M’Cheyne Bible Reading Plan
11 En er Rehabeam kom til Jerúsalem, safnaði hann saman Júdamönnum og Benjamínsættkvísl, hundrað og áttatíu þúsundum einvalaliðs, til þess að berjast við Ísrael og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam.
2 En orð Drottins kom til Semaja guðsmanns, svolátandi:
3 "Tala þú svo til Rehabeams, sonar Salómons, konungs í Júda, og til allra Ísraelsmanna í Júda og Benjamín:
4 Svo segir Drottinn: Farið eigi og berjist eigi við bræður yðar. Fari hver heim til sín, því að minni tilhlutun er þetta orðið." Og er þeir heyrðu orð Drottins, hurfu þeir aftur og hættu við að fara á móti Jeróbóam.
5 Rehabeam bjó síðan í Jerúsalem. Og hann gjörði nokkrar borgir í Júda að köstulum,
6 og hann gjörði Betlehem, Etam, Tekóa,
7 Bet Súr, Sókó, Adúllam,
8 Gat, Maresa, Síf,
9 Adóraím, Lakís, Aseka,
10 Sorea, Ajalon og Hebron, sem eru í Júda og Benjamín, að kastalaborgum.
11 Gjörði hann kastalana rammgjörva, setti þar höfðingja fyrir og lét þar forða vista, olíu og víns.
12 Og í hverja borg lét hann skjöldu og spjót, og víggirti þær afar rammlega. Og Júda og Benjamín lutu honum.
13 Prestarnir og levítarnir, er voru um allan Ísrael, komu úr öllum héruðum sínum og gengu honum til handa.
14 Því að levítarnir yfirgáfu beitilönd sín og óðul og fóru til Júda og Jerúsalem, því að Jeróbóam og synir hans höfðu rekið þá úr prestþjónustu fyrir Drottni,
15 og hafði hann sjálfur skipað sér presta fyrir fórnarhæðirnar og skógartröllin og kálfana, er hann hafði gjöra látið.
16 Og þeim fylgdu þeir af öllum ættkvíslum Ísraels, er lögðu hug á að leita Drottins, Guðs Ísraels. Komu þeir til Jerúsalem til þess að færa fórnir Drottni, Guði feðra þeirra.
17 Og þeir efldu Júdaríki og styrktu Rehabeam, son Salómons, í þrjú ár. Því að þeir fetuðu í fótspor Davíðs og Salómons í þrjú ár.
18 Og Rehabeam tók sér fyrir konu Mahalat, dóttur Jerímóts Davíðssonar og Abíhaílar, dóttur Elíabs Ísaísonar.
19 Ól hún honum sonu: Jeús, Semarja og Saham.
20 Og eftir hana fékk hann Maöku Absalonsdóttur. Hún ól honum Abía, Attaí, Sísa og Selómít.
21 Og Rehabeam unni Maöku Absalonsdóttur meira en öllum öðrum konum sínum og hjákonum, því að hann hafði tekið sér átján konur og sextíu hjákonur, og gat tuttugu og átta sonu og sextán dætur.
22 Og Rehabeam gjörði Abía, son Maöku, að ætthöfðingja, að höfðingja meðal bræðra sinna, því að hann hugðist mundu gjöra hann að konungi.
23 Og hann fór hyggilega að ráði sínu og skipti öllum sonum sínum niður á öll héruð í Júda og Benjamín, niður á allar kastalaborgir, fékk þeim gnóttir vista og bað þeim fjölda kvenna.
12 En er konungdómur Rehabeams var fastur orðinn, og hann sjálfur orðinn fastur í sessi, þá yfirgaf hann lögmál Drottins og allur Ísrael með honum.
2 Á fimmta ríkisári Rehabeams fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem _ af því að þeir höfðu sýnt Drottni ótrúmennsku _
3 með tólf hundruð vögnum og sextíu þúsund riddurum. Mátti eigi koma tölu á fólk það, er með honum kom frá Egyptalandi: Líbýumenn, Súkítar og Blálendingar.
4 Hann tók kastalaborgirnar, þær er voru í Júda, og komst allt til Jerúsalem.
5 En Semaja spámaður kom til Rehabeams og höfðingja Júda, er hörfað höfðu fyrir Sísak til Jerúsalem, og mælti til þeirra: "Svo segir Drottinn: Þér hafið yfirgefið mig, svo ofursel ég og yður á vald Sísaks."
