M’Cheyne Bible Reading Plan
15 Davíð byggði hús handa sér í Davíðsborg, og hann bjó stað handa örk Guðs og reisti tjald fyrir hana.
2 Þá sagði Davíð: "Enginn má bera örk Guðs nema levítarnir, því að þá hefir Drottinn valið til þess að bera örk Guðs og til þess að þjóna sér að eilífu."
3 Síðan stefndi Davíð öllum Ísrael saman til Jerúsalem til þess að flytja örk Drottins á sinn stað, þann er hann hafði búið handa henni.
4 Og Davíð stefndi saman niðjum Arons og levítunum:
5 Af Kahatsniðjum: Úríel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tuttugu alls.
6 Af Meraríniðjum: Asaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð og tuttugu alls.
7 Af Gersómsniðjum: Jóel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og þrjátíu alls.
8 Af Elísafansniðjum: Semaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð alls.
9 Af Hebronsniðjum: Elíel, er var þeirra helstur, og frændum hans, áttatíu alls.
10 Af Ússíelsniðjum: Ammínadab, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tólf alls.
11 Síðan kallaði Davíð á Sadók og Abjatar presta og Úríel, Asaja, Jóel, Semaja, Elíel og Ammínadab levíta,
12 og mælti við þá: "Þér eruð ætthöfðingjar levíta. Helgið yður og frændur yðar og flytjið örk Drottins, Ísraels Guðs, á þann stað, er ég hefi búið handa henni.
13 Af því að þér voruð eigi við hið fyrra skipti, hefir Drottinn Guð vor lostið oss, af því að vér leituðum hans eigi svo sem vera bar."
14 Þá helguðu prestarnir og levítarnir sig til þess að flytja örk Drottins, Ísraels Guðs, upp eftir.
15 Síðan báru niðjar levíta örk Guðs, eins og Móse hafði fyrirskipað eftir boði Drottins, á stöngum á herðum sér.
16 Því næst bauð Davíð höfðingjum levíta að setja frændur þeirra, söngmennina, með hljóðfærum þeirra, hörpum, gígjum og skálabumbum, til þess að þeir skyldu láta fagnaðarglaum kveða við.
17 Settu levítar til þess Heman Jóelsson, og af frændum hans Asaf Berekíason, og af Meraríniðjum, frændum sínum, Etan Kúsajason,
18 og með þeim frændur þeirra af öðrum flokki: Sakaría Jaasíelsson, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Benaja, Maaseja, Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm og Jeíel hliðverði.
19 Auk þess söngvarana Heman, Asaf og Etan með skálabumbum úr eiri, til þess að syngja hátt,
20 og Sakaría, Asíel, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Maaseja og Benaja með hörpur, til þess að syngja háu raddirnar,
21 og Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm, Jeíel og Asaja með gígjur, til þess að syngja lægri raddirnar.
22 Kenanja, er var helstur levítanna við arkarburðinn, sá um arkarburðinn, því að hann bar skyn á það.
23 Berekía og Elkana voru hliðverðir arkarinnar.
24 Sebanja, Jósafat, Netaneel, Amasaí, Sakaría, Benaja og Elíeser prestar þeyttu lúðra frammi fyrir örk Guðs, og Óbeð Edóm og Jehía voru hliðverðir arkarinnar.
25 Davíð og öldungar Ísraels og þúsundhöfðingjarnir fóru til þess að flytja sáttmálsörk Drottins með fögnuði úr húsi Óbeð Edóms.
26 Og er Guð hjálpaði levítunum, er báru sáttmálsörk Drottins, fórnuðu þeir sjö nautum og sjö hrútum.
27 Og Davíð var klæddur baðmullarkyrtli, svo og allir levítarnir, er örkina báru, og söngmennirnir og Kenanja, burðarstjóri, æðstur söngmannanna, en Davíð bar línhökul.
28 Og allur Ísrael flutti sáttmálsörk Drottins upp eftir með fagnaðarópi og lúðurhljómi, með lúðrum og skálabumbum, og létu hljóma hörpur og gígjur.
29 En er sáttmálsörk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann. Og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.
2 Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist.
2 Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum,
3 ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: "Settu þig hérna í gott sæti!" en segið við fátæka manninn: "Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!"
4 hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?
5 Heyrið, bræður mínir elskaðir! Hefur Guð ekki útvalið þá, sem fátækir eru í augum heimsins, til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar þess ríkis, er hann hefur heitið þeim, sem elska hann?
6 En þér hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku, sem undiroka yður og draga yður fyrir dómstóla?
7 Eru það ekki þeir, sem lastmæla hinu góða nafni, sem nefnt var yfir yður?
8 Ef þér uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: "Þú skalt elska náunga þinn sem sjálfan þig", þá gjörið þér vel.
9 En ef þér farið í manngreinarálit, þá drýgið þér synd og lögmálið sannar upp á yður að þér séuð brotamenn.
10 Þótt einhver héldi allt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess.
11 Því sá sem sagði: "Þú skalt ekki hórdóm drýgja", hann sagði líka: "Þú skalt ekki morð fremja." En þó að þú drýgir ekki hór, en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið.
