M’Cheyne Bible Reading Plan
9 Allir Ísraelsmenn voru skráðir í ættartölur. Eru þeir ritaðir í bók Ísraelskonunga. Og Júdamenn voru herleiddir til Babel sakir ótrúmennsku þeirra.
2 En hinir fyrri íbúar, er voru í landeign þeirra og borgum, voru Ísraelsmenn, prestarnir, levítarnir og musterisþjónarnir.
3 Og í Jerúsalem bjuggu menn af Júdasonum, Benjamínssonum, Efraímssonum og Manassesonum:
4 Útaí Ammíhúdsson, Omrísonar, Imrísonar, Banísonar, er var af niðjum Peres, sonar Júda.
5 Og af Sílónítum: Asaja, frumgetningurinn og synir hans.
6 Og af niðjum Sera: Jegúel. Og bræður þeirra voru sex hundruð og níutíu alls.
7 Af Benjamínítum: Sallúm Mesúllamsson, Hódavjasonar, Hassenúasonar,
8 enn fremur Jíbneja Jeróhamsson, Ela Ússíson, Míkrísonar, Mésúllam Sefatjason, Regúelssonar, Jíbnejasonar,
9 og bræður þeirra eftir ættum þeirra, níu hundruð fimmtíu og sex alls. Allir þessir menn voru ætthöfðingjar í ættum sínum.
10 Af prestunum: Jedaja, Jójaríb, Jakín
11 og Asarja Hilkíason, Mesúllamssonar, Sadókssonar, Merajótssonar, Ahítúbssonar, höfuðsmaður yfir musteri Guðs.
12 Enn fremur Adaja Jeróhamsson, Pashúrssonar, Malkíasonar, og Maesí Adíelsson, Jahserasonar, Mesúllamssonar, Mesillemítssonar, Immerssonar.
13 Og bræður þeirra, ætthöfðingjar, voru alls eitt þúsund, sjö hundruð og sextíu, dugandi menn til þess að gegna þjónustu við musteri Guðs.
14 Af levítunum: Semaja Hassúbsson, Asríkamssonar, Hasabjasonar, af Meraríniðjum.
15 Enn fremur Bakbakkar, Heres, Galal, Mattanja Míkason, Síkrísonar, Asafssonar,
16 og Óbadía Semajason, Galalssonar, Jedútúnssonar og Berekía Asason, Elkanasonar, er bjó í þorpum Netófatíta.
17 Hliðverðirnir: Sallúm, Akkúb, Talmon og Ahíman og bræður þeirra. Var Sallúm æðstur,
18 og gætir hann enn konungshliðsins gegnt austri. Þetta eru hliðverðirnir í hópi levíta.
19 En Sallúm Kóreson, Ebjasafssonar, Kórasonar, og bræður hans, er voru af ætt hans, Kóraítarnir, höfðu þjónustu á hendi, þar sem þeir gættu þröskulda tjaldsins. Höfðu feður þeirra gætt dyranna í herbúðum Drottins,
20 og var Pínehas Eleasarsson forðum höfðingi þeirra. Drottinn sé með honum!
21 En Sakaría Meselemjason gætti dyra samfundatjalds-búðarinnar.
22 Alls voru þessir, er teknir voru til þess að vera dyraverðir, tvö hundruð og tólf. Voru þeir skráðir í ættartölur í þorpum sínum _ höfðu þeir Davíð og Samúel, sjáandinn, skipað þá í embætti þeirra _,
23 voru þeir og synir þeirra við hliðin á húsi Drottins, tjaldbúðinni, til þess að gæta þeirra.
24 Stóðu hliðverðirnir gegnt hinum fjórum áttum, gegnt austri, vestri, norðri og suðri.
25 En bræður þeirra, er bjuggu í þorpum sínum, áttu að koma inn við og við, sjö daga í senn, til þess að aðstoða þá,
26 því að þeir, fjórir yfirhliðverðirnir, höfðu stöðugt starf á hendi. Þetta eru levítarnir. Þeir höfðu og umsjón með herbergjum og fjársjóðum Guðs húss,
27 og héldu til um nætur umhverfis musteri Guðs, því að þeir áttu að halda vörð, og á hverjum morgni áttu þeir að ljúka upp.
