Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Kroníkubók 1

Salómon sonur Davíðs festist í konungdómi, og Drottinn, Guð hans, var með honum og gjörði hann mjög vegsamlegan.

Og Salómon lét boð fara um allan Ísrael, til þúsundhöfðingjanna og hundraðshöfðingjanna, dómaranna og allra höfðingjanna í öllum Ísrael, ætthöfðingjanna,

og fór Salómon síðan og allur söfnuðurinn með honum til fórnarhæðarinnar í Gíbeon, því að þar var samfundatjald Guðs, það er Móse, þjónn Drottins, hafði gjöra látið á eyðimörkinni.

Örk Guðs hafði Davíð þar á móti flutt frá Kirjat Jearím, þangað er Davíð hafði búið henni stað, því að hann hafði reist tjald fyrir hana í Jerúsalem.

Eiraltarið, er Besaleel Úríson, Húrssonar, hafði gjört, var og þar, frammi fyrir bústað Drottins, og Salómon og söfnuðurinn leituðu hans þar.

Og Salómon færði Drottni fórnir þar á eiraltarinu, er heyrði til samfundatjaldinu, og færði hann honum þar þúsund brennifórnir.

Þá nótt vitraðist Guð Salómon og sagði við hann: "Bið þú þess, er þú vilt að ég veiti þér."

Og Salómon svaraði Guði: "Þú auðsýndir Davíð föður mínum mikla miskunn, og þú hefir gjört mig að konungi eftir hann.

Lát þá, Drottinn Guð, fyrirheit þitt til Davíðs föður míns standa stöðugt. Því að þú hefir gjört mig að konungi yfir lýð, sem er margur eins og duft jarðar.

10 Gef mér þá visku og þekkingu, að ég megi ganga út og inn frammi fyrir lýð þessum. Því að hver getur annars stjórnað þessum fjölmenna lýð þínum?"

11 Þá mælti Guð við Salómon: "Sakir þess, að þetta bjó þér í hjarta, og þú baðst eigi um auðlegð, fé og sæmd, eða um líf þeirra, er hata þig, og baðst eigi heldur um langlífi, heldur baðst þér visku og þekkingar, að þú gætir stjórnað lýð mínum, er ég hefi gjört þig að konungi yfir,

12 þá er viska og þekking veitt þér, og auðlegð, fé og sæmd vil ég veita þér, meiri en haft hefir nokkur konungur á undan þér og meiri en nokkur mun hafa eftir þig."

13 Síðan hélt Salómon burt frá fórnarhæðinni í Gíbeon, frá staðnum fyrir framan samfundatjaldið, til Jerúsalem, og ríkti yfir Ísrael.

14 Salómon safnaði vögnum og riddurum, og hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem.

15 Og konungur gjörði silfur og gull eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.

16 Hesta sína fékk Salómon frá Egyptalandi, og sóttu kaupmenn konungs þá í hópum og guldu fé fyrir,

17 svo að hver vagn, er þeir fengu og komu með frá Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs, en hver hestur hundrað og fimmtíu. Og á þennan hátt voru og hestar fluttir út fyrir milligöngu þeirra til allra konunga Hetíta og konunga Sýrlendinga.

Fyrsta bréf Jóhannesar 1

Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins.

Og lífið var opinberað, og vér höfum séð það og vottum um það og boðum yður lífið eilífa, sem var hjá föðurnum og var opinberað oss.

Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist.

Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn.

Og þetta er boðskapurinn, sem vér höfum heyrt af honum og boðum yður: "Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum."

Ef vér segjum: "Vér höfum samfélag við hann," og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann.

En ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd.

Ef vér segjum: "Vér höfum ekki synd," þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.

Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.

10 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki syndgað," þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss.

Míka 7

Vei mér, því að það hefir farið fyrir mér eins og þegar ávöxtum er safnað, eins og við eftirtíning vínberjatekju: ekkert vínber eftir til að eta, engin árfíkja, er mig langaði í.

