M’Cheyne Bible Reading Plan
2 Salómon bauð að reisa skyldi musteri nafni Drottins og konungshöll handa sjálfum sér.
2 Og Salómon taldi frá sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara á fjöllunum, og setti þrjú þúsund og sex hundruð umsjónarmenn yfir þá.
3 Og Salómon gjörði Húram, konungi í Týrus, svolátandi orðsending: "Eins og þú breyttir við Davíð föður minn, er þú sendir honum sedrustré, svo að hann gæti byggt sér höll til bústaðar,
4 svo ætla ég nú að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns, er ég ætla að helga honum, til þess að færa ilmreykelsisfórnir frammi fyrir honum, til þess stöðugt að annast um raðsettu brauðin, til þess að færa brennifórn kvelds og morgna, á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum Drottins, Guðs vors. Skal svo vera um aldur og ævi í Ísrael.
5 Og musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið, því að vor Guð er meiri en allir guðir.
6 En hver myndi vera fær um að reisa honum hús? Því að himinninn og himnanna himnar taka hann ekki, og hver er ég, að ég reisi honum hús, nema ef vera skyldi til þess að brenna reykelsi frammi fyrir honum.
7 Send þú mér nú mann, sem er hagur á gull, silfur, eir og járn, kann að vinna úr rauðum purpura, skarlati og bláum purpura, og kann að útskurði, ásamt þeim hagleiksmönnum, er með mér eru í Júda og Jerúsalem og Davíð faðir minn hefir til fengið.
8 Send þú mér og sedrusvið, kýpresvið og sandelvið frá Líbanon, því að ég veit, að menn þínir kunna að því að höggva tré á Líbanon, og skulu mínir menn vera með þínum mönnum.
9 Og ég þarf á afar miklum viði að halda, því að musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið og undursamlegt.
10 En viðarhöggsmönnunum frá þér, þeim er trén höggva, gef ég til matar tuttugu þúsund kór af hveiti og tuttugu þúsund kór af byggi, tuttugu þúsund bat af víni og tuttugu þúsund bat af olíu."
11 Húram, konungur í Týrus, svaraði bréflega og sendi til Salómons: "Af því að Drottinn elskar lýð sinn, hefir hann gjört þig að konungi yfir þeim."
12 Og Húram mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, er gjört hefir himin og jörð, að hann hefir gefið Davíð konungi vitran son, sem hefir til að bera skyn og hyggindi til þess að reisa Drottni musteri og sjálfum sér konungshöll.
13 Og nú sendi ég mann, vitran og velkunnandi, Húram Abí,
14 son konu af Dans ætt, en faðir hans er týrverskur maður. Hann kann að smíða úr gulli, silfri, eiri og járni, steini og tré og að vinna úr rauðum og bláum purpura, baðmull og skarlati, kann að hvers konar útskurði, og getur gjört hverja þá smíð, er honum verður falin, ásamt hagleiksmönnum þínum og hagleiksmönnum Davíðs föður þíns, herra míns.
15 Sendi þá herra minn þjónum sínum hveitið, byggið, olíuna og vínið, sem hann hefir um mælt.
16 En vér skulum höggva tré á Líbanon, eins mikið og þú þarft, og færa þér þau í flotum sjóveg til Jafó, og mátt þú þá flytja þau upp til Jerúsalem."
17 Og Salómon taldi útlenda menn, er voru í Ísraelslandi, eftir tali því á þeim, er Davíð faðir hans hafði gjöra látið, og reyndust þeir að vera hundrað fimmtíu og þrjú þúsund og sex hundruð.
18 Af þeim gjörði hann sjötíu þúsund að burðarmönnum, áttatíu þúsund að steinhöggvurum í fjöllunum og þrjú þúsund og sex hundruð að umsjónarmönnum til þess að halda fólkinu til vinnu.
2 Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.
2 Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.
3 Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.
4 Sá sem segir: "Ég þekki hann," og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.
5 En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.
6 Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti.
7 Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð.
8 Engu að síður er það nýtt boðorð, er ég rita yður, sem er augljóst í honum og í yður, því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.
10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls.
11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans.
12 Ég rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans.
13 Ég rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda.
14 Ég hef ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. Ég hef ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég hef ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.
15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.
16 Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.
17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.
18 Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund.
19 Þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss. En þetta varð til þess að augljóst yrði, að enginn þeirra heyrði oss til.
20 En þér hafið smurning frá hinum heilaga og vitið þetta allir.
21 Ég hef ekki skrifað yður vegna þess, að þér þekkið ekki sannleikann, heldur af því að þér þekkið hann og af því að engin lygi getur komið frá sannleikanum.
22 Hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum.
23 Hver sem afneitar syninum hefur ekki heldur fundið föðurinn. Sá sem játar soninn hefur og fundið föðurinn.
24 En þér, látið það vera stöðugt í yður, sem þér hafið heyrt frá upphafi. Ef það er stöðugt í yður, sem þér frá upphafi hafið heyrt, þá munuð þér einnig vera stöðugir í syninum og í föðurnum.
