Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Kroníkubók 23

23 Þá er Davíð var gamall orðinn og saddur lífdaga, gjörði hann Salómon son sinn að konungi yfir Ísrael.

Og hann stefndi saman öllum höfðingjum Ísraels, prestunum og levítunum.

Levítarnir voru taldir, þrítugir og þaðan af eldri, og höfðatala þeirra var þrjátíu og átta þúsund karlmenn.

"Af þeim skulu tuttugu og fjögur þúsund vera fyrir verkum við hús Drottins, sex þúsund skulu vera embættismenn og dómarar,

fjögur þúsund hliðverðir, og fjögur þúsund skulu lofa Drottin með áhöldum þeim, er ég hefi látið gjöra til þess að vegsama með," sagði Davíð.

Davíð skipti þeim í flokka eftir þeim Gerson, Kahat og Merarí, Levísonum.

Til Gersonsniðja töldust Laedan og Símeí.

Synir Laedans voru: Jehíel, er var fyrir þeim, Setam og Jóel, þrír alls.

Synir Símeí voru: Selómít, Hasíel og Haran, þrír alls. Voru þeir ætthöfðingjar Laedansættar.

10 Og synir Símeí: Jahat, Sína, Jeús og Bería. Þessir voru synir Símeí, fjórir alls.

11 Var Jahat fyrir þeim, þá Sína, en Jeús og Bería áttu eigi margt barna, svo að þeir töldust ein ætt, einn flokkur.

12 Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel, fjórir alls.

13 Synir Amrams: Aron og Móse. En Aron var greindur frá hinum, til þess að hann skyldi verða vígður sem háheilagur ásamt sonum sínum, um aldur og ævi, til þess að þeir skyldu brenna reykelsi frammi fyrir Drottni, þjóna honum og lofa nafn hans um aldur og ævi.

14 Og að því er snertir guðsmanninn Móse, þá voru synir hans taldir til Levíkynkvíslar.

15 Synir Móse voru Gersóm og Elíeser.

16 Sonur Gersóms: Sebúel höfðingi.

17 En sonur Elíesers var Rehabja höfðingi. Aðra sonu átti Elíeser eigi, en synir Rehabja voru afar margir.

18 Sonur Jísehars: Selómít höfðingi.

19 Synir Hebrons: Jería höfðingi, annar Amarja, þriðji Jehasíel, fjórði Jekameam.

20 Synir Ússíels: Míka höfðingi, annar Jissía.

21 Synir Merarí: Mahlí og Músí. Synir Mahlí: Eleasar og Kís.

22 En Eleasar dó svo, að hann átti enga sonu, heldur dætur einar, og tóku þeir Kíssynir, frændur þeirra, þær sér að konum.

23 Synir Músí voru: Mahlí, Eder og Jeremót, þrír alls.

24 Þessir eru þeir Levíniðjar eftir ættum þeirra, ætthöfðingjar þeir, er taldir voru af þeim, eftir nafnatölu og höfða, er höfðu það starf á hendi að þjóna í musteri Drottins, tvítugir og þaðan af eldri.

25 Davíð mælti: "Drottinn, Guð Ísraels, hefir veitt lýð sínum hvíld, og býr nú að eilífu í Jerúsalem.

26 Levítarnir þurfa því ekki lengur að bera búðina og öll þau áhöld, er að starfi hennar lúta." (

27 Því að eftir síðustu fyrirmælum Davíðs voru levítar taldir, tvítugir og þaðan af eldri).

28 Embætti þeirra er að aðstoða Aronsniðja, gegna þjónustu við musteri Drottins, hafa umsjón með forgörðunum og klefunum og ræstingu á öllum hinum helgu munum, og gegna störfunum við hús Guðs,

29 annast um raðsettu brauðin, hveitimjölið í matfórnirnar, hin ósýrðu flatbrauð, pönnuna og hið samanhrærða, og hvers konar mæli og stiku,

30 og að koma fram á hverjum morgni til þess að lofa og vegsama Drottin, og eins á kveldin,

31 og að færa Drottni hverja brennifórn á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum, allar þær, sem ákveðið er að stöðugt skuli færa Drottni.

32 Hafa þeir störf á hendi við samfundatjaldið og störf við helgidóminn og störf hjá Aronsniðjum, frændum sínum, við þjónustuna í musteri Drottins.

Fyrra almenna bréf Péturs 4

Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd,

hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.

Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.

Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.

En þeir munu verða að gjöra reikningsskil þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða.

Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði.

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.

Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.

Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.

10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.

11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

12 Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.

13 Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.

14 Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.

15 Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við.

16 En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.

17 Því að nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs. En ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?

18 Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda?

19 Þess vegna skulu þeir, sem líða eftir vilja Guðs, fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gjöra hið góða.

Míka 2

Vei þeim, sem hugsa upp rangindi og hafa illt með höndum í hvílurúmum sínum og framkvæma það, þegar ljómar af degi, jafnskjótt og þeir megna.

Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim, eða hús, þá taka þeir þau burt. Þeir beita ofríki gegn húsbóndanum og húsi hans, gegn manninum og óðali hans.

Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég bý yfir óhamingju, sem ég mun senda þessari kynslóð, og þér skuluð ekki fá af yður hrundið né gengið hnarreistir undir, því að það munu verða vondir tímar.

Á þeim degi munu menn háðkvæði um yður kveða og hefja harmatölur á þessa leið: "Vér erum gjörsamlega eyðilagðir, landeign þjóðar minnar er úthlutað með mæliþræði, og enginn fær mér hana aftur. Ökrum vorum er skipt milli þeirra, er oss hafa hertekið!"

Fyrir því skalt þú engan hafa, er dragi mæliþráð yfir landskika í söfnuði Drottins.

"Prédikið ekki," _ svo prédika þeir. "Menn eiga ekki að prédika um slíkt! Skömmunum linnir ekki!"

Hvílíkt tal, Jakobs hús! Er Drottinn óþolinmóður, eða eru gjörðir hans slíkar? Eru ekki orð hans gæskurík við þá, sem breyta ráðvandlega?

En þjóð mín hefir nú þegar lengi risið upp á móti mér sem óvinur. Utan af kyrtlinum dragið þér yfirhöfnina af þeim, sem ugglausir fara um veginn, sem fráhverfir eru stríði.

Konur þjóðar minnar rekið þér út úr húsunum, sem hafa verið yndi þeirra, rænið börn þeirra prýði minni að eilífu.

10 Af stað og burt með yður! Því að hér er ekki samastaður fyrir yður vegna saurgunarinnar, sem veldur tjóni, og það ólæknandi tjóni.

11 Ef einhver, sem færi með hégóma og lygar, hræsnaði fyrir þér og segði: "Ég skal spá þér víni og áfengum drykk," það væri spámaður fyrir þessa þjóð!

12 Safna, já safna vil ég, Jakob, öllum þínum, færa saman leifar Ísraels eins og sauðfé í rétt, eins og hjörð í haga, og þar skal verða kliður mikill af mannmergðinni.

13 Forustusauðurinn fer fyrir þeim, þeir ryðjast fram, fara í gegnum hliðið og halda út um það, og konungur þeirra fer fyrir þeim og Drottinn er í broddi fylkingar þeirra.

Lúkasarguðspjall 11

11 Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: "Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum."

En hann sagði við þá: "Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

gef oss hvern dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni."

Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð,

því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.`

Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð`?

Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

10 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

11 Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn,

12 eða sporðdreka, ef hann biður um egg?

13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann."

14 Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn.

15 En sumir þeirra sögðu: "Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana."

16 En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

17 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús.

18 Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist _ fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls?

19 En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.

20 En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

21 Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á,

22 en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu.

23 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

24 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.`

25 Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt,

26 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður."

27 Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: "Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir."

28 Hann sagði: "Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það."

29 Þegar fólkið þyrptist þar að, tók hann svo til orða: "Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.

30 Því Jónas varð Ninívemönnum tákn, og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð.

31 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.

32 Ninívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

33 Enginn kveikir ljós og setur það í felur né undir mæliker, heldur á ljósastiku, svo að þeir, sem inn koma, sjái ljósið.

34 Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur.

35 Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur.

36 Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum."

37 Þá er hann hafði þetta mælt, bauð farísei nokkur honum til dagverðar hjá sér. Hann kom og settist til borðs.

38 Faríseinn sá, að hann tók ekki handlaugar á undan máltíðinni, og furðaði hann á því.

39 Drottinn sagði þá við hann: "Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan, en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku.

40 Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra?

41 En gefið fátækum það, sem í er látið, og þá er allt yður hreint.

42 En vei yður, þér farísear! Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og alls kyns matjurtum, en hirðið ekki um réttlæti og kærleika Guðs. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

43 Vei yður, þér farísear! Yður er ljúft að skipa æðsta bekk í samkundum og láta heilsa yður á torgum.

44 Vei yður, því þér eruð eins og duldar grafir, sem menn ganga yfir án þess að vita."

45 Þá tók lögvitringur einn til orða: "Meistari, þú meiðir oss líka með því, sem þú segir."

46 En Jesús mælti: "Vei yður líka, þér lögvitringar! Þér leggið á menn lítt bærar byrðar, og sjálfir snertið þér ekki byrðarnar einum fingri.

47 Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna, sem feður yðar líflétu.

48 Þannig berið þér vitni um athafnir feðra yðar og samþykkið þær. Þeir líflétu þá, en þér hlaðið upp grafirnar.

49 Þess vegna hefur og speki Guðs sagt: ,Ég mun senda þeim spámenn og postula, og suma þeirra munu þeir lífláta og ofsækja.`

50 Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims,

51 frá blóði Abels til blóðs Sakaría, sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þess mun krafist verða af þessari kynslóð.

52 Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn, og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga."

53 Og er hann var farinn út þaðan, tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt

54 og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society