M’Cheyne Bible Reading Plan
5 Og er öllu því verki var lokið, er Salómon lét gjöra að musteri Drottins, þá flutti hann helgigjafir Davíðs föður síns inn í það, silfrið og gullið, en öll áhöldin lét hann í féhirslur Drottins húss.
2 Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon.
3 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til konungs í etaním-mánuði á hátíðinni. (Er sá mánuður hinn sjöundi).
4 Þá komu allir öldungar Ísraels, og levítarnir tóku örkina,
5 og þeir fluttu örkina og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu levítaprestarnir þau upp eftir.
6 En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir.
7 Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna.
8 Og kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu kerúbarnir örkina og stengur hennar ofan frá.
9 Og stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag.
10 Í örkinni var ekkert nema töflurnar tvær, er Móse lét þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi.
11 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum _ því að allir prestarnir, er viðstaddir voru, höfðu helgað sig, flokkaskiptingar var eigi gætt,
12 og allir levítasöngmenn, Asaf, Heman og Jedútún og synir þeirra og bræður, stóðu þar, klæddir baðmullarskikkjum, með skálabumbur, hörpur og gígjur, að austanverðu við altarið, og hjá þeim hundrað og tuttugu prestar, er þeyttu lúðra,
13 en lúðramenn og söngmenn áttu að byrja í senn og einraddað að lofa og vegsama Drottin _ og er menn létu lúðra og skálabumbur kveða við og hin önnur hljóðfæri og þakkargjörð til Drottins "því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu," þá fyllti ský musterið, musteri Drottins,
14 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Guðs.
6 Þá mælti Salómon: Drottinn hefir sagt, að hann vilji búa í dimmu.
2 Nú hefi ég byggt hús þér til bústaðar og aðseturstað handa þér um eilífð.
3 Þá sneri konungur sér við og blessaði allan Ísraelssöfnuð, en allur Ísraelssöfnuður stóð.
4 Og hann mælti: "Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, er talaði með munni sínum við Davíð föður minn og efndi með hendi sinni það, er hann lofaði, þá er hann sagði:
5 ,Frá því er ég leiddi lýð minn út af Egyptalandi, hefi ég ekki útvalið neina borg af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að byggja þar hús, þar sem nafn mitt skyldi búa, hefi og eigi útvalið neinn mann til þess að vera höfðingi yfir lýð mínum Ísrael.
6 En nú hefi ég útvalið Jerúsalem, til þess að nafn mitt búi þar, og ég útvaldi Davíð, til þess að hann skyldi ríkja yfir lýð mínum Ísrael.`
7 Og Davíð faðir minn hafði í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Ísraels Guðs,
8 en Drottinn sagði við Davíð föður minn: ,Vel gjörðir þú, er þú ásettir þér að reisa hús nafni mínu.
9 En eigi skalt þú reisa húsið, heldur skal sonur þinn, sá er út gengur af lendum þínum, reisa hús nafni mínu.`
10 Og Drottinn hefir efnt orð sín, þau er hann talaði, því að ég kom í stað Davíðs föður míns og settist í hásæti Ísraels, svo sem Drottinn hafði heitið, og hefi nú reist hús nafni Drottins, Ísraels Guðs.
11 Og þar setti ég örkina, sem í er sáttmál Drottins, það er hann gjörði við Ísraelsmenn."
4 Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.
2 Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn í holdi, er frá Guði.
3 En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum.
4 Þér börnin mín, heyrið Guði til og hafið sigrað falsspámennina, því að sá er meiri, sem í yður er, en sá, sem er í heiminum.
5 Falsspámennirnir heyra heiminum til. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá.
6 Vér heyrum Guði til. Hver sem þekkir Guð hlýðir á oss. Sá sem ekki heyrir Guði til hlýðir ekki á oss. Af þessu þekkjum vér sundur anda sannleikans og anda villunnar.
7 Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð.
8 Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.
9 Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann.
10 Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.
11 Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.
12 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss.
13 Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum anda.
14 Vér höfum séð og vitnum, að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins.
15 Hver sem játar, að Jesús sé Guðs sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði.
16 Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann. Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.
17 Með því er kærleikurinn orðinn fullkominn hjá oss, að vér höfum djörfung á degi dómsins, því að vér erum í þessum heimi eins og hann er.
18 Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.
19 Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.
20 Ef einhver segir: "Ég elska Guð," og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.
21 Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.
3 Vei hinni blóðseku borg, sem öll er full af lygum og ofríki og aldrei hættir að ræna.
2 Heyr, svipusmellir! Heyr, hjólaskrölt! Hestar stökkva, vagnar þjóta!
3 Riddarar geisa fram! Blikandi sverð, leiftrandi spjót! Fjöldi valfallinna manna og aragrúi af líkum, mannabúkarnir eru óteljandi, þeir hrasa um búkana.
