Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Kroníkubók 29

29 Davíð konungur mælti til alls safnaðarins: "Salómon sonur minn, hinn eini, er Guð hefir kjörið, er ungur og óreyndur, en starfið er mikið, því að eigi er musteri þetta manni ætlað, heldur Drottni Guði.

Ég hefi af öllum mætti dregið að fyrir musteri Guðs míns, gull í gulláhöldin, silfur í silfuráhöldin, eir í eiráhöldin, járn í járnáhöldin og tré í tréáhöldin, sjóamsteina og steina til að greypa inn, gljásteina og mislita steina, alls konar dýra steina og afar mikið af alabastursteinum.

Enn fremur vil ég, sakir þess að ég hefi mætur á musteri Guðs míns, gefa það, er ég á af gulli og silfri, til musteris Guðs míns, auk alls þess, er ég hefi dregið að fyrir helgidóminn:

Þrjú þúsund talentur af gulli og það af Ófírgulli, sjö þúsund talentur af skíru silfri til þess að klæða með veggina í herbergjunum

og til þess að útvega gull í gulláhöldin og silfur í silfuráhöldin, og til alls konar listasmíða. Hver er nú fús til þess að færa Drottni ríflega fórnargjöf í dag?"

Þá kváðust ætthöfðingjarnir, höfðingjar kynkvísla Ísraels, þúsundhöfðingjarnir og hundraðshöfðingjarnir og ráðsmennirnir yfir störfum í konungsþjónustu vera fúsir til þess,

og þeir gáfu til Guðs húss fimm þúsund talentur gulls, tíu þúsund Daríus-dali, tíu þúsund talentur silfurs, átján þúsund talentur eirs og hundrað þúsund talentur járns.

Og hver sá, er átti gimsteina, gaf þá í féhirslu húss Drottins, er Jehíel Gersoníti hafði umsjón yfir.

Þá gladdist lýðurinn yfir örlæti þeirra, því að þeir höfðu af heilum hug fært Drottni sjálfviljagjafir, og Davíð konungur gladdist einnig stórum.

10 Þá lofaði Davíð Drottin, að öllum söfnuðinum ásjáanda, og Davíð mælti: "Lofaður sért þú, Drottinn, Guð Ísraels, forföður vors, frá eilífð til eilífðar.

11 Þín, Drottinn, er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin, því að allt er þitt, á himni og jörðu. Þinn er konungdómurinn, Drottinn, og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi.

12 Auðlegðin og heiðurinn koma frá þér; þú drottnar yfir öllu, máttur og megin er í hendi þinni, og á þínu valdi er það, að gjöra hvern sem vera skal mikinn og máttkan.

13 Og nú, Guð vor, vér lofum þig og tignum þitt dýrlega nafn.

14 Því að hvað er ég, og hvað er lýður minn, að vér skulum vera færir um að gefa svo mikið sjálfviljuglega? Nei, frá þér er allt, og af þínu höfum vér fært þér gjöf.

15 Því að vér erum aðkomandi og útlendingar fyrir þér, eins og allir feður vorir. Sem skuggi eru dagar vorir á jörðunni, og engin er vonin.

16 Drottinn, Guð vor, öll þessi auðæfi, er vér höfum dregið að til þess að reisa þér _ þínu heilaga nafni _ hús, frá þér eru þau og allt er það þitt.

17 Og ég veit, Guð minn, að þú rannsakar hjartað og hefir þóknun á hreinskilni. Ég hefi með hreinum hug og sjálfviljuglega gefið allt þetta, og ég hefi með gleði horft á, hversu lýður þinn, sem hér er, færir þér sjálfviljagjafir.

18 Drottinn, Guð feðra vorra, Abrahams, Ísaks og Jakobs, varðveit þú slíkar hugrenningar í hjarta lýðs þíns að eilífu, og bein hjörtum þeirra til þín.

19 En gef þú Salómon syni mínum einlægt hjarta, að hann megi varðveita boðorð þín, vitnisburði og fyrirskipanir, og að hann megi gjöra allt þetta og reisa musterið, er ég hefi dregið að föng til."

20 Síðan mælti Davíð til alls safnaðarins: "Lofið Drottin, Guð yðar!" Lofaði þá allur söfnuðurinn Drottin, Guð feðra sinna, hneigðu sig og lutu Drottni og konungi.

21 Næsta morgun færðu þeir Drottni sláturfórn og færðu honum í brennifórn: þúsund naut, þúsund hrúta og þúsund lömb, og drykkjarfórnir, er við áttu, svo og sláturfórnir í ríkum mæli fyrir allan Ísrael.

22 Átu þeir svo og drukku frammi fyrir Drottni þann dag í miklum fagnaði og tóku Salómon, son Davíðs, öðru sinni til konungs og smurðu hann þjóðhöfðingja Drottni til handa, en Sadók til prests.

