Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 22

22 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jedída Adajadóttir og var frá Boskat.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði algjörlega í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri.

Á átjánda ríkisári Jósía konungs sendi konungur Safan Asaljason, Mesúllamssonar, kanslara, í musteri Drottins og sagði:

"Gakk þú til Hilkía æðsta prests og innsigla fé það, er borið hefir verið í musteri Drottins, það er dyraverðirnir hafa safnað saman af lýðnum,

og fá það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón hafa með musteri Drottins, þeir skulu fá það í hendur verkamönnunum, sem vinna að því í musteri Drottins að gjöra við skemmdir á musterinu,

trésmiðunum og byggingamönnunum og múrurunum, svo og til að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við musterið.

Þó er ekki haldinn reikningur við þá á fénu, sem þeim var fengið í hendur, heldur gjöra þeir það upp á æru og trú."

Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana.

Síðan fór Safan kanslari til konungs og skýrði konungi frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa látið af hendi fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur verkstjórunum, sem umsjón hafa með musteri Drottins."

10 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las hana fyrir konungi.

11 En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín.

12 Og hann bauð þeim Hilkía presti, Ahíkam Safanssyni, Akbór Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:

13 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir lýðinn og fyrir allan Júda um þessa nýfundnu bók, því að mikil er heift Drottins, sú er upptendruð er í gegn oss, af því að feður vorir hafa eigi hlýtt orðum bókar þessarar með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í henni."

14 Þá fóru þeir Hilkía prestur, Ahíkam, Akbór, Safan og Asaja til Huldu spákonu, konu Sallúms Tikvasonar, Harhasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana.

15 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:

16 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið,

17 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna.

18 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:

19 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig _ segir Drottinn.

20 Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.

Bréfið til Hebrea 4

Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr.

Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú.

En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: "Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims.

Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: "Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín."

Og aftur á þessum stað: "Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar."

Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni.

Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: "Í dag." Eins og fyrr hefur sagt verið: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar."

Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag.

Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.

10 Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.

11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.

12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

13 Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.

14 Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna.

15 Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.

16 Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.

Jóel 1

Orð Drottins, sem kom til Jóels Petúelssonar.

Heyrið þetta, þér öldungar, og hlustið, allir íbúar landsins! Hefir slíkt nokkurn tíma til borið á yðar dögum eða á dögum feðra yðar?

Segið börnum yðar frá því og börn yðar sínum börnum og börn þeirra komandi kynslóð.

Það sem nagarinn leifði, það át átvargurinn, það sem átvargurinn leifði, upp át flysjarinn, og það sem flysjarinn leifði, upp át jarðvargurinn.

Vaknið, þér ofdrykkjumenn, og grátið! Kveinið allir þér, sem vín drekkið, yfir því að vínberjaleginum er kippt burt frá munni yðar.

Því að voldug þjóð og ótöluleg hefir farið yfir land mitt, tennur hennar eru sem ljónstennur og jaxlar hennar sem dýrsins óarga.

Hún hefir eytt víntré mín og brotið fíkjutré mín, hún hefir flegið allan börk af þeim og varpað þeim um koll, greinar þeirra urðu hvítar.

Kveina þú eins og mær, sem klæðist sorgarbúningi vegna unnusta æsku sinnar.

Matfórnir og dreypifórnir eru numdar burt úr húsi Drottins, prestarnir, þjónar Drottins, eru hryggir.

10 Vellirnir eru eyddir, akurlendið drúpir, því að kornið er eytt, vínberjalögurinn hefir brugðist og olían er þornuð.

11 Akurmennirnir eru sneyptir, vínyrkjumennirnir kveina, vegna hveitisins og byggsins, því að útséð er um nokkra uppskeru af akrinum.

12 Vínviðurinn er uppskrælnaður, fíkjutrén fölnuð, granateplatrén, pálmaviðurinn og apaldurinn, öll tré merkurinnar eru uppþornuð, já, öll gleði er horfin frá mannanna börnum.

13 Gyrðist hærusekk og harmið, þér prestar! Kveinið, þér altarisþjónar! Komið, verið á næturnar í hærusekk, þér þjónar Guðs míns, því að matfórn og dreypifórn eru burt numdar úr húsi Guðs yðar.

14 Stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu. Kallið saman öldungana, alla íbúa landsins í húsi Drottins, Guðs yðar, og hrópið til Drottins.

15 Æ, sá dagur! Því að dagur Drottins er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.

16 Hefir ekki fæðan verið hrifin burt fyrir augum vorum og er ekki gleði og fögnuður horfinn úr húsi Guðs vors?

17 Frækornin liggja skorpnuð undir moldarkökkunum, forðabúrin eru eydd, kornhlöðurnar niðurrifnar, því að kornið er uppskrælnað.

18 Ó, hversu skepnurnar stynja, nautahjarðirnar rása ærðar, af því að þær hafa engan haga, sauðahjarðirnar þola og nauð.

19 Til þín, Drottinn, kalla ég, því að eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar og logi sviðið öll tré merkurinnar.

20 Jafnvel dýr merkurinnar mæna til þín, því að vatnslækirnir eru uppþornaðir og eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar.

Sálmarnir 140-141

140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,

þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.

Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]

Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.

Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]

Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.

Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.

Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]

10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.

11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.

12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.

13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.

14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.

141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.

Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.

Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.

Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.

Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.

Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.

Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.

Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.

Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.

10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society