Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 19-20

19 Jósafat Júdakonungur sneri við heim til sín til Jerúsalem, heill á húfi.

Þá gekk Jehú sjáandi Hananíson fyrir hann og mælti til Jósafats konungs: "Hjálpar þú hinum óguðlegu og elskar þú þá, er hata Drottin? Sakir þessa liggur á þér reiði Drottins.

Þó er nokkuð gott fundið í fari þínu, því að þú hefir útrýmt asérunum úr landinu og beint huga þínum að því að leita Guðs."

En Jósafat dvaldist í Jerúsalem nokkurn tíma. Síðan fór hann aftur um meðal lýðsins frá Beerseba allt til Efraímfjalla og sneri heim til Drottins, Guðs feðra þeirra.

Hann skipaði og dómara í landinu, í öllum víggirtum borgum í Júda, í hverri borg.

Og hann sagði við dómarana: "Gætið að, hvað þér gjörið, því að eigi dæmið þér í umboði manna, heldur Drottins, og hann er með yður í dómum.

Veri þá ótti Drottins yfir yður, hafið gát á breytni yðar, því að hjá Drottni, Guði vorum, er ekkert ranglæti eða manngreinarálit, né mútur þegnar."

En einnig í Jerúsalem skipaði Jósafat menn af levítunum og prestunum og ætthöfðingjum Ísraels til þess að gegna dómarastörfum Drottins og réttarþrætum Jerúsalembúa.

Og hann lagði svo fyrir þá: "Svo skuluð þér breyta í ótta Drottins, með trúmennsku og af heilum hug.

10 Og í hverri þrætu, er kemur fyrir yður frá bræðrum yðar, þeim er búa í borgum sínum, hvort sem það er vígsök eða um lögmál eða boðorð eða lög eða ákvæði, þá skuluð þér vara þá við, svo að þeir verði ekki sekir við Drottin, og reiði komi yfir yður og bræður yðar. Svo skuluð þér breyta, að þér verðið ekki sekir.

11 En Amarja höfuðprestur skal vera fyrir yður í öllum málefnum Drottins, og Sebadja Ísmaelsson, höfðingi Júda ættar, í öllum málefnum konungs, og levítana hafið þér fyrir starfsmenn. Gangið öruggir til starfa. Drottinn mun vera með þeim, sem góður er."

20 Svo bar til eftir þetta, að Móabítar og Ammónítar og nokkrir af Meúnítum með þeim fóru á móti Jósafat til bardaga.

Og menn komu og fluttu Jósafat svolátandi tíðindi: "Afar mikill mannfjöldi kemur á móti þér handan yfir hafið, frá Edóm, og eru þeir þegar í Haseson Tamar, það er Engedí."

Þá varð Jósafat hræddur og tók að leita Drottins, og lét boða föstu um allan Júda.

Þá söfnuðust Júdamenn saman til þess að leita Drottins. Komu menn einnig úr öllum Júdaborgum til þess að leita Drottins.

En Jósafat gekk fram í söfnuði Júda og Jerúsalem, í musteri Drottins, úti fyrir nýja forgarðinum

og mælti: "Drottinn, Guð feðra vorra! Þú ert Guð á himnum, þú drottnar yfir öllum ríkjum heiðingjanna. Í þinni hendi er máttur og megin, og fyrir þér fær enginn staðist.

Þú hefir, Guð vor, stökkt íbúum lands þessa undan lýð þínum Ísrael og gefið það niðjum Abrahams vinar þíns um aldur og ævi.

Og þeir settust þar að og byggðu þér þar helgidóm, þínu nafni, og mæltu:

,Ef ógæfa dynur yfir oss, ófriður, refsidómur, drepsótt eða hallæri, þá munum vér ganga fram fyrir þetta hús og fram fyrir þig, því að þitt nafn býr í húsi þessu, og vér munum hrópa til þín í nauðum vorum, að þú megir heyra og hjálpa.`

10 Og sjá, hér eru nú Ammónítar og Móabítar og Seírfjalla-búar. Meðal þeirra leyfðir þú eigi Ísraelsmönnum að koma, þá er þeir komu frá Egyptalandi, heldur hörfuðu þeir frá þeim og eyddu þeim eigi.

11 Og nú launa þeir oss og koma til þess að hrekja oss frá óðali þínu, er þú hefir veitt oss til eignar.

12 Guð vor, munt þú eigi láta dóm yfir þá ganga? Því að vér erum máttvana gagnvart þessum mikla mannfjölda, er kemur í móti oss. Vér vitum eigi, hvað vér eigum að gjöra, heldur mæna augu vor til þín."

13 En allir Júdamenn stóðu frammi fyrir Drottni, ásamt ungbörnum þeirra, konum og sonum.

14 Þá kom andi Drottins yfir Jehasíel Sakaríason, Benajasonar, Jeíelssonar, Mattanjasonar, levíta af Asafsniðjum, þar í söfnuðinum

15 og hann mælti: "Hlýðið á allir Júdamenn og Jerúsalembúar og þú Jósafat konungur: Svo segir Drottinn við yður: Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda, því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði.

