M’Cheyne Bible Reading Plan
3 Salómon byrjaði á að byggja musteri Drottins í Jerúsalem á Móríafjalli, þar sem Drottinn hafði birst Davíð föður hans, á stað þeim, er Davíð hafði búið á þreskivelli Ornans Jebúsíta.
2 Og hann byrjaði að byggja á öðrum degi í öðrum mánuði á fjórða ríkisári sínu.
3 Og þessi var grundvöllurinn, er Salómon lagði að musterisbyggingu Guðs: Lengdin var sextíu álnir að fornu máli, og breiddin tuttugu álnir.
4 Og forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tíu álnir á breidd, en tuttugu álnir á lengd fram með musterisendanum, og hundrað og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði hann innan skíru gulli.
5 En stærra húsið þiljaði hann með kýpresborðum og lagði það fínu gulli og setti þar á pálma og festar.
6 Enn fremur bjó hann húsið dýrindis steinum til prýði, en gullið var Parvaímgull.
7 Og hann lagði húsið, bjálkana, þröskuldana, svo og veggi þess og hurðir gulli, og lét skera kerúba út á veggjunum.
8 Hann gjörði og Hið allrahelgasta. Var það tuttugu álnir á lengd, eins og musterið var á breiddina, og tuttugu álnir á breidd, og bjó það fínu gulli, sex hundruð talentum.
9 Og naglarnir vógu fimmtíu sikla gulls, og loftherbergin lagði hann og gulli.
10 En í Hinu allrahelgasta gjörði hann tvo kerúba, haglega skorna og lagði þá gulli.
11 Vængir kerúbanna voru báðir saman tíu álna langir. Annar vængur annars kerúbsins, fimm álna langur, nam húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, nam við væng hins kerúbsins.
12 Annar fimm álna langur vængur hins kerúbsins nam og húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, snart væng hins kerúbsins.
13 Voru vængir kerúba þessara tuttugu álnir, útbreiddir. Stóðu þeir á fótum sér, og sneru andlit þeirra að húsinu.
14 Og hann gjörði fortjaldið af bláum og rauðum purpura, skarlati og baðmull og gjörði kerúba á því.
15 Hann gjörði og tvær súlur, þrjátíu og fimm álna háar, fyrir framan húsið, en hnúðurinn, er efst var á hvorri, var fimm álnir.
16 Hann gjörði og festar og lét þær á súlnahöfuðin, þá gjörði hann hundrað granatepli og setti á festarnar.
17 Og hann reisti súlurnar fyrir framan aðalhúsið, aðra til hægri og hina til vinstri. Nefndi hann hægri súluna Jakín, en hina vinstri Bóas.
4 Hann gjörði altari af eiri, tuttugu álna langt, tuttugu álna breitt og tíu álna hátt.
2 Hann gjörði og hafið, og var það steypt af eiri. Það var tíu álnir af barmi og á, kringlótt og fimm álnir á dýpt, og þrjátíu álna snúra lá um það.
3 En neðan við það voru nautalíkneski allt í kring _ var hvert þeirra tíu álnir _ er mynduðu hring um hafið, tvær raðir af nautum, og voru þau samsteypt hafinu.
4 Það stóð á tólf nautum, sneru þrjú í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður, þrjú í austur. Hvíldi hafið á þeim og sneru allir bakhlutir þeirra inn.
5 Það var þverhandarþykkt og barmur þess í laginu sem barmur á bikar, líkt og liljublóm. Það rúmaði þrjú þúsund bat.
6 Þá gjörði hann tíu ker. Setti hann fimm hægra megin og fimm vinstra megin til þvottar. Skyldi skola í þeim, það er til brennifórnar skyldi hafa, en hafið var til þvottar fyrir prestana.
7 Hann gjörði og gullljósastikurnar tíu, eftir ákvæðunum um þær, og setti í aðalhúsið, fimm hægra megin og fimm vinstra megin.
8 Þá gjörði hann tíu borð og setti í aðalhúsið, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, svo gjörði hann og hundrað fórnarskálar úr gulli.
9 Hann gjörði og prestaforgarðinn og forgarðinn mikla og dyr á forgarðinn, og vængjahurðirnar í þeim lagði hann eiri,
10 en hafið setti hann hægra megin, í austur, gegnt suðri.
11 Og Húram gjörði katlana, eldspaðana og fórnarskálarnar, og lauk svo Húram við að vinna að starfi því, er hann leysti af hendi fyrir Salómon konung í musteri Guðs:
12 tvær súlur og tvær kúlur á súlnahöfðunum og bæði riðnu netin, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum,
13 og fjögur hundruð granateplin á bæði netin, tvær raðir af granateplum á hvort net, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum,
14 enn fremur vagnana tíu og kerin tíu á þeim,
15 og hafið og tólf nautin undir hafinu,
16 og katlana, eldspaðana, soðkrókana og öll tilheyrandi áhöld gjörði Húram Abí fyrir Salómon konung til musteris Drottins, úr skyggðum eiri.
17 Lét konungur steypa þau á Jórdansléttlendinu í leirmótum, milli Súkkót og Sereda.
18 Og Salómon lét gjöra afar mikið af öllum þessum áhöldum, þyngd eirsins var eigi rannsökuð.
19 Og Salómon lét gjöra öll þau áhöld, sem voru í húsi Drottins: gullaltarið, borðin undir skoðunarbrauðin,
20 ljósastikurnar og lampa þeirra, að á þeim skyldi kveikt verða fyrir framan innhúsið, eins og lög stóðu til _ af skíru gulli,
21 og blómin, lampana og ljósasöxin af gulli _ og það af besta gulli _
22 og skarbítana, fórnarskálarnar, bollana, eldpönnurnar af skíru gulli. Og að því er snertir dyr musterisins, þá voru innri vængjahurðir þeirra, þær er lágu inn í Hið allrahelgasta, og vængjahurðir musterisins, þær er lágu inn í aðalhúsið, af gulli.
