Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Kroníkubók 16

16 Og þeir fluttu örk Guðs inn og settu hana í tjaldið, sem Davíð hafði reisa látið yfir hana, og þeir færðu brennifórnir og heillafórnir.

Og er Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnirnar, blessaði hann lýðinn í nafni Drottins

og úthlutaði öllum Ísraelsmönnum, körlum sem konum, sinn brauðhleifinn hverjum, kjötstykki og rúsínuköku.

Davíð setti menn af levítum til þess að gegna þjónustu frammi fyrir örk Drottins og til þess að tigna, lofa og vegsama Drottin, Guð Ísraels.

Var Asaf helstur þeirra og honum næstur gekk Sakaría, þá Jeíel, Semíramót, Jehíel, Mattitja, Elíab, Benaja, Óbeð Edóm og Jeíel með hljóðfærum, hörpum og gígjum, en Asaf lét skálabumburnar kveða við,

og Benaja og Jehasíel prestar þeyttu stöðugt lúðrana frammi fyrir sáttmálsörk Guðs.

Á þeim degi fól Davíð í fyrsta sinni Asaf og frændum hans að syngja "Lofið Drottin."

Lofið Drottin, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

10 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra, er leita Drottins, gleðjist.

11 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

12 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

13 þér niðjar Ísraels, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

14 Hann er Drottinn, Guð vor, um víða veröld ganga dómar hans.

15 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

16 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

17 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

18 þá er hann mælti: "Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut þinn."

19 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir, og bjuggu þar sem útlendingar,

20 og fóru frá einni þjóð til annarrar, og frá einu konungsríki til annars lýðs,

21 leið hann engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.

22 "Snertið eigi við mínum smurðu, og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

23 Syngið Drottni, öll lönd, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

24 Segið frá dýrð hans meðal heiðingjanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra þjóða.

25 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, og óttalegur er hann öllum guðum framar.

26 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

27 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og fögnuður í bústað hans.

28 Tjáið Drottni, þér þjóðakynkvíslir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

29 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið fram fyrir hann. Fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða,

30 titrið fyrir honum, öll lönd. Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki.

31 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, menn segi meðal heiðingjanna: "Drottinn hefir tekið konungdóm!"

32 Hafið drynji og allt, sem í því er, foldin fagni og allt, sem á henni er.

33 Öll tré skógarins kveði fagnaðarópi fyrir Drottni, því að hann kemur til þess að dæma jörðina.

34 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu!

35 og segið: "Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors. Safna þú oss saman og frelsa þú oss frá heiðingjunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn."

36 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð frá eilífð til eilífðar. Og allur lýður sagði: "Amen!" og "Lof sé Drottni!"

37 Og Davíð lét þá Asaf og frændur hans verða þar eftir frammi fyrir sáttmálsörk Drottins til þess að hafa stöðugt þjónustu á hendi frammi fyrir örkinni, eftir því sem á þurfti að halda dag hvern.

38 En Óbeð Edóm og frændur þeirra, sextíu og átta, Óbeð Edóm Jedítúnsson og Hósa, skipaði hann hliðverði.

39 Sadók prest og frændur hans, prestana, setti hann frammi fyrir bústað Drottins á hæðinni, sem er í Gíbeon,

40 til þess stöðugt að færa Drottni brennifórnir á brennifórnaraltarinu, kvelds og morgna, og að fara með öllu svo, sem skrifað er í lögmáli Drottins, því er hann lagði fyrir Ísrael.

41 Og með þeim voru þeir Heman, Jedútún og aðrir þeir er kjörnir voru, þeir er með nafni voru til þess kvaddir að lofa Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu.

42 Og með þeim voru þeir Heman og Jedútún með lúðra og skálabumbur handa söngmönnunum og hljóðfæri fyrir söng guðsþjónustunnar. En þeir Jedútúnssynir voru hliðverðir.

