M’Cheyne Bible Reading Plan
25 Á níunda ríkisári Sedekía, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadnesar Babelkonungur með allan sinn her til Jerúsalem og settist um hana, og þeir reistu hervirki hringinn í kringum hana.
2 Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs.
3 Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus,
4 þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina. Konungur hélt leiðina til sléttlendisins,
5 en her Kaldea veitti honum eftirför og náði honum á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum.
6 Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans.
7 Drápu þeir sonu Sedekía fyrir augum hans, en Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan fluttu þeir hann til Babýlon.
8 Í fimmta mánuði, á sjöunda degi mánaðarins _ það er á nítjánda ríkisári Nebúkadnesars Babelkonungs _ kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem
9 og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi.
10 En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður múrana umhverfis Jerúsalem.
11 En leifar lýðsins _ þá er eftir voru í borginni _ og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon.
12 En af almúga landsins lét lífvarðarforinginn nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla.
13 Eirsúlurnar, er voru hjá musteri Drottins, og vagna kerlauganna og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu eirinn til Babýlon.
14 Og katlana, eldspaðana, skarbítana, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir.
15 Þá tók og lífvarðarforinginn eldpönnurnar og fórnarskálarnar _ allt sem var af gulli og silfri.
16 Súlurnar tvær, hafið og vagnana, er Salómon hafði gjöra látið í musteri Drottins _ eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn.
17 Önnur súlan var átján álnir á hæð, og eirhöfuð var ofan á henni, og höfuðið var fimm álnir á hæð, og riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á riðna netinu á hinni súlunni.
18 Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og dyraverðina þrjá.
19 Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og fimm menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni _
20 þá tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs.
21 En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamathéraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.
22 Yfir lýðinn, sem eftir varð í Júda, þann er Nebúkadnesar Babelkonungur lét þar eftir verða, yfir þá setti hann Gedalja, son Ahíkams Safanssonar.
23 Og er allir hershöfðingjarnir og menn þeirra fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja landstjóra, fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson frá Netófa og Jaasanja frá Maaka ásamt mönnum sínum.
24 Vann Gedalja þeim eið og mönnum þeirra og sagði við þá: "Óttist eigi Kaldea. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna."
25 En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum, og drápu Gedalja og þá Júdamenn og Kaldea, sem hjá honum voru í Mispa.
26 Þá tók allur lýðurinn sig upp, bæði smáir og stórir, og hershöfðingjarnir og fóru til Egyptalands, því að þeir voru hræddir við Kaldea.
27 Á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, í tólfta mánuðinum, tuttugasta og sjöunda dag mánaðarins, náðaði Evíl Meródak Babelkonungur, árið sem hann kom til ríkis, Jójakín Júdakonung og tók hann úr dýflissunni.
28 Og hann talaði vingjarnlega við hann og setti stól hans ofar stólum hinna konunganna, sem hjá honum voru í Babýlon.
29 Og Jójakín fór úr bandingjafötum sínum og borðaði stöðuglega með konungi meðan hann lifði.
7 Melkísedek þessi var konungur í Salem og prestur Guðs hins hæsta. Hann gekk á móti Abraham og blessaði hann, þegar hann sneri heimleiðis eftir að hafa unnið sigur á konungunum.
2 Og honum lét Abraham í té tíund af öllu. Fyrst þýðir nafn hans "réttlætis konungur", en hann heitir enn fremur Salem-konungur, það er "friðar konungur".
3 Hann er föðurlaus, móðurlaus, ekki ættfærður, og hefur hvorki upphaf daga né endi lífs. Hann er líkur syni Guðs, hann heldur áfram að vera prestur um aldur.
4 Virðið nú fyrir yður, hvílíkur maður það var, sem Abraham, sjálfur forfaðirinn, gaf valda tíund af herfanginu.
5 Og víst er um það, að þeim Levísonum, er prestþjónustuna fá, er boðið að taka tíund af lýðnum eftir lögmálinu, það er að segja af bræðrum sínum, enda þótt þeir séu komnir af Abraham.