3 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn. Og það erum vér. Heimurinn þekkir oss ekki, vegna þess að hann þekkti hann ekki.
2 Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er.
3 Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig, eins og Kristur er hreinn.
4 Hver sem synd drýgir fremur og lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot.
5 Þér vitið, að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd.
6 Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem syndgar hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.
7 Börnin mín, látið engan villa yður. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur.
8 Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.
9 Hver sem af Guði er fæddur drýgir ekki synd, því að það, sem Guð hefur í hann sáð, varir í honum. Hann getur ekki syndgað, af því að hann er fæddur af Guði.
10 Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.
11 Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan.
12 Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.
13 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður.
14 Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum.
15 Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.
16 Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.
17 Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?
18 Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.
19 Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum,
20 hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.
21 Þér elskaðir, ef hjartað dæmir oss ekki, þá höfum vér djörfung til Guðs.
22 Og hvað sem vér biðjum um fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt.
23 Og þetta er hans boðorð, að vér skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hver annan, samkvæmt því sem hann hefur gefið oss boðorð um.
24 Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í oss þekkjum vér af andanum, sem hann hefur gefið oss.
2 Sjá á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, þess er friðinn kunngjörir. Hald hátíðir þínar, Júda, gjald heit þín, því að eyðandinn skal ekki framar um hjá þér fara _ hann er með öllu afmáður.
2 Ófriðarmaðurinn fer í móti þér, Níníve: Gæt vígisins! Horf njósnaraugum út á veginn, styrk lendarnar, safna öllum styrkleika þínum,
3 því að Drottinn reisir aftur við tign Jakobs eins og tign Ísraels, því að ræningjar hafa rænt þá og skemmt gróðurkvistu þeirra.
4 Skildir kappa hans eru rauðlitaðir, hermennirnir klæddir skarlatsklæðum. Vagnarnir glóa af stáli þann dag, er hann útbýr þá, og lensunum verður sveiflað.
5 Vagnarnir geisa á strætunum, þeytast um torgin, þeir eru til að sjá sem blys, þeir þjóta áfram sem eldingar.
6 Konungurinn heitir þá á tignarmenn sína: Þeir hrasa á göngu sinni, þeir flýta sér að múrnum, en þegar er vígþak reist.
7 Hliðunum við fljótið er lokið upp og konungshöllin kemst í uppnám.
8 Og drottningin verður flett klæðum og flutt burt, og þernur hennar munu andvarpa, líkast því sem dúfur kurri, og berja sér á brjóst.
9 Níníve hefir verið sem vatnstjörn frá upphafi vega sinna. En þeir flýja. "Standið við, standið við!" _ en enginn lítur við.
10 Rænið silfri, rænið gulli! Því að hér er óþrjótandi forði, ógrynni af alls konar dýrum munum.
11 Auðn, gjörauðn og aleyðing, huglaus hjörtu, riðandi kné og skjálfti í öllum mjöðmum, og allra andlit blikna.
12 Hvar er nú bæli ljónanna, átthagar ungljónanna, þar sem ljónið gekk og ljónynjan og ljónshvolpurinn, án þess að nokkur styggði þau?
13 Ljónið reif sundur, þar til er hvolpar þess höfðu fengið nægju sína, og drap niður handa ljónynjum sínum, fyllti hella sína bráð og bæli sín ránsfeng.
14 Sjá, ég rís í gegn þér _ segir Drottinn allsherjar _ og læt vagna þína bálast upp í reyk, og sverðið skal eta ungljón þín. Og ég eyði herfangi þínu af jörðinni, og raust sendiboða þinna skal ekki framar heyrast.
18 Þá sagði hann þeim dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast:
2 "Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann.
3 Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ,Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.`
4 Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ,Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann.
5 En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu."`
6 Og Drottinn mælti: "Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir.
7 Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim?
8 Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?"
9 Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra:
10 "Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
11 Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: ,Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.
12 Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.`
13 En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: ,Guð, vertu mér syndugum líknsamur!`
14 Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."
15 Menn færðu og til hans ungbörnin, að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá.
16 En Jesús kallaði þau til sín og mælti: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.
17 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."
18 Höfðingi nokkur spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
19 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.
20 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður."`
21 Hann sagði: "Alls þessa hef ég gætt frá æsku."
22 Þegar Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: "Enn er þér eins vant: Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér."
23 En er hann heyrði þetta, varð hann hryggur við, enda auðugur mjög.
24 Jesús sá það og sagði: "Hve torvelt er þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.
25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
26 En þeir, sem á hlýddu, spurðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"
27 Hann mælti: "Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð."
28 Þá sagði Pétur: "Vér yfirgáfum allt, sem vér áttum, og fylgdum þér."
29 Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn Guðs ríkis vegna
30 án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi eilíft líf."
31 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: "Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum.
32 Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann.
33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa."
34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.
35 Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði.
36 Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera.
37 Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá.
38 Þá hrópaði hann: "Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
39 En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
40 Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann:
41 "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Hinn svaraði: "Herra, að ég fái aftur sjón."
42 Jesús sagði við hann: "Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér."
43 Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.
by Icelandic Bible Society