M’Cheyne Bible Reading Plan
13 Davíð ráðgaðist um við þúsundhöfðingjana og við hundraðshöfðingjana, við alla höfðingjana.
2 Og Davíð mælti við Ísraelssöfnuð: "Ef yður líkar svo, og virðist það vera komið frá Drottni, Guði vorum, þá skulum vér senda til frænda vorra, sem eftir eru orðnir í öllum héruðum Ísraels, svo og til prestanna og levítanna í borgunum með beitilöndunum, er að þeim liggja, og skulu þeir safnast til vor.
3 Skulum vér sækja örk Guðs vors, því að á dögum Sáls höfum vér ekki spurt um hana."
4 Svaraði þá allur söfnuður, að svo skyldi gjöra, því að öllum lýðnum leist þetta rétt vera.
5 Kallaði þá Davíð saman allan Ísrael, frá Síhór í Egyptalandi, allt þar til, er leið liggur til Hamat, til þess að flytja örk Guðs frá Kirjat Jearím.
6 Og Davíð og allur Ísrael fór til Baala, til Kirjat Jearím, sem er í Júda, til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins, hans, sem situr uppi yfir kerúbunum.
7 Og þeir óku örk Drottins á nýjum vagni úr húsi Abínadabs, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó vagninum.
8 Og Davíð og allur Ísrael dansaði fyrir Guði af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, skálabumbum og lúðrum.
9 En er komið var að þreskivelli Kídons, rétti Ússa út höndina til þess að grípa í örkina, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin.
10 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og hann laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar fyrir augliti Guðs.
11 En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag.
12 Davíð varð hræddur við Guð á þeim degi og sagði: "Hvernig má ég þá flytja örk Guðs til mín?"
13 Og Davíð flutti ekki örkina til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat.
14 Og örk Guðs var þrjá mánuði í húsi Óbeð Edóms, í húsi hans, og Drottinn blessaði hús Óbeð Edóms og allt það, er hans var.
14 Híram, konungur í Týrus, gjörði menn á fund Davíðs og sendi honum sedrustré, steinhöggvara og trésmiði til þess að reisa höll handa honum.
2 Davíð kannaðist þá við, að Drottinn hefði staðfest konungdóm hans yfir Ísrael, að konungdómur sinn væri hátt upp hafinn fyrir sakir þjóðar hans, Ísraels.
3 Davíð tók sér enn konur í Jerúsalem, og Davíð gat enn sonu og dætur.
4 Þetta eru nöfn þeirra sona, sem hann eignaðist í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan, Salómon,
5 Jíbhar, Elísúa, Elpelet,
6 Nóga, Nefeg, Jafía,
7 Elísama, Beeljada og Elífelet.
8 Þegar Filistar heyrðu, að Davíð væri smurður til konungs yfir allan Ísrael, lögðu allir Filistar af stað að leita Davíðs. Og er Davíð frétti það, fór hann í móti þeim.
9 Og Filistar komu og dreifðu sér um Refaímdal.
10 Þá gekk Davíð til frétta við Guð og sagði: "Á ég að fara móti Filistum? Munt þú gefa þá í hendur mér?" Drottinn svaraði honum: "Far þú, ég mun gefa þá í hendur þér."
11 Héldu þeir þá til Baal Perasím. Og Davíð vann þar sigur á þeim, og Davíð sagði: "Guð hefir látið mig skola burt óvinum mínum, eins og þegar vatn ryður sér rás." Fyrir því var sá staður nefndur Baal Perasím.
12 En þeir létu þar eftir guði sína, og voru þeir brenndir á báli að boði Davíðs.
13 Filistar komu aftur og dreifðu sér um dalinn.
14 Þá gekk Davíð enn til frétta við Guð, og Guð svaraði honum: "Far þú eigi í móti þeim. Far þú í bug og kom að baki þeim og ráð á þá fram undan bakatrjánum.
15 Og þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú leggja til orustu, því að þá fer Guð fyrir þér til þess að ljósta her Filista."
16 Og Davíð gjörði eins og Guð bauð honum og vann sigur á her Filista frá Gíbeon til Geser.
17 Og frægð Davíðs barst um öll lönd, og Drottinn lét ótta við hann koma yfir allar þjóðir.
1 Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists, heilsar þeim tólf kynkvíslum í dreifingunni.
2 Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.
3 Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði,
4 en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.
5 Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.
6 En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.
7 Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla,
8 að hann fái nokkuð hjá Drottni.
9 Lágt settur bróðir hrósi sér af upphefð sinni,
10 en auðugur af lægingu sinni, því hann mun líða undir lok eins og blóm á engi.
11 Sólin kemur upp með steikjandi hita og brennir grasið, og blóm þess dettur af og fegurð þess verður að engu. Þannig mun og hinn auðugi maður visna upp á vegum sínum.
12 Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.
