Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 9

Þá er drottningin í Saba spurði orðstír Salómons, kom hún til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti og með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum, til þess að reyna Salómon með gátum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti.

En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn Salómon, er hann gæti eigi leyst úr fyrir hana.

Og er drottningin frá Saba sá speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið,

matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og klæði þeirra og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin

og sagði við konung: "Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína.

En ég trúði ekki orðum þeirra fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn um gnótt speki þinnar. Þú ert meiri orðróm þeim, er ég hefi heyrt.

Sælir eru menn þínir og sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína.

Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti sitt sem konung Drottins, Guðs þíns. Af því að Guð þinn elskar Ísrael, svo að hann vill láta hann standa að eilífu, gjörði hann þig að konungi yfir þeim til þess að iðka rétt og réttvísi."

Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan verið annað eins af kryddjurtum og drottningin frá Saba gaf Salómon konungi.

10 Sömuleiðis komu og þjónar Húrams og þjónar Salómons, þeir er gull sóttu til Ófír, með sandelvið og gimsteina.

11 Og konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og í konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hafði ei áður slíkt sést í Júdalandi.

12 Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess, er hún hafði fært konungi. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu.

13 Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd,

14 auk þess er kom inn frá varningsmönnum og þess er kaupmennirnir komu með. Auk þess færðu allir konungar Arabíu og jarlar landsins Salómon gull og silfur.

15 Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli, fóru sex hundruð siklar af slegnu gulli í hvern skjöld,

16 og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjú hundruð siklar gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið.

17 Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli.

18 Gengu sex þrep upp að hásætinu, og fótskör úr gulli var fest á hásætið. Bríkur voru báðum megin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar.

19 Og tólf ljón stóðu á þrepunum sex, báðum megin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki.

20 Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons.

21 Því að konungur hafði skip, er fóru til Tarsis með mönnum Húrams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim, hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum.

22 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku.

23 Og alla konunga jarðarinnar fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst.

24 Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði, vopn og kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár.

25 Og Salómon átti fjögur þúsund vagneyki og vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem.

26 Og hann drottnaði yfir öllum konungum frá Efrat allt til Filistalands og til landamæra Egyptalands.

27 Og konungur gjörði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.

28 Og menn fluttu hesta úr Egyptalandi og úr öllum löndum handa Salómon.

29 Annað af sögu Salómons er frá upphafi til enda skráð í Sögu Natans spámanns og í Spádómi Ahía frá Síló og í Vitrun Íddós sjáanda um Jeróbóam Nebatsson.

30 Salómon ríkti í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í fjörutíu ár.

31 Og hann lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.

Hið almenna bréf Júdasar

Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar hinum kölluðu, sem eru elskaðir af Guði föður og varðveittir Jesú Kristi.

Miskunn, friður og kærleiki margfaldist yður til handa.

Þér elskaðir, mér var það ríkt í huga að rita yður um sameiginlegt hjálpræði vort. En nú kemst ég ekki hjá því að skrifa og hvetja yður til að berjast fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.

Því að inn hafa læðst nokkrir menn, sem fyrir löngu var ritað um að þessi dómur biði þeirra. Þeir eru óguðlegir menn, sem misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.

Ég vil minna yður á, þótt þér nú einu sinni vitið það allt, að Drottinn frelsaði lýðinn úr Egyptalandi, en tortímdi samt síðar þeim, sem ekki trúðu.

Og englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.

Eins og Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og þeir og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.

Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla tignum.

Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að leggja lastmælisdóm á djöfulinn, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: "Drottinn refsi þér!"

10 En þessir menn lastmæla öllu því, sem þeir þekkja ekki, en spilla sér á því sem þeir skilja af eðlisávísun eins og skynlausar skepnur.

11 Vei þeim, því að þeir hafa gengið á vegi Kains og hrapað í villu Bíleams fyrir ávinnings sakir og tortímst í þverúð Kóra.

12 Þessir menn eru blindsker við kærleiksmáltíðir yðar, er þeir sitja að veislum með yður og háma í sig blygðunarlaust. Þeir eru vatnslaus ský, sem rekast fyrir vindum, tré, sem bera ekki ávöxt að hausti, tvisvar dauð og rifin upp með rótum.