4 Vegna hins mikla lauslætis skækjunnar, hinnar fögru og fjölkunnugu, sem vélaði þjóðir með lauslæti sínu og kynstofna með töfrum sínum,
5 _ sjá, ég rís í gegn þér _ segir Drottinn allsherjar _ og ég vil bregða klæðafaldi þínum upp að framan og sýna þjóðunum nekt þína og konungsríkjunum blygðan þína.
6 Ég skal kasta á þig saur og svívirða þig og láta þig verða öðrum að varnaðarvíti,
7 svo að allir sem sjá þig, skulu flýja frá þér og segja: "Níníve er í eyði lögð! Hver mun aumka hana?" Hvar á ég að leita þeirra, sem vilji hugga þig?
8 Ert þú, Níníve, betri en Nó-Ammon, sem lá við Nílkvíslarnar, umkringd af vötnum, sem hafði fljót að varnarvirki, fljót að múrvegg?
9 Blálendingar voru styrkur hennar og óteljandi Egyptar, Pútmenn og Líbýumenn voru hjálparlið hennar.
10 Og þó varð hún að fara í útlegð, fara burt hernumin. Ungbörn hennar voru og rotuð til dauða á öllum strætamótum. Hlutum var kastað um hina göfugustu menn í borginni og öll stórmenni hennar voru fjötrum reyrð.
11 Einnig þú skalt drukkin verða og þér sortna fyrir augum, þú skalt og leita hælis fyrir óvinunum.
12 Öll varnarvirki þín eru sem fíkjutré með árfíkjum. Séu þau skekin, falla fíkjurnar þeim í munn, sem þær vill eta.
13 Sjá, hermenn þínir eru orðnir að konum _ landshliðum þínum hefir verið lokið upp fyrir óvinum þínum, eldur eyðir slagbröndum þínum.
14 Aus vatni til þess að hafa meðan á umsátinni stendur! Umbæt varnarvirki þín! Gakk út í deigulmóinn og troð leirinn, gríp til tiglmótanna!
15 Þar skal eldurinn eyða þér, sverðið uppræta þig. Hann skal eyða þér eins og engisprettur, og það þótt þér fjölgi eins og grasvörgum, þótt þér fjölgi eins og átvörgum.
16 Kaupmenn þínir eru fleiri en stjörnurnar á himninum, en grasvargarnir skipta hömum og fljúga burt.
17 Höfðingjar þínir eru eins og átvargar, herforingjar þínir eins og sægur af engisprettum, er liggja á akurgerðunum þegar kalt er. Þegar sólin kemur upp, fljúga þær burt, enginn veit hvað af þeim verður.
18 Hirðar þínir blunda, Assýríukonungur, tignarmenn þínir sofa. Menn þínir eru á víð og dreif um fjöllin, og enginn safnar þeim saman.
19 Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina.
2 En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur.
3 Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti.
4 Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá.
5 Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: "Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu."
6 Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður.
7 Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: "Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni."
8 En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: "Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur."
9 Jesús sagði þá við hann: "Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur.
10 Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það."
11 Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.
12 Hann sagði: "Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur.
13 Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.`
14 En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.`
15 Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt.
16 Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.`
17 Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.`
18 Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.`
19 Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.`
20 Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki,
21 því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.`
22 Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki.
23 Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.`
24 Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.`
25 En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.`
26 Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
27 En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."
28 Þá er Jesús hafði þetta mælt, hélt hann á undan áfram upp til Jerúsalem.
29 Þegar hann nálgaðist Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sem svo er nefnt, sendi hann tvo lærisveina sína
30 og mælti: "Farið í þorpið hér fram undan. Þegar þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann.
31 Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna leysið þið hann?` þá svarið svo: ,Herrann þarf hans við`."
32 Þeir sem sendir voru, fóru og fundu svo sem hann hafði sagt þeim.
33 Og er þeir leystu folann, sögðu eigendur hans við þá: "Hvers vegna leysið þið folann?"
34 Þeir svöruðu: "Herrann þarf hans við,"
35 og fóru síðan með hann til Jesú. Þeir lögðu klæði sín á folann og settu Jesú á bak.
36 En þar sem hann fór, breiddu menn klæði sín á veginn.
37 Þegar hann var að koma þar að, sem farið er ofan af Olíufjallinu, hóf allur flokkur lærisveina hans að lofa Guð fagnandi hárri raustu fyrir öll þau kraftaverk, er þeir höfðu séð,
38 og segja: "Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í upphæðum!"
39 Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: "Meistari, hasta þú á lærisveina þína."
40 Hann svaraði: "Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa."
41 Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni
42 og sagði: "Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.
43 Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu.
44 Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma."
45 Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja
46 og mælti við þá: "Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli."
47 Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum,
48 en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.
by Icelandic Bible Society