M’Cheyne Bible Reading Plan
5 Synir Rúbens, frumgetnings Ísraels _ því að frumgetningurinn var hann, en er hann hafði flekkað hvílu föður síns, var frumgetningsrétturinn veittur sonum Jósefs, sonar Ísraels (þó skyldu þeir eigi teljast frumgetnir í ættartölum);
2 því að Júda var voldugastur bræðra sinna, og einn af niðjum hans varð höfðingi, en frumgetningsréttinn fékk Jósef _
3 synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels, voru Hanok, Pallú, Hesron og Karmí.
4 Synir Jóels: Semaja, sonur hans, hans son var Góg, hans son Símeí,
5 hans son Míka, hans son Reaja, hans son Baal,
6 hans son Beera, er Tílgat Pilneser Assýríukonungur herleiddi. Hann var höfðingi fyrir Rúbensniðjum.
7 Og frændur hans eftir ættum þeirra, eins og þeir voru skráðir í ættartölum eftir uppruna þeirra, voru: Hinn fyrsti var Jeíel, þá Sakaría
8 og Bela Asasson, Semasonar, Jóelssonar. Hann bjó í Aróer og allt að Nebó og Baal Meon.
9 Og gegnt austri bjó hann allt að eyðimörkinni, er liggur í vestur frá Efratfljóti, því að þeir áttu hjarðir miklar í Gíleaðlandi.
10 En á dögum Sáls áttu þeir í ófriði við Hagríta, og er Hagrítar voru fallnir fyrir þeim, settust þeir að í tjöldum þeirra, er voru með allri austurhlið Gíleaðs.
11 Niðjar Gaðs bjuggu andspænis þeim í Basanlandi, allt til Salka.
12 Var Jóel helstur þeirra, þá Safam og Jaenaí og Safat í Basan.
13 Og frændur þeirra eftir ættum þeirra voru: Míkael, Mesúllam, Seba, Jóraí, Jaekan, Sía og Eber, sjö alls.
14 Þessir eru synir Abíhaíls, Húrísonar, Jaróasonar, Gíleaðssonar, Míkaelssonar, Jesísaísonar, Jahdósonar, Bússonar.
15 Var Ahí Abdíelsson, Gúnísonar, ætthöfðingi þeirra.
16 Og þeir bjuggu í Gíleað, í Basan og þorpunum umhverfis, og í öllum beitilöndum Sarons, svo langt sem þau náðu.
17 Þessir allir voru skráðir á dögum Jótams Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Ísraelskonungs.
18 Rúbensniðjar, Gaðsniðjar og hálf kynkvísl Manasse, þeir er hraustir menn voru, báru skjöld og sverð, bentu boga og kunnu að hernaði, fjörutíu og fjögur þúsund, sjö hundruð og sextíu herfærir menn,
19 áttu í ófriði við Hagríta og við Jetúr, Nafís og Nódab.
20 Og þeir fengu liðveislu gegn þeim, og Hagrítar og allir bandamenn þeirra gáfust þeim á vald. Því að meðan á bardaganum stóð, höfðu þeir hrópað til Guðs um hjálp, og bænheyrði hann þá, af því að þeir treystu honum.
21 Höfðu þeir burt með sér að herfangi hjarðir þeirra, fimmtíu þúsund úlfalda, tvö hundruð og fimmtíu þúsund sauði, tvö þúsund asna og hundrað þúsund manns.
22 Því að margir voru þeir, er voru lagðir sverði og féllu, því að ófriðurinn var háður að Guðs ráði. Bjuggu þeir þar eftir þá fram til herleiðingar.
23 Þeir, er tilheyrðu hálfri Manassekynkvísl, bjuggu í landinu frá Basan til Baal Hermon og til Seír og Hermonfjalls. Voru þeir fjölmennir,
24 og voru þessir ætthöfðingjar þeirra: Efer, Jíseí, Elíel, Asríel, Jeremía, Hódavja og Jahdíel. Voru þeir kappar miklir og nafnkunnir menn, höfðingjar í ættum sínum.
25 En er þeir sýndu ótrúmennsku Guði feðra sinna og tóku fram hjá með guðum þjóðflokka þeirra, er fyrir voru í landinu, en Guð hafði eytt fyrir þeim,
26 þá æsti Guð Ísraels reiði Púls Assýríukonungs og reiði Tílgat Pilnesers, Assýríukonungs, og herleiddi hann Rúbensniðja, Gaðsniðja og hálfa kynkvísl Manasse og flutti þá til Hala, Habór, Hara og Gósanfljóts, og er svo enn í dag.
