M’Cheyne Bible Reading Plan
17 Svo bar til, þá er Davíð sat í höll sinni, að Davíð sagði við Natan spámann: "Sjá, ég bý í höll af sedrusviði, en sáttmálsörk Drottins undir tjalddúkum."
2 Natan svaraði Davíð: "Gjör þú allt, sem þér er í hug, því að Guð er með þér."
3 En hina sömu nótt kom orð Guðs til Natans:
4 "Far þú og seg Davíð þjóni mínum: Svo segir Drottinn: Eigi skalt þú reisa mér hús til að búa í.
5 Ég hefi ekki búið í húsi síðan er ég leiddi Ísraelsmenn út, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð.
6 Alla þá stund, er ég hefi um farið meðal allra Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels, þá er ég setti til að vera hirða lýðs míns: ,Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?` _
7 Og nú skalt þú svo segja þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég tók þig úr haglendinu frá hjarðmennskunni og setti þig höfðingja yfir lýð minn Ísrael.
8 Ég hefi verið með þér í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur, og upprætt alla óvini þína fyrir þér. Ég mun gjöra nafn þitt sem nafn hinna mestu manna, sem á jörðinni eru,
9 og fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar, svo að hann geti búið á sínum stað og geti verið öruggur framvegis. Níðingar skulu eigi eyða honum framar eins og áður,
10 frá því er ég setti dómara yfir lýð minn Ísrael, og ég mun lægja alla fjandmenn þína. Og ég boða þér, að Drottinn mun reisa þér hús.
11 Þegar ævi þín er öll og þú gengur til feðra þinna, mun ég hefja afspring þinn eftir þig, einn af sonum þínum, og staðfesta konungdóm hans.
12 Hann skal reisa mér hús og ég mun staðfesta hásæti hans að eilífu.
13 Ég vil vera honum faðir og hann skal vera mér sonur, og miskunn mína mun ég ekki frá honum taka, eins og ég tók hana frá fyrirrennara þínum,
14 heldur mun ég setja hann yfir hús mitt og ríki að eilífu, og hásæti hans skal vera óbifanlegt um aldur."
15 Natan flutti Davíð öll þessi orð og sagði honum sýn þessa alla.
16 Þá gekk Davíð konungur inn og settist niður frammi fyrir Drottni og mælti: "Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er hús mitt, að þú skulir hafa leitt mig til þessa?
17 Og það nægði þér ekki, Guð, heldur hefir þú fyrirheit gefið um hús þjóns þíns langt fram í aldir, og það meira að segja á mannlegan hátt, Drottinn Guð.
18 En hvað má Davíð enn við þig mæla? Þú þekkir sjálfur þjón þinn.
19 Drottinn, sakir þjóns þíns og að þínum vilja hefir þú gjört þetta, að boða þjóni þínum alla þessa miklu hluti.
20 Drottinn, enginn er sem þú, og enginn er Guð nema þú, samkvæmt öllu því, er vér höfum heyrt með eyrum vorum.
21 Og hvaða þjóð önnur á jörðinni jafnast við þjóð þína Ísrael, að Guð hafi farið og keypt sér hana að eignarlýð, aflað sér frægðar og gjört fyrir hana mikla hluti og hræðilega: stökkt burt undan lýð sínum annarri þjóð og guði hennar?
22 Þú hefir gjört lýð þinn Ísrael að þínum lýð um aldur og ævi, og þú, Drottinn, gjörðist Guð þeirra.
23 Og lát nú, Drottinn, fyrirheit það, er þú hefir gefið um þjón þinn og um hús hans, standa stöðugt um aldur og ævi, og gjör þú svo sem þú hefir heitið.
24 Þá mun nafn þitt reynast traust og verða mikið að eilífu og hljóða svo: Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, Ísraels Guð _ og hús þjóns þíns Davíðs mun stöðugt standa fyrir þér.
25 Því að þú, Guð minn, hefir birt þjóni þínum, að þú munir reisa honum hús. Fyrir því hafði þjónn þinn djörfung til að bera þessa bæn fram fyrir þig.
