M’Cheyne Bible Reading Plan
19 Eftir þetta bar svo til, að Nahas Ammónítakonungur andaðist, og tók Hanún sonur hans ríki eftir hann.
2 Þá sagði Davíð: "Ég vil sýna Hanún Nahassyni vináttu, því að faðir hans sýndi mér vináttu." Síðan sendi Davíð sendimenn til þess að hugga hann eftir föðurmissinn. En er þjónar Davíðs komu í land Ammóníta til Hanúns til þess að hugga hann,
3 þá sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún: "Hyggur þú að Davíð vilji heiðra föður þinn, er hann gjörir menn á þinn fund til að hugga þig? Munu ekki þjónar hans vera komnir á þinn fund til þess að njósna í borginni og til þess að eyðileggja og kanna landið?"
4 Þá lét Hanún taka þjóna Davíðs og nauðraka þá og skera af þeim klæðin til hálfs, upp á þjóhnappa, og lét þá síðan fara.
5 Fóru menn þá og sögðu Davíð af mönnunum, og sendi hann þá á móti þeim _ því að mennirnir voru mjög svívirtir _ og konungur lét segja þeim: "Verið í Jeríkó uns skegg yðar er vaxið, og komið síðan heim aftur."
6 En er Ammónítar sáu, að þeir höfðu gjört sig illa þokkaða hjá Davíð, þá sendu þeir Hanún og Ammónítar þúsund talentur silfurs til þess að leigja sér vagna og riddara hjá Sýrlendingum í Mesópótamíu og hjá Sýrlendingum í Maaka og Sóba.
7 Leigðu þeir sér síðan þrjátíu og tvö þúsund vagna og konunginn í Maaka og lið hans, komu þeir og settu herbúðir fyrir framan Medeba. Og Ammónítar söfnuðust saman úr borgum sínum og komu til bardagans.
8 En er Davíð frétti það, sendi hann Jóab af stað með allan kappaherinn.
9 Ammónítar fóru og út og fylktu liði sínu við borgarhliðið, en konungarnir, er komnir voru, stóðu úti á víðavangi einir sér.
10 Þegar Jóab sá, að honum var búinn bardagi, bæði að baki og að framan, valdi hann úr öllu einvalaliði Ísraels og fylkti því á móti Sýrlendingum.
11 Hitt liðið fékk hann Abísaí bróður sínum, og fylktu þeir því á móti Ammónítum.
12 Og Jóab mælti: "Ef Sýrlendingar bera mig ofurliði, þá verður þú að hjálpa mér, en ef Ammónítar bera þig ofurliði, mun ég hjálpa þér.
13 Vertu hughraustur og sýnum nú af oss karlmennsku fyrir þjóð vora og borgir Guðs vors, en Drottinn gjöri það sem honum þóknast."
14 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum.
15 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu fyrir Jóab, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí bróður hans og leituðu inn í borgina. En Jóab fór til Jerúsalem.
16 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, þá sendu þeir menn og buðu út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og Sófak, hershöfðingi Hadaresers, var fyrir þeim.
17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam, og fylkti í móti þeim. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann.
18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö þúsund vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af fótgönguliði, og Sófak hershöfðingja drap hann.
19 En er þjónar Hadaresers sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir frið við Davíð og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því vildu Sýrlendingar eigi veita Ammónítum lið.
20 Á næsta ári, um það leyti er konungar fara í hernað, hélt Jóab út með liðinu og herjaði land Ammóníta. Og hann kom og settist um Rabba, en Davíð dvaldist í Jerúsalem. Og Jóab vann Rabba og braut hana.
2 Og Davíð tók kórónu Milkóms af höfði honum og komst að raun um, að hún vó talentu gulls, og í henni var dýrindis steinn. Davíð setti hana á höfuð sér og flutti mjög mikið herfang burt úr borginni.
3 Hann flutti og burt fólkið, sem þar var, og setti það við sagirnar, járnfleygana og axirnar, og svo fór Davíð með allar borgir Ammóníta. Síðan fór Davíð ásamt öllu liðinu aftur heim til Jerúsalem.