6 Þá auðmýktu þeir sig, höfðingjar Ísraels og konungur, og sögðu: "Réttlátur er Drottinn!"
7 En er Drottinn sá, að þeir höfðu auðmýkt sig, kom orð Drottins til Semaja, svolátandi: "Þeir hafa auðmýkt sig; ég skal eigi tortíma þeim, heldur fulltingja þeim að nokkru, og eigi hella reiði minni yfir Jerúsalem fyrir Sísak.
8 Þó skulu þeir verða lýðskyldir honum, að þeir megi læra að þekkja muninn á að þjóna mér og á að þjóna heiðnum konungum."
9 Síðan fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem og tók fjársjóðu húss Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar, tók það allt saman. Hann tók og gullskjölduna, er Salómon hafði gjöra látið.
10 Rehabeam konungur lét í þeirra stað gjöra eirskjöldu og fékk þá höfuðsmönnum lífvarðarins til geymslu, þeim er geyma dyra á höll konungs.
11 Og í hvert sinn, er konungur gekk í hús Drottins, komu varðliðsmennirnir og báru þá, og fóru síðan með þá aftur í herbergi varðliðsmannanna.
12 En er hann auðmýkti sig, hvarf reiði Drottins frá honum og tortímdi honum eigi með öllu; enn þá var þó eitthvað gott til í Júda.
13 Og Rehabeam konungur efldist í Jerúsalem og sat að völdum, því að Rehabeam hafði einn um fertugt, þá er hann varð konungur, og seytján ár ríkti hann í Jerúsalem, borginni sem Drottinn hafði útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. En móðir hans hét Naama og var ammónítísk.
14 Og hann breytti illa, því að hann lagði eigi hug á að leita Drottins.
15 En saga Rehabeams, frá upphafi til enda, er rituð í Sögu Semaja spámanns og Íddós sjáanda, í ættartölunum. Og ófriður stóð ávallt milli Rehabeams og Jeróbóams.
16 Og Rehabeam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. Og Abía sonur hans tók ríki eftir hann.
2 Engli safnaðarins í Efesus skalt þú rita: Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö:
2 Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar.
3 Þú ert þolgóður og byrðar hefur þú borið fyrir sakir nafns míns og ekki þreytst.
4 En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.
5 Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum. Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað, ef þú gjörir ekki iðrun.
6 En það mátt þú eiga, að þú hatar verk Nikólaítanna, sem ég sjálfur hata.
7 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs.
8 Og engli safnaðarins í Smýrnu skalt þú rita: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi:
9 Ég þekki þrengingu þína og fátækt _ en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans.
10 Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.
11 Hver sem eyra hefur, hann heyri, hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.
12 Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra:
13 Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr.
14 En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór.
15 Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta.
16 Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.
17 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda "manna", og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.
18 Og engli safnaðarins í Þýatíru skalt þú rita: Þetta segir sonur Guðs, sem augun hefur eins og eldsloga og fætur hans eru líkir glómálmi:
19 Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri.
20 En það hef ég á móti þér, að þú líður Jessabel, konuna, sem segir sjálfa sig vera spákonu og kennir þjónum mínum og afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum.
21 Ég hef gefið henni frest til þess að hún gjöri iðrun, en hún vill ekki gjöra iðrun og láta af hórdómi sínum.
22 Nú mun ég varpa henni á sjúkrabeð og þeim í mikla þrengingu, sem hórast með henni, ef þeir gjöra ekki iðrun og láta af verkum hennar.
23 Og börn hennar mun ég deyða og allir söfnuðirnir skulu vita, að ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.
24 En yður segi ég, hinum sem eruð í Þýatíru, öllum þeim sem hafa ekki kenningu þessa, þar sem þeir hafa ekki kannað djúp Satans, sem þeir svo kalla: Aðra byrði legg ég eigi á yður,
25 nema það að þér haldið því, sem þér hafið, þangað til ég kem.
26 Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda verk mín mun ég gefa vald yfir heiðingjunum.
