M’Cheyne Bible Reading Plan
24 Aronsniðjar höfðu og flokkaskipun fyrir sig. Synir Arons voru: Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.
2 En Nadab og Abíhú dóu á undan föður sínum og áttu eigi sonu, og urðu svo þeir Eleasar og Ítamar prestar.
3 Og þeir Davíð og Sadók af Eleasarsniðjum og Ahímelek af Ítamarsniðjum skiptu þeim niður í starfsflokka eftir embættum þeirra.
4 En það kom í ljós, að af Eleasarsniðjum voru fleiri höfðingjar en af Ítamarsniðjum. Fyrir því skiptu menn þeim svo, að af Eleasarsniðjum urðu sextán ætthöfðingjar, en átta af Ítamarsniðjum.
5 Og hvorum tveggja skiptu menn eftir hlutkesti, því að helgidómshöfðingjar og Guðs höfðingjar voru af niðjum Eleasars og af niðjum Ítamars.
6 Og Semaja Netaneelsson ritari, einn af levítum, skráði þá í viðurvist konungs og höfðingjanna og Sadóks prests og Ahímeleks Abjatarssonar og ætthöfðingja prestanna og levítanna. Var ein ætt tekin frá af Eleasar og ein af Ítamar.
7 Fyrsti hluturinn féll á Jójaríb, annar á Jedaja,
8 þriðji á Harím, fjórði á Seórím,
9 fimmti á Malkía, sjötti á Mijamín,
10 sjöundi á Hakkos, áttundi á Abía,
11 níundi á Jesúa, tíundi á Sekanja,
12 ellefti á Eljasíb, tólfti á Jakím,
13 þrettándi á Húppa, fjórtándi á Jesebeab,
14 fimmtándi á Bilga, sextándi á Immer,
15 seytjándi á Hesír, átjándi á Happísses,
16 nítjándi á Pelashja, tuttugasti á Jeheskel,
17 tuttugasti og fyrsti á Jakín, tuttugasti og annar á Gamúl,
18 tuttugasti og þriðji á Delaja, tuttugasti og fjórði á Maasja.
19 Er það starfskvöð þeirra að fara inn í musteri Drottins, eftir þeim reglum, er Aron forfaðir þeirra hafði sett, samkvæmt því, er Drottinn, Guð Ísraels, hafði boðið honum.
20 En að því er snertir aðra niðja Leví, þá voru af Amramsniðjum Súbael, af Súbaelsniðjum Jehdeja,
21 af Rehabja, af Rehabjaniðjum Jissía höfðingi,
22 af Jíseharítum Selómót, af Selómótsniðjum Jahat,
23 en af niðjum Hebrons: Jería höfðingi, annar Amarja, þriðji Jehasíel, fjórði Jekameam.
24 Niðjar Ússíels voru: Míka, af niðjum Míka var Samír.
25 Bróðir Míka var Jissía, af niðjum Jissía var Sakaría.
26 Niðjar Merarí voru Mahlí og Músí og niðjar Jaasía, sonar hans.
27 Niðjar Merarí frá Jaasía syni hans voru: Sóham, Sakkúr og Íbrí.
28 Frá Mahlí var Eleasar kominn. Hann átti eigi sonu.
29 Frá Kís: Synir Kís: Jerahmeel.
30 Niðjar Músí voru: Mahlí, Eder og Jerímót. Þessir voru niðjar levíta eftir ættum þeirra.
31 Þeir vörpuðu og hlutkesti, eins og frændur þeirra, Aronsniðjar, í viðurvist Davíðs konungs og Sadóks og Ahímeleks og ætthöfðingja prestanna og levítanna, ætthöfðingjarnir eins og yngri frændur þeirra.
25 Þeir Davíð og hershöfðingjarnir tóku og frá til þjónustu niðja Asafs, Hemans og Jedútúns, er að spámannahætti lofuðu Guð með gígjum, hörpum og skálabumbum. Og tala þeirra, er starf höfðu við þessa þjónustu, var:
2 Af Asafsniðjum: Sakkúr, Jósef, Netanja og Asarela, synir Asafs, undir stjórn Asafs, er lék eins og spámaður eftir fyrirsögn konungs.
