M’Cheyne Bible Reading Plan
3 Þessir eru synir Davíðs, er hann eignaðist í Hebron: Ammon, frumgetningurinn, við Akínóam frá Jesreel; annar var Daníel, við Abígail frá Karmel;
2 hinn þriðji Absalon, sonur Maöku, dóttur Talmaí konungs í Gesúr; hinn fjórði Adónía, sonur Haggítar;
3 hinn fimmti Sefatja, við Abítal; hinn sjötti Jitream, við Eglu, konu sinni.
4 Sex fæddust honum í Hebron. Þar ríkti hann sjö ár og sex mánuði, en í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár.
5 Og þessa eignaðist hann í Jerúsalem: Símea, Sóbab, Natan og Salómon _ fjóra alls _ við Batsúa Ammíelsdóttur,
6 enn fremur Jíbhar, Elísama, Elífelet,
7 Nóga, Nefeg, Jafía,
8 Elísama, Eljada, Elífelet _ níu alls.
9 Þetta eru allir synir Davíðs, að hjákvennasonum eigi meðtöldum. En systir þeirra var Tamar.
10 Sonur Salómons var Rehabeam, hans son var Abía, hans son Asa, hans son Jósafat,
11 hans son Jóram, hans son Ahasía, hans son Jóas,
12 hans son Amasía, hans son Asaría, hans son Jótam,
13 hans son Akas, hans son Hiskía, hans son Manasse,
14 hans son Amón, hans son Jósía.
15 Og synir Jósía voru: Jóhanan, frumgetningurinn, annar Jójakím, þriðji Sedekía, fjórði Sallúm.
16 Og synir Jójakíms: Jekonja, sonur hans; hans son var Sedekía.
17 Synir Jekonja, hins herleidda: Sealtíel, sonur hans,
18 Malkíram, Pedaja, Seneassar, Jekamja, Hósama og Nedabja.
19 Synir Pedaja voru: Serúbabel og Símeí, og synir Serúbabels: Mesúllam og Hananja. Systir þeirra var Selómít.
20 Og enn fremur Hasúba, Óhel, Berekía, Hasadja, Júsab Hesed _ fimm alls.
21 Synir Hananja voru: Pelatja og Jesaja, synir Refaja, synir Arnans, synir Óbadía, synir Sekanja.
22 Synir Sekanja voru: Semaja, og synir Semaja: Hattúa, Jígeal, Baría, Nearja og Safat _ sex alls.
23 Synir Nearja voru: Eljóenaí, Hiskía, Asríkam _ þrír alls.
24 En synir Eljóenaí voru: Hódavja, Eljasíb, Pelaja, Akkúb, Jóhanan, Delaja, Ananí _ sjö alls.
4 Synir Júda: Peres, Hesron, Karmí, Húr og Sóbal.
2 En Reaja, sonur Sóbals, gat Jahat, Jahat gat Ahúmaí og Lahad. Þetta eru ættir Sóreatíta.
3 Þessir voru synir Etams: Jesreel, Jisma, Jídbas, en systir þeirra hét Haselelpóní.
4 Enn fremur Penúel, faðir Gedórs, og Eser, faðir Húsa. Þetta eru synir Húrs, frumburðar Efrata, föður að Betlehem.
5 Ashúr, faðir að Tekóa, átti tvær konur, Heleu og Naeru.
6 Og Naera ól honum Ahússam, Hefer, Temní og Ahastaríta. Þetta eru synir Naeru.
7 Og synir Heleu voru: Seret, Jísehar og Etnam.
8 En Kós gat Anúb, Sóbeba og ættir Aharhels, sonar Harúms.
9 En Jaebes var fyrir bræðrum sínum, og móðir hans nefndi hann Jaebes og mælti: "Ég hefi alið hann með harmkvælum."
10 Og Jaebes ákallaði Guð Ísraels og mælti: "Blessa þú mig og auk landi við mig, og verði hönd þín með mér, og bæg þú ógæfunni frá mér, svo að engin harmkvæli komi yfir mig." Og Guð veitti honum það, sem hann bað um.
