Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Kroníkubók 21

21 Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael.

Þá mælti Davíð við Jóab og höfðingja lýðsins: "Farið og teljið Ísrael frá Beerseba til Dan og látið mig vita það, svo að ég fái að vita tölu á þeim."

Jóab svaraði: "Drottinn margfaldi lýðinn _ hversu margir sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum. Þeir eru þó, minn herra konungur, allir þjónar herra míns. Hví æskir herra minn þessa? Hvers vegna á það að verða Ísrael til áfellis?"

En Jóab mátti eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Lagði Jóab þá af stað og fór um allan Ísrael og kom síðan aftur til Jerúsalem.

Og Jóab sagði Davíð töluna, er komið hafði út við manntalið: Í öllum Ísrael voru ein milljón og hundrað þúsundir vopnaðra manna, og í Júda fjögur hundruð og sjötíu þúsundir vopnaðra manna.

En Leví og Benjamín taldi hann eigi, því að Jóab hraus hugur við skipun konungs.

En þetta verk var illt í augum Guðs, og laust hann Ísrael.

Þá sagði Davíð við Guð: "Mjög hefi ég syndgað, er ég framdi þetta verk, en nú, tak þú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."

En Drottinn talaði til Gaðs, sjáanda Davíðs, á þessa leið:

10 "Far þú og mæl svo við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."

11 Þá gekk Gað til Davíðs og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Kjós þér,

12 annaðhvort að hungur verði í þrjú ár, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverð fjandmanna þinna nái þér, eða að sverð Drottins og drepsótt geisi í landinu í þrjá daga og engill Drottins valdi eyðingu í öllu Ísraelslandi. Hygg nú að, hverju ég eigi að svara þeim, er sendi mig."

13 Davíð svaraði Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Falli ég þá í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."

14 Drottinn lét þá drepsótt koma í Ísrael, og féllu sjötíu þúsundir manns af Ísrael.

15 Og Guð sendi engil til Jerúsalem til þess að eyða hana, og er hann var að eyða hana, leit Drottinn til og hann iðraði hins illa, og sagði við engilinn, er eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Ornans Jebúsíta.

16 Og Davíð hóf upp augu sín og sá engil Drottins standa milli himins og jarðar með brugðið sverð í hendi, er hann beindi gegn Jerúsalem. Þá féll Davíð og öldungarnir fram á andlit sér, klæddir hærusekkjum.

17 Og Davíð sagði við Guð: "Var það eigi ég, er bauð að telja fólkið? Það er ég, sem hefi syndgað og breytt mjög illa, en þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Drottinn, Guð minn, lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína, en eigi á lýð þinn til þess að valda mannhruni."

18 En engill Drottins bauð Gað að segja Davíð, að Davíð skyldi fara upp eftir til þess að reisa Drottni altari á þreskivelli Ornans Jebúsíta.

19 Og Davíð fór upp eftir að boði Gaðs, því er hann hafði talað í nafni Drottins.

20 Og er Ornan sneri sér við, sá hann konung koma og fjóra sonu hans með honum, en Ornan var að þreskja hveiti.

21 Og er Davíð kom til Ornans, leit Ornan upp og sá Davíð. Gekk hann þá út af þreskivellinum og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir Davíð.

22 Þá mælti Davíð við Ornan: "Lát þú þreskivöllinn af hendi við mig, svo að ég geti reist Drottni þar altari _ skalt þú selja mér það fullu verði _ og plágunni megi létta af lýðnum."

23 Ornan svaraði Davíð: "Tak þú það. Minn herra konungurinn gjöri sem honum þóknast. Sjá, ég gef nautin til brennifórnar og þreskisleðana til eldiviðar og hveitið til matfórnar, allt gef ég það."

24 En Davíð konungur sagði við Ornan: "Eigi svo, en kaupa vil ég það fullu verði, því að eigi vil ég taka það sem þitt er Drottni til handa og færa brennifórn, er ég hefi kauplaust þegið."

25 Síðan greiddi Davíð Ornan sex hundruð sikla gulls fyrir völlinn.

26 Og Davíð reisti Drottni þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum, og er hann ákallaði Drottin, svaraði hann honum með því að senda eld af himnum á brennifórnaraltarið.