25 Og þetta er fyrirheitið, sem hann gaf oss: Hið eilífa líf.
26 Þetta hef ég skrifað yður um þá, sem eru að leiða yður afvega.
27 Og sú smurning, sem þér fenguð af honum, hún er stöðug í yður, og þér þurfið þess ekki, að neinn kenni yður, því smurning hans fræðir yður um allt, hún er sannleiki, en engin lygi. Verið stöðugir í honum, eins og hún kenndi yður.
28 Og nú, börnin mín, verið stöðug í honum, til þess að vér getum, þegar hann birtist, átt djörfung og blygðumst vor ekki fyrir honum, þegar hann kemur.
29 Þér vitið, að hann er réttlátur. Þá skiljið þér einnig, að hver sem iðkar réttlætið, er fæddur af honum.
1 Spádómur um Níníve. Bókin um vitrun Nahúms Elkósíta.
2 Drottinn er vandlætissamur Guð og hefnari. Drottinn er hefnari og fullur gremi. Drottinn hefnir sín á mótstöðumönnum sínum og er langrækinn við óvini sína.
3 Drottinn er seinn til reiði og mikill að krafti, en óhegnt lætur hann ekki. Drottinn brunar áfram í fellibyljum og stormviðri, og skýin eru rykið undir fótum hans.
4 Hann hastar á sjóinn og þurrkar hann upp, og hann lætur öll fljót þorna. Þá fölnar Basan og Karmel, þá fölnar jurtagróðurinn á Líbanon.
5 Fjöllin skjálfa fyrir honum, og hálsarnir renna sundur. Jörðin gengur skykkjum fyrir honum, heimskringlan og allir sem á henni búa.
6 Hver fær staðist gremi hans og hver fær afborið hans brennandi reiði? Heift hans úthellist eins og eldur og björgin bresta sundur fyrir honum.
7 Drottinn er góður, athvarf á degi neyðarinnar, og hann þekkir þá sem treysta honum.
8 En með yfirgeisandi vatnsflóði mun hann gjörsamlega afmá Níníve, og myrkur mun ofsækja óvini hans.
9 Hvað bruggið þér gegn Drottni? Hann eyðir svo, að af tekur _ þrengingin mun ekki koma tvisvar.
10 Þótt þeir væru samflæktir sem þyrnar og votir sem vín þeirra, þá munu þeir upp brenndir verða sem skraufþurrir hálmleggir.
11 Frá þér, Níníve, út gekk sá, er hafði illt í huga gegn Drottni, sá er hafði skaðsemdar áform með höndum.
12 Svo segir Drottinn: Þótt þeir komi allir með tölu og afar fjölmennir, þá skulu þeir allt að einu afmáðir verða og farast. Hafi ég auðmýkt þig, Júda, þá mun ég ekki auðmýkja þig framar.
13 Og nú vil ég brjóta ok hans af þér og slíta bönd þín.
14 En um þig, Níníve, mun Drottinn skipa svo fyrir: Ekkert afkvæmi skal framar koma út af nafni þínu. Ég vil eyða skurðmyndunum og steyptu líkneskjunum úr hofi guðs þíns, ég vil búa þér gröf, því að þú ert léttvæg fundin.
17 Hann sagði við lærisveina sína: "Eigi verður umflúið, að til ginninga komi, en vei þeim er veldur.
2 Betra væri honum að hafa mylnustein um hálsinn og vera varpað í hafið en að tæla einn af þessum smælingjum til falls.
3 Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann iðrast, þá fyrirgef honum.
4 Og þótt hann misgjöri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: ,Ég iðrast,` þá skalt þú fyrirgefa honum."
5 Postularnir sögðu við Drottin: "Auk oss trú!"
6 En Drottinn sagði: "Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: ,Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum,` og það mundi hlýða yður.
7 Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: ,Kom þegar og set þig til borðs`?
8 Segir hann ekki fremur við hann: ,Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.`
9 Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var?
10 Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ,Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra."`
11 Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu.
12 Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar,
13 hófu upp raust sína og kölluðu: "Jesús, meistari, miskunna þú oss!"
14 Er hann leit þá, sagði hann við þá: "Farið og sýnið yður prestunum." Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir.
15 En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu.
16 Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji.
17 Jesús sagði: "Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu?
18 Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?"
19 Síðan mælti Jesús við hann: "Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér."
20 Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: "Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri.
21 Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður."
22 Og hann sagði við lærisveinana: "Þeir dagar munu koma, að þér þráið að sjá einn dag Mannssonarins og munuð eigi sjá.
23 Menn munu segja við yður: Sjá hér, sjá þar. En farið ekki og hlaupið eftir því.
24 Eins og elding, sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars, svo mun Mannssonurinn verða á degi sínum.
25 En fyrst á hann margt að líða og útskúfaður verða af þessari kynslóð.
26 Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins:
27 Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum.
28 Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu.
29 En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum.
30 Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.
31 Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur.
32 Minnist konu Lots.
33 Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf.
34 Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.
35 Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. [
36 Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.]"
37 Þeir spurðu hann þá: "Hvar, herra?" En hann sagði við þá: "Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er."
by Icelandic Bible Society