4 Seinna tókst enn orusta hjá Geser við Filista. Þá drap Sibbekaí Húsatíti Sippaí, einn af niðjum Refaíta, og urðu þeir að lúta í lægra haldi.
5 Og enn tókst orusta við Filista. Þá drap Elkanan Jaírsson Lahmí, bróður Golíats frá Gat. Spjótskaft hans var sem vefjarrifur.
6 Og er enn tókst orusta hjá Gat, var þar tröllaukinn maður, er hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, tuttugu og fjögur að tölu. Var hann og kominn af Refaítum.
7 Hann smánaði Ísrael, en Jónatan, sonur Símea, bróður Davíðs, drap hann.
8 Þessir voru komnir af Refaítum í Gat, og féllu þeir fyrir Davíð og mönnum hans.
1 Pétur postuli Jesú Krists heilsar hinum útvöldu, sem eru dreifðir sem útlendingar í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu,
2 en útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans til að hlýðnast Jesú Kristi og verða hreinsaðir með blóði hans. Náð og friður margfaldist með yður.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum,
4 til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.
5 Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.
6 Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum.
7 Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.
8 Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði,
9 þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar.
10 Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð, sem yður mundi hlotnast.
11 Þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti, þá er hann vitnaði fyrirfram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir.
12 En þeim var opinberað, að eigi væri það fyrir sjálfa þá, heldur fyrir yður, að þeir þjónuðu að þessu, sem yður er nú kunngjört af þeim, sem boðuðu yður fagnaðarerindið í heilögum anda, sem er sendur frá himni. Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.
13 Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.
14 Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar.
15 Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað.
16 Ritað er: "Verið heilagir, því ég er heilagur."
17 Fyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar.
18 Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar,
19 heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.
20 Hann var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar.
21 Fyrir hann trúið þér á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs.
22 Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið því hver annan af heilu hjarta.
23 Þér eruð endurfæddir, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs, sem lifir og varir.
24 Því að: Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur.
25 En orð Drottins varir að eilífu. Og þetta orð er fagnaðarerindið, sem yður hefur verið boðað.
3 Og orð Drottins kom til Jónasar annað sinn, svo hljóðandi:
2 "Legg af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og flyt henni þann boðskap, er ég býð þér."
3 Þá lagði Jónas af stað og fór til Níníve, eins og Drottinn hafði boðið honum. En Níníve var geysimikil borg, þrjár dagleiðir á lengd.
4 Og Jónas hóf göngu sína inn í borgina eina dagleið, prédikaði og sagði: "Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð."
5 En Nínívemenn trúðu Guði og boðuðu föstu og klæddust hærusekk, bæði ungir og gamlir.
6 Og er þetta barst til konungsins í Níníve, þá stóð hann upp úr hásæti sínu, lagði af sér skikkju sína, huldi sig hærusekk og settist í ösku.
7 Og hann lét gjöra heyrinkunna í Níníve svolátandi skipun: "Samkvæmt boði konungs og vildarmanna hans er svo fyrir mælt: Hvorki menn né skepnur, hvorki naut né sauðir skulu nokkurs neyta. Þeir skulu hvorki á gras ganga né vatn drekka,
8 heldur skulu þeir hylja sig hærusekk, bæði menn og skepnur, og hrópa til Guðs ákaflega og láta hver og einn af sinni vondu breytni og af þeim rangindum, er þeir hafa um hönd haft.
9 Hver veit nema Guði kunni að snúast hugur og hann láti sig iðra þessa og láti af sinni brennandi reiði, svo að vér förumst ekki."
10 En er Guð sá gjörðir þeirra, að þeir létu af illri breytni sinni, þá iðraðist Guð þeirrar ógæfu, er hann hafði hótað að láta yfir þá koma, og lét hana ekki fram koma.
8 Eftir þetta fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf
2 og konur nokkrar, er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr,
3 Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.
4 Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu:
5 "Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp.
6 Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka.
7 Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það.
8 En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt." Að svo mæltu hrópaði hann: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri."
9 En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi.
10 Hann sagði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.`
11 En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð.
12 Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir.
13 Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma.
14 Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt.
15 En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.
16 Enginn kveikir ljós og byrgir það með keri eða setur undir bekk, heldur láta menn það á ljósastiku, að þeir, sem inn koma, sjái ljósið.