3 Af Jedútún: Synir Jedútúns: Gedalja, Serí, Jesaja, Hasabja, Mattitja, Símeí, sex alls, undir stjórn Jedútúns föður síns, er lék á gígju eins og spámaður, þá er lofa skyldi Drottin og vegsama hann.
4 Af Heman: Synir Hemans: Búkkía, Mattanja, Ússíel, Sebúel, Jerímót, Hananja, Hananí, Elíata, Giddaltí, Rómamtí Eser, Josbekasa, Mallótí, Hótír, Mahasíót.
5 Allir þessir voru synir Hemans, sjáanda konungs, er horn skyldu hefja að boði Guðs. Og Guð gaf Heman fjórtán sonu og þrjár dætur.
6 Allir þessir voru við sönginn í musteri Drottins undir stjórn föður þeirra með skálabumbur, hörpur og gígjur til þess að gegna þjónustu í musteri Guðs undir forustu konungs, Asafs, Jedútúns og Hemans.
7 Og talan á þeim og frændum þeirra, er lærðir voru í ljóðum Drottins, og allir voru vel að sér, var tvö hundruð áttatíu og átta.
8 Og þeir vörpuðu hlutkesti um starfið, yngri sem eldri, kennarar sem lærisveinar.
9 Fyrsti hlutur fyrir Asaf féll á Jósef, sonu hans og bræður, tólf alls, annar á Gedalja, sonu hans og bræður, tólf alls,
10 þriðji á Sakkúr, sonu hans og bræður, tólf alls,
11 fjórði á Jísrí, sonu hans og bræður, tólf alls,
12 fimmti á Netanja, sonu hans og bræður, tólf alls,
13 sjötti á Búkkía, sonu hans og bræður, tólf alls,
14 sjöundi á Jesarela, sonu hans og bræður, tólf alls,
15 áttundi á Jesaja, sonu hans og bræður, tólf alls,
16 níundi á Mattanja, sonu hans og bræður, tólf alls,
17 tíundi á Símeí, sonu hans og bræður, tólf alls,
18 ellefti á Asareel, sonu hans og bræður, tólf alls,
19 tólfti á Hasabja, sonu hans og bræður, tólf alls,
20 þrettándi á Súbael, sonu hans og bræður, tólf alls,
21 fjórtándi á Mattitja, sonu hans og bræður, tólf alls,
22 fimmtándi á Jeremót, sonu hans og bræður, tólf alls,
23 sextándi á Hananja, sonu hans og bræður, tólf alls,
24 seytjándi á Josbekasa, sonu hans og bræður, tólf alls,
25 átjándi á Hananí, sonu hans og bræður, tólf alls,
26 nítjándi á Mallótí, sonu hans og bræður, tólf alls,
27 tuttugasti á Elíjata, sonu hans og bræður, tólf alls,
28 tuttugasti og fyrsti á Hótír, sonu hans og bræður, tólf alls,
29 tuttugasti og annar á Giddaltí, sonu hans og bræður, tólf alls,
30 tuttugasti og þriðji á Mahasíót, sonu hans og bræður, tólf alls,
31 tuttugasti og fjórði á Rómamtí Eser, sonu hans og bræður, tólf alls.
5 Öldungana yðar á meðal áminni ég, sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig mun fá hlutdeild í þeirri dýrð, sem opinberuð mun verða:
2 Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga.
3 Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.
4 Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar.
5 Og þér, yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að "Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð".
6 Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður.
7 Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.
8 Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.
9 Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.
10 En Guð allrar náðar, sem hefur kallað yður í Kristi til sinnar eilífu dýrðar, mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra.
11 Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.
12 Með hjálp Silvanusar, hins trúa bróður, í mínum augum, hef ég stuttlega ritað yður þetta til þess að minna á og vitna hátíðlega, að þetta er hin sanna náð Guðs. Standið stöðugir í henni.
13 Yður heilsar söfnuðurinn í Babýlon, útvalinn ásamt yður, og Markús sonur minn.
3 Ég sagði: Heyrið, þér höfðingjar Jakobs og stjórnendur Ísraels húss! Er það ekki yðar að vita, hvað rétt er?
2 En þeir hata hið góða og elska hið illa, flá skinnið af mönnum og holdið af beinum þeirra.
3 Þeir eta hold þjóðar minnar, þeir flá skinnið af þeim og brjóta bein þeirra, hluta þau sundur eins og steik í potti, eins og kjöt á suðupönnu.