13 Þeir eru ofsalegar hafsbylgjur, sem freyða eigin skömmum, reikandi stjörnur, sem eiga dýpsta myrkur í vændum til eilífðar.

14 Um þessa menn spáði líka Enok, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: "Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra

15 til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt, og um öll þau hörðu orð, sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum."

16 Þessir menn eru möglarar, umkvörtunarsamir og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir meta menn eftir hagnaði.

17 En, þér elskaðir, minnist þeirra orða, sem áður hafa töluð verið af postulum Drottins vors Jesú Krists.

18 Þeir sögðu við yður: "Á síðasta tíma munu koma spottarar, sem stjórnast af sínum eigin óguðlegu girndum."

19 Þessir menn eru þeir, sem valda sundrungu, holdlegir menn, sem eigi hafa andann.

20 En þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda.

21 Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.

22 Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir,

23 suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá út úr eldinum. Og suma skuluð þér vera mildir við með ótta, og hatið jafnvel kyrtilinn, sem flekkaður er af holdinu.

24 En honum, sem megnar að varðveita yður frá hrösun og láta yður koma fram fyrir dýrð sína, lýtalausa í fögnuði,

Sefanía 1

Orð Drottins, sem kom til Sefanía Kúsísonar, Gedaljasonar, Amaríasonar, Hiskíasonar, á dögum Jósía Amónssonar Júdakonungs.

Ég vil gjörsópa öllu burt af jörðunni _ segir Drottinn.

Ég vil sópa burt mönnum og skepnum, ég vil sópa burt fuglum himinsins og fiskum sjávarins, hneykslunum ásamt hinum óguðlegu, og ég vil afmá mennina af jörðunni _ segir Drottinn.

Ég mun útrétta hönd mína gegn Júda og gegn öllum Jerúsalembúum og afmá nafn Baals af þessum stað, nafn hofgoðanna ásamt prestunum,

svo og þá er á þökunum falla fram fyrir her himinsins, og þá sem falla fram fyrir Drottni, en sverja um leið við Milkóm,

svo og þá sem gjörst hafa Drottni fráhverfir og eigi leita Drottins né spyrja eftir honum.

Verið hljóðir fyrir Drottni Guði! Því að nálægur er dagur Drottins. Já, Drottinn hefir efnt til fórnar, hann hefir þegar vígt gesti sína.

Á fórnardegi Drottins mun ég vitja höfðingjanna og konungssonanna, svo og allra þeirra, er klæðast útlenskum klæðnaði.

Þann dag vitja ég allra, sem stökkva yfir þröskuldinn, þeirra er fylla hús Drottins síns með ofbeldi og svikum.

10 Á þeim degi _ segir Drottinn _ mun heyrast neyðaróp frá Fiskhliðinu, kveinan úr öðru borgarhverfi og ógurlegt harmakvein frá hæðunum.

11 Kveinið, þér sem búið í Mortélinu, því að allur kaupmannalýðurinn er eyddur, afmáðir allir þeir, er silfur vega.

12 Í þann tíma mun ég rannsaka Jerúsalem með skriðljósum og vitja þeirra manna, sem liggja á dreggjum sínum, þeirra er segja í hjarta sínu: "Drottinn gjörir hvorki gott né illt."

13 Þá munu fjármunir þeirra verða að herfangi og hús þeirra að auðn. Þeir munu byggja hús, en ekki búa í þeim, planta víngarða, en ekki drekka vínið, sem úr þeim kemur.

14 Hinn mikli dagur Drottins er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög. Heyr! Dagur Drottins! Beisklega kveinar þá kappinn.

15 Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta,

16 dagur lúðra og herblásturs _ gegn víggirtu borgunum og háu múrtindunum.

17 Þá mun ég hræða mennina, svo að þeir ráfi eins og blindir menn, af því að þeir hafa syndgað gegn Drottni, og blóði þeirra skal úthellt verða sem dufti og innyflum þeirra sem saur.

18 Hvorki silfur þeirra né gull fær frelsað þá á reiðidegi Drottins, heldur skal allt landið eyðast fyrir eldi vandlætingar hans. Því að tortíming, já bráða eyðing býr hann öllum þeim, sem á jörðunni búa.

Lúkasarguðspjall 23

23 Þá stóð upp allur skarinn og færði hann fyrir Pílatus.

