Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 16

16 Á þrítugasta og sjötta ríkisári Asa fór Basa Ísraelskonungur herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi.

Þá tók Asa silfur og gull úr fjárhirslum húss Drottins og konungshallarinnar og sendi Benhadad Sýrlandskonungi, er bjó í Damaskus, með þessari orðsending:

"Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér silfur og gull: Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér."

Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og unnu þeir Íjón, Dan og Abel Maím og öll forðabúr í Naftalí borgum.

Þegar Basa spurði það, lét hann af að víggirða Rama og hætti við starf sitt.

En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum, og fluttu þeir burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti hann með þeim Geba og Mispa.

En um þetta leyti kom Hananí sjáandi til Asa Júdakonungs og sagði við hann: "Sakir þess að þú studdist við Sýrlandskonung, en studdist ekki við Drottin, Guð þinn, sakir þess er her Sýrlandskonungs genginn þér úr greipum.

Voru ekki Blálendingar og Líbýumenn mikill her, með afar marga vagna og riddara? En af því þú studdist við Drottin, gaf hann þá þér á vald.

Því að augu Drottins hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann. Þér hefir farið heimskulega í þessu, því að héðan í frá munu menn stöðugt eiga í ófriði við þig."

10 En Asa rann í skap við sjáandann og setti hann í stokkhúsið, því að hann var honum reiður fyrir þetta. Asa sýndi og sumum af lýðnum ofríki um þessar mundir.

11 Saga Asa er frá upphafi til enda rituð í bókum Júda- og Ísraelskonunga.

12 Á þrítugasta og níunda ríkisári sínu gjörðist Asa fótaveikur, og varð sjúkleiki hans mjög mikill. En einnig í sjúkleik sínum leitaði hann ekki Drottins, heldur læknanna.

13 Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og dó á fertugasta og fyrsta ríkisári sínu.

14 Og hann var grafinn í gröf sinni, er hann hafði látið höggva út handa sér í Davíðsborg. Og hann var lagður á líkbekk, er fylltur var kryddjurtum og alls konar smyrslum, blönduðum ilmreykelsi, og afar mikil brenna var gjörð honum til heiðurs.

Opinberun Jóhannesar 5

Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum.

Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: "Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?"

En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana.

Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana.

En einn af öldungunum segir við mig: "Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö."

Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina.

Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat.

Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu.

Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.

10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni.

11 Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda.

12 Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð.

13 Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.

14 Og verurnar fjórar sögðu: "Amen." Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.

Sakaría 1

Á áttunda mánuði annars ríkisárs Daríusar kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi:

Drottinn var stórreiður feðrum yðar.

Seg því við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður til mín _ segir Drottinn allsherjar _ þá mun ég snúa mér til yðar _ segir Drottinn allsherjar.

Verið ekki eins og feður yðar, sem hinir fyrri spámenn áminntu með svofelldum orðum: "Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður frá yðar vondu breytni og frá yðar vondu verkum!" En þeir hlýddu ekki og gáfu engan gaum að mér _ segir Drottinn.

Feður yðar _ hvar eru þeir? Og spámennirnir _ geta þeir lifað eilíflega?

En orð mín og ályktanir, þau er ég bauð þjónum mínum, spámönnunum, að kunngjöra, hafa þau ekki náð feðrum yðar, svo að þeir sneru við og sögðu: "Eins og Drottinn allsherjar hafði ásett sér að gjöra við oss eftir breytni vorri og verkum vorum, svo hefir hann við oss gjört"?

Á tuttugasta og fjórða degi hins ellefta mánaðar, það er mánaðarins sebat, á öðru ríkisári Daríusar, kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi:

Ég sá sýn á náttarþeli: mann ríðandi á rauðum hesti, og hafði hann staðnæmst meðal mýrtustrjánna, sem eru í dalverpinu. Að baki honum voru rauðir, jarpir og hvítir hestar.