6 Synir Leví: Gersom, Kahat og Merarí.
2 Og synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel.
3 Og synir Amrams: Aron, Móse og Mirjam. Og synir Arons: Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.
4 Eleasar gat Pínehas, Pínehas gat Abísúa,
5 Abísúa gat Búkkí, Búkkí gat Ússí,
6 Ússí gat Serahja, Serahja gat Merajót,
7 Merajót gat Amarja, Amarja gat Ahítúb,
8 Ahítúb gat Sadók, Sadók gat Akímaas,
9 Akímaas gat Asarja, Asarja gat Jóhanan,
10 Jóhanan gat Asarja, hann sem var prestur í musterinu, er Salómon byggði í Jerúsalem.
11 En Asarja gat Amarja, Amarja gat Ahítúb,
12 Ahítúb gat Sadók, Sadók gat Sallúm,
13 Sallúm gat Hilkía, Hilkía gat Asarja,
14 Asarja gat Seraja, Seraja gat Jósadak.
15 En Jósadak fór burt, þegar Drottinn lét Nebúkadnesar herleiða Júdamenn og Jerúsalembúa.
16 Synir Leví: Gersom, Kahat og Merarí.
17 Og þessi eru nöfn á sonum Gersoms: Libní og Símeí.
18 Og synir Kahats voru: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel.
19 Synir Merarí: Mahelí og Músí. Og þessar eru ættir levíta eftir ættfeðrum þeirra.
20 Frá Gersom eru komnir: Libní, sonur hans, hans son Jahat, hans son Simma,
21 hans son Jóa, hans son Íddó, hans son Sera, hans son Jeatraí.
22 Synir Kahats: Ammínadab, sonur hans, hans son Kóra, hans son Assír,
23 hans son Elkana, hans son Ebjasaf, hans son Assír,
24 hans son Tahat, hans son Úríel, hans son Ússía, hans son Sál.
25 Og synir Elkana: Amasaí og Ahímót,
26 hans sonur Elkana, hans son Sofaí, hans son Nahat,
27 hans son Elíab, hans son Jeróham, hans son Elkana.
28 Og synir Samúels voru: Jóel, frumgetningurinn, og hinn annar Abía.
29 Synir Merarí: Mahelí, hans son var Libní, hans son Símeí, hans son Ússa,
30 hans son Símea, hans son Haggía, hans son Asaja.
31 Þessir eru þeir, er Davíð skipaði til söngs í húsi Drottins, er örkin hafði fundið hæli.
32 Þjónuðu þeir við sönginn fyrir dyrum samfundatjalds-búðarinnar, uns Salómon reisti musteri Drottins í Jerúsalem, og gegndu þeir þjónustu sinni eftir reglum þeim, er fyrir þá voru lagðar.
33 Þessir eru þeir, er þjónustu þessari gegndu og synir þeirra: Af sonum Kahatíta: Heman, söngvarinn, Jóelsson, Samúelssonar,
34 Elkanasonar, Jeróhamssonar, Elíelssonar, Tóasonar,
35 Súfssonar, Elkanasonar, Mahatssonar, Amasaísonar,
36 Elkanasonar, Jóelssonar, Asaríasonar, Sefaníasonar,
37 Tahatssonar, Assírssonar, Ebjasafssonar, Kórasonar,
38 Jíseharssonar, Kahatssonar, Levísonar, Ísraelssonar.
39 Bróðir hans var Asaf, er stóð honum til hægri handar, Asaf Berekíason, Símeasonar,
40 Míkaelssonar, Baasejasonar, Malkíasonar,
41 Etnísonar, Serasonar, Adajasonar,
42 Etanssonar, Simmasonar, Simmeísonar,
43 Jahatssonar, Gersomssonar, Levísonar.
44 Og bræður þeirra, synir Merarí, stóðu til vinstri handar: Etan Kísíson, Abdísonar, Mallúkssonar,
45 Hasabjasonar, Amasjasonar, Hilkíasonar,
46 Amsísonar, Banísonar, Semerssonar,
47 Mahelísonar, Músísonar, Merarísonar, Levísonar.
48 Og bræður þeirra, levítarnir, voru settir yfir alla þjónustuna við musterisbústað Guðs.
49 En Aron og synir hans fórnuðu á brennifórnaraltarinu og reykelsisaltarinu og önnuðust öll störf í Hinu allrahelgasta og að friðþægja fyrir Ísrael _ að öllu leyti eins og Móse, þjónn Guðs, hafði fyrirskipað.
50 Og þessir eru synir Arons: Eleasar, sonur hans, hans son Pínehas, hans son Abísúa,
51 hans son Búkkí, hans son Ússí, hans son Serahja,
52 hans son Merajót, hans son Amaría, hans son Ahítúb,
53 hans son Sadók, hans son Akímaas.
