Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 20

20 Um þær mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá kom Jesaja Amozson spámaður til hans og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ráðstafa húsi þínu, því að þú munt deyja og eigi lifa."

Þá sneri Hiskía andliti sínu til veggjar, bað til Drottins og mælti:

"Æ, Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta og gjört það, sem þér er þóknanlegt." Og hann grét sáran.

En áður en Jesaja var kominn út úr miðforgarði hallarinnar, kom orð Drottins til hans, svolátandi:

"Snú aftur og seg Hiskía, höfðingja lýðs míns: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég mun lækna þig. Á þriðja degi munt þú ganga upp í hús Drottins.

Og ég mun enn leggja fimmtán ár við aldur þinn, og ég mun frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."

Þá bauð Jesaja: "Komið með fíkjudeig." Sóttu þeir það og lögðu á kýlið. Þá batnaði honum.

En Hiskía sagði við Jesaja: "Hvað skal ég hafa til marks um, að Drottinn muni lækna mig og að ég megi aftur ganga upp í hús Drottins á þriðja degi?"

Þá svaraði Jesaja: "Þetta skalt þú til marks hafa af Drottni, að hann muni efna það, sem hann hefir heitið: Á skugginn að færast tíu stig fram, eða á hann að færast aftur um tíu stig?"

10 Hiskía svaraði: "Það er hægðarleikur fyrir skuggann að færast niður um tíu stig _ nei, skugginn skal færast aftur um tíu stig."

11 Þá hrópaði Jesaja spámaður til Drottins, og hann lét skuggann á stigunum, sem færst hafði niður á sólskífu Akasar, færast aftur um tíu stig.

12 Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn.

13 Og Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim alla féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og vopnabúr sitt og allt sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.

14 Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: "Hvert var erindi þessara manna og hvaðan eru þeir til þín komnir?" Hiskía svaraði: "Af fjarlægu landi eru þeir komnir, frá Babýlon."

15 Þá sagði hann: "Hvað sáu þeir í höll þinni?" Hiskía svaraði: "Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim."

16 Þá sagði Jesaja við Hiskía: "Heyr þú orð Drottins:

17 Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða _ segir Drottinn.

18 Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon."

19 En Hiskía sagði við Jesaja: "Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað." Því að hann hugsaði: "Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi."

20 Það sem meira er að segja um Hiskía og öll hreystiverk hans, hversu hann bjó til tjörnina og vatnsstokkinn og leiddi vatnið inn í borgina, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

21 Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.

Bréfið til Hebrea 2

Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.

Því að hafi orðið af englum talað reynst stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald,

hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði sem Drottinn flutti fyrst og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu?

Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann útbýtti að vild sinni.

Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um.

Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans?

Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.

Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir.

En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.

10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.

11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,

12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.

13 Og aftur: Ég mun treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér.

14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn,

15 og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi.

16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams.

17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins.

18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.

Hósea 13

13 Þegar Efraím talaði, sló ótta á menn. Hann var höfðingi í Ísrael. En hann varð sekur fyrir Baalsdýrkunina og dó.

Og nú halda þeir áfram að syndga, þeir hafa gjört sér steypt líkneski úr silfri sínu, goðalíkneski eftir hugviti sínu, verk hagleiksmanna er það allt saman. Og slíkt ávarpa þeir. Fórnandi menn kyssa kálfa.

Fyrir því skulu þeir verða eins og ský að morgni dags og sem dögg, er snemma hverfur, eins og sáðir, sem þyrlast burt af láfanum, og sem reykur út um ljóra.

En ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi. Annan guð en mig þekkir þú ekki og enginn frelsari er til nema ég.

Það var ég, sem hélt þér til haga í eyðimörkinni, í landi þurrkanna.

En því meira haglendi sem þeir fengu, því saddari átu þeir sig. En er þeir voru saddir orðnir, metnaðist hjarta þeirra. Þess vegna gleymdu þeir mér.

Fyrir því er ég þeim eins og ljón, ligg í leyni við veginn eins og pardusdýr,

ræðst á þá eins og birna, sem rænd er húnum sínum, sundurríf brjóst þeirra. Þar skulu ung ljón eta þá, villidýrin slíta þá sundur.

Það verður þér að tjóni, Ísrael, að þú ert á móti mér, hjálpara þínum.

10 Hvar er nú konungur þinn, að hann frelsi þig, og allir höfðingjar þínir, að þeir rétti hluta þinn? _ þeir er þú sagðir um: "Gef mér konung og höfðingja!"

11 Ég gef þér konung í reiði minni og tek hann aftur í bræði minni.

12 Misgjörð Efraíms er saman bundin, synd hans vel geymd.

13 Kvalir jóðsjúkrar konu koma yfir hann, en hann er óvitur sonur. Þótt stundin sé komin, kemur hann ekki fram í burðarliðinn.

14 Ætti ég að frelsa þá frá Heljar valdi, leysa þá frá dauða? Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel? Augu mín þekkja enga meðaumkun.

15 Því þótt hann beri ávöxt meðal bræðranna, þá kemur þó austanvindurinn, stormur Drottins, sem rís í eyðimörkinni, svo að brunnar hans þorna og lindir hans þrjóta. Hann mun ræna fjársjóð hans öllum dýrmætum gersemum.

Sálmarnir 137-138

137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.

Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.

Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"

Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?

Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.

Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.

Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"

Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!

Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.

138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.

Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.

Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.

Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.

Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.

Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.

Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society