11 En Kelúb, bróðir Súha, gat Mehír. Hann er faðir Estóns.
12 En Estón gat Bet Rafa, Pasea og Tehinna, föður að borg Nahasar; þetta eru Rekamenn.
13 Synir Kenas: Otníel og Seraja. Og synir Otníels: Hatat.
14 En Meonotaí gat Ofra, og Seraja gat Jóab, föður að Smiðadal, því að þeir voru smiðir.
15 Synir Kalebs Jefúnnesonar: Írú, Ela og Naam; synir Ela: Kenas.
16 Synir Jehalelels: Síf, Sífa, Tirja og Asareel.
17 Synir Esra: Jeter, Mered, Efer og Jalon. Og þessir eru synir Bitju, dóttur Faraós, er gekk að eiga Mered: Hún ól Mirjam, Sammaí og Jísba, föður Estemóa.
18 En kona hans, er var frá Júda, ól Jered, föður að Gedór, og Heber, föður að Sókó, og Jekútíel, föður að Sanóa.
19 Synir konu Hódía, systur Nahams: faðir Kegílu, Garmíta, Estemóa og Maakatíta.
20 Synir Símons: Amnon, Rinna, Ben Hanan og Tílon; og synir Jíseí: Sóhet og sonur Sóhets.
21 Synir Sela, sonar Júda: Ger, faðir Leka, Laeda, faðir Maresa, og ættir baðmullarverkmannanna frá Bet Asbea,
22 enn fremur Jókím og mennirnir frá Kóseba, Jóas og Saraf, er unnu Móab og Jasúbí Lehem. Þetta eru fornar sögur.
23 Þeir voru leirkerasmiðir og byggðu Netaím og Gedera. Hjá konungi, við þjónustu hans, þar bjuggu þeir.
24 Synir Símeons: Nemúel, Jamín, Jaríb, Sera, Sál.
25 Hans sonur var Sallúm, hans son Mibsam, hans son Misma.
26 Og synir Misma voru: Hammúel, sonur hans, hans son Sakkúr, hans son Símeí.
27 Símeí átti sextán sonu og sex dætur, en bræður hans áttu eigi margt barna, og ætt þeirra varð eigi svo fjölmenn sem Júdamenn.
28 Þeir bjuggu í Beerseba, Mólada, Hasar Súal,
29 Bílha, Esem, Tólad,
30 Betúel, Harma, Siklag,
31 Bet Markabót, Hasar Súsím, Bet Bíreí og Saaraím. Þetta voru borgir þeirra, þangað til Davíð tók ríki.
32 Og þorp þeirra voru: Etam, Ain, Rimmon, Tóken og Asan _ fimm borgir,
33 og auk þess öll þau þorp, er lágu kringum borgir þessar, allt til Baal. Þetta voru bústaðir þeirra, og höfðu þeir ættartal fyrir sig.
34 Mesóbab, Jamlek, Jósa, sonur Amasja,
35 Jóel, Jehú, sonur Jósíbja, Serajasonar, Asíelssonar,
36 og Eljóenaí, Jaakoba, Jesóhaja, Asaja, Adíel, Jesímíel og Benaja,
37 Sísa, sonur Sífeí, Allonssonar, Jedajasonar, Simrísonar, Semajasonar;
38 þessir menn sem hér eru nafngreindir, voru höfðingjar í ættum sínum, og hafa ættir þeirra orðið mjög fjölmennar.
39 Og þeir fóru þaðan, er leið liggur til Gedór, allt þar til kemur austur fyrir dalinn, til þess að leita haglendis fyrir sauði sína.
40 Og þeir fundu feitt og gott haglendi, og landrými var þar mikið, og rólegt var þar og friðsamlegt, því að þeir, er áður höfðu byggt þar, voru komnir af Kam.
41 Þá komu þeir, sem hér eru nafngreindir, á dögum Hiskía Júdakonungs, eyddu tjöldum þeirra og drápu Meúníta, sem þar voru, og gjöreyddu þeim allt fram á þennan dag og bjuggu þar eftir þá, því að þar var haglendi fyrir sauði þeirra.
42 Og af þeim Símeonsniðjum fóru fimm hundruð manns til Seírfjalla, og voru þeir Pelatja, Nearja, Refaja og Ússíel, synir Jíseí, fyrir þeim.
43 Drápu þeir hinar síðustu leifar Amalekíta og bjuggu þar allt fram á þennan dag.
9 Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm.
2 Tjaldbúð var gjörð, hin fremri, og í henni voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin, og heitir hún "hið heilaga".
3 En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð, sem hét "hið allrahelgasta".
4 Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin, sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons, sem laufgast hafði, og sáttmálsspjöldin.