16 Farið í móti þeim á morgun. Þeir munu halda upp Sís-stíginn, og þér munuð mæta þeim í dalbotninum austan við Jerúel-eyðimörk.

17 En eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins við yður, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og Drottinn mun vera með yður."

18 Þá laut Jósafat fram á ásjónu sína til jarðar, og allir Júdamenn og Jerúsalembúar féllu fram fyrir Drottin til þess að tilbiðja Drottin.

19 Síðan stóðu upp levítarnir, er voru af Kahatítaniðjum og Kóraítaniðjum, til þess að lofa Drottin, Guð Ísraels, með afar hárri röddu.

20 Og næsta morgun tóku þeir sig upp í býtið og fóru til Tekóa-eyðimerkur, og er þeir fóru út, gekk Jósafat fram og mælti: "Heyrið mig, þér Júdamenn og Jerúsalembúar! Treystið Drottni, Guði yðar, þá munuð þér fá staðist, trúið spámönnum hans, þá munuð þér giftudrjúgir verða!"

21 Síðan réðst hann um við lýðinn og skipaði söngvara Drottni til handa, að þeir skyldu hefja lofsöngva í helgum skrúða, þá er þeir færu út á undan hermönnunum, og segja: "Lofið Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu."

22 En er þeir hófu fagnaðarópið og lofsönginn, setti Drottinn launsátur móti Ammónítum, Móabítum og Seírfjalla-búum, er fóru í móti Júda, og þeir biðu ósigur.

23 Ammónítar og Móabítar hófust gegn Seírfjalla-búum til þess að gjöreyða þeim og tortíma, og er þeir höfðu gjörsigrað Seírbúa, þá hjálpuðu þeir til að tortíma hver öðrum.

24 Og er Júdamenn komu á hæðina, þaðan er sjá mátti yfir eyðimörkina, og lituðust um eftir mannfjöldanum, sjá, þá voru þeir hnignir dauðir til jarðar, og enginn hafði undan komist.

25 En Jósafat kom með mönnum sínum til þess að taka af þeim herfang. Fundu þeir afar mikið af fénaði og munum og klæðum og dýrum áhöldum og rændu handa sér svo miklu, að þeir gátu eigi borið. Og þeir voru þrjá daga að taka af þeim herfang, því að mikið var af því.

26 En á fjórða degi söfnuðust þeir saman í Lofgjörðardal, því að þar lofuðu þeir Drottin. Fyrir því heitir sá staður Lofgjörðardalur fram á þennan dag.

27 Síðan sneru allir Júdamenn og Jerúsalembúar, og Jósafat fremstur í flokki, með fögnuði á leið til Jerúsalem, því að Drottinn hafði veitt þeim fögnuð yfir óvinum þeirra.

28 Og þeir héldu inn í Jerúsalem, í hús Drottins, með hörpum, gígjum og lúðrum.

29 En ótti við Guð kom yfir öll heiðnu ríkin, er menn fréttu, að Drottinn hefði barist við óvini Ísraels.

30 Og friður var í ríki Jósafats, og Guð hans veitti honum frið allt um kring.

31 Og Jósafat ríkti yfir Júda. Hann var þrjátíu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og tuttugu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Sílhídóttir.

32 Hann fetaði í fótspor Asa föður síns og veik eigi frá þeim, með því að hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins.

33 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar, og enn þá sneri lýðurinn eigi hjörtum sínum til Guðs feðra þeirra.

34 Það sem meira er að segja um Jósafat, er frá upphafi til enda ritað í Sögu Jehú Hananísonar, sem tekin er upp í bók Ísraelskonunga.

35 Eftir þetta gjörði Jósafat Júdakonungur samband við Ahasía Ísraelskonung. Hann breytti óguðlega.

36 En Jósafat gjörði samband við hann til þess að gjöra skip, er færu til Tarsis, og þeir gjörðu skip í Esjón Geber.

37 Þá spáði Elíesar Dódavahúson frá Maresa gegn Jósafat og mælti: "Sakir þess að þú gjörðir samband við Ahasía, ónýtir Drottinn fyrirtæki þitt." Og skipin brotnuðu og gátu eigi farið til Tarsis.

Opinberun Jóhannesar 8

Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.

Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur.

Og annar engill kom og nam staðar við altarið. Hann hélt á reykelsiskeri úr gulli. Honum var fengið mikið reykelsi til þess að hann skyldi leggja það við bænir allra hinna heilögu á gullaltarið frammi fyrir hásætinu.

Og reykurinn af reykelsinu steig upp með bænum hinna heilögu úr hendi engilsins frammi fyrir Guði.

Þá tók engillinn reykelsiskerið og fyllti það eldi af altarinu og varpaði ofan á jörðina. Og þrumur komu og dunur og eldingar og landskjálfti.

Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása.

Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga.

Annar engillinn básúnaði. Þá var sem miklu fjalli, logandi af eldi, væri varpað í hafið. Þriðjungur hafsins varð blóð,

og þriðjungurinn dó af lífverum þeim, sem eru í hafinu, og þriðjungur skipanna fórst.

