Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 14-15

14 Og Abía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. Og Asa sonur hans tók ríki eftir hann. Á hans dögum var friður í landi í tíu ár.

Asa gjörði það, sem gott var og rétt í augum Drottins, Guðs síns.

Hann afnam hin útlendu ölturu og fórnarhæðirnar, braut sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar.

Og hann bauð Júdamönnum að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, og breyta eftir lögmáli hans og skipunum.

Hann afnam hæðirnar og sólsúlurnar úr öllum Júdaborgum, og ríkið naut friðar um hans daga.

Hann reisti kastala í Júda, því að friður var í landi og enginn átti í ófriði við hann þau árin, því að Drottinn veitti honum frið.

Og hann sagði við Júdamenn: "Látum oss reisa borgir þessar og girða um þær með múrum og turnum, hurðum og slagbröndum, því að enn þá er landið oss opið, af því að vér höfum leitað Drottins, Guðs vors. Vér höfum leitað hans, og hann hefir veitt oss frið allt um kring." Byggðu þeir síðan og gekk það vel.

Og Asa hafði her, er skjöld bar og spjót, úr Júda þrjú hundruð þúsund og úr Benjamín tvö hundruð og áttatíu þúsund manna, er buklara báru og boga bentu. Voru þeir allir hinir mestu kappar.

En Sera Blálendingur fór í móti þeim með milljón hermanna og þrjú hundruð vagna og komst allt til Maresa.

10 Fór Asa út í móti honum, og fylktu þeir sér til orustu í Sefatadal hjá Maresa.

11 Og Asa ákallaði Drottin, Guð sinn, og sagði: "Drottinn, enginn nema þú getur hjálpað lítilmagnanum gegn hinum voldugu. Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, því að við þig styðjumst vér, og í þínu nafni höfum vér farið á móti þessum mannfjölda. Drottinn, þú ert vor Guð, gagnvart þér er dauðlegur maðurinn máttvana."

12 Og Drottinn lét Blálendingana bíða ósigur fyrir Asa og fyrir Júdamönnum, svo að Blálendingar flýðu.

13 En Asa og lið það, er með honum var, veittu þeim eftirför til Gerar, og féll lið af Blálendingum, svo að enginn þeirra var eftir á lífi, því að þeir féllu unnvörpum fyrir Drottni og fyrir her hans. Höfðu þeir þaðan afar mikið herfang.

14 Þeir unnu og allar borgir umhverfis Gerar, því að ótti við Drottin var kominn yfir þær. Rændu þeir síðan allar borgirnar, því að þar var miklu að ræna.

15 Þá náðu þeir og hjarðtjöldunum og höfðu á burt með sér að herfangi fjölda sauða og úlfalda, og sneru síðan aftur til Jerúsalem.

15 Þá kom andi Guðs yfir Asarja Ódeðsson.

Gekk hann fram fyrir Asa og mælti til hans: "Hlýðið á mig, þér Asa og allur Júda og Benjamín. Drottinn er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.

En langan tíma hefir Ísrael verið án hins sanna Guðs, án presta, er fræddu hann, og án lögmáls.

Og er þeir voru í nauðum staddir, sneru þeir sér til Drottins, Ísraels Guðs, og leituðu hans, og hann gaf þeim kost á að finna sig.

Um þær mundir voru engar tryggðir fyrir þá, er fóru eða komu, heldur var hið mesta griðaleysi meðal allra íbúa héraðanna.

Þjóð rakst á þjóð og borg á borg, því að Drottinn hræddi þá með hvers konar nauðum.

En verið þér öruggir og látið yður eigi fallast hendur, því að breytni yðar mun umbun hljóta."

En er Asa heyrði orð þessi og spádóm Ódeðs spámanns, þá herti hann upp hugann og útrýmdi viðurstyggðunum úr öllu landi Júda og Benjamíns, svo og úr borgum þeim, er hann hafði unnið á Efraímfjöllum, en endurnýjaði altari Drottins, það er var frammi fyrir forsal Drottins.

Síðan stefndi hann saman öllum Júda og Benjamín og aðkomumönnum þeim, er hjá þeim voru af Efraím, Manasse og Símeon, því að fjöldi manna af Ísrael hafði gengið honum á hönd, er þeir sáu að Drottinn, Guð hans, var með honum.

10 Og þeir komu saman í Jerúsalem í þriðja mánuði á fimmtánda ríkisári Asa.

11 Og á þeim degi færðu þeir Drottni í sláturfórn af herfanginu, er þeir höfðu fengið: sjö hundruð naut og sjö þúsund sauði.

12 Og þeir bundust þeim sáttmála, að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni,

13 og skyldi hver sá, er eigi leitaði Drottins, Guðs Ísraels, líflátinn, yngri sem eldri, karl eða kona.

14 Sóru þeir síðan Drottni eiða með hárri röddu og lustu upp fagnaðarópi, en lúðrar og básúnur kváðu við.

15 Og allur Júda gladdist yfir eiðnum, því að þeir höfðu eið unnið af öllu hjarta sínu og leitað hans af öllum huga sínum. Gaf Drottinn þeim því kost á að finna sig og veitti þeim frið allt um kring.

16 Asa konungur svipti jafnvel Maöku, móður sína, drottningartigninni, fyrir það, að hún hafði gjöra látið hræðilegt aséru-líkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar, muldi það og brenndi það í Kídrondal.