27 Og hann mun stjórna þeim með járnsprota, eins og leirker eru moluð. Það vald hef ég fengið frá föður mínum.
28 Og ég mun gefa honum morgunstjörnuna.
29 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
3 Vei hinni þverúðarfullu og saurguðu, hinni ofríkisfullu borg!
2 Hún hlýðir engri áminningu, hún tekur engri hirtingu, hún treystir ekki Drottni og nálægir sig ekki Guði sínum.
3 Höfðingjarnir í henni eru sem öskrandi ljón, dómendur hennar sem úlfar að kveldi, þeir leifa engu til morguns.
4 Spámenn hennar eru léttúðarmenn, svikaseggir. Prestar hennar vanhelga hið heilaga, misbjóða lögmálinu.
5 En Drottinn er réttlátur í henni, hann gjörir ekkert rangt. Á morgni hverjum leiðir hann réttlæti sitt í ljós, það bregst ekki, en hinn rangláti kann ekki að skammast sín.
6 Ég hefi afmáð þjóðir, múrtindar þeirra voru brotnir niður. Ég hefi lagt stræti þeirra í eyði, svo að enginn var þar á ferð. Borgir þeirra voru eyddar, urðu mannlausar, svo að þar bjó enginn.
7 Ég sagði: "Óttast þú mig aðeins, tak hirtingu!" þá skal bústaður hennar ekki afmáður verða, eftir allt sem ég hefi fyrirskipað gegn henni. En þeir hafa verið því kostgæfari í því að láta allar gjörðir sínar vera illverk.
8 Bíðið mín þess vegna _ segir Drottinn, _ bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði. Því að fyrir eldi vandlætingar minnar skal allt landið verða eytt.
9 Já, þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir, svo að þær ákalli allar nafn Drottins og þjóni honum einhuga.
10 Handan frá Blálands fljótum munu þeir færa mér sláturfórnir, flytja mér matfórnir.
11 Á þeim degi þarft þú eigi að skammast þín fyrir öll illverk þín, þau er þú syndgaðir með gegn mér, því að þá mun ég ryðja burt frá þér þeim, er ofkætast drambsamlega í þér, og þú munt ekki framar ofmetnast á mínu heilaga fjalli.
12 Og ég mun láta í þér eftir verða auðmjúkan og lítilmótlegan lýð, þeir munu leita sér hælis í nafni Drottins.
13 Leifar Ísraels munu engin rangindi fremja, né heldur tala lygar, og í munni þeirra mun ekki finnast sviksöm tunga. Já, þeir munu vera á beit og leggjast, án þess að nokkur styggi þá.
14 Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem!
15 Drottinn hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, Drottinn, er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna.
16 Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: "Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast!
17 Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng."
18 Ég saman safna þeim, sem hryggir eru út af hátíðarsamkomunni, frá þér voru þeir, smán hvílir á þeim.
19 Sjá, á þeim tíma skal ég eiga erindi við þá, er þig þjáðu. Þá skal ég frelsa hið halta og smala saman því tvístraða, og ég skal gjöra þá fræga og nafnkunna á allri jörðunni.
1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.
2 Hann var í upphafi hjá Guði.
3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.
4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.
5 Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.
6 Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.
7 Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.
8 Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.
10 Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.
11 Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.
12 En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
13 Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.
14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.
15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: "Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég."
16 Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.
17 Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.
18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
19 Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: "Hver ert þú?"
20 Hann svaraði ótvírætt og játaði: "Ekki er ég Kristur."
21 Þeir spurðu hann: "Hvað þá? Ertu Elía?" Hann svarar: "Ekki er ég hann." "Ertu spámaðurinn?" Hann kvað nei við.
22 Þá sögðu þeir við hann: "Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?"
23 Hann sagði: "Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir."
24 Sendir voru menn af flokki farísea.
25 Þeir spurðu hann: "Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?"
26 Jóhannes svaraði: "Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki,
27 hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa."
28 Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.
29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.
30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`
31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."
32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.
33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`
34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."
35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.
36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."
37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"
39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.
40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.
41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)
42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).
43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: "Fylg þú mér!"
44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur.
45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: "Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs."
46 Natanael sagði: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" Filippus svaraði: "Kom þú og sjá."
47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: "Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í."
48 Natanael spyr: "Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: "Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig."
49 Þá segir Natanael: "Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels."
50 Jesús spyr hann: "Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira."
51 Og hann segir við hann: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."
by Icelandic Bible Society