M’Cheyne Bible Reading Plan
28 Davíð stefndi til Jerúsalem öllum höfðingjum Ísraels, höfðingjum fyrir kynkvíslunum og flokkshöfðingjunum, þeim er konungi þjónuðu, þúsundhöfðingjunum og hundraðshöfðingjunum og ráðsmönnum yfir öllum eignum og fénaði konungs og sona hans, og auk þess hirðmönnunum og köppunum og öllum röskum mönnum.
2 Þá stóð Davíð konungur upp og mælti: "Hlustið á mig, þér bræður mínir og lýður minn! Ég hafði í hyggju að reisa hvíldarstað fyrir sáttmálsörk Drottins og fyrir fótskör Guðs vors, og dró að föng til byggingarinnar.
3 En Guð sagði við mig: ,Þú skalt eigi reisa hús nafni mínu, því að þú ert bardagamaður og hefir úthellt blóði.`
4 Drottinn Guð Ísraels kaus mig af allri ætt minni, að ég skyldi ævinlega vera konungur yfir Ísrael. Því að Júda hefir hann kjörið til þjóðhöfðingja, og í ættkvísl Júda ætt mína, og meðal sona föður míns þóknaðist honum að gjöra mig að konungi yfir öllum Ísrael.
5 Og af öllum sonum mínum _ því að Drottinn hefir gefið mér marga sonu _ kaus hann Salómon son minn, að hann skyldi sitja á konungsstóli Drottins yfir Ísrael.
6 Hann sagði við mig: ,Salómon sonur þinn, hann skal reisa musteri mitt og forgarða mína, því að hann hefi ég kjörið mér fyrir son, og ég vil vera honum faðir.
7 Og ég mun staðfesta konungdóm hans að eilífu, ef hann stöðugt heldur boð mín og fyrirskipanir, eins og nú.`
8 Og nú, að öllum Ísrael ásjáanda, frammi fyrir söfnuði Drottins og í áheyrn Guðs vors: Varðveitið kostgæfilega öll boðorð Drottins, Guðs yðar, að þér megið eiga þetta góða land og láta það ganga að erfðum til niðja yðar um aldur og ævi.
9 Og þú, Salómon, sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að Drottinn rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar. Ef þú leitar hans, mun hann gefa þér kost á að finna sig; ef þú yfirgefur hann, mun hann útskúfa þér um aldur.
10 Gæt nú að, því að Drottinn hefir kjörið þig til þess að reisa helgidómshús. Gakk öruggur að verki."
11 Síðan fékk Davíð Salómon syni sínum fyrirmynd að forsalnum og herbergjum hans, fjárhirslum, loftherbergjum, innherbergjum og arkarherberginu,
12 svo og fyrirmynd að öllu því, er hann hafði í huga: að forgörðum musteris Drottins og herbergjunum allt í kring, féhirslum Guðs húss og fjárhirslunum fyrir helgigjafirnar,
13 áætlun um flokka prestanna og levítanna og öll embættisstörf í musteri Drottins, og um öll þjónustuáhöld í musteri Drottins,
14 og áætlun um þyngd gullsins, sem á þurfti að halda í öll áhöld við hvers konar embættisstörf; og um þyngd silfuráhaldanna, sem á þurfti að halda við hvers konar embættisstörf;
15 og um efnið í gullstjakana og gulllampana, er á þeim voru, eftir þyngd hvers stjaka og lampa hans; og um efnið í silfurstjakana eftir þyngd hvers stjaka og lampa hans, eftir því sem hver stjaki var ætlaður til;
16 og um þyngd gullsins í hvert af borðunum fyrir raðsettu brauðin; og um silfrið í silfurborðin;
17 og um þyngd soðkrókanna og fórnarskálanna og bollanna úr skíru gulli og þyngd gullbikaranna og silfurbikaranna, hvers fyrir sig;
18 og um þyngd reykelsisaltarisins úr hreinsuðu gulli. Og hann fékk honum fyrirmynd að vagninum, gullkerúbunum, er breiddu út vængina og huldu sáttmálsörk Drottins.
19 "Allt þetta," kvað Davíð, "er skráð í riti frá hendi Drottins. Hann hefir frætt mig um öll störf, er vinna á eftir fyrirmyndinni."
20 Síðan mælti Davíð við Salómon son sinn: "Ver hughraustur og öruggur og kom þessu til framkvæmdar. Óttast ekki og lát eigi hugfallast, því að Drottinn Guð, Guð minn, mun vera með þér. Hann mun eigi sleppa af þér hendinni og eigi yfirgefa þig, uns lokið er öllum störfum til þjónustugjörðar í musteri Drottins.
21 Hér eru og prestaflokkar og levíta til alls konar þjónustu við musteri Guðs, og hjá þér eru menn til alls konar starfa, verkhyggnir menn, fúsir til allra starfa, og enn fremur hlýða höfðingjarnir og allur lýðurinn öllum skipunum þínum."
2 En falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins. Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun.