17 En fórnarhæðirnar voru ekki afnumdar úr Ísrael. Þó var hjarta Asa óskipt alla ævi hans.

18 Hann lét og flytja í hús Guðs helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar, silfur, gull og áhöld.

19 Og enginn ófriður var fram að þrítugasta og fimmta ríkisári Asa.

Opinberun Jóhannesar 4

Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: "Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta."

Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu.

Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður.

Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur.

Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs.

Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli. Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir.

Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni.

Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.

Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda,

10 þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja:

11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.

Haggaí 2

Á tuttugasta og fyrsta degi hins sjöunda mánaðar talaði Drottinn fyrir munn Haggaí spámanns á þessa leið:

Mæl þú til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðsta prests og til þeirra sem eftir eru af lýðnum, á þessa leið:

Hver er sá af yður eftir orðinn, er séð hefir þetta hús í sinni fyrri vegsemd, og hversu virðist yður það nú? Er það ekki einskisvert í yðar augum?

En ver samt hughraustur, Serúbabel _ segir Drottinn _ og ver hughraustur, Jósúa Jósadaksson æðsti prestur, og ver hughraustur, allur landslýður _ segir Drottinn _ og haldið áfram verkinu, því að ég er með yður _ segir Drottinn allsherjar _

samkvæmt heiti því, er ég gjörði við yður, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og andi minn dvelur meðal yðar. Óttist ekki.

Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra himin og jörð, haf og þurrlendi.

Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð _ segir Drottinn allsherjar.

Mitt er silfrið, mitt er gullið _ segir Drottinn allsherjar.

Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var _ segir Drottinn allsherjar _ og ég mun veita heill á þessum stað _ segir Drottinn allsherjar.

10 Á tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar, á öðru ríkisári Daríusar, talaði Drottinn fyrir munn Haggaí spámanns á þessa leið:

11 Svo segir Drottinn allsherjar: Leitaðu fræðslu prestanna um þetta:

12 "Setjum, að maður beri heilagt kjöt í kyrtilskauti sínu og snerti síðan brauð, einhvern rétt matar, vín, olíu eða eitthvað annað matarkyns með kyrtilskauti sínu, verður það þá heilagt af því?" Prestarnir svöruðu og sögðu: "Nei!"

13 Þá spurði Haggaí: "Ef maður, sem orðinn er óhreinn, af því að hann hefir snortið lík, kemur við eitthvað af þessu, verður það þá óhreint?" Prestarnir svöruðu og sögðu: "Já, það verður óhreint."

14 Þá tók Haggaí til máls og sagði: "Eins er um þennan lýð og þessa þjóð í mínum augum _ segir Drottinn _ svo og um allt verk er þeir vinna, og það sem þeir færa mér þar að fórn, það er óhreint.

15 Og rennið nú huganum frá þessum degi aftur í tímann, áður en steinn var lagður á stein ofan í musteri Drottins.

16 Hvernig leið yður þá? Kæmi maður að kornbing, sem gjöra skyldi tuttugu skeppur, þá urðu þær tíu. Kæmi maður að vínþröng og ætlaði að ausa fimmtíu könnur úr þrónni, þá urðu þar ekki nema tuttugu.

17 Ég hefi refsað yður með korndrepi og gulnan og hagli yfir öll handaverk yðar, og þó snúið þér yður ekki til mín! _ segir Drottinn.

18 Rennið nú huganum frá þessum degi lengra aftur í tímann, frá hinum tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar, frá þeim degi er lagður var grundvöllur að musteri Drottins. Rennið huganum yfir,

19 hvort enn sé korn í forðabúrinu og hvort víntrén og fíkjutrén og granateplatrén og olíutrén beri ekki enn ávöxt. Frá þessum degi vil ég blessun gefa!"

20 Orð Drottins kom til Haggaí annað sinn hinn tuttugasta og fjórða sama mánaðar, svo hljóðandi:

21 Mæl til Serúbabels, landstjóra í Júda á þessa leið: Ég mun hræra himin og jörð.

22 Ég kollvarpa veldisstólum konungsríkjanna og eyðilegg vald hinna heiðnu konungsríkja. Ég kollvarpa vögnum og þeim, sem í þeim aka, og hestarnir skulu hníga dauðir og þeir, sem á þeim sitja, hver fyrir annars sverði.

Jóhannesarguðspjall 3

Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga.

Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: "Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum."

Jesús svaraði honum: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju."

Nikódemus segir við hann: "Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?"

Jesús svaraði: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.

Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.

Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju.

Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur."

Þá spurði Nikódemus: "Hvernig má þetta verða?"

10 Jesús svaraði honum: "Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta?

11 Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum.

12 Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku?

13 Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.

14 Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn,

15 svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum.

16 Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

17 Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.

18 Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina.

19 En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond.

20 Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís.

21 En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð."

22 Eftir þetta fór Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði.

23 Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím, en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast.

24 Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.

25 Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins.

26 Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: "Rabbí, sá sem var hjá þér handan við Jórdan og þú barst vitni um, hann er að skíra, og allir koma til hans."

27 Jóhannes svaraði þeim: "Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni.

28 Þér getið sjálfir vitnað um, að ég sagði: ,Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum.`

29 Sá er brúðguminn, sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu.

30 Hann á að vaxa, en ég að minnka.

31 Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum

32 og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans.

33 En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður.

34 Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð andann.

35 Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum.

36 Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society