23 Sat Salómon þannig sem konungur Drottins í hásæti í stað Davíðs föður síns og var auðnumaður, og allir Ísraelsmenn hlýddu honum.

24 Og allir höfðingjarnir og kapparnir, svo og allir synir Davíðs konungs, hylltu Salómon konung.

25 Og Drottinn gjörði Salómon mjög vegsamlegan í augum allra Ísraelsmanna og veitti honum tignarmikinn konungdóm, svo að enginn konungur í Ísrael hafði slíkan haft á undan honum.

26 Davíð Ísaíson ríkti yfir öllum Ísrael.

27 En sá tími, er hann ríkti yfir Ísrael, var fjörutíu ár. Í Hebron ríkti hann sjö ár, en í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú.

28 Dó hann í góðri elli, saddur lífdaga, auðæfa og sæmdar, og tók Salómon sonur hans ríki eftir hann.

29 En saga Davíðs konungs frá upphafi til enda er skráð í Sögu Samúels sjáanda, svo og í Sögu Natans spámanns og í Sögu Gaðs sjáanda.

Síðara almenna bréf Péturs 3

Þetta er nú annað bréfið, sem ég skrifa yður, þér elskaðir, og í þeim báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður.

Það reyni ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.

Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum

og segja með spotti: "Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar."

Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs.

Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.

En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.

En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.

Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.

10 En dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.

11 Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni,

12 þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.

13 En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.

14 Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.

15 Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin.

16 Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar.

17 Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.

Míka 6

Heyrið, hvað Drottinn segir: Statt upp og sæk sök fyrir fjöllunum, svo að hæðirnar megi heyra raust þína.

Heyrið kærumál Drottins, þér fjöll, og hlýðið á, þér undirstöður jarðarinnar. Því að Drottinn hefir mál að kæra við þjóð sína og gengur í dóm við Ísrael:

_ Þjóð mín, hvað hefi ég gjört þér og með hverju hefi ég þreytt þig? Vitna þú í gegn mér!

Ég leiddi þig þó út af Egyptalandi og frelsaði þig úr þrælahúsinu og sendi þér Móse, Aron og Mirjam til forystu.

Þjóð mín, minnst þú þess, hvað Balak Móabskonungur hafði í hyggju og hverju Bíleam Beórsson svaraði honum, minnst þú þess er gjörðist á leiðinni frá Sittím til Gilgal, til þess að þú kannist við velgjörðir Drottins.

_ Með hvað á ég að koma fram fyrir Drottin, beygja mig fyrir Guði á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með ársgamla kálfa?

Hefir Drottinn þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum fyrir misgjörð mína, ávexti kviðar míns sem syndafórn sálar minnar?

_ Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?

Heyr, Drottinn kallar til borgarinnar, og það er viska að óttast nafn hans. Heyrið, kynstofn og saman kominn borgarlýður!

10 Á ég að láta sem ég sjái ekki, í húsi hins óguðlega, rangfengin auðæfi og svikinn mæli, sem bölvun er lýst yfir?

11 Á ég að láta honum óhegnt, þótt hann hafi ranga vog og svikna vogarsteina í sjóði sínum?

12 Ríkismenn hennar eru fullir af ofríki, íbúar hennar tala lygar og tungan fer með svik í munni þeirra.

13 Því tek ég og að ljósta þig, að eyða vegna synda þinna.

14 Þú skalt eta, en þó ekki saddur verða, heldur skal hungrið haldast við í þér. Þótt þú takir eitthvað frá, þá skalt þú eigi fá bjargað því, og það sem þú bjargar, skal ég ofurselja sverðinu.

15 Þótt þú sáir, skalt þú ekkert uppskera. Þótt þú troðir olífurnar, skalt þú eigi smyrja þig með olíu, og þótt þú fáir vínberjalöginn, skalt þú ekki vínið drekka.

16 Þú hefir haldið setningum Omrí og öllu athæfi Akabs húss, og þér hafið breytt eftir háttum þeirra, til þess að ég gjöri hana að auðn og láti íbúa hennar verða að spotti. Já, þér skuluð bera háð þjóðanna.

Lúkasarguðspjall 15

15 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann,

en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."

En hann sagði þeim þessa dæmisögu:

"Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?

Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.

Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.`

Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.

Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana?

Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.`

10 Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun."

11 Enn sagði hann: "Maður nokkur átti tvo sonu.

12 Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ,Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.` Og hann skipti með þeim eigum sínum.

13 Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði.

14 En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort.

15 Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína.

16 Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

17 En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: ,Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri!

18 Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér.

19 Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.`

20 Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.

21 En sonurinn sagði við hann: ,Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.`

22 Þá sagði faðir hans við þjóna sína: ,Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum.

23 Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag.

24 Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.` Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

25 En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans.

26 Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera.

27 Hann svaraði: ,Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.`

28 Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma.

29 En hann svaraði föður sínum: ,Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum.

30 En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.`

31 Hann sagði þá við hann: ,Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt.

32 En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn."`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society