Og er ég spurði: "Hverjir eru þessir, herra minn?" svaraði engillinn mér, sá er við mig talaði: "Ég skal sýna þér, hverjir þeir eru."

10 Þá tók maðurinn, sem staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, til máls og sagði: "Þessir eru þeir, sem Drottinn hefir sent til þess að fara um jörðina."

11 Þá svöruðu þeir engli Drottins, er staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, og sögðu: "Vér höfum farið um jörðina, og sjá, öll jörðin er í ró og kyrrð."

12 Þá svaraði engill Drottins og sagði: "Drottinn allsherjar, hversu lengi á því fram að fara, að þú miskunnir þig ekki yfir Jerúsalem og Júdaborgir, er þú hefir nú reiður verið í sjötíu ár?"

13 Þá svaraði Drottinn englinum, er við mig talaði, blíðum orðum og huggunarríkum,

14 og engillinn sem við mig talaði, sagði við mig: "Kunngjör og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég brenn af mikilli vandlæting vegna Jerúsalem og Síonar

15 og ég er stórreiður hinum andvaralausu heiðingjum, sem juku á bölið, þá er ég var lítið eitt reiður.

16 Fyrir því segir Drottinn svo: Ég sný mér aftur að Jerúsalem með miskunnsemi. Hús mitt skal verða endurreist í henni _ segir Drottinn allsherjar _ og mælivaður skal þaninn verða yfir Jerúsalem.

17 Kunngjör enn fremur og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Enn skulu borgir mínar fljóta í gæðum, og enn mun Drottinn hugga Síon og enn útvelja Jerúsalem."

Jóhannesarguðspjall 4

Er Jesús varð þess vís, að farísear hefðu heyrt, að hann fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes,

_ reyndar skírði Jesús ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans _

þá hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu.

Hann varð að fara um Samaríu.

Nú kemur hann til borgar í Samaríu, er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu, sem Jakob gaf Jósef syni sínum.

Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður, og settist hann þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.

Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: "Gef mér að drekka."

En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.

Þá segir samverska konan við hann: "Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?" [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]

10 Jesús svaraði henni: "Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: ,Gef mér að drekka,` þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn."

11 Hún segir við hann: "Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn?

12 Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?"

13 Jesús svaraði: "Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta,

14 en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs."

15 Þá segir konan við hann: "Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa."

16 Hann segir við hana: "Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað."

17 Konan svaraði: "Ég á engan mann." Jesús segir við hana: "Rétt er það, að þú eigir engan mann,

18 því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt."

19 Konan segir við hann: "Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður.

20 Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli."

21 Jesús segir við hana: "Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.

22 Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum.

23 En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann.

24 Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika."

25 Konan segir við hann: "Ég veit, að Messías kemur _ það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt."

26 Jesús segir við hana: "Ég er hann, ég sem við þig tala."

27 Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: "Hvað viltu?" eða: "Hvað ertu að tala við hana?"

28 Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn:

29 "Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?"

30 Þeir fóru úr borginni og komu til hans.

31 Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: "Rabbí, fá þér að eta."

32 Hann svaraði þeim: "Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um."

33 Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: "Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?"

34 Jesús sagði við þá: "Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.

35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru.

36 Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.

37 Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp.

38 Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra."

39 Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört.

40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.

41 Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan.

42 Þeir sögðu við konuna: "Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins."

43 Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu.

44 En sjálfur hafði Jesús sagt, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu.

45 Þegar hann kom nú til Galíleu, tóku Galíleumenn honum vel, þar eð þeir höfðu séð allt sem hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem, enda höfðu þeir sjálfir sótt hátíðina.

46 Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son.

47 Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona.

48 Þá sagði Jesús við hann: "Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki."

49 Konungsmaður bað hann: "Herra, kom þú áður en barnið mitt andast."

50 Jesús svaraði: "Far þú, sonur þinn lifir." Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað.

51 En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi.

52 Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: "Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum."

53 Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: "Sonur þinn lifir." Og hann tók trú og allt hans heimafólk.

54 Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society