Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 18

18 Jósafat hlotnaðist afar mikil auðlegð og sæmd, og hann mægðist við Akab.

Eftir nokkur ár fór hann á fund Akabs til Samaríu. Þá slátraði Akab fjölda sauða og nauta handa honum og mönnum þeim, er með honum voru, og ginnti hann að fara með sér til að herja á Ramót í Gíleað.

Þá mælti Akab Ísraelskonungur við Jósafat Júdakonung: "Hvort munt þú fara með mér til Ramót í Gíleað?" Hann svaraði honum: "Eitt skal yfir báða ganga, mig og þig, mína þjóð og þína þjóð. Skal ég fara með þér til bardagans."

Og Jósafat sagði við Ísraelskonung: "Gakk þú fyrst til frétta og vit, hvað Drottinn segir."

Þá stefndi Ísraelskonungur saman spámönnunum, fjögur hundruð manns, og sagði við þá: "Á ég að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða á ég að hætta við það?" Þeir svöruðu: "Far þú, og Guð mun gefa hana í hendur konungi."

En Jósafat mælti: "Er hér ekki enn einhver spámaður Drottins, að vér mættum leita frétta hjá honum?"

Ísraelskonungur mælti til Jósafats: "Enn er einn eftir, er vér gætum látið ganga til frétta við Drottin, en mér er lítið um hann gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur ávallt illu. Hann heitir Míka Jimlason." Jósafat sagði: "Eigi skyldi konungur svo mæla."

Þá kallaði Ísraelskonungur einn af hirðmönnunum og mælti: "Sæk sem skjótast Míka Jimlason."

En Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu hvor í sínu hásæti, skrýddir purpuraklæðum úti fyrir borgarhliði Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim.

10 Þá gjörði Sedekía Kenaanason sér horn úr járni og mælti: "Svo segir Drottinn: Með þessum munt þú reka Sýrlendinga undir, uns þú hefir gjöreytt þeim."

11 Og allir spámennirnir spáðu á sömu leið og sögðu: "Far þú til Ramót í Gíleað. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi."

12 Sendimaðurinn, sem farinn var að sækja Míka, mælti til hans á þessa leið: "Sjá, spámennirnir hafa einum munni boðað konungi hamingju. Mæl þú sem þeir og boða þú hamingju."

13 En Míka mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Það sem Guð minn til mín talar, það mun ég mæla."

14 Þegar hann kom til konungs, mælti konungur til hans: "Míka, eigum vér að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða eigum vér að hætta við það?" Þá sagði hann: "Farið, þér munuð giftudrjúgir verða, og þeir munu gefnir verða yður á vald!"

15 Þá sagði konungur við hann: "Hversu oft á ég að særa þig um, að þú segir mér eigi annað en sannleikann í nafni Drottins?"

16 Þá mælti hann: "Ég sá allan Ísrael tvístrast um fjöllin eins og hirðislausa sauði, og Drottinn sagði: Þessir hafa engan herra. Fari þeir í friði hver heim til sín."

17 Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: "Fer nú eigi sem ég sagði þér: Hann spáir mér eigi góðu, heldur illu einu?"

18 Þá mælti hann: "Eigi er svo. Heyrið orð Drottins! Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan himins her standa á tvær hendur honum.

19 Og Drottinn sagði: ,Hver vill ginna Akab Ísraelskonung til þess að fara til Ramót í Gíleað og falla þar?` Og einn sagði þetta og annar hitt.

20 Þá gekk fram andi, staðnæmdist frammi fyrir Drottni og mælti: ,Ég skal ginna hann.` Og Drottinn sagði við hann: ,Með hverju?`

21 Hann mælti: ,Ég ætla að fara og verða lygiandi í munni allra spámanna hans.` Þá mælti hann: ,Þú skalt ginna hann, og þér mun takast það. Far og gjör svo!`

22 Þannig hefir þá Drottinn lagt lygianda í munn þessum spámönnum þínum, þar sem Drottinn hefir þó ákveðið að leiða yfir þig ógæfu."