12 Talið því og breytið eins og þeir, er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins.
13 Því að dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.
14 Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann?
15 Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi
16 og einhver yðar segði við þau: "Farið í friði, vermið yður og mettið!" en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það?
17 Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.
18 En nú segir einhver: "Einn hefur trú, annar verk." Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.
19 Þú trúir, að Guð sé einn. Þú gjörir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast.
20 Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?
21 Réttlættist ekki Abraham faðir vor af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið?
22 Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum.
23 Og ritningin rættist, sem segir: "Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað," og hann var kallaður Guðs vinur.
24 Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman.
25 Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?
26 Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.
9 Ég sá Drottin standa við altarið, og hann sagði: Slá þú á súluhöfuðið, svo að þröskuldarnir skjálfi. Brjót þá sundur og kasta í höfuð þeim öllum. Og síðustu leifar þeirra vil ég deyða með sverði, enginn þeirra skal komast undan á flótta og enginn þeirra bjargast.
2 Þótt þeir brjótist niður í undirheima, þá skal hönd mín sækja þá þangað, þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan.
3 Þótt þeir feli sig á Karmeltindi, þá skal ég leita þá þar uppi og sækja þá þangað, og þótt þeir vilji leynast fyrir augum mínum á mararbotni, skal ég þar bjóða höggorminum að bíta þá.
4 Og þótt þeir fari á undan óvinum sínum í útlegð, skal ég þar bjóða sverðinu að deyða þá, og ég vil beina augum mínum á þá, þeim til óhamingju, en ekki til hamingju.
5 Drottinn, Guð allsherjar, hann sem snertir jörðina, svo að hún riðar, og allir þeir, sem á henni búa, verða sorgbitnir, svo að hún hefst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkar eins og fljótið á Egyptalandi,
6 hann sem reist hefir á himnum sali sína og grundvallað hvelfing sína á jörðinni, hann sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina _ Drottinn er nafn hans.
7 Eruð þér, Ísraelsmenn, mér mætari en Blálendingar? _ segir Drottinn. Hefi ég eigi flutt Ísrael af Egyptalandi og Filista frá Kaftór og Sýrlendinga frá Kír?
8 Sjá, auga Drottins Guðs hvílir á þessu glæpafulla konungsríki. Ég skal afmá það af jörðinni, _ og þó vil ég ekki með öllu afmá Jakobs niðja _ segir Drottinn.
9 Nei, ég skal svo um bjóða, að Ísraels hús verði hrist út á meðal allra þjóða, eins og korn er hrist í sáldi, án þess að nokkur steinvala falli til jarðar.
10 Allir syndarar þjóðar minnar skulu falla fyrir sverði, þeir sem segja: "Ógæfan mun eigi ná oss né yfir oss koma!"
11 Á þeim degi mun ég endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun hlaða upp í veggskörðin og reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, eins og hún var fyrr meir,
12 til þess að þeir nái undir sig leifum Edóms og öllum þeim þjóðum, sem nafn mitt hefir verið nefnt yfir _ segir Drottinn, sá er þessu mun til vegar koma.
13 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn _ að erjandinn skal ná kornskurðarmanninum og víntroðslumaðurinn sáðmanninum. Þá munu fjöllin löðra í vínberjalegi og hálsarnir verða í einu flóði.
14 Þá mun ég snúa við högum lýðs míns Ísraels. Þeir munu byggja upp hinar eyddu borgir og búa í þeim, planta víngarða og drekka vín úr þeim, búa til aldingarða og eta ávöxtu þeirra.
4 En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina
2 fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður.
3 En djöfullinn sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði."
4 Og Jesús svaraði honum: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði."`
5 Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar.
6 Og djöfullinn sagði við hann: "Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.
7 Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt."
8 Jesús svaraði honum: "Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."
9 Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan,
10 því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín
11 og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."
12 Jesús svaraði honum: "Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`
13 Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.
14 En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið.
15 Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir.
16 Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa.
17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:
18 Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa
19 og kunngjöra náðarár Drottins.
20 Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum.
21 Hann tók þá að tala til þeirra: "Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar."
22 Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: "Er hann ekki sonur Jósefs?"
23 En hann sagði við þá: "Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!` Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni."
24 Enn sagði hann: "Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu.
25 En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu,
26 og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi.
27 Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur."
28 Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta,
29 spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan.
30 En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.
31 Hann kom nú ofan til Kapernaum, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi.
32 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans.
33 Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu:
34 "Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."
35 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum." En illi andinn slengdi honum fram fyrir þá og fór út af honum, en varð honum ekki að meini.
36 Felmtri sló á alla, og sögðu þeir hver við annan: "Hvaða orð er þetta? Með valdi og krafti skipar hann óhreinum öndum, og þeir fara."
37 Og orðstír hans barst út til allra staða þar í grennd.
38 Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni.
39 Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina.
40 Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá.
41 Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: "Þú ert sonur Guðs." En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur.
42 Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim.
43 En hann sagði við þá: "Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur."
44 Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.
by Icelandic Bible Society