28 Og nokkrir þeirra áttu að sjá um þjónustuáhöldin. Skyldu þeir telja þau, er þeir báru þau út og inn.
29 Og nokkrir skyldu sjá um áhöldin, og það öll hin helgu áhöld, og hveitimjölið, vínið og olíuna, reykelsið og kryddjurtirnar,
30 og nokkrir af sonum prestanna skyldu gjöra smyrsl af kryddjurtunum,
31 en Mattitja, einum af levítum, frumgetningi Sallúms Kóraíta, var falinn pönnubaksturinn.
32 Og nokkrir af Kahatítum, bræðrum þeirra, skyldu sjá um raðsettu brauðin og leggja þau fram á hverjum hvíldardegi.
33 Söngvararnir, ætthöfðingjar levíta, búa í herbergjunum, lausir við önnur störf, því að þeir hafa starfs að gæta dag og nótt.
34 Þessir eru ætthöfðingjar levíta eftir ættum þeirra, höfðingjar. Þeir bjuggu í Jerúsalem.
35 Í Gíbeon bjuggu: Jeíel, faðir að Gíbeon, og kona hans hét Maaka.
36 Og frumgetinn sonur hans var Abdón, þá Súr, Kís, Baal, Ner, Nadab,
37 Gedór, Ahjó, Sakaría og Miklót.
38 En Miklót gat Símeam. Einnig þeir bjuggu andspænis bræðrum sínum, hjá bræðrum sínum í Jerúsalem.
39 Ner gat Kís og Kís gat Sál, og Sál gat Jónatan, Malkísúa, Abínadab og Esbaal.
40 Og sonur Jónatans var Meríbaal, og Meríbaal gat Míka.
41 Og synir Míka voru: Píton, Melek, Tahrea og Akas.
42 En Akas gat Jaera, Jaera gat Alemet, Asmavet og Simrí, en Simrí gat Mósa,
43 Mósa gat Bínea. Hans son var Refaja, hans son Eleasa, hans son Asel.
44 En Asel átti sex sonu. Þeir hétu: Asríkam, Bokrú, Ísmael, Searja, Óbadía, Hanan. Þessir eru synir Asels.
10 Filistar höfðu lagt til orustu við Ísrael. Höfðu Ísraelsmenn flúið fyrir Filistum, og lágu margir fallnir á Gilbóafjalli.
2 Og Filistar eltu Sál og sonu hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, sonu Sáls.
3 Var nú gjörð hörð atlaga að Sál, og höfðu bogmenn komið auga á hann. Varð hann þá hræddur við bogmennina.
4 Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: "Bregð þú sverði þínu og legg mig í gegn með því, svo að óumskornir menn þessir komi ekki og fari háðulega með mig." En skjaldsveinninn vildi ekki gjöra það, því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sverðið og lét fallast á það.
5 Og er skjaldsveinninn sá, að Sál var dauður, þá lét hann og fallast á sverð sitt og dó.
6 Þannig létu þeir líf sitt, Sál, synir hans þrír og allir ættmenn hans. Létu þeir lífið saman.
7 Þegar allir Ísraelsmenn þeir er á sléttlendinu bjuggu, sáu, að Ísraelsmenn voru flúnir, og Sál og synir hans fallnir, þá yfirgáfu þeir borgir sínar og lögðu á flótta. Og Filistar komu og settust að í þeim.
8 Daginn eftir komu Filistar að ræna valinn. Fundu þeir þá Sál og sonu hans þrjá fallna á Gilbóafjalli.
9 Flettu þeir hann klæðum og tóku höfuð hans og herklæði og gjörðu sendimenn um allt Filistaland til þess að flytja skurðgoðum sínum og lýðnum gleðitíðindin.
10 Og þeir lögðu vopn hans í hof guðs síns, en hauskúpu hans festu þeir upp í hofi Dagóns.
11 Þegar allir þeir, er bjuggu í Jabes í Gíleað, fréttu allt það, er Filistar höfðu gjört við Sál,
12 þá tóku sig til allir vopnfærir menn, tóku lík Sáls og lík sona hans og fluttu þau til Jabes. Síðan jörðuðu þeir bein þeirra undir eikinni í Jabes og föstuðu í sjö daga.
13 Þannig lét Sál líf sitt sakir ótrúmennsku sinnar við Drottin, sakir þess að hann eigi varðveitti boð Drottins, og einnig sakir þess, að hann hafði gengið til frétta við vofu,
14 en við Drottin hafði hann eigi gengið til frétta. Hann lét hann þess vegna deyja, en konungdóminn hverfa undir Davíð Ísaíson.