27 Og Drottinn bauð englinum að slíðra sverð sitt.

28 Þá er Davíð sá, að Drottinn svaraði honum á þreskivelli Ornans Jebúsíta, þá færði hann þar fórnir.

29 En bústaður Drottins, er Móse hafði gjört í eyðimörkinni, og brennifórnaraltarið voru um það leyti á hæðinni í Gíbeon.

30 En Davíð gat eigi gengið fram fyrir það til þess að leita Guðs, því að hann var hræddur við sverð engils Drottins.

Fyrra almenna bréf Péturs 2

Leggið því af alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal.

Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis,

enda "hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður."

Komið til hans, hins lifanda steins, sem hafnað var af mönnum, en er hjá Guði útvalinn og dýrmætur,

og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist.

Því svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.

Yður sem trúið er hann dýrmætur, en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini

og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum, af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.

En þér eruð "útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans," sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.

10 Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir "Guðs lýður". Þér, sem "ekki nutuð miskunnar", hafið nú "miskunn hlotið".

11 Þér elskuðu, ég áminni yður sem gesti og útlendinga að halda yður frá holdlegum girndum, sem heyja stríð gegn sálunni.

12 Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.

13 Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta,

14 og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel.

15 Því að það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel þagga niður vanþekkingu heimskra manna.

16 Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs.

17 Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann.

18 Þér þjónar, verið undirgefnir húsbændum yðar með allri lotningu, ekki einungis hinum góðu og sanngjörnu, heldur einnig hinum ósanngjörnu.

19 Ef einhver þolir móðganir og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð, þá er það þakkar vert.

20 Því að hvaða verðleiki er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum vegna misgjörða? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.

21 Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.

22 "Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans."

23 Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.

24 Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir.

25 Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.

Jónas 4

Jónasi mislíkaði þetta mjög, og hann varð reiður.

Og hann bað til Drottins og sagði: "Æ, Drottinn! Kemur nú ekki að því sem ég hugsaði, meðan ég enn var heima í mínu landi? Þess vegna ætlaði ég áður fyrr að flýja til Tarsis, því að ég vissi, að þú ert líknsamur og miskunnsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og lætur þig angra hins vonda.

Tak nú, Drottinn, önd mína frá mér, því að mér er betra að deyja en lifa."

En Drottinn sagði: "Er það rétt gjört af þér að reiðast svo?"

Því næst fór Jónas út úr borginni og bjóst um fyrir austan borgina. Þar gjörði hann sér laufskála og settist undir hann í forsælunni og beið þess að hann sæi, hvernig borginni reiddi af.

Þá lét Drottinn Guð rísínusrunn upp spretta yfir Jónas til þess að bera skugga á höfuð hans og til þess að hafa af honum óhuginn, og varð Jónas stórlega feginn rísínusrunninum.

En næsta dag, þegar morgunroðinn var á loft kominn, sendi Guð orm, sem stakk rísínusrunninn, svo að hann visnaði.

Og er sól var upp komin, sendi Guð brennheitan austanvind, og skein sólin svo heitt á höfuð Jónasi, að hann örmagnaðist. Þá óskaði hann sér dauða og sagði: "Mér er betra að deyja en lifa!"

Þá sagði Guð við Jónas: "Er það rétt gjört af þér að reiðast svo vegna rísínusrunnsins?" Hann svaraði: "Það er rétt að ég reiðist til dauða!"

10 En Drottinn sagði: "Þig tekur sárt til rísínusrunnsins, sem þú hefir ekkert fyrir haft og ekki upp klakið, sem óx á einni nóttu og hvarf á einni nóttu.

Lúkasarguðspjall 9

Hann kallaði saman þá tólf og gaf þeim mátt og vald yfir öllum illum öndum og til að lækna sjúkdóma.

Hann sendi þá að boða Guðs ríki og græða sjúka

og sagði við þá: "Takið ekkert til ferðarinnar, hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla.

Og hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar og þaðan skuluð þér leggja upp að nýju.

En taki menn ekki við yður, þá farið úr borg þeirra og hristið dustið af fótum yðar til vitnisburðar gegn þeim."

Þeir lögðu af stað og fóru um þorpin, fluttu fagnaðarerindið og læknuðu hvarvetna.