10 Þriðji engillinn básúnaði. Þá féll stór stjarna af himni, logandi sem blys, og hún féll ofan á þriðjung fljótanna og á lindir vatnanna.

11 Nafn stjörnunnar er Remma. Þriðjungur vatnanna varð að remmu og margir menn biðu bana af vötnunum, af því að þau voru beisk orðin.

12 Fjórði engillinn básúnaði. Þá varð þriðjungur sólarinnar lostinn og þriðjungur tunglsins og þriðjungur stjarnanna, svo að þriðjungur þeirra yrði myrkur. Og dagurinn missti þriðjung birtu sinnar og nóttin hið sama.

13 Þá sá ég og heyrði örn einn fljúga um háhvolf himins. Hann kallaði hárri röddu: "Vei, vei, vei þeim, sem á jörðu búa, vegna lúðurhljóma englanna þriggja, sem eiga eftir að básúna."

Sakaría 4

Þá vakti engillinn, er við mig talaði, mig aftur, eins og þegar maður er vakinn af svefni,

og sagði við mig: "Hvað sér þú?" Ég svaraði: "Ég sé ljósastiku, og er öll af gulli. Ofan á henni er olíuskál og á henni eru sjö lampar og sjö pípur fyrir lampana.

Og hjá ljósastikunni standa tvö olíutré, annað hægra megin við olíuskálina, hitt vinstra megin."

Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkir þetta, herra minn?"

Og engillinn, sem við mig talaði, svaraði og sagði við mig: "Veistu ekki, hvað þetta merkir?" Ég svaraði: "Nei, herra minn!"

Þá tók hann til máls og sagði við mig: "Þetta eru orð Drottins til Serúbabels: Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! _ segir Drottinn allsherjar.

Hver ert þú, stóra fjall? Fyrir Serúbabel skalt þú verða að sléttu. Og hann mun færa út hornsteininn, og þá munu kveða við fagnaðaróp: Dýrlegur, dýrlegur er hann!"

Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:

Hendur Serúbabels hafa lagt grundvöll þessa húss, hendur hans munu og fullgjöra það. Og þá skaltu viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar.

10 Því að allir þeir, sem lítilsvirða þessa litlu byrjun, munu horfa fagnandi á blýlóðið í hendi Serúbabels. Þessir sjö lampar eru augu Drottins, sem líta yfir gjörvalla jörðina.

11 Þá tók ég til máls og sagði við hann: "Hvað merkja þessi tvö olíutré, hægra og vinstra megin ljósastikunnar?"

12 Og ég tók annað sinn til máls og sagði við hann: "Hvað merkja þær tvær olíuviðargreinar, sem eru við hliðina á þeim tveimur gullpípum, sem láta olífuolíu streyma út úr sér?"

13 Þá sagði hann við mig: "Veistu ekki, hvað þær merkja?" Ég svaraði: "Nei, herra minn!"

14 Þá sagði hann: "Það eru þeir tveir smurðu, er standa frammi fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar."

Jóhannesarguðspjall 7

Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.

Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.

Þá sögðu bræður hans við hann: "Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.

Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum."

Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.

Jesús sagði við þá: "Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.

Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.

Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn."

Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.

10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.

11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri.

12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: "Hann er góður," en aðrir sögðu: "Nei, hann leiðir fjöldann í villu."

13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga.

14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna.

15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: "Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?"

16 Jesús svaraði þeim: "Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.

17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.

18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.

19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?"

20 Fólkið ansaði: "Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir.

22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi.

23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi?

24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm."

25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: "Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta?

26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?

27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er."

28 Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: "Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki.

29 Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig."

30 Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.

31 En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: "Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?"

32 Farísear heyrðu, að fólk var að skrafa þetta um hann, og æðstu prestar og farísear sendu þjóna að taka hann höndum.

33 Þá sagði Jesús: "Enn verð ég hjá yður skamma stund, og þá fer ég aftur til þess, sem sendi mig.

34 Þér munuð leita mín og eigi finna. Þér getið ekki komist þangað sem ég er."

35 Þá sögðu Gyðingar sín á milli: "Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum?

36 Hvað var hann að segja: ,Þér munuð leita mín og eigi finna, og þér getið ekki komist þangað sem ég er`?"

37 Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: "Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki.

38 Sá sem trúir á mig, _ frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir."

39 Þarna átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn, þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn.

40 Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: "Þessi er sannarlega spámaðurinn."

41 Aðrir mæltu: "Hann er Kristur." En sumir sögðu: "Mundi Kristur þá koma frá Galíleu?

42 Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?"

43 Þannig greindi menn á um hann.

44 Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.

45 Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?"

46 Þjónarnir svöruðu: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig."

47 Þá sögðu farísearnir: "Létuð þér þá einnig leiðast afvega?

48 Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?

49 Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!"

50 Nikódemus, sem kom til hans fyrrum og var einn af þeim, segir við þá:

51 "Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?"

52 Þeir svöruðu honum: "Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu."

53 [Nú fór hver heim til sín.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society