26 Og nú, Drottinn, þú ert Guð, og þú hefir gefið þjóni þínum þetta dýrlega fyrirheit,
27 virst þú nú að blessa hús þjóns þíns, svo að það sé til að eilífu fyrir þínu augliti. Því að það, sem þú, Drottinn, blessar, er blessað að eilífu."
4 Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar?
2 Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki.
3 Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!
4 Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.
5 Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma, sem segir: "Þráir Guð ekki með afbrýði andann, sem hann gaf bústað í oss?"
6 En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: "Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð."
7 Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.
8 Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.
9 Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð.
10 Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.
11 Talið ekki illa hver um annan, bræður. Sá sem talar illa um bróður sinn eða dæmir bróður sinn, talar illa um lögmálið og dæmir lögmálið. En ef þú dæmir lögmálið, þá ert þú ekki gjörandi lögmálsins, heldur dómari.
12 Einn er löggjafinn og dómarinn, sá sem getur frelsað og tortímt. En hver ert þú, sem dæmir náungann?
13 Heyrið, þér sem segið: "Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!" _
14 Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun. Því að þér eruð gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan.
15 Í stað þess ættuð þér að segja: "Ef Drottinn vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað."
16 En nú stærið þér yður í oflátungsskap. Allt slíkt stærilæti er vont.
17 Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd.
1 Orð Drottins kom til Jónasar Amittaísonar, svo hljóðandi:
2 "Legg af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og prédika móti henni, því að vonska þeirra er upp stigin fyrir auglit mitt."
3 En Jónas lagði af stað í því skyni að flýja til Tarsis, burt frá augliti Drottins, og fór hann niður til Jaffa. Þar hitti hann skip, er ætlaði til Tarsis. Greiddi hann fargjald og steig á skip í því skyni að fara með þeim til Tarsis, burt frá augliti Drottins.
4 Þá varpaði Drottinn miklum stormi á sjóinn, og gjörði þá svo mikið ofviðri á hafinu, að við sjálft lá, að skipið mundi brotna.
5 Skipverjar urðu hræddir og hét hver á sinn guð. Og þeir köstuðu reiða skipsins í sjóinn til þess að létta á skipinu. En Jónas hafði gengið ofan í neðsta rúm í skipinu, lá þar og svaf vært.
6 Þá gekk stýrimaður til hans og sagði við hann: "Hvað kemur til, að þú sefur? Statt upp og ákalla guð þinn. Vera má að sá guð minnist vor, svo að vér förumst eigi."
7 Nú sögðu skipverjar hver við annan: "Komið, vér skulum kasta hlutum, svo að vér fáum að vita, hverjum það er að kenna, að þessi ógæfa er yfir oss komin." Þeir köstuðu síðan hlutum, og kom upp hlutur Jónasar.
8 Þá sögðu þeir við hann: "Seg oss, hver er atvinna þín og hvaðan kemur þú? Hvert er föðurland þitt og hverrar þjóðar ertu?"
9 Hann sagði við þá: "Ég er Hebrei og dýrka Drottin, Guð himinsins, þann er gjört hefir hafið og þurrlendið."
10 Þá urðu mennirnir mjög óttaslegnir og sögðu við hann: "Hvað hefir þú gjört!" Mennirnir vissu sem sé, að hann var að flýja burt frá augliti Drottins, því að hann hafði sagt þeim frá því.
11 Því næst sögðu þeir við hann: "Hvað eigum vér að gjöra við þig, til þess að hafið kyrrist fyrir oss?" _ því að sjórinn æstist æ meir og meir.
12 Þá sagði hann við þá: "Takið mig og kastið mér í sjóinn, mun þá hafið kyrrt verða fyrir yður, því að ég veit, að fyrir mína skuld er þessi mikli stormur yfir yður kominn."
13 Þá lögðust skipverjar á árar og reyndu að komast aftur til lands, en gátu það ekki, því að sjórinn æstist æ meir og meir.
14 Þá kölluðu þeir til Drottins og sögðu: "Æ, Drottinn! Lát oss eigi farast, þótt vér glötum lífi þessa manns, og lát oss ekki gjalda þess, svo sem vér hefðum fyrirkomið saklausum manni, því að þú, Drottinn, hefir gjört það, sem þér þóknaðist."
15 Þeir tóku nú Jónas og köstuðu honum í sjóinn. Varð hafið þá kyrrt og sjávarólguna lægði.