5 En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvað fyrir sig á nú ekki að ræða.
6 Þessu er þannig komið fyrir. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína.
7 Inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án blóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir lýðsins, sem drýgðar hafa verið af vangá.
8 Með því sýnir heilagur andi, að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin enn stendur.
9 Hún er ímynd þess tíma, sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir, sem megna ekki að færa þeim, sem innir þjónustuna af hendi, vissu um að vera fullkominn.
10 Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli, ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta, sem mönnum eru á herðar lagðar allt til tíma viðreisnarinnar.
11 En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja er ekki af þessari sköpun.
12 Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar.
13 Ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til ytri hreinleika,
14 hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði.
15 Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleifð, sem heitið var.
16 Arfleiðsluskrá tekur ekki gildi fyrr en sá er dáinn, er hana gjörði.
17 Hún er óhagganleg, þegar um látna er að ræða, en er í engu gildi meðan arfleiðandi lifir.
18 Þess vegna var ekki heldur hinn fyrri sáttmáli vígður án blóðs.
19 Þegar Móse hafði kunngjört gjörvöllum lýðnum öll boðorð lögmálsins, þá tók hann blóð kálfanna og hafranna ásamt vatni og skarlatsrauðri ull og ísópi og stökkti bæði á sjálfa bókina og allan lýðinn
20 og mælti: "Þetta er blóð sáttmálans, sem Guð lét gjöra við yður."
21 Sömuleiðis stökkti hann blóðinu á tjaldbúðina og öll áhöldin við helgiþjónustuna.
22 Og samkvæmt lögmálinu er það nálega allt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.
23 Það var því óhjákvæmilegt, að eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru, yrðu hreinsaðar með slíku. En sjálft hið himneska krefst betri fórna en þessara.
24 Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.
25 Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð.
26 Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni.
27 Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm,
28 þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.
3 Heyrið þetta orð, sem Drottinn hefir talað gegn yður, þér Ísraelsmenn, gegn öllum þeim kynstofni, sem ég leiddi út af Egyptalandi, svolátandi:
2 Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar. Þess vegna hegni ég yður fyrir allar misgjörðir yðar.
3 Mega tveir menn verða samferða, nema þeir mæli sér mót?
4 Mun ljónið öskra í skóginum, ef það hefir enga bráð? Mun ljónshvolpurinn láta til sín heyra í bæli sínu, ef hann hefir engu náð?
5 Getur fuglinn komið í gildruna á jörðinni, ef engin snara er þar fyrir hann? Hrökkur gildran upp af jörðinni, nema eitthvað hafi í hana fengist?
6 Verður lúðurinn svo þeyttur innan borgar, að fólkið flykkist ekki saman í angist? Vill nokkur ógæfa svo til í borginni, að Drottinn sé ekki valdur að henni?
7 Nei, Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.
8 Hafi ljónið öskrað, hver skyldi þá ekki óttast? Hafi Drottinn Guð talað, hver skyldi þá ekki spá?
9 Kallið út yfir hallirnar í Asdód og hallirnar í Egyptalandi og segið: Safnist saman upp á Samaríufjöll og lítið á hina miklu ókyrrð í borginni og ofbeldisverkin inni í henni.
10 Þeir kunna ekki rétt að gjöra _ segir Drottinn _, þeir sem hrúga upp ofríki og kúgun í höllum sínum.
11 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Fjandmenn munu umkringja landið á alla vegu og rífa niður virki þín, og hallir þínar munu rændar verða.
12 Svo segir Drottinn: Eins og hirðirinn bjargar tveimur fótum eða snepli af eyra úr gini ljónsins, svo skulu Ísraelsmenn bjargast, þeir er sitja í Samaríu í legubekkjarhorni og á hvílbeðjarhægindum.
13 Heyrið og verið vottar að þessu gegn Jakobs húsi, segir Drottinn alvaldur, Guð allsherjar:
14 Þann dag, er ég hegni Ísraelsmönnum fyrir glæpi þeirra, vil ég láta hegninguna koma niður á ölturunum í Betel, til þess að altarishornin verði afhöggin og falli til jarðar.
15 Þá vil ég brjóta niður vetrarhallirnar ásamt sumarhöllunum, og fílabeinshallirnar skulu farast og mörg hús eyðileggjast, _ segir Drottinn.
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
by Icelandic Bible Society