2 Margir munu fylgja ólifnaði þeirra, og sakir þeirra mun vegi sannleikans verða hallmælt.
3 Af ágirnd munu þeir með uppspunnum orðum hafa yður að féþúfu. En dómurinn yfir þeim er löngu felldur og fyrnist ekki og glötun þeirra blundar ekki.
4 Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins.
5 Ekki þyrmdi hann hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.
6 Hann brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og dæmdi þær til eyðingar og setti þær til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega.
7 En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu.
8 Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.
9 Þannig veit Drottinn, hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags,
10 einkum þá, sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald. Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar skirrast ekki við að lastmæla tignum.
11 Jafnvel englarnir, sem eru þeim meiri að mætti og valdi, fara ekki með guðlast, þegar þeir ákæra þá hjá Drottni.
12 Þessir menn eru eins og skynlausar skepnur, sem eru fæddar til að veiðast og tortímast. Þeir lastmæla því, sem þeir þekkja ekki, og munu þess vegna í spillingu sinni undir lok líða
13 og bera þannig úr býtum laun ranglætis. Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag. Þeir eru skömm og smán, þegar þeir neyta máltíða með yður og svalla.
14 Augu þeirra eru full hórdóms, og þeim verður ekki frá syndinni haldið. Þeir fleka óstyrkar sálir, hjarta þeirra hefur tamið sér ágirnd. Það er bölvun yfir þeim.
15 Þeir hafa farið af rétta veginum og lent í villu. Þeir fara sömu leið og Bíleam, sonur Bósors, sem elskaði ranglætislaun.
16 En hann fékk ádrepu fyrir glæp sinn. Mállaus eykurinn talaði mannamál og aftraði fásinnu spámannsins.
17 Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur.
18 Þeir láta klingja drembileg hégómaorð og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá, sem fyrir skömmu hafa sloppið frá þeim, sem ganga í villu.
19 Þeir heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar, því að sérhver verður þræll þess, sem hann hefur beðið ósigur fyrir.
20 Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra.
21 Því að betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið.
22 Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: "Hundur snýr aftur til spýju sinnar," og: "Þvegið svín veltir sér í sama saur."
5 Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum.
2 Fyrir því mun Guð yfirgefa þá til þess tíma, er sú hefir fætt, er fæða skal, en þá munu leifar ættbræðra hans hverfa aftur til Ísraelsmanna.
3 Þá mun hann standa og halda þeim til haga í krafti Drottins, í hinu tignarlega nafni Drottins Guðs síns, og þeir skulu óhultir búa, því að þá skal hann mikill vera til endimarka jarðar.
4 Og þessi mun friðurinn vera: Brjótist Assýringar inn í land vort og stígi þeir fæti á ættjörð vora, þá munum vér senda í móti þeim sjö hirða og átta þjóðhöfðingja,
5 og þeir munu herja land Assýringa með sverði og land Nimrods með brugðnum brandi. Og þannig mun hann frelsa oss frá Assýringum, er þeir brjótast inn í land vort og stíga fæti á fold vora.
6 Leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem dögg frá Drottni, sem regndropar á grasi, þeir er bíða ekki eftir neinum og vænta ekki neins af mannanna börnum.
7 Og leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem ljón meðal skógardýra, sem ljónshvolpur í sauðahjörð, sá er niður treður þar sem hann veður yfir og sundur rífur, án þess að nokkur fái bjargað.
8 Armleggur þinn mun hrósa sigri yfir mótstöðumönnum þínum og allir óvinir þínir munu afmáðir verða.
9 Á þeim degi _ segir Drottinn _ vil ég eyða öllum þeim víghestum, sem þú átt í landinu, og gjöra að engu hervagna þína,
10 ég vil eyða borgum lands þíns og rífa niður öll virki þín,
11 ég vil eyða öllum töfrum hjá þér, og spásagnamenn skulu eigi framar hjá þér vera.
12 Ég vil eyða skurðmyndum þínum og merkissteinum, þeim er hjá þér eru, og þú skalt ekki framar falla fram fyrir verkum handa þinna.
13 Ég vil brjóta niður asérur þínar og eyðileggja guðalíkneski þín,
14 og ég vil með reiði og gremi hefnast á þjóðunum, er eigi hafa hlýðnast.
14 Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum.
2 Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur.
3 Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?"
4 Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara.
5 Og Jesús mælti við þá: "Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?"
6 Þeir gátu engu svarað þessu.
7 Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá:
8 "Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið,
9 og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.` Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti.
10 Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!` Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér.
11 Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."
12 Þá sagði hann við gestgjafa sinn: "Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald.
13 Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum,
14 og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra."
15 Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: "Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki."
16 Jesús sagði við hann: "Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum.
17 Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: ,Komið, nú er allt tilbúið.`
18 En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: ,Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.`
19 Annar sagði: ,Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.`
20 Og enn annar sagði: ,Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.`
21 Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: ,Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta.`
22 Og þjónninn sagði: ,Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.`
23 Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: ,Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist.
24 Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína."`
25 Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá:
26 "Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.
27 Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn.
28 Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?
29 Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann
30 og segja: ,Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.`
31 Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir?
32 Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti.
33 Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.
34 Saltið er gott, en ef saltið sjálft dofnar, með hverju á þá að krydda það?
35 Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri."
by Icelandic Bible Society