálfur munt þú taka sjúkleik, iðrakvöl, uns iður þín loks falla út af sjúkdóminum."
16 Og Drottinn æsti reiði Filista og Araba, þeirra er búa hjá Blálendingum, gegn Jóram,
17 svo að þeir fóru herför gegn Júda, brutust inn og höfðu burt með sér að herfangi allt fémætt, er var í konungshöllinni, og auk þess sonu hans og konur. Varð enginn eftir af sonum hans nema Jóahas, er var yngstur sona hans.
18 En ofan á allt þetta laust Drottinn hann með ólæknandi iðrasjúkleik.
19 Og eftir alllangan tíma, að liðnum nær tveim árum, féllu iður hans út af sjúkdóminum, og dó hann eftir miklar þjáningar. En þjóð hans gjörði ekkert bál honum til heiðurs eins og feðrum hans.
20 Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem. Fór hann svo, að enginn óskaði hans aftur, og var hann jarðaður í Davíðsborg, þó eigi í konungagröfunum.
9 Og fimmti engillinn básúnaði. Þá sá ég stjörnu, er fallið hafði af himni ofan á jörðina, og henni var fenginn lykillinn að brunni undirdjúpsins.
2 Og hún lauk upp brunni undirdjúpsins, og reyk lagði upp af brunninum eins og reyk frá stórum ofni. Og sólin myrkvaðist og loftið af reyknum úr brunninum.
3 Út úr reyknum komu engisprettur á jörðina og þær fengu sama mátt og sporðdrekar jarðarinnar.
4 Og sagt var við þær, að eigi skyldu þær granda grasi jarðarinnar né nokkrum grænum gróðri né nokkru tré, engu nema mönnunum, þeim er eigi hafa innsigli Guðs á ennum sér.
5 Og þeim var svo um boðið, að þær skyldu eigi deyða þá, heldur skyldu þeir kvaldir verða í fimm mánuði. Undan þeim svíður eins og undan sporðdreka, er hann stingur mann.
6 Á þeim dögum munu mennirnir leita dauðans og ekki finna hann. Menn munu æskja sér að deyja, en dauðinn flýr þá.
7 Og ásýndum voru engispretturnar svipaðar hestum, búnum til bardaga, og á höfðum þeirra voru eins og kórónur úr gulli, og ásjónur þeirra voru sem ásjónur manna.
8 Þær höfðu hár sem hár kvenna, og tennur þeirra voru eins og ljónstennur.
9 Þær höfðu brjósthlífar eins og járnbrynjur, og vængjaþyturinn frá þeim var eins og vagnagnýr, þegar margir hestar bruna fram til bardaga.
10 Þær hafa hala og brodda eins og sporðdrekar. Og í hölum þeirra er máttur þeirra til að skaða menn í fimm mánuði.
11 Konung hafa þær yfir sér, engil undirdjúpsins. Nafn hans er á hebresku Abaddón og á grísku heitir hann Apollýón.
12 Veiið hið fyrsta er liðið hjá. Sjá, enn koma tvö vei eftir þetta.
13 Og sjötti engillinn básúnaði. Þá heyrði ég rödd eina frá hornunum á gullaltarinu, sem er frammi fyrir Guði.
14 Og röddin sagði við sjötta engilinn, sem hélt á básúnunni: "Leys þú englana fjóra, sem bundnir eru við fljótið mikla, Efrat."
15 Og englarnir fjórir voru leystir, sem búnir stóðu til stundar þessarar, dags þessa, mánaðar þessa og árs þessa, til þess að deyða þriðjung mannanna.
16 Og talan á herfylkingum riddaraliðsins var tveim sinnum tíu þúsundir tíu þúsunda. Ég heyrði tölu þeirra.
17 Og með þessum hætti sá ég hestana í sýninni og þá sem á þeim sátu: Þeir höfðu eldrauðar, svartbláar og brennisteinsgular brynjur, og höfuð hestanna voru eins og höfuð ljóna. Af munnum þeirra gekk út eldur, reykur og brennisteinn.
18 Í þessum þremur plágum varð þriðji hluti mannanna deyddur, af eldinum, reyknum og brennisteininum, sem út gekk af munnum þeirra.
19 Því að vald hestanna er í munni þeirra og í töglum þeirra, því að tögl þeirra eru lík höggormum. Eru höfuð á, og með þeim granda þeir.
20 Og hinir mennirnir, sem ekki voru deyddir í þessum plágum, gjörðu eigi iðrun og sneru sér eigi frá handaverkum sínum og vildu ekki hætta að tilbiðja illu andana og skurðgoðin úr gulli, silfri, eiri, steini og tré, sem hvorki geta séð, heyrt né gengið.
21 Og eigi gjörðu þeir iðrun né létu af manndrápum sínum og töfrum, frillulífi sínu og þjófnaði.
5 Ég hóf aftur upp augu mín og sá bókrollu, sem var á flugi.