6 En sá, er eigi var ættfærður til þeirra, tók tíund af Abraham og blessaði þann, er fyrirheitin hafði.
7 En með öllu er það ómótmælanlegt, að sá sem er meiri blessar þann sem minni er.
8 Hér taka dauðlegir menn tíund, en þar tók sá er um var vitnað, að hann lifi áfram.
9 Og svo má að orði kveða, að enda Leví, hann sem tíund tekur, hafi greitt tíund, þar sem Abraham gjörði það,
10 því að enn þá var hann í lend forföður síns, þegar Melkísedek gekk á móti honum.
11 Hefði nú fullkomnun fengist með levíska prestdóminum, _ en hann var grundvöllur lögmálsins, sem lýðurinn fékk _, hver var þá framar þörf þess að segja að koma skyldi annars konar prestur að hætti Melkísedeks, en ekki að hætti Arons?
12 Þegar prestdómurinn breytist, þá verður og breyting á lögmálinu.
13 Sá sem þetta er sagt um var af annarri ætt, og af þeirri ætt hefur enginn innt þjónustu af hendi við altarið.
14 Því að alkunnugt er, að Drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefur ekkert um presta talað, að því er varðar þá ættkvísl.
15 Þetta er enn miklu bersýnilegra á því, að upp er kominn annar prestur, líkur Melkísedek.
16 Hann varð ekki prestur eftir mannlegum lögmálsboðum, heldur í krafti óhagganlegs lífs.
17 Því að um hann er vitnað: "Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks."
18 Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust.
19 Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð.
20 Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs,
21 en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: "Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu."
22 Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála.
23 Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram.
24 En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti.
25 Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.
26 Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri.
27 Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.
28 Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.
1 Orð Amosar, sem var einn af fjárhirðunum í Tekóa, það er honum vitraðist um Ísrael á dögum Ússía Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs, tveimur árum fyrir jarðskjálftann.
2 Hann sagði: Drottinn þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem. Þá munu hagar hjarðmannanna drúpa og Karmeltindur skrælna.
3 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Damaskusborgar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir þresktu Gíleað með þreskisleðum af járni,
4 mun ég senda eld á hús Hasaels, og hann mun eyða höllum Benhadads.
5 Ég mun brjóta slagbrand Damaskus og útrýma íbúunum úr Glæpadal og þeim, er ber veldissprotann, frá Yndishúsum, og Sýrlendingar skulu herleiddir verða til Kír, _ segir Drottinn.
6 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Gasa vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir herleiddu heil þorp til þess að selja í hendur Edómítum,
7 mun ég senda eld gegn múr Gasa, og hann mun eyða höllum hennar.
8 Ég mun útrýma íbúunum úr Asdód og þeim, er ber veldissprotann, frá Askalon og því næst snúa hendi minni gegn Ekron, til þess að þeir, sem eftir eru af Filistum, skuli undir lok líða, _ segir Drottinn Guð.
9 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Týrusar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir seldu heil þorp í hendur Edómítum og minntust ekki bræðrasáttmálans,
10 mun ég senda eld gegn múrum Týrusar, og hann mun eyða höllum hennar.
11 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Edómíta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir eltu bræðraþjóð sína með sverði og kæfðu alla meðaumkun, svo að hatur þeirra sundurreif endalaust og þeir geymdu stöðuglega heift sína,
12 mun ég senda eld gegn Teman, og hann mun eyða höllum Bosra.
13 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ammóníta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir ristu á kvið þungaðar konurnar í Gíleað til þess að færa út landamerki sín,
14 vil ég kveikja eld í múrum Rabba, og hann skal eyða höllum hennar, þegar æpt verður heróp á orustudeginum, þegar stormurinn geisar á degi fellibyljanna.
15 Og konungur þeirra verður að fara í útlegð með hinum, hann og höfðingjar hans, _ segir Drottinn.
144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.
2 Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.
3 Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.
4 Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.
5 Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.
6 Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.
7 Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.
8 Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.
10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.
11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.
13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,
14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.
15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.
by Icelandic Bible Society