Guðhræddir menn eru horfnir úr landinu, og ráðvandir eru ekki til meðal mannanna, þeir sitja allir um að fremja morð og reyna að veiða hver annan í net.

Til ills eru báðar hendur fram réttar. Höfðinginn heimtar og dómarinn dæmir gegn endurgjaldi. Og stórmennið er bermált um það, sem hjarta hans girnist, og þeir flækja málin.

Hinn besti meðal þeirra er sem þyrnir og hinn ráðvandasti verri en þyrnigerði. Dagurinn sem varðmenn þínir hafa talað um, hegningardagur þinn, kemur. Þá verða þeir úrræðalausir.

Trúið eigi kunningja yðar, treystið eigi vini, gæt dyra munns þíns fyrir henni, sem hvílir í faðmi þínum.

Því að sonurinn fyrirlítur föður sinn, dóttirin setur sig upp á móti móður sinni, tengdadóttirin á móti tengdamóður sinni, heimilismennirnir eru óvinir húsbónda síns.

Ég vil mæna til Drottins, bíða eftir Guði hjálpræðis míns! Guð minn mun heyra mig!

Hlakka eigi yfir mér, fjandkona mín, því þótt ég sé fallin, rís ég aftur á fætur, þótt ég sitji í myrkri, þá er Drottinn mitt ljós.

Reiði Drottins vil ég þola _ því að ég hefi syndgað á móti honum _ þar til er hann sækir sök mína og lætur mig ná rétti mínum. Hann mun leiða mig út til ljóssins, ég mun horfa ánægð á réttlæti hans.

10 Fjandkona mín mun sjá það, og smán mun hylja hana, hún sem nú segir við mig: "Hvar er Drottinn, Guð þinn?" Augu mín munu horfa hlakkandi á hana, þá mun hún verða troðin niður eins og saur á strætum.

11 Sá dagur kemur, að múrar þínir verða endurreistir, þann dag munu landamerki þín færast mikið út.

12 Á þeim degi munu menn koma til þín frá Assýríu allt til Egyptalands og frá Egyptalandi allt til Efrats, frá hafi til hafs og frá fjalli til fjalls.

13 En jörðin mun verða að auðn vegna íbúa hennar, sökum ávaxtarins af gjörðum þeirra.

14 Gæt þú þjóðar þinnar með staf þínum, sauða arfleifðar þinnar, þeirra sem byggja einir sér kjarrskóginn innan um aldingarðana. Lát þá ganga í Basanshaglendi og í Gíleað eins og forðum daga.

15 Lát hana sjá undur, eins og þegar þú fórst af Egyptalandi.

16 Þjóðirnar skulu sjá það og verða til skammar, þrátt fyrir allan styrkleika sinn. Þær munu leggja höndina á munninn, eyru þeirra munu verða heyrnarlaus.

17 Þær munu sleikja duft eins og höggormur, eins og kvikindi, sem skríða á jörðinni, skjálfandi skulu þær koma fram úr fylgsnum sínum, líta hræddar til Drottins, Guðs vors, og óttast þig.

18 Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra, _ sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur?

19 Þú munt aftur miskunna oss, troða niður misgjörðir vorar. Já, þú munt varpa öllum syndum vorum í djúp hafsins.

Lúkasarguðspjall 16

16 Enn sagði hann við lærisveina sína: "Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans.

Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.`

Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla.

Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.`

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ,Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?`

Hann svaraði: ,Hundrað kvartil viðsmjörs.` Hann mælti þá við hann: ,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.`

Síðan sagði hann við annan: ,En hvað skuldar þú?` Hann svaraði: ,Hundrað tunnur hveitis.` Og hann sagði honum: ,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.`

Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.

10 Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.

11 Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði?

12 Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er?

13 Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón."

14 En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum.

15 En hann sagði við þá: "Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.

16 Lögmálið og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis, og hver maður vill ryðjast þar inn.

17 En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.

18 Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.

19 Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði.

20 En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus.

21 Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans.

22 En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

23 Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans.

24 Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.`

25 Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst.

26 Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.`

27 En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns,

28 en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.`

29 En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.`

30 Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.`

31 En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum."`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society