M’Cheyne Bible Reading Plan
17 Jósafat sonur hans tók ríki eftir hann og efldi sig gegn Ísrael.
2 Hann setti herlið í allar víggirtar borgir í Júda og lét fógeta í Júdaland og Efraímborgir, þær er Asa faðir hans hafði unnið.
3 Og Drottinn var með Jósafat, því að hann gekk á hinum fyrri vegum Davíðs forföður síns og leitaði ekki Baalanna,
4 heldur leitaði Guðs föður síns og fór eftir skipunum hans og breytti ekki sem Ísrael.
5 Þess vegna staðfesti Drottinn konungdóminn í hendi hans, svo að allur Júda færði Jósafat gjafir, svo að honum hlotnaðist afar mikil auðlegð og sæmd.
6 Og með því að honum óx hugur á vegum Drottins, þá afnam hann og fórnarhæðirnar og asérurnar úr Júda.
7 En á þriðja ríkisári sínu sendi hann höfðingja sína Benhaíl, Óbadía, Sakaría, Netaneel og Míkaja til þess að kenna í Júdaborgum,
8 og með þeim levítana Semaja, Netanja, Sebadja, Asahel, Semíramót, Jónatan, Adónía, Tobía og Tob Adónía levíta, og ásamt þeim prestana Elísama og Jóram.
9 Þeir kenndu í Júda og höfðu með sér lögbók Drottins, og fóru um allar borgir í Júda og kenndu lýðnum.
10 Og ótti við Drottin kom yfir öll heiðnu ríkin, er voru umhverfis Júda, svo að þau lögðu eigi í ófrið við Jósafat.
11 Og nokkrir af Filistum færðu Jósafat gjafir og silfur í skatt. Einnig færðu Arabar honum fénað: sjö þúsund og sjö hundruð hrúta og sjö þúsund og sjö hundruð geithafra.
12 Og þannig varð Jósafat æ voldugri, svo að yfir tók, og hann reisti hallir og vistaborgir í Júda.
13 Hafði hann afar mikinn vistaforða í Júdaborgum, og hermenn hafði hann í Jerúsalem, hina mestu kappa.
14 Og þetta er tala þeirra eftir ættum þeirra: Af Júda voru þúsundhöfðingjar: Adna höfuðsmaður og þrjú hundruð þúsund hraustir kappar með honum.
15 Honum næstur gekk Jóhanan höfuðsmaður og tvö hundruð og áttatíu þúsund manns með honum.
16 Honum næstur var Amasja Síkríson, er sjálfviljuglega hafði gengið Drottni á hönd, og tvö hundruð þúsund hraustir kappar með honum.
17 En af Benjamín voru: Eljada kappi og tvö hundruð þúsund manns með honum, vopnaðir bogum og buklurum,
18 og honum næstur Jósabad og hundrað og áttatíu þúsund herbúinna manna með honum.
19 Þessir voru þeir, er konungi þjónuðu, auk þeirra, er konungur hafði sett í víggirtar borgir í öllu Júdalandi.
6 Og ég sá, er lambið lauk upp einu af innsiglunum sjö, og ég heyrði eina af verunum fjórum segja eins og með þrumuraust: "Kom!"
2 Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.
3 Þegar lambið lauk upp öðru innsiglinu, heyrði ég aðra veruna segja: "Kom!"
4 Og út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.
5 Þegar lambið lauk upp þriðja innsiglinu, heyrði ég þriðju veruna segja: "Kom!" Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér.
6 Og mitt á meðal veranna fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: "Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu."
7 Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: "Kom!"
8 Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.
9 Þegar lambið lauk upp fimmta innsiglinu, sá ég undir altarinu sálir þeirra manna, sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs og fyrir sakir vitnisburðarins, sem þeir höfðu.
10 Og þeir hrópuðu hárri röddu og sögðu: "Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?"
11 Og þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. Og þeim var sagt, að þeir skyldu enn hvílast litla hríð, þangað til samþjónar þeirra og bræður þeirra, sem áttu að deyðast eins og sjálfir þeir, einnig fylltu töluna.