23 Þá gekk að Sedekía Kenaanason, laust Míka kinnhest og mælti: "Hvaða leið hefir andi Drottins farið frá mér til þess að tala við þig?"

24 Þá mælti Míka: "Það munt þú sjá á þeim degi, er þú fer í felur úr einu herberginu í annað."

25 Þá mælti Ísraelskonungur: "Takið Míka og færið hann Amón borgarstjóra og Jóas konungssyni

26 og segið: ,Svo segir konungur: Kastið manni þessum í dýflissu og gefið honum brauð og vatn af skornum skammti, þar til er ég kem aftur heill á húfi."`

27 Þá mælti Míka: "Komir þú aftur heill á húfi, þá hefir Drottinn eigi talað fyrir minn munn." Og hann mælti: "Heyri það allir lýðir!"

28 Síðan fóru þeir Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur til Ramót í Gíleað.

29 Og Ísraelskonungur sagði við Jósafat: "Ég mun klæðast dularbúningi og ganga í orustuna, en þú skalt vera klæddur búningi þínum." Klæddist þá Ísraelskonungur dularbúningi, og gengu þeir í orustuna.

30 En Sýrlandskonungur hafði boðið foringjunum fyrir vagnliði sínu á þessa leið: "Þér skuluð eigi berjast við neinn, hvorki smáan né stóran, nema Ísraelskonung einan!"

31 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu Jósafat, sögðu þeir: "Þetta er Ísraelskonungurinn!" og umkringdu hann til að berjast við hann. Þá kallaði Jósafat hátt, og Drottinn hjálpaði honum og Guð ginnti þá burt frá honum.

32 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu, að það var ekki Ísraelskonungur, þá hættu þeir að elta hann.

33 En maður nokkur lagði ör á streng og skaut af handahófi, og kom á Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Þá mælti hann við kerrusveininn: "Snú þú við og kom mér burt úr bardaganum, því að ég er sár."

34 Var bardaginn hinn harðasti um daginn, og Ísraelskonungur stóð í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds, og dó hann um sólsetur.

Opinberun Jóhannesar 7

Eftir þetta sá ég fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar, til þess að eigi skyldi vindur blása yfir jörðina né hafið né yfir nokkurt tré.

Og ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra, sem gefið var vald til að granda jörðinni og hafinu,

og sagði: "Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors."

Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum Ísraelssona voru merktar innsigli.

Af Júda ættkvísl voru tólf þúsund merkt innsigli, af Rúbens ættkvísl tólf þúsund, af Gaðs ættkvísl tólf þúsund,

af Assers ættkvísl tólf þúsund, af Naftalí ættkvísl tólf þúsund, af Manasse ættkvísl tólf þúsund,

af Símeons ættkvísl tólf þúsund, af Leví ættkvísl tólf þúsund, af Íssakars ættkvísl tólf þúsund,

af Sebúlons ættkvísl tólf þúsund, af Jósefs ættkvísl tólf þúsund, af Benjamíns ættkvísl tólf þúsund menn merktir innsigli.

Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.

10 Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.

11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð

12 og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"

14 Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.

15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.

16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.

17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."

Sakaría 3

Því næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest, þar sem hann stóð frammi fyrir engli Drottins og Satan honum til hægri handar til þess að ákæra hann.

En Drottinn mælti til Satans: "Drottinn ávíti þig, Satan! Drottinn, sem útvalið hefir Jerúsalem, ávíti þig! Er ekki þessi eins og brandur úr báli dreginn?"

Jósúa var í óhreinum klæðum, þar er hann stóð frammi fyrir englinum.

Þá tók engillinn til máls og mælti til þeirra, er stóðu frammi fyrir honum: "Færið hann úr hinum óhreinu klæðum!" Síðan sagði hann við hann: "Sjá, ég hefi burt numið misgjörð þína frá þér og læt nú færa þig í skrúðklæði."

