Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 10

10 Rehabeam fór til Síkem, því að allur Ísrael var kominn þangað til þess að taka hann til konungs.

En er Jeróbóam Nebatsson frétti (hann var í Egyptalandi, þangað sem hann hafði flúið undan Salómon konungi) að Salómon væri dáinn, sneri Jeróbóam heim frá Egyptalandi.

Og þeir sendu boð og létu kalla hann. Þá kom Jeróbóam og allur Ísrael og mæltu til Rehabeams á þessa leið:

"Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér."

Hann svaraði þeim: "Farið nú burt og komið aftur til mín að þrem dögum liðnum." Og lýðurinn fór burt.

Þá ráðgaðist Rehabeam konungur við öldungana, sem þjónað höfðu Salómon föður hans meðan hann lifði, og mælti: "Hver andsvör ráðið þér mér að gefa þessum mönnum?"

Þeir svöruðu honum og mæltu: "Ef þú í dag verður lýð þessum eftirlátur, verður þeim náðugur og tekur vel máli þeirra, munu þeir verða þér eftirlátir alla daga."

En hann hafnaði ráði því, er öldungarnir réðu honum, en ráðgaðist við unga menn, er vaxið höfðu upp með honum og nú þjónuðu honum,

og hann sagði við þá: "Hver ráð gefið þér til, hversu vér skulum svara lýð þessum, er talað hefir til mín á þessa leið: ,Gjör léttara ok það, er faðir þinn á oss lagði`?"

10 Þá svöruðu honum hinir ungu menn, er vaxið höfðu upp með honum: "Svo skalt þú svara lýðnum, er sagði við þig: ,Faðir þinn gjörði ok vort þungt, en gjör þú oss það léttara` _ svo skalt þú tala til þeirra: ,Litlifingur minn er digrari en lendar föður míns.

11 Hafi faðir minn lagt á yður þungt ok, mun ég gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum."`

12 Og Jeróbóam og allur lýðurinn kom til Rehabeams á þriðja degi, eins og konungur hafði sagt, þá er hann mælti: "Komið til mín aftur á þriðja degi."

13 Þá veitti konungur þeim hörð andsvör, og Rehabeam konungur fór eigi að ráðum öldunganna,

14 en talaði til þeirra á þessa leið að ráði hinna ungu manna: "Faðir minn gjörði ok yðar þungt, en ég mun gjöra það enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum."

15 Þannig veitti konungur lýðnum enga áheyrn, því að svo var til stillt af Guði, til þess að Drottinn gæti látið rætast orð sín, þau er hann hafði talað til Jeróbóams Nebatssonar, fyrir munn Ahía frá Síló.

16 Þá er allur Ísrael sá, að konungur veitti þeim enga áheyrn, þá veitti lýðurinn konungi þessi andsvör: Hverja hlutdeild eigum vér í Davíð? Engan erfðahlut eigum vér í Ísaísyni. Far heim til þín, hver Ísraelsmaður! Gæt þú þíns eigin húss, Davíð! Síðan fór allur Ísrael, hver heim til sín.

17 En yfir þeim Ísraelsmönnum, er bjuggu í Júdaborgum, var Rehabeam konungur.

18 Rehabeam konungur sendi Hadóram, sem var yfir kvaðarmönnum, en Ísraelsmenn lömdu hann grjóti til bana, en Rehabeam konungur hljóp í skyndi á vagn sinn og flýði til Jerúsalem.

19 Þannig gekk Ísrael undan ætt Davíðs, og stendur svo enn í dag.

Opinberun Jóhannesar 1

Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum,

sem bar vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, um allt það er hann sá.

Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.

Frá Jóhannesi til safnaðanna sjö, sem í Asíu eru. Náð sé með yður og friður frá honum, sem er og var og kemur, og frá öndunum sjö, sem eru frammi fyrir hásæti hans,

og frá Jesú Kristi, sem er votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar. Hann elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu.

Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum. Vissulega, amen.

Ég er Alfa og Ómega, segir Drottinn Guð, hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi.

Ég, Jóhannes, bróðir yðar, sem í Jesú á hlutdeild með yður í þrengingunni, ríkinu og þolgæðinu, var á eynni Patmos fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.

10 Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli,

11 er sagði: "Rita þú í bók það sem þú sérð og send það söfnuðunum sjö, í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu."

12 Ég sneri mér við til að sjá, hvers raust það væri, sem við mig talaði. Og er ég sneri mér við, sá ég sjö gullljósastikur,

13 og milli ljósastikanna einhvern, líkan mannssyni, klæddan síðkyrtli og gullbelti var spennt um bringu hans.

