Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 7

Þegar Salómon hafði lokið bæn sinni, kom eldur af himni og eyddi brennifórninni og sláturfórninni, og dýrð Drottins fyllti húsið.

Og prestarnir máttu eigi inn ganga í musteri Drottins, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins.

Og er allir Ísraelsmenn sáu, að eldinum laust niður og að dýrð Drottins steig niður yfir húsið, þá hneigðu þeir ásjónur sínar til jarðar, niður á steingólfið, lutu og lofuðu Drottin: "því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu."

Þá fórnaði konungur og allur lýðurinn sláturfórnum frammi fyrir Drottni.

Salómon konungur fórnaði tuttugu og tvö þúsund nautum og hundrað og tuttugu þúsund sauðum í heillafórn. Þannig vígði konungur og allur lýðurinn musteri Guðs.

En prestarnir stóðu á sínum stað, og sömuleiðis levítarnir með hljóðfæri Drottins, þau er Davíð konungur hafði gjöra látið til þess að þakka Drottni: "Því að miskunn hans varir að eilífu," og þeir léku lofsöng Davíðs, en andspænis þeim þeyttu prestarnir lúðra, en allur Ísrael stóð.

Og Salómon vígði miðhluta forgarðsins, er liggur frammi fyrir musteri Drottins, því að þar fórnaði hann brennifórnum og hinum feitu stykkjum heillafórnanna. Því að eiraltarið, það er Salómon hafði gjöra látið, gat eigi tekið brennifórnirnar og matfórnirnar og feitu stykkin.

Þannig hélt Salómon þá hátíðina í sjö daga og allur Ísrael með honum _ afar mikill söfnuður, þaðan frá er leið liggur til Hamat, allt til Egyptalandsár.

Og áttunda daginn héldu þeir hátíðasamkomu, því að sjö daga voru þeir að vígja altarið, og hátíðina héldu þeir í sjö daga.

10 En á tuttugasta og þriðja degi hins sjöunda mánaðar lét hann lýðinn fara heim til sín, glaðan og í góðu skapi yfir þeim gæðum, sem Drottinn hafði veitt Davíð og Salómon og lýð sínum Ísrael.

11 Þá er Salómon hafði lokið að byggja musteri Drottins og konungshöllina og hafði fengið farsællega framgengt öllu því, er honum bjó í huga að gjöra í húsi Drottins og í höll sinni,

12 þá vitraðist Drottinn honum á náttarþeli og sagði við hann: "Ég hefi heyrt bæn þína og útvalið mér þennan stað að fórnahúsi.

13 Þegar ég byrgi himininn, svo að eigi nær að rigna, og þegar ég býð engisprettum að rótnaga landið, og þegar ég læt drepsótt koma meðal lýðs míns,

14 og lýður minn, sá er við mig er kenndur, auðmýkir sig, og þeir biðja og leita auglitis míns og snúa sér frá sínum vondu vegum, þá vil ég heyra þá frá himnum, fyrirgefa þeim syndir þeirra og græða upp land þeirra.

15 Skulu augu mín vera opin og eyru mín gaumgæfin gagnvart bæn þeirri, er fram er borin á þessum stað.

16 Og nú hefi ég útvalið og helgað þetta hús, til þess að nafn mitt megi búa þar að eilífu, og skulu augu mín og hjarta vera þar alla daga.

17 Og ef þú gengur fyrir augliti mínu, svo sem gjörði Davíð faðir þinn, með því að fara með öllu svo sem ég hefi þér um boðið, og þú heldur ákvæði mín og lög,

18 þá mun ég staðfesta hásæti konungdóms þíns, eins og ég hátíðlega hét Davíð föður þínum, þá er ég sagði: ,Eigi skal þig vanta eftirmann til þess að ríkja yfir Ísrael.`

19 En ef þér snúið baki við mér og fyrirlátið ákvæði mín og skipanir, er ég hefi fyrir yður lagt, en farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim,

20 þá mun ég útrýma þeim úr landi mínu, því er ég gaf þeim, og húsi þessu, sem ég hefi helgað nafni mínu, mun ég burt snara frá augliti mínu og gjöra það að orðskvið og spotti meðal allra þjóða.

21 Og þetta hús, svo háreist sem það er _ hverjum sem gengur fram hjá því, mun blöskra. Og ef hann þá spyr: ,Hvers vegna hefir Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús?`

22 munu menn svara: ,Af því að þeir yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, er leiddi þá út af Egyptalandi, og héldu sér að öðrum guðum, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Fyrir því hefir hann leitt yfir þá alla þessa ógæfu."`

Annað bréf Jóhannesar

Öldungurinn heilsar hinni útvöldu frú og börnum hennar, sem ég elska í sannleika. Og ekki ég einn, heldur einnig allir, sem þekkja sannleikann.

Vér gjörum það sakir sannleikans, sem er stöðugur í oss og mun vera hjá oss til eilífðar.

Náð, miskunn og friður frá Guði föður og frá Jesú Kristi, syni föðurins, mun vera með oss í sannleika og kærleika.

Það hefur glatt mig mjög, að ég hef fundið nokkur af börnum þínum, er ganga fram í sannleika, samkvæmt því boðorði, sem vér tókum við af föðurnum.