13 Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: "Guð freistar mín." Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.
14 Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.
15 Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.
16 Villist ekki, bræður mínir elskaðir!
17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.
18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans.
19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.
20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.
21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.
22 Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.
23 Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.
24 Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.
25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.
26 Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.
27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.
8 Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Ég sá körfu með sumarávöxtum.
2 Þá sagði hann: "Hvað sér þú, Amos?" Ég svaraði: "Körfu með sumarávöxtum." Þá sagði Drottinn við mig: "Endirinn er kominn yfir lýð minn Ísrael, ég vil eigi lengur umbera hann.
3 Og musterissöngmeyjarnar skulu kveina á þeim degi _ segir Drottinn Guð. _ Líkin eru mörg. Alls staðar fleygja menn þeim út í kyrrþey!"
4 Heyrið þetta, þér sem sundur merjið hina fátæku og ætlið að gjöra út af við alla aumingja í landinu, _
5 sem segið: "Hvenær mun tunglkomuhátíðin líða, svo að vér megum selja korn, og hvíldardagurinn, svo að vér megum opna kornhlöðurnar?" _ sem minnkið mælinn og hækkið verðið og falsið svikavogina,
6 og kaupið hina snauðu fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó, _ sem segið: "Vér seljum þeim aðeins úrganginn úr korninu."
7 Drottinn hefir svarið við vegsemd Jakobs: Aldrei skal ég gleyma öllu því, er þeir hafa gjört.
8 Hlaut ekki jörðin að nötra af slíku og allir þeir, sem þar búa, að verða sorgbitnir, svo að hún hófst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkaði eins og fljótið á Egyptalandi?
9 Á þeim degi, _ segir Drottinn Guð _ vil ég láta sólina ganga til viðar um miðjan dag og senda myrkur yfir landið á ljósum degi.
10 Ég vil snúa hátíðum yðar í sorg og öllum ljóðum yðar í harmkvæði, klæða allar mjaðmir í sorgarbúning og gjöra öll höfuð sköllótt. Ég læt það verða eins og sorg eftir einkason og endalok þess sem beiskan dag.
11 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn Guð, _ að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins,
12 svo að menn skulu reika frá einu hafinu til annars og renna frá norðri til austurs til þess að leita eftir orði Drottins. En þeir skulu ekki finna það.
13 Á þeim degi skulu fríðar meyjar og æskumenn vanmegnast af þorsta.
14 Þeir er sverja við vansæmd Samaríu og segja: "Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Dan!" og: "Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Beerseba!" _ þeir skulu falla og ekki framar á fætur rísa.
3 Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,
2 í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.
3 Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,
4 eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.
5 Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur.
6 Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.
7 Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?
8 Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.
9 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað."
10 Mannfjöldinn spurði hann: "Hvað eigum vér þá að gjöra?"
11 En hann svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."
12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: "Meistari, hvað eigum vér að gjöra?"
13 En hann sagði við þá: "Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt."
14 Hermenn spurðu hann einnig: "En hvað eigum vér að gjöra?" Hann sagði við þá: "Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar."
15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.
16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.
17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."
18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.
19 Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört.
20 Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.
21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist,
22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."
23 En Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt. Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí,
24 sonar Mattats, sonar Leví, sonar Melkí, sonar Jannaí, sonar Jósefs,
25 sonar Mattatíass, sonar Amoss, sonar Naúms, sonar Eslí, sonar Naggaí,
26 sonar Maats, sonar Mattatíass, sonar Semeíns, sonar Jóseks, sonar Jóda,
27 sonar Jóhanans, sonar Hresa, sonar Serúbabels, sonar Sealtíels, sonar Nerí,
28 sonar Melkí, sonar Addí, sonar Kósams, sonar Elmadams, sonar Ers,
29 sonar Jesú, sonar Elíesers, sonar Jóríms, sonar Mattats, sonar Leví,
30 sonar Símeons, sonar Júda, sonar Jósefs, sonar Jónams, sonar Eljakíms,
31 sonar Melea, sonar Menna, sonar Mattata, sonar Natans, sonar Davíðs,
32 sonar Ísaí, sonar Óbeðs, sonar Bóasar, sonar Salmons, sonar Naksons,
33 sonar Ammínadabs, sonar Admíns, sonar Arní, sonar Esroms, sonar Peres, sonar Júda,
34 sonar Jakobs, sonar Ísaks, sonar Abrahams, sonar Tara, sonar Nakórs,
35 sonar Serúgs, sonar Reú, sonar Pelegs, sonar Ebers, sonar Sela,
36 sonar Kenans, sonar Arpaksads, sonar Sems, sonar Nóa, sonar Lameks,
37 sonar Metúsala, sonar Enoks, sonar Jareds, sonar Mahalalels, sonar Kenans,
38 sonar Enoss, sonar Sets, sonar Adams, sonar Guðs.
by Icelandic Bible Society