12 Og ég sá, er lambið lauk upp sjötta innsiglinu. Og mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð.
13 Og stjörnur himinsins hröpuðu niður á jörðina eins og þegar fíkjutré, skekið af stormvindi, fellir haustaldin sín.
14 Og himinninn sviptist burt eins og þegar bókfell vefst saman, og hvert fjall og ey færðist úr stað sínum.
15 Og konungar jarðarinnar og höfðingjarnir og herforingjarnir og auðmennirnir, mektarmennirnir og hver þræll og þegn fólu sig í hellum og í hömrum fjalla.
16 Og þeir segja við fjöllin og hamrana: "Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins;
17 því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?"
2 Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar fjögur horn voru.
2 Þá spurði ég engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkja þessi?" Hann svaraði mér: "Þetta eru hornin, sem tvístrað hafa Júda, Ísrael og Jerúsalem."
3 Því næst lét Drottinn mig sjá fjóra smiði,
4 og er ég spurði: "Hvað ætla þessir að gjöra?" svaraði hann á þessa leið: "Þetta eru hornin, sem tvístruðu Júda svo, að enginn bar höfuð hátt, en þessir eru komnir til þess að skelfa þau, til þess að varpa niður hornum þeirra þjóða, er hófu horn gegn Júdalandi til þess að tvístra því."
5 Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar maður var. Hann hélt á mæliþræði í hendi sér.
6 Þá spurði ég: "Hvert ætlar þú?" Hann svaraði mér: "Að mæla Jerúsalem til þess að sjá, hve löng og hve breið hún er."
7 Þá gekk engillinn, er við mig talaði, allt í einu fram, og annar engill gekk fram á móti honum.
8 Við hann sagði hann: "Hlaup þú og tala þú svo til þessa unga manns: ,Jerúsalem skal liggja opin og ógirt sökum þess fjölda manna og skepna, sem í henni verða,
9 og ég sjálfur skal vera eins og eldveggur kringum hana _ segir Drottinn _ og ég skal sýna mig dýrlegan í henni."`
10 Upp, upp, flýið úr norðurlandinu _ segir Drottinn _ því að ég hefi tvístrað yður í allar áttir _ segir Drottinn.
11 Upp, forðið yður til Síonar, þér sem búið í Babýlon!
12 Svo segir Drottinn allsherjar, hinn vegsamlegi, sem hefir sent mig til þjóðanna sem rændu yður: Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.
13 Því sjá, ég mun veifa hendi minni yfir þeim, og þá skulu þeir verða þrælum sínum að herfangi, og þér skuluð viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig.
14 Fagna þú og gleð þig, dóttirin Síon! Því sjá, ég kem og vil búa mitt í þér _ segir Drottinn.
15 Á þeim degi munu margar þjóðir ganga Drottni á hönd og verða hans lýður og búa mitt á meðal þín, og þú munt viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til þín.
16 Þá mun Drottinn taka Júda til eignar sem arfleifð sína í hinu heilaga landi og enn útvelja Jerúsalem.
17 Allt hold veri hljótt fyrir Drottni! Því að hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað.
5 Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem.
2 Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng.
3 Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins.
4 En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.]
5 Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár.
6 Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: "Viltu verða heill?"
7 Hinn sjúki svaraði honum: "Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér."
8 Jesús segir við hann: "Statt upp, tak rekkju þína og gakk!"
9 Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur,
10 og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: "Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna."
11 Hann svaraði þeim: "Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!"`
12 Þeir spurðu hann: "Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk`?"
13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.
14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: "Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra."
15 Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann.
16 Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.
17 En hann svaraði þeim: "Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig."
18 Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.
19 Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.
20 Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir.
21 Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill.
22 Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm,
23 svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.
24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.
25 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa.
26 Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér.
27 Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur.
28 Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans
29 og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.
30 Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.
31 Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur.
32 Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér.
33 Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni.
34 Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast.
35 Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans.
36 Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.
37 Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans.
38 Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi.
39 Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig,
40 en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
41 Ég þigg ekki heiður af mönnum,
42 en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs.
43 Ég er kominn í nafni föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum.
44 Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði?
45 Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér.
46 Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað.
47 Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?"
by Icelandic Bible Society