54 Þetta eru bústaðir þeirra, taldir eftir tjaldbúðum í héraði þeirra: Niðjum Arons, ætt Kahatíta _ því að fyrsti hluturinn hlotnaðist þeim _
55 gáfu þeir Hebron í Júdalandi og beitilandið umhverfis hana.
56 En akurland borgarinnar og þorpin, er að henni lágu, gáfu þeir Kaleb Jefúnnesyni.
57 En sonum Arons gáfu þeir griðastaðinn Hebron, enn fremur Líbna og beitilandið, er að henni lá, Jattír og Estamóa og beitilandið, er að henni lá,
58 Hólon og beitilandið, er að henni lá, Debír og beitilandið, er að henni lá,
59 Asan og beitilandið, er að henni lá, og Bet Semes og beitilandið, er að henni lá.
60 Og frá Benjamínsættkvísl: Geba og beitilandið, er að henni lá, Allemet og beitilandið, er að henni lá, og Anatót og beitilandið, er að henni lá. Alls voru borgir þeirra þrettán, og beitilöndin, er að þeim lágu.
61 Aðrir synir Kahats fengu tíu borgir eftir hlutkesti frá ættum Efraímskynkvíslar og Danskynkvíslar og frá hálfri Manassekynkvísl.
62 En synir Gersoms fengu þrettán borgir eftir ættum þeirra frá Íssakarskynkvísl, Asserskynkvísl, Naftalíkynkvísl og frá Manassekynkvísl í Basan.
63 Synir Merarí fengu eftir hlutkesti tólf borgir eftir ættum þeirra, frá Rúbenskynkvísl, Gaðskynkvísl og frá Sebúlonskynkvísl.
64 Þannig gáfu Ísraelsmenn levítum borgirnar og beitilöndin, er að þeim lágu,
65 og þeir gáfu eftir hlutkesti frá kynkvísl Júdasona, frá kynkvísl Símeonssona og frá kynkvísl Benjamínssona þessar borgir, sem þeir nafngreindu.
66 Og að því er snertir ættir þeirra Kahatssona, þá fengu þeir borgir þær, er þeim hlotnuðust, frá Efraímskynkvísl.
67 Og þeir gáfu þeim griðastaðinn Síkem og beitilandið, er að henni lá, á Efraímfjöllum, enn fremur Geser og beitilandið, er að henni lá,
68 Jokmeam og beitilandið, er að henni lá, Bet Hóron og beitilandið, er að henni lá,
69 Ajalon og beitilandið, er að henni lá, og Gat Rimmon og beitilandið, er að henni lá.
70 Og frá hálfri Manassekynkvísl: Aner og beitilandið, er að henni lá, og Jíbleam og beitilandið, er að henni lá _ fyrir ættir hinna Kahatssona.
71 Synir Gersoms fengu frá ætt hálfrar Manassekynkvíslar: Gólan í Basan og beitilandið, er að henni lá, og Astarót og beitilandið, er að henni lá.
72 Og frá Íssakarskynkvísl: Kedes og beitilandið, er að henni lá, Dabrat og beitilandið, er að henni lá,
73 Ramót og beitilandið, er að henni lá, og Anem og beitilandið, er að henni lá.
74 Og frá Asserskynkvísl: Masal og beitilandið, er að henni lá, Abdón og beitilandið, er að henni lá,
75 Húkok og beitilandið, er að henni lá, og Rehób og beitilandið, er að henni lá.
76 Og frá Naftalíkynkvísl: Kedes í Galíl og beitilandið, er að henni lá, Hammót og beitilandið, er að henni lá, og Kirjataím og beitilandið, er að henni lá.
77 Þeir synir Merarí, er enn voru eftir, fengu frá Sebúlonskynkvísl: Rimmónó og beitilandið, er að henni lá, og Tabór og beitilandið, er að henni lá.
78 Og hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó, fyrir austan Jórdan, fengu þeir frá Rúbenskynkvísl: Beser í eyðimörkinni og beitilandið, er að henni lá, Jahsa og beitilandið, er að henni lá,
79 Kedemót og beitilandið, er að henni lá, og Mefaat og beitilandið, er að henni lá.
80 Og frá Gaðskynkvísl: Ramót í Gíleað og beitilandið, er að henni lá, Mahanaím og beitilandið, er að henni lá,
81 Hesbon og beitilandið, er að henni lá, og Jaser og beitilandið, er að henni lá.
10 Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Ár eftir ár eru bornar fram sömu fórnir, sem geta aldrei gjört þá fullkomna til frambúðar, sem ganga fram fyrir Guð.