14 Höfuð hans og hár var hvítt, eins og hvít ull, eins og mjöll, og augu hans eins og eldslogi.

15 Og fætur hans voru líkir málmi glóandi í deiglu og raust hans sem niður margra vatna.

16 Hann hafði í hægri hendi sér sjö stjörnur og af munni hans gekk út tvíeggjað sverð biturt, og ásjóna hans var sem sólin skínandi í mætti sínum.

17 Þegar ég sá hann, féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: "Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti

18 og hinn lifandi." Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar.

19 Rita þú nú það er þú hefur séð, bæði það sem er og það sem verða mun eftir þetta.

20 Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.

Sefanía 2

Beyg þig og læg þig, þú þjóð, sem eigi blygðast þín,

áður en þér verðið eins og fjúkandi sáðir, áður en hin brennandi reiði Drottins kemur yfir yður, áður en reiðidagur Drottins kemur yfir yður.

Leitið Drottins, allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi Drottins.

Gasa mun verða yfirgefin og Askalon verða að auðn. Asdódbúar munu burt reknir verða um hábjartan dag og Ekron í eyði lögð.

Vei yður, þér sem búið meðfram sjávarsíðunni, þú Kreta þjóð! Orð Drottins beinist gegn yður, Kanaan, land Filista! Já, ég mun eyða þig, svo að þar skal enginn búa.

Og sjávarsíðan skal verða að beitilandi fyrir hjarðmenn og að fjárbyrgjum fyrir sauðfé.

Þá mun sjávarsíðan falla til þeirra, sem eftir verða af Júda húsi. Þar skulu þeir vera á beit, í húsum Askalon skulu þeir leggjast fyrir að kveldi. Því að Drottinn, Guð þeirra, mun vitja þeirra og snúa við högum þeirra.

Ég hefi heyrt svívirðingar Móabs og smánaryrði Ammóníta, er þeir svívirtu með þjóð mína og höfðu hroka í frammi við land þeirra.

Fyrir því skal, svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels _ fara fyrir Móab eins og fyrir Sódómu, og fyrir Ammónítum eins og fyrir Gómorru. Þeir skulu verða að gróðrarreit fyrir netlur, að saltgröf og að óbyggðri auðn til eilífrar tíðar. Leifar lýðs míns skulu ræna þá og eftirleifar þjóðar minnar erfa þá.

10 Þetta skal þá henda fyrir drambsemi þeirra, að þeir hafa svívirt þjóð Drottins allsherjar og haft hroka í frammi við hana.

11 Ógurlegur mun Drottinn verða þeim, því að hann lætur alla guði jarðarinnar dragast upp, svo að öll eylönd heiðingjanna dýrki hann, hver maður á sínum stað.

12 Einnig þér, Blálendingar, munuð falla fyrir sverði mínu.

13 Og hann mun rétta út hönd sína gegn norðri og afmá Assýríu. Og hann mun leggja Níníve í eyði, gjöra hana þurra sem eyðimörk.

14 Mitt í henni skulu hjarðir liggja, alls konar dýr hópum saman. Pelíkanar og stjörnuhegrar munu eiga náttból á súlnahöfðum hennar. Heyr kliðinn í gluggatóttunum! Rofhrúgur á þröskuldunum, því að sedrusviðarþilin hafa verið rifin burt!

15 Er þetta glaummikla borgin, er sat andvaralaus og sagði í hjarta sínu: "Ég og engin önnur"? Hversu er hún orðin að auðn, að bæli fyrir villidýr! Hver sá er þar fer um, blístrar og hristir hönd sína hæðnislega.

Lúkasarguðspjall 24

24 En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið.

Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni,

og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum.

Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu.

Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."

Og þær minntust orða hans,

sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.

10 Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu.

11 En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki.

12 Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.

13 Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus.

14 Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði.

15 Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim.

16 En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki.

17 Og hann sagði við þá: "Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?" Þeir námu staðar, daprir í bragði,

18 og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: "Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana."

19 Hann spurði: "Hvað þá?" Þeir svöruðu: "Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð,

20 hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann.

21 Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við.

22 Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar,

23 en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa.

24 Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki."

25 Þá sagði hann við þá: "Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað!

26 Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?"

27 Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.

28 Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra.

29 Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: "Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar." Og hann fór inn til að vera hjá þeim.

30 Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim.

31 Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum.

32 Og þeir sögðu hvor við annan: "Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?"

33 Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna,

34 og sögðu þeir: "Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni."

35 Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.

36 Nú voru þeir að tala um þetta, og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: "Friður sé með yður!"

37 En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda.

38 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar?

39 Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef."

40 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur.

41 Enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og voru furðu lostnir. Þá sagði hann við þá: "Hafið þér hér nokkuð til matar?"

42 Þeir fengu honum stykki af steiktum fiski,

43 og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim.

44 Og hann sagði við þá: "Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum."

45 Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar.

46 Og hann sagði við þá: "Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi,

47 og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem.

48 Þér eruð vottar þessa.

49 Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum."

50 Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá.

51 En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins.

52 En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society