Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 21

21 Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hefsíba.

Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

Hann byggði að nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði afmáð, reisti Baal ölturu og lét gjöra aséru, eins og Akab Ísraelskonungur hafði gjöra látið, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim.

Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: "Í Jerúsalem vil ég láta nafn mitt búa."

Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins.

Hann lét og son sinn ganga gegnum eldinn, fór með spár og fjölkynngi og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt er í augum Drottins, og egndi hann til reiði.

Hann setti asérulíkneskið, er hann hafði gjöra látið, í musterið, er Drottinn hafði sagt um við Davíð og Salómon, son hans: "Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu.

Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því, er Móse þjónn minn fyrir þá lagði."

En þeir hlýddu eigi, og Manasse leiddi þá afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.

10 Þá talaði Drottinn fyrir munn þjóna sinna, spámannanna, á þessa leið:

11 "Sakir þess að Manasse Júdakonungur hefir drýgt þessar svívirðingar, sem verri eru en allt það, sem Amorítar aðhöfðust, þeir er á undan honum voru, og einnig komið Júda til að syndga með skurðgoðum sínum _

12 fyrir því mælir Drottinn, Ísraels Guð, svo: Ég mun leiða ógæfu yfir Jerúsalem og Júda, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.

13 Ég mun draga mælivað yfir Jerúsalem, eins og fyrrum yfir Samaríu, og mælilóð, eins og yfir Akabsætt, og þurrka Jerúsalem burt, eins og þegar þurrkað er af skál og skálinni síðan hvolft, þegar þurrkað hefir verið af henni.

14 Og ég mun útskúfa leifum arfleifðar minnar og gefa þá í hendur óvinum þeirra, svo að þeir verði öllum óvinum sínum að bráð og herfangi,

15 vegna þess að þeir hafa gjört það, sem illt er í augum mínum, og egnt mig til reiði frá þeim degi, er feður þeirra fóru burt af Egyptalandi, allt fram á þennan dag."

16 Manasse úthellti og mjög miklu saklausu blóði, þar til er hann hafði fyllt Jerúsalem með því enda á milli, auk þeirrar syndar sinnar, að hann kom Júda til að gjöra það sem illt var í augum Drottins.

17 Það sem meira er að segja um Manasse og allt, sem hann gjörði, og synd hans, þá er hann drýgði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

18 Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann.

19 Amón hafði tvo um tvítugt, þá er hann varð konungur, og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Mesúllemet Harúsdóttir og var frá Jotba.

20 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans,

21 og fetaði algjörlega í fótspor föður síns og þjónaði skurðgoðunum, sem faðir hans hafði þjónað, og féll fram fyrir þeim.

22 Hann yfirgaf Drottin, Guð feðra sinna, og gekk eigi á vegum hans.

23 Þjónar Amóns gjörðu samsæri gegn honum og drápu konung í höll hans.

24 En landslýðurinn drap alla mennina, er gjört höfðu samsæri gegn Amón konungi. Síðan tók landslýðurinn Jósía son hans til konungs eftir hann.

25 Það sem meira er að segja um Amón, það er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

26 Og hann var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Jósía sonur hans tók ríki eftir hann.

Bréfið til Hebrea 3

Bræður heilagir! Þér eruð hluttakar himneskrar köllunar. Gefið því gætur að Jesú, postula og æðsta presti játningar vorrar.

Hann var trúr þeim, er hafði skipað hann, eins og Móse var það líka í öllu hans húsi.

En hann er verður meiri dýrðar en Móse, eins og sá, er húsið gjörði, á meiri heiður en húsið sjálft.

Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.

Móse var að sönnu trúr í öllu hans húsi, eins og þjónn, til vitnisburðar um það, sem átti að verða talað,

en Kristur eins og sonur yfir húsi hans. Og hans hús erum vér, ef vér höldum djörfunginni og voninni, sem vér miklumst af.

Því er það, eins og heilagur andi segir: Ef þér heyrið raust hans í dag,

þá forherðið ekki hjörtu yðar, eins og í uppreisninni á degi freistingarinnar á eyðimörkinni;

þar sem feður yðar freistuðu mín og reyndu mig, þótt þeir fengju að sjá verkin mín í fjörutíu ár.

10 Þess vegna varð ég gramur kynslóð þessari og sagði: Án afláts villast þeir í hjörtum sínum. Þeir þekktu ekki vegu mína.

11 Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.

12 Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.

13 Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir "í dag", til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.

14 Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.

15 Sagt er: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni" _

16 Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse?

17 Og hverjum "var hann gramur í fjörutíu ár"? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni?

18 Og hverjum "sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans," nema hinum óhlýðnu?

19 Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.

Hósea 14

14 Samaría fær að gjalda þess, að hún hefir sett sig upp á móti Guði sínum. Fyrir sverði skulu þeir falla, ungbörnum þeirra skal slegið verða niður við og þungaðar konur þeirra ristar verða á kvið.

Snú þú við, Ísrael, til Drottins, Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína.

Takið orð með yður og hverfið aftur til Drottins. Segið við hann: "Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.

Assýría skal eigi framar hjálpa oss, vér viljum eigi ríða stríðshestum og eigi framar segja ,Guð vor` við verk handa vorra. Því að hjá þér hlýtur hinn munaðarlausi líkn!"

Ég vil lækna fráhvarf þeirra, elska þá af frjálsum vilja, því að reiði mín hefir snúið sér frá þeim.

Ég vil verða Ísrael sem döggin, hann skal blómgast sem lilja og skjóta rótum sem Líbanonsskógur.

Frjóangar hans skulu breiðast út og toppskrúðið verða sem á olíutré og ilmur hans verða sem Líbanonsilmur.

Þeir sem búa í skugga hans, skulu aftur rækta korn og blómgast eins og vínviður. Þeir skulu verða eins nafntogaðir og vínið frá Líbanon.

Hvað á Efraím framar saman við skurðgoðin að sælda? Ég hefi bænheyrt hann, ég lít til hans. Ég er sem laufgrænt kýprestré. Það mun í ljós koma, að ávextir þínir eru frá mér komnir.

Sálmarnir 139

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"

12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.

20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.

21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?

22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.

23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society