2 Annars hefðu þeir hætt að bera þær fram. Dýrkendurnir hefðu þá ekki framar verið sér meðvitandi um synd, ef þeir hefðu í eitt skipti fyrir öll orðið hreinir.
3 En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert.
4 Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.
5 Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér.
6 Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki.
7 Þá sagði ég: "Sjá, ég er kominn _ í bókinni er það ritað um mig _ ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!"
8 Fyrst segir hann: "Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað, og eigi geðjaðist þér að þeim." En það eru einmitt þær, sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu.
9 Síðan segir hann: "Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn." Hann tekur burt hið fyrra til þess að staðfesta hið síðara.
10 Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.
11 Og svo er því farið um hvern prest, að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó geta aldrei afmáð syndir.
12 En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs
13 og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.
14 Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða.
15 Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann:
16 Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau.
17 Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota.
18 En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.
19 Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga,
20 þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn.
21 Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs.
22 Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni.
23 Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.
24 Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka.
25 Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.
26 Því að ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar,
27 heldur er það óttaleg bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum Guðs.
28 Sá, er að engu hefur lögmál Móse, verður vægðarlaust líflátinn, ef tveir eða þrír vottar bera.
29 Hve miklu þyngri hegning ætlið þér þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fótum treður son Guðs og vanhelgar blóð sáttmálans, er hann var helgaður í, og smánar anda náðarinnar?
30 Vér þekkjum þann, er sagt hefur: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda." Og á öðrum stað: "Drottinn mun dæma lýð sinn."
31 Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs.
32 Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga.
33 Það var ýmist, að þér sjálfir, smánaðir og aðþrengdir, voruð hafðir að augnagamni, eða þá hitt, að þér tókuð þátt í kjörum þeirra, er áttu slíku að sæta.
34 Þér þjáðust með bandingjum, og tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar, því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega.
35 Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun.
36 Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.
37 Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.
38 Minn réttláti mun lifa fyrir trúna, en skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum.
39 En vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.
4 Heyrið þetta orð, þér Basans kvígur á Samaríufjalli, sem kúgið hina snauðu, misþyrmið hinum fátæku, sem segið við menn yðar: "Dragið að, svo að vér megum drekka!"
2 Drottinn Guð hefir svarið við heilagleik sinn: Sjá, þeir dagar munu yfir yður koma, að þér skuluð verða burt færðar með önglum og hinar síðustu af yður með goggum.
3 Þá munuð þér fara út um veggskörðin, hver beint sem horfir, og yður mun verða varpað til Hermon, _ segir Drottinn.
4 Farið til Betel og syndgið, til Gilgal og syndgið enn þá meir! Berið fram sláturfórnir yðar að morgni dags, á þriðja degi tíundir yðar!
5 Brennið sýrð brauð í þakkarfórn, boðið til sjálfviljafórna, gjörið þær heyrinkunnar! Því að það er yðar yndi, Ísraelsmanna, _ segir Drottinn Guð.
6 Ég hefi látið yður halda hreinum tönnum í öllum borgum yðar og látið mat skorta í öllum bústöðum yðar. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
7 Ég synjaði yður um regn, þá er þrír mánuðir voru til uppskeru, og ég lét rigna í einni borg, en ekki í annarri. Ein akurspildan vökvaðist af regni, en önnur akurspilda, sem regnið vökvaði ekki, hún skrælnaði.
8 Menn ráfuðu úr tveimur, þremur borgum til einnar borgar til að fá sér vatn að drekka, en fengu þó eigi slökkt þorstann. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
9 Ég refsaði yður með korndrepi og gulnan. Ég eyddi aldingarða yðar og víngarða, engisprettur upp átu fíkjutré yðar og olíutré. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
10 Ég sendi yður drepsótt eins og á Egyptalandi, ég deyddi æskumenn yðar með sverði, auk þess voru hestar yðar fluttir burt hernumdir, og ég lét hrævadauninn úr herbúðum yðar leggja fyrir vit yðar. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
11 Ég olli umturnun meðal yðar, eins og þegar Guð umturnaði Sódómu og Gómorru, og þér voruð eins og brandur úr báli dreginn. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn.
12 Fyrir því vil ég svo með þig fara, Ísrael. Af því að ég ætla að fara svo með þig, þá ver viðbúinn að mæta Guði þínum, Ísrael!
13 Sjá, hann er sá, sem myndað hefir fjöllin og skapað vindinn, sá sem boðar mönnunum það, er hann hefir í hyggju, sá er gjörir myrkur að morgunroða og gengur eftir hæðum jarðarinnar. Drottinn, Guð allsherjar er nafn hans.
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.
2 Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.
3 Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.
4 Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.
5 Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum
6 með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum
7 til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,
8 til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,
9 til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.
150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
by Icelandic Bible Society