2 Þá sagði hann við mig: "Hvað sér þú?" Ég svaraði: "Ég sé bókrollu á flugi, tuttugu álna langa og tíu álna breiða."
3 Þá sagði hann við mig: "Þetta er bölvunin, sem út gengur yfir gjörvallt landið, því að sérhverjum sem stelur, verður samkvæmt henni sópað héðan, og sérhverjum sem meinsæri fremur, verður samkvæmt henni sópað héðan."
4 Ég hefi látið hana út ganga _ segir Drottinn allsherjar _ til þess að hún komi inn í hús þjófsins og inn í hús þess, sem meinsæri fremur við nafn mitt, og staðnæmist inni í húsi hans og eyði því bæði að viðum og veggjum.
5 Þessu næst gekk fram engillinn, er við mig talaði, og sagði við mig: "Hef upp augu þín og sjá, hvað þar kemur fram!"
6 Ég sagði: "Hvað er þetta?" Þá sagði hann: "Þetta er efan, sem kemur í ljós." Þá sagði hann: "Þetta er misgjörð þeirra í öllu landinu."
7 Þá lyftist allt í einu upp kringlótt blýlok, og sat þar kona ein niðri í efunni.
8 Þá sagði hann: "Þetta er Vonskan!" _ kastaði henni ofan í efuna og kastaði blýlokinu ofan yfir opið.
9 Síðan hóf ég upp augu mín og sá allt í einu tvær konur koma fram, og stóð vindur undir vængi þeim _ því að þær höfðu vængi sem storksvængi _ og hófu þær efuna upp milli jarðar og himins.
10 Þá sagði ég við engilinn, sem við mig talaði: "Hvert fara þær með efuna?"
11 Hann svaraði mér: "Þær ætla að reisa henni hús í Sínearlandi, og þegar það er búið, þá setja þær hana þar á sinn stað."
8 En Jesús fór til Olíufjallsins.
2 Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim.
3 Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra
4 og sögðu við hann: "Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór.
5 Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?"
6 Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
7 Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana."
8 Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina.
9 Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.
10 Hann rétti sig upp og sagði við hana: "Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?"
11 En hún sagði: "Enginn, herra." Jesús mælti: "Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."]
12 Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: "Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins."
13 Þá sögðu farísear við hann: "Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ekki gildur."
14 Jesús svaraði þeim: "Enda þótt ég vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn gildur, því ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þér vitið ekki, hvaðan ég kem né hvert ég fer.
15 Þér dæmið að hætti manna. Ég dæmi engan.
16 En ef ég dæmi, er dómur minn réttur, því ég er ekki einn, með mér er faðirinn, sem sendi mig.
17 Og í lögmáli yðar er ritað, að vitnisburður tveggja manna sé gildur.
18 Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig."
19 Þeir sögðu við hann: "Hvar er faðir þinn?" Jesús svaraði: "Hvorki þekkið þér mig né föður minn. Ef þér þekktuð mig, þá þekktuð þér líka föður minn."
20 Þessi orð mælti Jesús hjá fjárhirslunni, þegar hann var að kenna í helgidóminum. Enginn lagði hendur á hann, því stund hans var ekki enn komin.
21 Enn sagði hann við þá: "Ég fer burt, og þér munuð leita mín, en þér munuð deyja í synd yðar. Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist."
22 Nú sögðu Gyðingar: "Mun hann ætla að fyrirfara sér, fyrst hann segir: ,Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist`?"
23 En hann sagði við þá: "Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi.
24 Þess vegna sagði ég yður, að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki, að ég sé sá sem ég er, munuð þér deyja í syndum yðar."
25 Þeir spurðu hann þá: "Hver ert þú?" Jesús svaraði þeim: "Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi.
26 Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig, er sannur, og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins."
27 Þeir skildu ekki, að hann var að tala við þá um föðurinn.
28 Því sagði Jesús: "Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.
29 Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast."
30 Þegar hann mælti þetta, fóru margir að trúa á hann.
31 Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: "Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir
32 og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa."
33 Þeir svöruðu honum: "Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir`?"
34 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.
35 En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.
36 Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.
37 Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður.
38 Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar."
39 Þeir svöruðu honum: "Faðir vor er Abraham." Jesús segir við þá: "Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams.
40 En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei.
41 Þér vinnið verk föður yðar." Þeir sögðu við hann: "Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð."
42 Jesús svaraði: "Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.
43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.
44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.
45 En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.
46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki?
47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."
48 Gyðingar svöruðu honum: "Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?"
49 Jesús ansaði: "Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig.
50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir.
51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja."
52 Þá sögðu Gyðingar við hann: "Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja.
53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?"
54 Jesús svaraði: "Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar.
55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans.
56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist."
57 Nú sögðu Gyðingar við hann: "Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!"
58 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég."
59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.
by Icelandic Bible Society