Og nú bið ég þig, frú mín góð, og er þá ekki að skrifa þér nýtt boðorð, heldur það, er vér höfðum frá upphafi: Vér skulum elska hver annan.

Og í þessu birtist elskan, að vér lifum eftir boðorðum hans. Þetta er boðorðið, eins og þér heyrðuð það frá upphafi, til þess að þér skylduð lifa í því.

Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn í holdi. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn.

Hafið gætur á sjálfum yður að þér missið ekki það, sem vér höfum áunnið, heldur megið fá full laun.

Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. Sá sem er stöðugur í kenningunni, hann hefur bæði föðurinn og soninn.

10 Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn.

11 Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.

12 Þótt ég hafi margt að rita yður, vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki, en ég vona að koma til yðar og tala munnlega við yður, til þess að gleði vor verði fullkomin.

Habakkuk 2

Ég ætla að nema staðar á varðbergi mínu og ganga út á virkisvegginn og skyggnast um til þess að sjá, hvað hann talar við mig og hverju hann svarar umkvartan minni.

Þá svaraði Drottinn mér og sagði: Skrifa þú vitrunina upp og letra svo skýrt á spjöldin, að lesa megi viðstöðulaust.

Því að enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.

Sjá, hann er hrokafullur og ber eigi í brjósti sér ráðvanda sál, en hinn réttláti mun lifa fyrir trúfesti sína.

Vei ræningjanum, manninum sem girnist og eigi verður saddur, sem glennir sundur gin sitt eins og Hel og er óseðjandi eins og dauðinn, sem safnaði til sín öllum þjóðum og dró að sér alla lýði.

Munu eigi allir þessir kveða um hann háðkvæði og níð, _ gátur um hann? Menn munu segja: Vei þeim, sem rakar saman annarra fé _ hversu lengi? _ og hleður á sig pantteknum munum.

Munu eigi lánsalar þínir skyndilega upp rísa og þeir vakna, er að þér munu þrengja? Þá munt þú verða herfang þeirra.

Því að eins og þú hefir rænt margar þjóðir, svo munu nú allar hinar þjóðirnar ræna þig fyrir manndrápin og fyrir ofríkið, sem landið hefir beitt verið, borgin og allir íbúar hennar.

Vei þeim, sem sækist eftir illum ávinningi fyrir hús sitt til þess að geta byggt hreiður sitt hátt uppi, til þess að geta bjargað sér undan hendi ógæfunnar.

10 Þú tókst upp það ráð, sem varð húsi þínu til smánar, að afmá margar þjóðir, og bakaðir sjálfum þér sekt.

11 Því að steinarnir munu hrópa út úr múrveggnum og sperrur úr grindinni svara þeim.

12 Vei þeim, sem reisir stað með manndrápum og grundvallar borg með glæpum.

13 Kemur slíkt ekki frá Drottni allsherjar? Þjóðir vinna fyrir eldinn, og þjóðflokkar þreyta sig fyrir ekki neitt!

14 Því að jörðin mun verða full af þekking á dýrð Drottins, eins og djúp sjávarins vötnum hulið.

15 Vei þeim, sem gefur vinum sínum að drekka úr skál heiftar sinnar og gjörir þá jafnvel drukkna til þess að sjá blygðan þeirra.

16 Þú hefir mettað þig á smán, en ekki á heiðri. Drekk þú nú einnig og reika! Bikarinn í hægri hendi Drottins kemur nú til þín og vansi ofan á vegsemd þína.

17 Því að ofríkið, sem haft hefir verið í frammi við Líbanon, skal á þér bitna og dýradrápið hræða þig _ fyrir manndrápin og fyrir ofríkið, sem landið hefir beitt verið, borgin og allir íbúar hennar.

18 Hvað gagnar skurðmynd, að smiðurinn sker hana út, eða steypt líkneski og lygafræðari, að smiðurinn treystir á það, svo að hann býr til mállausa guði?

19 Vei þeim, sem segir við trédrumb: "Vakna þú! Rís upp!" _ við dumban steininn. Mun hann geta frætt? Nei, þótt hann sé búinn gulli og silfri, þá er þó enginn andi í honum.

20 En Drottinn er í sínu heilaga musteri, öll jörðin veri hljóð fyrir honum!

Lúkasarguðspjall 21

21 Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna.

Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga.

Þá sagði hann: "Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir.

Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína."

Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús:

"Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."

En þeir spurðu hann: "Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?"

Hann svaraði: "Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og ,Tíminn er í nánd!` Fylgið þeim ekki.

En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis."

10 Síðan sagði hann við þá: "Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki,

11 þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.

12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns.

13 Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar.

14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast,

15 því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið.

16 Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir.

17 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns,

18 en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar.

19 Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.

20 En þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.

21 Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.

22 Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist, sem ritað er.

23 Vei þeim, sem þungaðar eru, og þeim sem börn hafa á brjósti á þeim dögum, því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir lýð þessum.

24 Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða, og Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.

25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný.

26 Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast.

27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.

28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd."

29 Hann sagði þeim og líkingu: "Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám.

30 Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd.

31 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

32 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.

33 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

34 Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður

35 eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.

36 Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum."

37 Á daginn var hann að kenna í helgidóminum, en fór og dvaldist um nætur á Olíufjallinu, sem svo er nefnt.

38 Og allt fólkið kom árla á morgnana til hans í helgidóminn að hlýða á hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society