4 Þá munu þeir hrópa til Drottins, en hann mun ekki svara þeim, og hann mun byrgja auglit sitt fyrir þeim, þegar sá tími kemur, af því að þeir hafa ill verk í frammi haft.
5 Svo mælir Drottinn til spámannanna, sem leitt hafa þjóð mína afvega: Þeir boða hamingju meðan þeir hafa nokkuð tanna milli, en segja þeim stríð á hendur, er ekki stingur neinu upp í þá.
6 Fyrir því skal sú nótt koma, að þér sjáið engar sýnir, og það myrkur, að þér skuluð engu spá. Sólin skal ganga undir fyrir spámönnunum og dagurinn myrkvast fyrir þeim.
7 Þeir sem sjá sjónir, skulu þá blygðast sín og spásagnamennirnir fyrirverða sig. Þeir munu allir hylja kamp sinn, því að ekkert svar kemur frá Guði.
8 Ég þar á móti er fullur af krafti, af anda Drottins, og af rétti og styrkleika, til þess að boða Jakob misgjörð hans og Ísrael synd hans.
9 Heyrið þetta, þér höfðingjar Jakobs húss og þér stjórnendur Ísraels húss, þér sem hafið viðbjóð á réttvísinni og gjörið allt bogið, sem beint er,
10 þér sem byggið Síon með manndrápum og Jerúsalem með glæpum.
11 Höfðingjar hennar dæma fyrir mútur og prestar hennar veita fræðslu fyrir kaup. Spámenn hennar spá fyrir peninga og reiða sig í því efni á Drottin og segja: "Er ekki Drottinn vor á meðal? Engin ógæfa kemur yfir oss!"
12 Fyrir því skal Síon plægð verða að akri yðar vegna og Jerúsalem verða að rúst og musterisfjallið að skógarhæðum.
12 Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda, svo að nærri tróð hver annan undir. Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: "Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin.
2 Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt.
3 Því mun allt það, sem þér hafið talað í myrkri, heyrast í birtu, og það, sem þér hafið hvíslað í herbergjum, mun kunngjört á þökum uppi.
4 Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört.
5 Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann.
6 Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði.
7 Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.
8 En ég segi yður: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs.
9 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs.
10 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem lastmælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið.
11 Og þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, hafið þá ekki áhyggjur af því, hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja.
12 Því að heilagur andi mun kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber."
13 Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: "Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum."
14 Hann svaraði honum: "Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?"
15 Og hann sagði við þá: "Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé."
16 Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: "Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt.
17 Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.`
18 Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum.
19 Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.`
20 En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?`
21 Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði."
22 Og hann sagði við lærisveina sína: "Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast.
23 Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin.
24 Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu, og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum!
25 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn?
26 Fyrst þér nú orkið ekki svo litlu, hví látið þér allt hitt valda yður áhyggjum?
27 Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.
28 Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir!
29 Hafið ekki hugann við, hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu.
30 Allt þetta stunda heiðingjar heimsins, en faðir yðar veit, að þér þarfnist þessa.
31 Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki.
32 Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.
33 Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt.
34 Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.
35 Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga,
36 og verið líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra.
37 Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun gyrða sig belti, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim.
38 Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá.
39 Það skiljið þér, að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi, á hvaða stundu þjófurinn kæmi.
40 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi."
41 Þá spurði Pétur: "Herra, mælir þú þessa líkingu til vor eða til allra?"
42 Drottinn mælti: "Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?
43 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.
44 Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.
45 En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: ,Það dregst, að húsbóndi minn komi,` og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður,
46 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, er hann væntir ekki, á þeirri stundu, er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.
47 Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg.
48 En hinn, sem veit hann ekki, en vinnur til refsingar, mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð.
49 Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég, að hann væri þegar kveiktur!
50 Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.
51 Ætlið þér, að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki.
52 Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá,
53 faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur og dóttir við móður, tengdamóðir við tengdadóttur sína og tengdadóttir við tengdamóður."
54 Hann sagði og við fólkið: "Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ,Nú fer að rigna.` Og svo verður.
55 Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ,Nú kemur hiti.` Og svo fer.
56 Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma?
57 Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður, hvað rétt sé?
58 Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann, til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig böðlinum, og böðullinn varpi þér í fangelsi.
59 Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri."
by Icelandic Bible Society