Þeir tóku að ákæra hann og sögðu: "Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur."

Pílatus spurði hann þá: "Ert þú konungur Gyðinga?" Jesús svaraði: "Þú segir það."

Pílatus sagði við æðstu prestana og fólkið: "Enga sök finn ég hjá þessum manni."

En þeir urðu því ákafari og sögðu: "Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað."

Þegar Pílatus heyrði þetta, spurði hann, hvort maðurinn væri Galílei.

Og er hann varð þess vís, að hann var úr umdæmi Heródesar, sendi hann hann til Heródesar, er þá var og í Jerúsalem á þeim dögum.

En Heródes varð næsta glaður, er hann sá Jesú, því hann hafði lengi langað að sjá hann, þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gjöra eitthvert tákn.

Hann spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði honum engu.

10 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu hann harðlega.

11 En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatusar.

12 Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, en áður var fjandskapur með þeim.

13 Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið

14 og mælti við þá: "Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um.

15 Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert.

16 Ætla ég því að hirta hann og láta lausan." [

17 En skylt var honum að gefa þeim lausan einn bandingja á hverri hátíð.]

18 En þeir æptu allir: "Burt með hann, gef oss Barabbas lausan!"

19 En honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt, sem varð í borginni, og manndráp.

20 Pílatus talaði enn til þeirra og vildi láta Jesú lausan.

21 En þeir æptu á móti: "Krossfestu, krossfestu hann!"

22 Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: "Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan."

23 En þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu, að hann yrði krossfestur. Og hróp þeirra tóku yfir.

24 Þá ákvað Pílatus, að kröfu þeirra skyldi fullnægt.

25 Hann gaf lausan þann, er þeir báðu um og varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp, en Jesú framseldi hann, að þeir færu með hann sem þeir vildu.

26 Þegar þeir leiddu hann út, tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene, er kom utan úr sveit, og lögðu krossinn á hann, að hann bæri hann eftir Jesú.

27 En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu.

28 Jesús sneri sér að þeim og mælti: "Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar.

29 Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu.

30 Þá munu menn segja við fjöllin: Hrynjið yfir oss! og við hálsana: Hyljið oss!

31 Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?"

32 Með honum voru og færðir til lífláts aðrir tveir, sem voru illvirkjar.

33 Og er þeir komu til þess staðar, sem heitir Hauskúpa, krossfestu þeir hann þar og illvirkjana, annan til hægri handar, hinn til vinstri.

34 Þá sagði Jesús: "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra." En þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér.

35 Fólkið stóð og horfði á, og höfðingjarnir gjörðu gys að honum og sögðu: "Öðrum bjargaði hann, bjargi hann nú sjálfum sér, ef hann er Kristur Guðs, hinn útvaldi."

36 Eins hæddu hann hermennirnir, komu og báru honum edik

37 og sögðu: "Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér."

38 Yfirskrift var yfir honum: ÞESSI ER KONUNGUR GYÐINGA.

39 Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: "Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!"

40 En hinn ávítaði hann og sagði: "Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi?

41 Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst."

42 Þá sagði hann: "Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!"

43 Og Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís."

44 Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns,

45 því sólin missti birtu sinnar. En fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju.

46 Þá kallaði Jesús hárri röddu: "Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!" Og er hann hafði þetta mælt, gaf hann upp andann.

47 Þegar hundraðshöfðinginn sá það, er við bar, vegsamaði hann Guð og sagði: "Sannarlega var þessi maður réttlátur."

48 Og fólkið allt, sem komið hafði saman að horfa á, sá nú, hvað gjörðist, og barði sér á brjóst og hvarf frá.

49 En vinir hans allir sem og konurnar, er fylgdu honum frá Galíleu, stóðu álengdar og horfðu á þetta.

50 Maður er nefndur Jósef. Hann var ráðsherra, góður maður og réttvís

51 og hafði ekki samþykkt ráð þeirra né athæfi. Hann var frá Arímaþeu, borg í Júdeu, og vænti Guðs ríkis.

52 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú,

53 tók hann síðan ofan, sveipaði línklæði og lagði í gröf, höggna í klett, og hafði þar enginn verið áður lagður.

54 Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd.

55 Konur þær, er komið höfðu með Jesú frá Galíleu, fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður.

56 Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society