43 Síðan fór allur lýðurinn burt, hver heim til sín, en Davíð hvarf aftur til þess að heilsa fólki sínu.

Hið almenna bréf Jakobs 3

Verðið eigi margir kennarar, bræður mínir. Þér vitið, að vér munum fá þyngri dóm.

Allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.

Ef vér leggjum hestunum beisli í munn, til þess að þeir hlýði oss, þá getum vér stýrt öllum líkama þeirra.

Sjá einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum. Þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill.

Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. Sjá hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi.

Tungan er líka eldur. Tungan er ranglætisheimur meðal lima vorra. Hún flekkar allan líkamann og kveikir í hjóli tilverunnar, en er sjálf tendruð af helvíti.

Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið,

en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju, sem er full af banvænu eitri.

Með henni vegsömum vér Drottin vorn og föður og með henni formælum vér mönnum, sem skapaðir eru í líkingu Guðs.

10 Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir.

11 Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn?

12 Mun fíkjutré, bræður mínir, geta af sér gefið olífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.

13 Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.

14 En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum.

15 Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg.

16 Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.

17 En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.

18 En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.

Óbadía

Vitrun Óbadía. Svo segir Drottinn Guð um Edóm: Vér höfum fengið vitneskju frá Drottni, og boðberi er sendur meðal þjóðanna: "Af stað! Vér skulum halda af stað til þess að herja á hann!"

Sjá, ég vil gjöra þig lítinn meðal þjóðanna, þú munt verða mjög fyrirlitinn.

Hroki hjarta þíns hefir dregið þig á tálar, þú sem átt byggð í klettaskorum og situr í hæðum uppi, sem segir í hjarta þínu: "Hver getur steypt mér niður til jarðar?"

Þótt þú sætir hátt eins og örninn og byggðir hreiður þitt meðal stjarnanna, þá steypi ég þér þaðan niður, _ segir Drottinn.

Ef þjófar koma að þér eða ræningjar á náttarþeli _ hversu ert þú í eyði lagður _, stela þeir þá ekki, þar til er þeim nægir? Ef vínlestursmenn ráðast á þig, skilja þeir þá ekki eftir neinn eftirtíning?

En hversu vandlega hefir verið leitað hjá Esaú og leitaðir uppi fólgnir dýrgripir hans.

Allir sambandsmenn þínir reka þig út á landamærin. Þeir sem lifðu í friði við þig, draga þig á tálar, bera þig ofurliði. Þeir sem átu brauð þitt, leggja fyrir þig snörur, sem eigi er unnt að sjá.

Já, á þeim degi _ segir Drottinn _ mun ég afmá vitra menn í Edóm og hyggindin á Esaúfjöllum.

Kappar þínir, Teman, skulu skelfast, til þess að hver maður verði upprættur af Esaúfjöllum í manndrápunum.

10 Sökum ofríkis þess, er þú hefir sýnt bróður þínum Jakob, skal smán hylja þig, og þú skalt að eilífu upprættur verða.

11 Þann dag, er þú stóðst andspænis honum, þann dag, er aðkomnir menn fluttu burt fjárafla hans hertekinn og útlendingar brutust inn um borgarhlið hans og urpu hlutkesti um Jerúsalem, varst þú sem einn af þeim.

12 Horf eigi með ánægju á dag bróður þíns, á ógæfudag hans, og gleð þig eigi yfir Júda sonum á eyðingardegi þeirra og lát þér eigi stóryrði um munn fara á neyðardegi þeirra.

13 Ryðst ekki inn um hlið þjóðar minnar á glötunardegi þeirra, horf þú ekki líka með ánægju á óhamingju hennar á glötunardegi hennar og rétt þú ekki út höndina eftir fjárafla hennar á glötunardegi hennar.

14 Nem eigi staðar á vegamótum til þess að drepa niður flóttamenn hennar, og framsel eigi menn hennar, þá er undan komast, á degi neyðarinnar.

15 Því að dagur Drottins er nálægur fyrir allar þjóðir. Eins og þú hefir öðrum gjört, eins skal þér gjört verða; gjörðir þínar skulu þér í koll koma.