17 Því að ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, að eigi verði það kunnugt og komi í ljós.
18 Gætið því að, hvernig þér heyrið. Því að þeim sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann ætlar sig hafa."
19 Móðir hans og bræður komu til hans, en gátu ekki náð fundi hans vegna mannfjöldans.
20 Var honum sagt: "Móðir þín og bræður standa úti og vilja finna þig."
21 En hann svaraði þeim: "Móðir mín og bræður eru þeir, sem heyra Guðs orð og breyta eftir því."
22 Dag einn fór hann út í bát og lærisveinar hans. Hann sagði við þá: "Förum yfir um vatnið." Og þeir létu frá landi.
23 En sem þeir sigldu, sofnaði hann. Þá skall stormhrina á vatnið, svo að nær fyllti bátinn og voru þeir hætt komnir.
24 Þeir fóru þá til hans, vöktu hann og sögðu: "Meistari, meistari, vér förumst!" En hann vaknaði og hastaði á vindinn og öldurótið og slotaði þegar og gerði logn.
25 Og hann sagði við þá: "Hvar er trú yðar?" En þeir urðu hræddir og undruðust og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Hann skipar bæði vindum og vatni og hvort tveggja hlýðir honum."
26 Þeir tóku land í byggð Gerasena, sem er gegnt Galíleu.
27 Er hann sté á land, kom á móti honum maður nokkur úr borginni, sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi, heldur í gröfunum.
28 Þegar hann sá Jesú, æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!"
29 Því að hann hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann, og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu, en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir.
30 Jesús spurði hann: "Hvað heitir þú?" En hann sagði: "Hersing", því að margir illir andar höfðu farið í hann.
31 Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið.
32 En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau, og hann leyfði þeim það.
33 Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin, og hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði.
34 En er hirðarnir sáu, hvað orðið var, flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni.
35 Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir.
36 Sjónarvottar sögðu þeim frá, hvernig sá, sem haldinn var illum öndum, hafði orðið heill.
37 Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér, því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur.
38 Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum, en Jesús lét hann fara og mælti:
39 "Far aftur heim til þín, og seg þú frá, hve mikið Guð hefur fyrir þig gjört." Hann fór og kunngjörði um alla borgina, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört.
40 En er Jesús kom aftur, fagnaði mannfjöldinn honum, því að allir væntu hans.
41 Þá kom þar maður, Jaírus að nafni, forstöðumaður samkundunnar. Hann féll til fóta Jesú og bað hann koma heim til sín.
42 Því hann átti einkadóttur, um tólf ára að aldri, og hún lá fyrir dauðanum. Þegar Jesús var á leiðinni, þrengdi mannfjöldinn að honum.
43 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði leitað lækna og varið til aleigu sinni, en enginn getað læknað hana.
44 Hún kom að baki honum og snart fald klæða hans, og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar.
45 Jesús sagði: "Hver var það, sem snart mig?" En er allir synjuðu fyrir það, sagði Pétur: "Meistari, mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á."
46 En Jesús sagði: "Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur fór út frá mér."
47 En er konan sá, að hún fékk eigi dulist, kom hún skjálfandi, féll til fóta honum og skýrði frá því í áheyrn alls lýðsins, hvers vegna hún snart hann, og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast.
48 Hann sagði þá við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði."
49 Meðan hann var að segja þetta, kemur maður heiman frá samkundustjóranum og segir: "Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur."
50 En er Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: "Óttast ekki, trú þú aðeins, og mun hún heil verða."
51 Þegar hann kom að húsinu, leyfði hann engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi og Jakobi og föður stúlkunnar og móður.
52 Og allir grétu og syrgðu hana. Hann sagði: "Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur."
53 En þeir hlógu að honum, þar eð þeir vissu að hún var dáin.
54 Hann tók þá hönd hennar og kallaði: "Stúlka, rís upp!"
55 Og andi hennar kom aftur, og hún reis þegar upp, en hann bauð að gefa henni að eta.
56 Foreldrar hennar urðu frá sér numdir, en hann bauð þeim að segja engum frá þessum atburði.
by Icelandic Bible Society