16 En skipverjar óttuðust Drottin harla mjög, færðu Drottni sláturfórn og gjörðu heit.
6 En svo bar við á hvíldardegi, að hann fór um sáðlönd, og tíndu lærisveinar hans kornöx, neru milli handanna og átu.
2 Þá sögðu farísear nokkrir: "Hví gjörið þér það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"
3 Og Jesús svaraði þeim: "Hafið þér þá ekki lesið, hvað Davíð gjörði, er hann hungraði og menn hans?
4 Hann fór inn í Guðs hús, tók skoðunarbrauðin og át og gaf mönnum sínum, en þau má enginn eta nema prestarnir einir."
5 Og hann sagði við þá: "Mannssonurinn er herra hvíldardagsins."
6 Annan hvíldardag gekk hann í samkunduna og kenndi. Þar var maður nokkur með visna hægri hönd.
7 En fræðimenn og farísear höfðu nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði á hvíldardegi, svo að þeir fengju tilefni að kæra hann.
8 En hann vissi hugsanir þeirra og sagði við manninn með visnu höndina: "Statt upp, og kom hér fram." Og hann stóð upp og kom.
9 Jesús sagði við þá: "Ég spyr yður, hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða granda því?"
10 Hann leit í kring á þá alla og sagði við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann gjörði svo, og hönd hans varð heil.
11 En þeir urðu æfir við og ræddu sín á milli, hvað þeir gætu gjört Jesú.
12 En svo bar við um þessar mundir, að hann fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs.
13 Og er dagur rann, kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula.
14 Þeir voru: Símon, sem hann nefndi Pétur, Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus,
15 Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson og Símon, kallaður vandlætari,
16 og Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot, sem varð svikari.
17 Hann gekk ofan með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Þar var stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks úr allri Júdeu, frá Jerúsalem og sjávarbyggðum Týrusar og Sídonar,
18 er komið hafði til að hlýða á hann og fá lækning meina sinna. Einnig voru þeir læknaðir, er þjáðir voru af óhreinum öndum.
19 Allt fólkið reyndi að snerta hann, því að frá honum kom kraftur, er læknaði alla.
20 Þá hóf hann upp augu sín, leit á lærisveina sína og sagði: "Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki.
21 Sælir eruð þér, sem nú hungrar, því að þér munuð saddir verða. Sælir eruð þér, sem nú grátið, því að þér munuð hlæja.
22 Sælir eruð þér, þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.
23 Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því laun yðar eru mikil á himni, og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina.
24 En vei yður, þér auðmenn, því að þér hafið tekið út huggun yðar.
25 Vei yður, sem nú eruð saddir, því að yður mun hungra. Vei yður, sem nú hlæið, því að þér munuð sýta og gráta.
26 Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður, því að á sama veg fórst feðrum þeirra við falsspámennina.
27 En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður,
28 blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður.
29 Slái þig einhver á kinnina, skaltu og bjóða hina, og taki einhver yfirhöfn þína, skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.
30 Gef þú hverjum sem biður þig, og þann, sem tekur þitt frá þér, skaltu eigi krefja.
31 Og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.
32 Og þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka, sem þá elska.
33 Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama.
34 Og þótt þér lánið þeim, sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur.
35 Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda.
36 Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.
37 Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.
38 Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða."
39 Þá sagði hann þeim og líkingu: "Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju?
40 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.
41 Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín?
42 Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér,` en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.
43 Því að ekki er til gott tré, er beri slæman ávöxt, né heldur slæmt tré, er beri góðan ávöxt.
44 En hvert tré þekkist af ávexti sínum, enda lesa menn ekki fíkjur af þistlum né vínber af þyrnirunni.
45 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.
46 En hví kallið þér mig herra, herra, og gjörið ekki það, sem ég segi?
47 Ég skal sýna yður, hverjum sá er líkur, sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim.
48 Hann er líkur manni, er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Nú kom flóð og flaumurinn skall á því húsi, en fékk hvergi hrært það, vegna þess að það var vel byggt.
49 Hinn, er heyrir og gjörir ekki, er líkur manni, sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Flaumurinn skall á því, og það hús féll þegar, og fall þess varð mikið."
by Icelandic Bible Society