12 Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.
2 Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.
3 Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.
4 Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið.
5 Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig.
6 Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.
7 Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?
8 En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir.
9 Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?
10 Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.
11 Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.
12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.
13 Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt.
14 Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið.
15 Hafið gát á, að enginn missi af Guðs náð, að engin beiskjurót renni upp, sem truflun valdi, og margir saurgist af.
16 Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn.
17 Þér vitið, að það fór líka svo fyrir honum, að hann var rækur gjör, þegar hann síðar vildi öðlast blessunina, þó að hann grátbændi um hana. Hann fékk ekki færi á að iðrast.
18 Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris
19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað.
20 Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: "Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða."
21 Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: "Ég er mjög hræddur og skelfdur."
22 Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla,
23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir,
24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.
25 Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum.
26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: "Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn."
27 Orðin: "Enn einu sinni", sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast.
28 Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.
29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.
6 Vei hinum andvaralausu á Síon og hinum öruggu á Samaríufjalli, aðalsmönnum hinnar ágætustu meðal þjóðanna, og þeim, er Ísraels hús streymir til.
2 Farið til Kalne og litist um, og haldið þaðan til Hamat hinnar miklu og farið ofan til Gat í Filisteu. Eruð þér betri en þessi konungsríki, eða er land yðar stærra en land þeirra?
3 Þeir ímynda sér, að hinn illi dagur sé hvergi nærri, og efla yfirdrottnun ranglætisins.
4 Þeir hvíla á legubekkjum af fílsbeini og liggja flatir á hvílbeðjum sínum. Þeir eta lömb af sauðahjörðinni og ungneyti úr alistíunni.
5 Þeir raula undir með hörpunni, setja saman ljóð eins og Davíð.
6 Þeir drekka vínið úr skálum og smyrja sig með úrvals-olíu _ en eyðing Jósefs rennur þeim ekki til rifja.
7 Fyrir því skulu þeir nú herleiddir verða í fararbroddi hinna herleiddu, og þá skal fagnaðaróp flatmagandi sælkeranna þagna.
8 Drottinn Guð hefir svarið við sjálfan sig, _ segir Drottinn, Guð allsherjar: Ég hefi viðbjóð á ofmetnaði Jakobs, ég hata hallir hans og framsel borgina og allt, sem í henni er.
9 Ef tíu menn eru eftir í einu húsi, skulu þeir deyja,
10 og ef frændi hans og líkbrennumaður tekur hann upp til þess að bera beinin út úr húsinu og segir við þann, sem er í innsta afkima hússins: "Er nokkur eftir hjá þér?" og hinn segir: "Nei!" þá mun hann segja: "Þei, þei!" Því að nafn Drottins má ekki nefna.
11 Því sjá, Drottinn býður að slá skuli stóru húsin, þar til er þau hrynja, og litlu húsin, þar til er þau rifna.
12 Hlaupa hestar yfir kletta, eða erja menn sjóinn með uxum, úr því þér umhverfið réttinum í eitur og ávöxtum réttlætisins í malurt?
13 Þér gleðjist yfir Lódebar, þér segið: "Höfum vér ekki fyrir eigin rammleik unnið Karnaím?"
14 Já, sjá, gegn yður, Ísraelsmenn, _ segir Drottinn, Guð allsherjar _ mun ég hefja þjóð, og hún skal kreppa að yður þaðan frá, er leið liggur til Hamat, allt að læknum á sléttlendinu.
39 En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda.
40 Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu.
41 Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda
42 og hrópaði hárri röddu: "Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns.
43 Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín?
44 Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu.
45 Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni."
46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,
47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.
50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.
51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,
53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.
54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.
56 En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.
57 Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son.
58 Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.
59 Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn, og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum.
60 Þá mælti móðir hans: "Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes."
61 En þeir sögðu við hana: "Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni."
62 Bentu þeir þá föður hans, að hann léti þá vita, hvað sveinninn skyldi heita.
63 Hann bað um spjald og reit: "Jóhannes er nafn hans," og urðu þeir allir undrandi.
64 Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga, og hann fór að tala og lofaði Guð.
65 En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu.
66 Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: "Hvað mun barn þetta verða?" Því að hönd Drottins var með honum.
67 En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:
68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,
70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.
72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,
73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum
74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust
75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.
78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.
80 En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags, er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.
by Icelandic Bible Society