Enn fremur sagði hann: "Látið hreinan ennidúk um höfuð hans!" Þá létu þeir hreinan ennidúk um höfuð hans og færðu hann í klæðin, en engill Drottins stóð hjá.

Og engill Drottins vitnaði fyrir Jósúa og sagði:

"Svo segir Drottinn allsherjar: Ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín, þá skalt þú og stjórna húsi mínu og gæta forgarða minna, og ég heimila þér að ganga meðal þessara þjóna minna."

Heyr, Jósúa æðsti prestur, þú og félagar þínir, sem sitja frammi fyrir þér, eru fyrirboðar þess, að ég læt þjón minn Kvist koma.

Því sjá, steinninn, sem ég hefi lagt frammi fyrir Jósúa _ sjö augu á einum steini _ sjá, ég gref á hann letur hans _ segir Drottinn allsherjar _ og tek burt á einum degi misgjörð þessa lands.

10 Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ munuð þér bjóða hver öðrum inn undir víntré og fíkjutré.

Jóhannesarguðspjall 6

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn.

Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.

Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.

Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.

Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: "Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?"

En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.

Filippus svaraði honum: "Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt."

Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:

"Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?"

10 Jesús sagði: "Látið fólkið setjast niður." Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.

11 Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.

12 Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: "Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist."

13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.

14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: "Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn."

15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu,

17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra.

18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast.

19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir,

20 en hann sagði við þá: "Það er ég, óttist eigi."

21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda.

22 Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum, heldur höfðu þeir farið burt einir saman.

23 Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn, þar sem þeir höfðu etið brauðið, þegar Drottinn gjörði þakkir.

24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú.

25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"

26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.

27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."

28 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?"

29 Jesús svaraði þeim: "Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi."

30 Þeir spurðu hann þá: "Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú?

31 Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ,Brauð af himni gaf hann þeim að eta."`

32 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni.

33 Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf."

34 Þá sögðu þeir við hann: "Herra, gef oss ætíð þetta brauð."

35 Jesús sagði þeim: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.

36 En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki.

37 Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka.

38 Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.

39 En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi.

40 Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi."

41 Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því, að hann sagði: "Ég er brauðið, sem niður steig af himni,"

42 og þeir sögðu: "Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?"

43 Jesús svaraði þeim: "Verið ekki með kurr yðar á meðal.

44 Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.

45 Hjá spámönnunum er skrifað: ,Þeir munu allir verða af Guði fræddir.` Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín.

46 Ekki er það svo, að nokkur hafi séð föðurinn. Sá einn, sem er frá Guði, hefur séð föðurinn.

47 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf.

48 Ég er brauð lífsins.

49 Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu.

50 Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki.

51 Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs."

52 Nú deildu Gyðingar sín á milli og sögðu: "Hvernig getur þessi maður gefið oss hold sitt að eta?"

53 Þá sagði Jesús við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður.

54 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi.

55 Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur.

56 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum.

57 Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur.

58 Þetta er það brauð, sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið, sem feðurnir átu og dóu. Sá sem etur þetta brauð, mun lifa að eilífu."

59 Þetta sagði hann, þegar hann var að kenna í samkundunni í Kapernaum.

60 Margir af lærisveinum hans, er á hlýddu, sögðu: "Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?"

61 Jesús vissi með sjálfum sér, að kurr var með lærisveinum hans út af þessu, og sagði við þá: "Hneykslar þetta yður?

62 En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var?

63 Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.

64 En meðal yðar eru nokkrir, sem ekki trúa." Jesús vissi frá upphafi, hverjir þeir voru, sem trúðu ekki, og hver sá var, sem mundi svíkja hann.

65 Og hann bætti við: "Vegna þess sagði ég við yður: Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það."

66 Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.

67 Þá sagði Jesús við þá tólf: "Ætlið þér að fara líka?"

68 Símon Pétur svaraði honum: "Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs,

69 og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs."

70 Jesús svaraði þeim: "Hef ég eigi sjálfur útvalið yður tólf? Þó er einn yðar djöfull."

71 En hann átti við Júdas Símonarson Ískaríots, sem varð til að svíkja hann, einn þeirra tólf.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society