En Heródes fjórðungsstjóri frétti allt, sem gjörst hafði, og vissi ekki, hvað hann átti að halda, því sumir sögðu, að Jóhannes væri risinn upp frá dauðum,

aðrir, að Elía væri kominn fram, enn aðrir, að einn hinna fornu spámanna væri risinn upp.

Heródes sagði: "Jóhannes lét ég hálshöggva, en hver er þessi, er ég heyri þvílíkt um?" Og hann leitaði færis að sjá hann.

10 Postularnir komu aftur og skýrðu Jesú frá öllu því, er þeir höfðu gjört, en hann tók þá með sér og vék brott til bæjar, sem heitir Betsaída, að þeir væru einir saman.

11 Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu.

12 Nú tók degi að halla. Komu þá þeir tólf að máli við hann og sögðu: "Lát þú mannfjöldann fara, að þeir geti náð til þorpa og býla hér í kring og náttað sig og fengið mat, því að hér erum vér á óbyggðum stað."

13 En hann sagði við þá: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svöruðu: "Vér eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska, nema þá vér förum og kaupum vistir handa öllu þessu fólki."

14 En þar voru um fimm þúsund karlmenn. Hann sagði þá við lærisveina sína: "Látið þá setjast í hópa, um fimmtíu í hverjum."

15 Þeir gjörðu svo og létu alla setjast.

16 En hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði fyrir þau og braut og gaf lærisveinunum að bera fram fyrir mannfjöldann.

17 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. En leifarnar eftir þá voru teknar saman, tólf körfur brauðbita.

18 Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: "Hvern segir fólkið mig vera?"

19 Þeir svöruðu: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp."

20 Og hann sagði við þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði: "Krist Guðs."

21 Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum

22 og mælti: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi."

23 Og hann sagði við alla: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.

24 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.

25 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?

26 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla.

27 En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki."

28 Svo bar við um átta dögum eftir ræðu þessa, að hann tók með sér þá Pétur, Jóhannes og Jakob og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir.

29 Og er hann var að biðjast fyrir, varð yfirlit ásjónu hans annað, og klæði hans urðu hvít og skínandi.

30 Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía.

31 Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans, er hann skyldi fullna í Jerúsalem.

32 Þá Pétur og félaga hans sótti mjög svefn, en nú vöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo, er stóðu hjá honum.

33 Þegar þeir voru að skilja við Jesú, mælti Pétur við hann: "Meistari, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Ekki vissi hann, hvað hann sagði.

34 Um leið og hann mælti þetta, kom ský og skyggði yfir þá, og urðu þeir hræddir, er þeir komu inn í skýið.

35 Og rödd kom úr skýinu og sagði: "Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!"

36 Er röddin hafði talað, var Jesús einn. Og þeir þögðu og sögðu á þeim dögum engum frá neinu því, sem þeir höfðu séð.

37 Daginn eftir, er þeir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti honum.

38 Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: "Meistari, ég bið þig að líta á son minn, því að hann er einkabarnið mitt.

39 Það er andi, sem grípur hann, og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir, og víkur varla frá honum og er að gjöra út af við hann.

40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."

41 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður? Fær þú hingað son þinn."

42 Þegar hann var að koma, slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans.

43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs. Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína:

44 "Festið þessi orð í huga: ,Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur."`

45 En þeir skildu ekki þessi orð, og þetta var þeim hulið, svo að þeir skynjuðu það ekki. Og þeir þorðu ekki að spyrja hann um þetta.

46 Sú spurning kom fram meðal þeirra, hver þeirra væri mestur.

47 Jesús vissi, hvað þeir hugsuðu í hjörtum sínum, og tók lítið barn, setti það hjá sér

48 og sagði við þá: "Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur."

49 Jóhannes tók til máls: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgir oss ekki."

50 En Jesús sagði við hann: "Varnið þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður."

51 Nú fullnaðist brátt sá tími, er hann skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað.

52 Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu.

53 En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem.

54 Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: "Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?"

55 En hann sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: "Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð.

56 Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa."] Og þeir fóru í annað þorp.

57 Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: "Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."

58 Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla."

59 Við annan sagði hann: "Fylg þú mér!" Sá mælti: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."

60 Jesús svaraði: "Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki."

61 Enn annar sagði: "Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima."

62 En Jesús sagði við hann: "Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society