16 Því að eins og þér hafið drukkið á mínu heilaga fjalli, svo skulu allar þjóðirnar drekka stöðuglega. Þær skulu drekka og sötra og verða eins og þær aldrei hefðu til verið.

17 En á Síonfjalli skal frelsun verða, og það skal heilagt vera, og Jakobs niðjar skulu fá aftur eignir sínar.

18 Og Jakobs hús mun verða að eldi og Jósefs hús að loga og Esaú hús að hálmi, og þeir munu kveikja í og eyða honum, svo að ekkert skal eftir verða af Esaúniðjum, því að Drottinn hefir talað það.

19 Sunnlendingar skulu taka Esaúfjöll til eignar og Sléttumenn Filisteu. Þeir munu og taka Efraímsland og Samaríuland til eignar, og Benjamín Gíleað.

20 Þeir af Ísraelsmönnum, er teknir hafa verið í vígi þessu og fluttir burt hernumdir, munu taka það til eignar, sem Kanaanítar eiga, allt til Sarefta, og þeir sem fluttir hafa verið burt hernumdir frá Jerúsalem, þeir sem eru í Sefarad, munu taka til eignar borgir Suðurlandsins.

Lúkasarguðspjall 5

Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.

Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín.

Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: "Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar."

Símon svaraði: "Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin."

Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.

Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: "Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður."

En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið.

10 Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: "Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða."

11 Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

12 Svo bar við, er hann var í einni borginni, að þar var maður altekinn líkþrá. Hann sá Jesú, féll fram á ásjónu sína og bað hann: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."

13 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin.

14 Og hann bauð honum að segja þetta engum. "En far þú," sagði hann, "sýn þig prestinum, og fórna fyrir hreinsun þína, eins og Móse bauð, þeim til vitnisburðar."

15 En fregnin um hann breiddist út því meir, og menn komu hópum saman til að hlýða á hann og læknast af meinum sínum.

16 En hann dró sig einatt í hlé til óbyggðra staða og var þar á bæn.

17 Dag nokkurn var hann að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til þess að lækna.

18 Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú.

19 En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú.

20 Og er hann sá trú þeirra, sagði hann: "Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar."

21 Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: "Hver er sá, er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"

22 En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvað hugsið þér í hjörtum yðar?

23 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp og gakk`?

24 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér:" _ og nú talar hann við lama manninn _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."

25 Jafnskjótt stóð hann upp frammi fyrir þeim, tók það, sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð.

26 En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu ótta slegnir og sögðu: "Óskiljanlegt er það, sem vér höfum séð í dag."

27 Eftir þetta fór hann út. Þá sá hann tollheimtumann, Leví að nafni, sitja hjá tollbúðinni og sagði við hann: "Fylg þú mér!"

28 Og hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum.

29 Leví bjó honum veislu mikla í húsi sínu, og þar sat að borði með þeim mikill fjöldi tollheimtumanna og annarra.

30 En farísearnir og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans og sögðu: "Hvers vegna etið þér og drekkið með tollheimtumönnum og bersyndugum?"

31 Og Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.

32 Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar."

33 En þeir sögðu við hann: "Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og fara með bænir og eins lærisveinar farísea, en þínir eta og drekka."

34 Jesús sagði við þá: "Hvort getið þér ætlað brúðkaupsgestum að fasta, meðan brúðguminn er hjá þeim?

35 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim dögum."

36 Hann sagði þeim einnig líkingu: "Enginn rífur bót af nýju fati og lætur á gamalt fat, því að bæði rífur hann þá nýja fatið og bótin af því hæfir ekki hinu gamla.

37 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir nýja vínið belgina og fer niður, en belgirnir ónýtast.

38 Nýtt vín ber að láta á nýja belgi.

39 Og enginn, sem drukkið hefur gamalt vín, vill nýtt, því að hann segir: ,Hið gamla er gott."`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society